Úrskurður yfirskattanefndar
- Erfðafjárskattur
- Valdsvið yfirskattanefndar
Úrskurður nr. 3/2025
Lög nr. 30/1992, 2. gr. Lög nr. 14/2004, 7. gr., 11. gr.
Kærendur í máli þessu stóðu skil á tveimur erfðafjárskýrslum vegna annars vegar arfs úr dánarbúi K og hins vegar fyrirframgreidds arfs frá M. Sýslumaður lagði báðar skýrslurnar óbreyttar til grundvallar álagningu erfðafjárskatts. Yfirskattanefnd taldi að athugasemdir í kæru, sem lutu að skiptum dánarbúsins og fjárhæð hins fyrirframgreidda arfs, vörðuðu í reynd ekki ákvörðun erfðafjárskatts samkvæmt ákvæðum laga um erfðafjárskatt. Var kæru kærenda því vísað frá yfirskattanefnd.
Ár 2025, fimmtudaginn 30. janúar, er tekið fyrir mál nr. 138/2024; kæra A og B, dags. 15. september 2024, vegna ákvörðunar erfðafjárskatts. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Með kæru, dags. 15. september 2024, hafa kærendur skotið til yfirskattanefndar ákvörðunum sýslumanns 19. ágúst 2024 á erfðafjárskatti vegna annars vegar arfs úr dánarbúi K, sem andaðist … 2021, og hins vegar vegna fyrirframgreidds arfs til kærenda frá M, sbr. tilkynningar sýslumanns, dags. 19. ágúst 2024, og erfðafjárskýrslur, dags. 8. sama mánaðar. Í kærunni er gerð sú krafa í málinu að álagningu erfðafjárskatts „verði breytt í samræmi við leiðréttar erfðafjárskýrslur og fylgiskjöl þeirra“, en hinar leiðréttu erfðafjárskýrslur fylgja kærunni. Er tekið fram í kæru að leiðréttingarnar lúti að arfshlutföllum og fjárhæð fyrirframgreidds arfs, en ekki að eignum dánarbús K eða verðmæti þeirra. Fyrirframgreiddur arfur frá M sé „alltof hár, svo hár að það er ekki nærri því nóg inni á bankareikningum og verðbréfasafni M til að greiða hann út eftir að búið er að ráðstafa búshluta K“, eins og þar segir. Til að leiðrétta þau mistök sé fjárhæð hins fyrirframgreidda arfs lækkuð um 22.500.000 kr. í leiðréttri erfðafjárskýrslu. Þá kemur fram að samkvæmt erlendum skattareglum, en kærendur séu búsettir erlendis, myndu upphafleg arfshlutföll í erfðafjárskýrslum fela í sér aukinn kostnað við gerð skattframtals og hafa í för með sér hækkun fjármagnstekjuskatts, svo sem nánari grein er gerð fyrir. Til að leiðrétta þau mistök sé skipting arfs frá M leiðrétt í þá veru að arfshlutfall A sé tilgreint 41% og arfshlutfall B tilgreint 59% auk þess sem fyrirframgreiddur arfur frá M teljist falla að öllu leyti til B.
II.
Með bréfi, dags. 4. október 2024, hefur sýslumaður lagt fram umsögn í málinu. Í umsögn sýslumanns er tekið fram að skiptum á dánarbúi K hafi lokið í ágúst 2024 og sama dag hafi erfðafjárskýrsla vegna fyrirframgreidds arfs frá M verið árituð af sýslumanni. Misskilnings virðist gæta í kæru þar sem ekki sé unnt að breyta erfðafjárskýrslu eftir að einkaskiptum sé lokið, sbr. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl. Þá færi almenn breyting á arfshlutföllum svo sem krafist væri í kæru þvert á ákvæði erfðalaga nr. 8/1962. Hefði þurft að standa skil á einkaskiptagerð til að rökstyðja aðra skiptingu arfs. Málskot til yfirskattanefndar hefði enga þýðingu um skiptin, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 21/1991, og framlagðar erfðafjárskýrslur hafi verið yfirfarnar og staðfestar af sýslumanni athugasemdalaust, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt. Yfirskattanefnd sé ekki bær til að úrskurða um einkaskipti dánarbús, sbr. 119. gr. laga nr. 21/1991 þar sem mælt sé fyrir um kæruheimild vegna ákvarðana um slík efni. Enginn ágreiningur sé til staðar um skattstofn, sbr. 4. mgr. 7. gr. laga nr. 14/2004, sem geti verið grundvöllur fyrir kæru til yfirskattanefndar.
Fram kemur í umsögn sýslumanns að þegar gengið hafi verið frá erfðafjárskýrslu vegna fyrirframgreidds arfs hafi skiptum á dánarbúi K verið lokið. Hafi því sú erfðafjárskýrsla enga sjálfstæða þýðingu við uppgjör dánarbúsins. Þá lúti aðfinnslur í kæru ekki að ákvörðun sýslumanns eða málsmeðferð hans heldur að því „að aðilar máls settu inn ranga fjárhæð til arfgreiðslu“, eins og segir í umsögninni. Það sé á ábyrgð aðila að gæta þess að upplýsingar um fyrirframgreiddan arf í erfðafjárskýrslu séu réttar. Kærendum hafi verið leiðbeint með tölvupóstum sýslumanns um möguleg úrræði vegna þessa, en ekki verði ráðið af ákvæðum laga nr. 14/2004 að það sé á valdi sýslumanns að leiðrétta erfðafjárskýrslu sem hafi verið árituð til staðfestingar. Eftir staðfestingu skýrslu sé hún send ríkisskattstjóra, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 14/2004, sem hafi þar af leiðandi forræði á málinu samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laganna. Skorti því lagaheimild fyrir því að sýslumaður geti lagfært erfðafjárskýrsluna, svo sem krafist sé, og eigi það einnig við um yfirskattanefnd. Þá sé um sjálfstæða skattstofna að ræða í tveimur mismunandi málum, þ.e. vegna annars vegar arfs úr dánarbúi og hins vegar fyrirframgreidds arfs, sem girði fyrir að unnt sé að taka afstöðu til eða fjalla um þá sameiginlega, sem sé sá farvegur sem málin hafi ratað í undir málsnúmeri yfirskattanefndar.
Að öllu framangreindu virtu verði ekki betur séð en að yfirskattanefnd beri að vísa kærunni frá þar sem kröfur kærenda rúmist ekki innan valdsviðs yfirskattanefndar. Þá sæti málin ekki kæru til yfirskattanefndar þar sem þau lúti ekki efnislega að skattstofnum. Að því sögðu sé kröfum kærenda hafnað.
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 8. október 2024, var kærendum sent ljósrit af umsögn sýslumanns í málinu og þeim gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.
III.
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, skulu ágreiningsmál um ákvörðun skatta, gjalda og skattstofna, þar með talin rekstrartöp, úrskurðuð af sérstakri óháðri nefnd, yfirskattanefnd. Í 2. mgr. 2. gr. laganna kemur fram að úrskurðarvald yfirskattanefndar taki til ákvörðunar skatta og gjalda sem lögð eru á eða ákvörðuð af öðrum stjórnvöldum en greinir í 1. mgr. lagagreinarinnar, eftir því sem ákveðið er í lögum. Í lögum nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, er m.a. kveðið á um kæruheimildir til yfirskattanefndar vegna ákvarðana sýslumanna og ríkisskattstjóra samkvæmt lögunum, sbr. 4. mgr. 7. gr., 3. mgr. 8. gr. og 11. gr. laganna.
Um hlutverk sýslumanns við ákvörðun erfðafjárskatts er fjallað í 7. og 8. gr. laga nr. 14/2004. Fyrri lagagreinin tekur til einkaskipta á dánarbúi, en sú síðari til opinberra skipta, sbr. lög nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl. Þegar dánarbúi er skipt einkaskiptum og erfingja greinir á við sýslumann um skattstofn vegna tiltekinnar eignar eða annað sem áhrif hafi á fjárhæð erfðafjárskattsins skal sýslumaður samkvæmt 4. mgr. 7. gr. laganna veita aðilum frest til að leggja fram gögn til stuðnings kröfum sínum. Að frestinum liðnum skal sýslumaður ákvarða erfðafjárskattinn á grundvelli framkominna gagna og tilkynna erfingjum með sannanlegum hætti. Vilji erfingjar ekki fella sig við ákvörðun erfðafjárskatts geta þeir innan 30 daga frá því að þeim berst tilkynning sýslumanns kært ákvörðun hans til yfirskattanefndar.
Um skipti dánarbúa fer að lögum nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl. Dánarbúi K var skipt einkaskiptum, sbr. XI-XIII. kafla laga nr. 20/1991, og fer því um meðferð máls vegna skattlagningar arfs úr dánarbúinu eftir 7. gr. laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, þar á meðal um meðferð ágreiningsmála. Samkvæmt gögnum málsins lögðu kærendur tvær erfðafjárskýrslur vegna annars vegar arfs úr dánarbúi K og hins vegar fyrirframgreidds arfs frá M fyrir sýslumann til ákvörðunar erfðafjárskatts og áritunar í ágúst 2024. Í erfðafjárskýrslu vegna dánarbúsins voru tilgreindar eignir búsins að fjárhæð alls 254.361.501 kr. og nam hrein eign til skipta sömu fjárhæð. Í erfðafjárskýrslu vegna hins fyrirframgreidda arfs var fjárhæð hans tilgreind með 57.000.000 kr. í peningum. Áritaði sýslumaður skýrslurnar samdægurs án athugasemda og ákvarðaði erfðafjárskatt kærenda til samræmis við það, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 14/2004, sbr. tilkynningar sýslumanns, dags. 19. ágúst 2024, sem eru meðal gagna málsins.
Í kafla I hér að framan er greint frá efni kæru kærenda til yfirskattanefndar. Eins og þar er rakið lúta kröfur kærenda að tilteknum breytingum á framlögðum erfðafjárskýrslum vegna dánarbús K og fyrirframgreidds arfs, þ.e. tilgreiningu arfshluta og fjárhæðar hins fyrirframgreidda arfs. Ekki eru í kærunni gerðar neinar athugasemdir við ákvarðanir sýslumanns á erfðafjárskatti eins og erfðafjárskýrslurnar lágu fyrir honum, en eins og áður greinir lagði sýslumaður skýrslurnar óbreyttar til grundvallar í því sambandi. Að því leyti sem athugasemdir kærenda lúta að leiðréttingu erfðafjárskatts sem afleiðingu af viðhorfum þeirra um skipti dánarbúsins sem slíks er um að ræða atriði sem leiða ber til lykta samkvæmt lögum nr. 20/1991, eins og bent er á í umsögn sýslumanns í málinu. Krafa kærenda varðandi fyrirframgreiðslu arfs er í reynd sama eðlis, þ.e. krafa um leiðréttingu skattsins sem afleiðingu af hlutaðeigandi ráðstöfun sem slíkri og efni hennar. Að þessu athuguðu og með vísan til þess, sem hér að framan er rakið um valdsvið yfirskattanefndar þykir bera að vísa kærunni frá yfirskattanefnd, enda verður ekki litið svo á að hún varði í reynd ákvörðun erfðafjárskatts samkvæmt ákvæðum laga nr. 14/2004, þar á meðal ákvörðun skattstofns, skattstigs eða annað það er máli skiptir um skatt þennan samkvæmt þeim lögum.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kærunni er vísað frá yfirskattanefnd.