Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 718/1991
Gjaldár 1989
Lög nr. 75/1981 — 94. gr. — 95. gr. 2. mgr. — 96. gr. — 99. gr. 1. mgr. 2. ml.
Síðbúin framtalsskil — Áætlun — Áætlun skattstofna — Skattframtal í stað áætlunar — Skattframtal tekið sem kæra — Skattframtal, vefenging — Skattframtal, höfnun — Skattframtal, ófullnægjandi — Skattframtal, óglöggt — Fyrirspurnarskylda skattstjóra — Breytingarheimild skattstjóra — Fyrirspurn skattstjóra — Fyrirspurn skattstjóra, umfang — Bókhald — Bókhaldsfylgiskjöl — Færslugögn bókhalds — Bókhaldsrannsókn — Bókhaldsbækur — Kærumeðferð skattstjóra — Gagnaöflunarúrræði — Eftirlitsheimildir — Upplýsingaskylda — Upplýsingaskylda skattaðila — Meðalhófsreglan — Rannsóknarregla — Kærumeðferð skattstjóra, réttarfarsskorður rannsóknar — Málsmeðferð áfátt
I.
Aðdragandi máls þessa er sá, að af hálfu kæranda var ekki talið fram til skatts í framtalsfresti fyrir álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1989 og sætti hann því áætlun skattstjóra á gjaldstofnum. Þann 26. júní 1989 móttók skattstjóri skattframtal kæranda árið 1989 og tók hann það sem skattkæru eftir ákvæðum 2. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þá barst skattstjóra kæra, dags. 21. ágúst 1989 frá umboðsmanni kæranda, þar sem hann fór fram á, að hið innsenda skattframtal yrði lagt til grundvallar nýrri álagningu og án álags vegna skiladráttar, sem stafaði af vinnuálagi á skrifstofu hans. Áður en skattstjóri úrskurðaði kæruna reit hann kæranda bréf, dags. 6. nóvember 1989, og fór fram á með vísan til ákvæða 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að hann legði fram í fyrsta lagi bókhaldsbækur rekstrarársins 1988, í öðru lagi að hann leggði fram leigusamning vegna fjármögnunarleigu bifreiða, í þriðja lagi að hann gerði grein fyrir bifreiðanotkun sinni þar á meðal bifreiðahlunnindum starfseminnar, í fjórða lagi að hann leggði fram fylgiskjöl yfir gjaldfærðan ferðakostnað ásamt upplýsingum um hvaða starfsmenn kæranda hefðu farið, hvenær, hvert og hverra erinda og loks í fimmta lagi að hann leggði fram fylgiskjöl vegna gjaldfærðs póst- og símakostnaðar svo og vegna auglýsinga og styrkja. Þessu bréfi skattstjóra svaraði kærandi með bréfi, dags. 23. nóvember 1989. Í framhaldi af því kvað skattstjóri upp kæruúrskurð í málinu og er hann dagsettur 12. desember 1989. Tók skattstjóri fram, að ástæða þess, að hann með bréfi sínu frá 6. nóvember 1989 hefði farið fram á framlagningu þargreindra gagna hefði verið sú, að „ýmislegt þótti óljóst varðandi framtalið“. Að virtum þeim gögnum og skýringum, sem kærandi hefði lagt fram, væri bókhald hans þess eðlis, að álagning opinberra gjalda yrði ekki byggð á skattframtali hans árið 1989, sem samið væri á grundvelli þess bókhalds. Af þeim sökum vísaði hann kærunni frá og lét áður gerða áætlun óhaggaða standa.
II.
Með bréfi, dags. 12. janúar 1990, skaut umboðsmaður kæranda úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Birti hann kröfugerð sína í bréfi, dags. 25. apríl 1990, og lét fylgja öll fylgiskjöl og gögn úr bókhaldi kæranda, sem vörðuðu umspurð atriði skattstjóra í bréfi hans, dags. 6. nóvember 1989. Þá fylgdi með bréf kæranda til umboðsmanns síns, dags. 3. janúar 1990, þar sem gerðar eru ýmsar athugasemdir við úrskurð skattstjóra. Þess er krafist, að áætlun skattstjóra verði felld niður og álagning gjalda verði byggð á hinu innsenda skattframtali kæranda. Svofelld grein er gerð fyrir þeirri kröfu:
„1. Skattstofunni fannst ótækt að bókhald félagsins bærist í formi tölvulista. Satt að segja veit maður vart hverju svara skal!
Tölvunotkun gerist nú æ almennari og hefur nú um langt skeið verið notuð í bókhaldi, alla vega hér á suð-vestur horninu og víða um land. Það er umhugsunarvert hvort starfsfólk skattstofunnar sé ekki komið nokkuð úr takt við það sem er að gerast í þjóðfélaginu.
Beðið hafði verið um „efnahagsbók“. Almennt eru efnahagsbækur ekki færðar hjá fyrirtækjum nú til dags, eins og hér áður, heldur er útbúinn svonefndur efnahagsreikningur, og að sjálfsögðu var hann hluti af ársreikningi félagsins sem fylgdi skattframtali. Það ætti því að vera ljóst að það er í hæsta máti óeðlilegt að hafna framtalinu á þeirri forsendu að bókhaldið sé fært í tölvu og að ekki sé haldin „efnahagsbók“. Skattstofan gerir einnig athugasemd við að tölvulisti sé merktur X hf. en ekki Y sf. Ekkert óeðlilegt er við þetta, þar sem stofnað var hlutafélagið X hf. í byrjun árs 1989, sem tók við rekstri félagsins og þegar tölvuforritið var keypt nokkru áður þótti það eingöngu fyrirhyggja að setja „hf.“ inn í forritið.
2. Í hinu ófullkomna svari umbjóðanda okkar hafði láðst að senda afrit af fjármögnunarleigusamningi. Afrit af honum fylgir hér með.
3. Skattstjóri spyr um mikinn bifreiðakostnað og tortryggir. Starfsemi félagsins fylgir mikil bifreiðanotkun, en á það mætti fallast að starfsmönnum yrði reiknuð bifreiðahlunnindi af afnotum bifreiða félagsins. Það að þau hlunnindi hafa ekki verið reiknuð geta þó vart grundvallað frávísun framtals.
4. Skattstjóra voru send afrit og jafnvel frumrit af ferðakostnaðarreikningum, því miður höfðu sums staðar verið send bæði frumrit og ljósrit, en það túlkaði skattstjóri sem tvífærslu kostnaðar væri að ræða sem ekki var. Þá þykir skattstjóra sem ýmis sá kostnaður sem gjaldfærður er, ekki vera til tekjuöflunar og þar af leiðandi ekki frádráttarbær. Nefnir hann ýmis fylgiskjöl því til stuðnings. Þetta er að vissu marki rétt, en hefðu allar upplýsingar komið fram þá hefði skattstjóra væntanlega orðið ljóst að við gerð ársreiknings hafði 30% ferðakostnaður verið millifærður yfir á aðaleiganda, sem hans einkaneysla, við kröftug mótmæli hans þar sem hann taldi allan kostnað frádráttarbæran. Að öllum líkindum eru 30% of hátt hlutfall fært á einkaneyslu, en skattstjóri tekur á engan hátt tillit til þessarar millifærslu sem skýrt kemur fram á tölvulistanum. Mikill ferðakostnaður fylgir starfsemi félagsins, og síðustu misserin hefur aðalverkefnið verið aðstoð við smíði og fjármögnun fiskiskips erlendis og mikil ferðalög hafa fylgt þessu verkefni.
5. Þar er um að ræða liðinn „póst og síma“ og „auglýsingar og styrkir“. Því miður voru ýmis óviðeigandi gögn send sem áttu ekki við. Hægt hefði verið að óska skýrari upplýsinga. Skattstofan bendir að okkar mati réttilega á að greiðsla til „Samtaka um jafnrétti milli landshluta“ hefur verið gjaldfærð undir liðnum „auglýsingar“. Því miður hafa þarna verið um að ræða mistök í bókfærslu.
Að okkar mati er úrskurður skattstofu Norðurlands vestra ósanngjarn, og annað hvort byggður á ónógum upplýsingum, eða full hörðu mati á áreiðanleika bókhalds gjaldanda. Skattstofan tekur ekki afstöðu til þeirra álitamála sem upp koma við skoðun á framtali félagsins og upplýsingum, heldur vísar málinu frá í heild sinni. Vissulega má finna ýmsa agnúa á meðferð fylgiskjala og færslu bókhalds félagsins, eins og má eflaust finna víðast hvar, en bókhald félagsins hefur þó verið fært af starfsmönnum félagsins af bestu þekkingu og sannfæringu, og er ekki verra eða betra en gengur og gerist, þó í tölvutæku formi sé. Við viljum því fara fram á það við Ríkisskattanefnd að hún heimili álagningu opinberra gjalda árið 1989 á grundvelli áðurnefnds innsends framtals, og ef henni finnist ástæða til, taki til athugunar frádráttarbærni hinna ýmsu liða sem að framan voru nefndir.“
III.
Með bréfi, dags. 8. mars 1991, gerir ríkisskattstjóri svofellda kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:
„Þrátt fyrir framkomnar skýringar og gögn hefur kærandi enn eigi bætt úr þeim annmörkum er skattstjóri taldi baga framtal hans og er framtalið enn ótækt til álagningar opinberra gjalda.“
IV.
Eigi verður séð, að nefnt skattframtal, er skattstjóri tók sem kæru, hafi sjálft gefið tilefni til viðamikillar gagnaöflunar hans, áður en hann tók það til afgreiðslu, og eigi unnt að telja, að skattalögin geri ráð fyrir umfangsmikilli gagnaöflun og bókhaldsathugun til skýringa á skattframtölum, sem berast fyrst skattyfirvöldum við kærumeðferð, enda eiga þá ákvæði 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, ekki við, svo sem skattstjóri virðist álíta, sbr. bréf hans til kæranda frá 6. nóvember 1989. Efni sínu samkvæmt varðaði bréf skattstjóra frá 6. nóvember 1989 beitingu heimildar þeirrar, sem greinir í 94. gr. laga nr. 75/1981. Þá er og óeðlilegt að skattstjóri krefjist þess, að bókhaldsskyldur aðili leggi fram mikið magn fylgiskjala um einstaka liði ársreiknings og slíti þau þannig úr samhengi við hið kerfisbundna bókhald. Með vísan til framangreindra athugasemda og að því virtu hvernig mál þetta liggur fyrir þykir að teknu tilliti til skýringa kæranda mega fallast á kröfur hans í máli þessu.