Úrskurður yfirskattanefndar

  • Aðflutningsgjöld
  • Tollflokkun
  • Þéttiefni

Úrskurður nr. 8/2025

Lög nr. 88/2005, 20. gr.   Almennar reglur um túlkun tollskrár.  

Deilt var um tollflokkun á þéttiefni sem notað var til framleiðslu á einangrunargleri. Fallist var á með tollgæslustjóra að varan félli undir vörulið 3214 í tollskrá, en sá vöruliður tæki m.a. til gluggakíttis, þéttiefnis og annars kíttis.

Ár 2025, fimmtudaginn 30. janúar, er tekið fyrir mál nr. 109/2024; kæra X hf., dags. 1. júlí 2024, vegna bindandi álits tollgæslustjóra. Í málinu úrskurða Þórarinn Egill Þórarinsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Kæra í máli þessu, dags. 1. júlí 2024, varðar bindandi álit tollgæslustjóra á tollflokkun vöru með vöruheitið „GD116“, sem tollgæslustjóri lét uppi 31. maí 2024 samkvæmt 21. gr. tollalaga nr. 88/2005. Samkvæmt gögnum málsins er varan tvíþætt, þ.e. kombi A (polysulfide) og kombi B (manganese dioxide) og samkvæmt tækniblaði frá framleiðanda efnisins, H.B. Fuller, er varan einangrandi þéttiefni. Í álitinu komst tollgæslustjóri að þeirri niðurstöðu að varan félli undir vörulið 3214 í tollskrá, nánar tiltekið tollskrárnúmer 3214.1002 sem kítti. Í kærunni er þess krafist að áliti tollgæslustjóra verði hnekkt og að varan verði talin falla undir tollskrárnúmer 3506.9100, sem límefni að meginstefnu úr fjölliðum. Þá er gerð krafa um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

II.

Helstu málavextir eru þeir að með beiðni, dags. 18. apríl 2024, sbr. og ítarlegri greinargerð í beiðni dags. 24. apríl 2024, óskaði kærandi eftir bindandi áliti tollgæslustjóra á tollflokkun líms sem notað væri í framleiðslu á tvöföldu einangrunargleri, sbr. 21. gr. tollalaga nr. 88/2005. Í umsókninni kom fram að kærandi flytti inn lím sem keypt væri frá „Kömmerling Chemische Fabrik“ og kæmi í 200 kg tunnum kombi A ásamt herði kombi B sem væri blandað saman í þar til gerðri límvél. Líminu væri síðan sprautað á hverja rúðu. Núverandi tollflokkun gerði það að verkum að á límið legðist spilliefnagjald en ekkert slíkt gjald væri lagt á innflutt einangrunargler sem væri í samkeppni við framleiðslu kæranda. Gjaldið væri lagt á eins og öllu líminu væri fargað en ekki notað í framleiðslu. Óskað væri eftir að límið yrði tollflokkað án spilliefnagjalds. Var tekið fram að Jónar Transport hf. hefði tollflokkað límið í tollflokk 3214.1003 og herðinn í tollflokk 3815.9000. Beiðni kæranda fylgdu m.a. ljósmyndir af vörunni, framleiðsluáhöldum og tilbúinni framleiðsluvöru.

Tollgæslustjóri lét uppi álit sitt 31. maí 2024. Kom þar fram að um væri að ræða tvíþátta límkítti úr polysulfide. Efnið væri notað til að búa til tvöfalt einangrunargler. Það væri á köntunum á glerjunum og límdi þau saman, einangraði þau og héldi þeim í sundur. Vöruliður 3214 tæki til alls kyns gluggakíttis og flokkaðist varan því í tollskrárnúmer 3214.1002, sem kítti.

III.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar kemur fram að með beiðni félagsins, dags. 24. apríl 2024, hafi verið óskað eftir áliti um tollflokkun vöru vegna innflutnings kæranda á lími sem sé notað í framleiðslu á tvöföldu einangrunargleri í hús. Framleiðsla á tvöföldu einangrunargleri sé í mikilli samkeppni við innflutt gler og glugga sem beri ekki spilliefnagjald. Tollskrárnúmerið 3214.1002 beri úrvinnslugjald á málningu og nemi taxtinn 50 kr. á kg, en í veftollskrá sé um þetta vísað til laga nr. 162/2002, um úrvinnslugjald, og laga nr. 135/2019 um breytingu á þeim. Gjaldstofn sé nettóvigt vöru og skuli skrá nettóvigt vöru með smásöluumbúðum í kg. Um sé að ræða gjald sem áður hafi verið spilliefnagjald. Kærandi telji að varan eigi að vera tollflokkuð án spilliefnagjalds. Um sé að ræða efnið „polysulfide“ sem sé einangrunarþéttiefni en ekki kítti eins og álit tollgæslustjóra byggi á. Þá sé um að ræða límblöndu sem sé efni úr fjölliðum sem sé annars eðlis en kítti. Telji kærandi að varan eigi að flokkast í tollflokk 3506.9100 sem séu límefni að meginstofni úr fjölliðum. Beri sá tollflokkur ekki úrvinnslugjald. Með hliðsjón af jafnræðissjónarmiðum og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 telji kærandi að fallast beri á kröfu hans um að varan verði tollflokkuð án spilliefnagjalds svo jafnræðis sé gætt í tollflokkun sambærilegra vara sem séu í samkeppnisrekstri við rekstur kæranda.

IV.

Með bréfi, dags. 12. ágúst 2024, hefur tollgæslustjóri lagt fram umsögn í málinu. Fram kemur í umsögninni að það sé mat tollyfirvalda að staðfesta beri niðurstöðu hins kærða bindandi álits þar sem vörunni sé réttilega lýst í vörulið 3214 og geti hún því ekki fallið í vörulið 3506. Undir vörulið 3214 falli alls kyns kítti og þéttiefni, þar á meðal gluggakítti. Samkvæmt skýringarbókum Alþjóðatollastofnunarinnar (WCO) við vörulið 3214 falli þar undir vörur sem séu aðallega til að stöðva, loka eða þétta sprungur en í sumum tilvikum til að tengja eða sameina íhluti. Aðgreina megi vörur í vörulið 3214 og annað lím á þeim grundvelli að vörurnar í vörulið 3214 séu notaðar í þykkum lögum og oftar en ekki með aðstoð kíttissprautu, kíttisspaða, spartlsspaða eða annarra sambærilegra verkfæra. Varðandi flokkun í vörulið 3506 flokkist þar einungis lím og önnur heftiefni sem séu ótalin annars staðar í tollskrá, þ.e. vörur sem lýst sé nákvæmlega í öðrum vöruliðum falli utan vöruliðar 3506. Þá sé sérstaklega tekið fram í skýringarbókum WCO við vörulið 3506 að vörur sem hafi einkenni kíttis, spartls o.þ.h. séu útilokaðar frá flokkun í vörulið 3506 og flokkist slíkar vörur í vörulið 3214. Að þessu virtu telji tollyfirvöld rétt að flokka skuli vöruna í vörulið 3214, nánar tiltekið í tollskrárnúmer 3214.1002.

Sé litið til efnis kæru virðist kærandi fyrst og fremst vera ósáttur við greiðslu úrvinnslugjalds frekar en tollflokkun, enda beri kærandi því við að á innflutt einangrunargler leggist ekki sambærilegt úrvinnslugjald. Gjaldskylda vara í tollskrárnúmeri 3214.1002 sé ákveðin í 4. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 162/2002, um úrvinnslugjald, sbr. viðauka VIII við lögin. Sá vöruflokkur sem vara kæranda falli undir sé málning en ólíkt nokkrum vöruflokkum laga nr. 162/2002 sé enga nákvæma skilgreiningu að finna í lögunum á þeim vöruflokki. Skýringu á þessu megi finna í athugasemdum við frumvarp það sem orðið hafi að lögum nr. 162/2002, en þar segi eftirfarandi um vöruflokka: „Í frumvarpinu er ekki að finna skilgreiningar á því hvað er átt við með einstökum vöruflokkum svo sem umbúðum, ökutækjum, málningu, rafhlöðum og hjólbörðum, þar sem einstök tollskrárnúmer eru tilgreind í viðaukum með frumvarpinu og skilgreina þannig nánar viðkomandi vöruflokka“. Tollskrárnúmer 3214.1002 sé að finna í viðauka VIII við lög nr. 162/2002, sbr. 8. gr. laga nr. 127/2002, og af þeim sökum telji tollyfirvöld gjaldskyldu rétta. Þá gangi samanburður kæranda við eðlisólíka, fullbúna vöru ekki gegn almennum jafnræðissjónarmiðum eða jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem um ólíkar vörur sé að ræða. Allir þeir sem flytji inn vörur í viðauka VIII greiði úrvinnslugjald og þá sé mjög sennilegt að einhvers konar úrvinnslugjald hafi verið greitt af kítti tilbúinna glugga í framleiðslulandinu.

Með bréfi, dags. 30. ágúst 2024, hefur kærandi gert grein fyrir athugasemdum sínum vegna umsagnar tollgæslustjóra. Kærandi andmæli þeirri túlkun tollyfirvalda að límið sem um ræði sé kítti. Samsetning á gleri sé framkvæmd með efnum sem sé fjölliðulím; tveggja þátta límefni sem lími saman tvær eða þrjár glerskífur og geri þær loftþéttar. Þetta ferli sé verksmiðjuvinna. Ekki sé um að ræða kítti, gluggakítti eða annars konar kítti sem fari á yfirborð bygginga eða innanhús á veggi, gólf, loft eða þess háttar eins og tekið sé fram undir tollskrárnúmeri 3214.1002. Ekki sé minnst á gler, samlímingu glers eða samsetningu undir því tollskrárnúmeri. Vísi kærandi jafnframt í íslenska orðabók Menningarsjóðs þar sem segi um þýðingu orðsins kítti: „bindi og þéttiefni, notað m.a. til að fylla upp í rifur“. Sé umræddri vöru ekki lýst réttilega í tollskrárnúmeri 3214.1002 og sé rangt að flokka vöruna undir því tollskrárnúmeri. Tollyfirvöld taki fram í umsögn sinni að aðgreina megi vörur í vörulið 3214 og annað lím á þeim grundvelli að vörurnar í vörulið 3214 séu notaðar í þykkum lögum og oftar en ekki með aðstoð kíttissprautu, kíttisspaða, spartlsspaða eða annarra sambærilegra verkfæra. Eins og komi fram í kæru sé umræddri vöru blandað saman í þar til gerðri límvél og líminu svo sprautað á rúðurnar til samsetningar. Telji kærandi þannig að eðlismunur sé á þeim vörum sem tollyfirvöld vilji tollflokka undir tollskrárnúmer 3214 og á þeim vörum sem kærandi bendi á undir númeri 3506.9100. Taki tollyfirvöld jafnframt fram í umsögn sinni varðandi flokkun í síðarnefndan vörulið að þar flokkist einungis lím og önnur heftiefni sem séu ótalin annars staðar í tollskrá. Telji kærandi að það eigi við um umrædda vöru, enda um sé að ræða lím sem ekki sé lýst annars staðar í tollskrá og geti límið sem hér um ræði ekki talist vera kítti.

Tollflokkun og gjaldskylda vara samkvæmt lögum nr. 162/2002, um úrvinnslugjald,sé af sama meiði, enda skipti máli undir hvaða tollskrárnúmer vara falli hvort hún beri úrvinnslugjald. Geri kærandi þannig athugasemd við hvort tveggja tollflokkun vörunnar og álagt úrvinnslugjald. Kærandi hafi bent á að innflutt einangrunargler beri ekki úrvinnslugjald hér á landi. Samkvæmt upplýsingum frá Sorpu um flokkun á einangrunargleri til förgunar flokkist einangrunargler sem steinefni og séu gámar fyrir steinefni á öllum endurvinnslustöðvum og á urðunarstað í Álfsnesi og greitt samkvæmt gjaldskrá fyrir steinefni. Telji kærandi þannig tvílagt gjald á, þ.e. annars vegar við innflutning og aftur í enda líftíma einangrunarglersins við förgun. Varðandi jafnræðissjónarmið þá telji kærandi ekki rétt að hann sé að líkja sinni framleiðsluvöru við eðlisólíka fullbúna vöru eins og tollyfirvöld haldi fram, heldur bendi kærandi á að einangrunargler sé bæði flutt inn sem slíkt og einnig í glerjuðum gluggum. Þessar vörur séu báðar í beinni samkeppni við innlenda framleiðslu kæranda. Tollskrárnúmer 3506 beri ekkert úrvinnslugjald og því telji kærandi með vísan til jafnræðissjónarmiða að umrædd vara kæranda skuli ekki bera slíkt gjald frekar en aðrar sambærilegar vörur.

V.

Kæra í máli þessu varðar bindandi álit tollgæslustjóra samkvæmt 21. gr. tollalaga nr. 88/2005 sem embættið lét uppi 31. maí 2024 í tilefni af beiðni kæranda, dags. 18. apríl sama ár. Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu hér að framan óskaði kærandi eftir bindandi áliti tollgæslustjóra um tollflokkun vöru sem kærandi flytti inn og notuð væri í framleiðslu á tvöföldu einangrunargleri. Um væri að ræða lím sem keypt væri frá „Kömmerling Chemische Fabrik“ og kæmi í 200 kg tunnum kombi A, ásamt herði kombi B, sem væri blandað saman í þar til gerðri límvél. Líminu væri síðan sprautað á hverja rúðu. Beiðninni fylgdu ljósmyndir af vörunni, framleiðsluáhöldum og framleiðsluvöru. Í hinu kærða bindandi áliti sínu komst tollgæslustjóri að þeirri niðurstöðu að varan félli undir tollskrárnúmer 3214.1002, sem kítti. Í beiðni kæranda var hins vegar byggt á því að núverandi tollflokkun gerði það að verkum að á límið legðist spilliefnagjald en ekkert slíkt gjald væri lagt á innflutt einangrunargler sem væri í samkeppni við framleiðslu kæranda. Gjaldið væri lagt á eins og öllu líminu væri fargað en ekki notað í framleiðslu. Óskað væri eftir því að límið yrði tollflokkað án spilliefnagjalds. Í kæru kæranda til yfirskattanefndar er byggt á því að hin umþrætta vara flokkist í tollskrárnúmer 3506.9100, sem límefni að meginstefnu úr fjölliðum í nr. 3901-3913 eða úr gúmmíi.

Í almennum reglum um túlkun tollskrárinnar, sem lögfestar voru sem viðauki við tollalög nr. 88/2005, kemur fram að við flokkun samkvæmt tollskrá skuli fyrirsagnir á flokkum, köflum og undirköflum einungis vera til leiðbeiningar. Í lagalegu tilliti skuli tollflokkun byggð á orðalagi vöruliða og athugasemdum við tilheyrandi flokka eða kafla. Í 32. kafla tollskrár er fjallað um ýmsar efnaiðnaðarvörur. Undir vörulið 3214 í kaflanum fellur gluggakítti, ágræðslukvoða, resínsement, þéttiefni og annað kítti; spartl; óeldföst efni til yfirborðslagningar á byggingar eða innanhúss á veggi, gólf, loft eða þess háttar. Skiptist vöruliðurinn í átta jafnsetta undirliði og leit tollgæslustjóri svo á að hin umþrætta vara félli undir undirliðinn 1002, sem kítti og tollskrárnúmer 3214.1002.

Sá vöruliður sem kærandi telur eiga við um vöruna er liður 3506 sem í tollskrá tekur til unnins líms og annarra heftiefna, „ót.a.; vörur nothæfar sem lím eða heftiefni, umbúnar til smásölu sem lím eða heftiefni í 1 kg umbúðum eða minni nettó“. Nánar tiltekið byggði kærandi á að varan félli undir undirlið 9100, þ.e. „límefni að meginstofni úr fjölliðum í nr. 3901-3913 úr gúmmíi“, sbr. tollskrárnúmer 3506.9100. Af hálfu kæranda er lögð á það áhersla í kæru að í vörunni sem um ræði sé efnið polysulfide sem sé einangrunar þéttiefni en ekki kítti. Að því er þennan vörulið varðar kemur fram í skýringarriti Alþjóðatollastofnunarinnar (WCO) um tollflokkun að undir þennan vörulið falli tilbúið límefni í smásölupakkningum sem eru ekki þyngri en eitt kílógramm. Þykir blasa við að sú vara sem deilt er um tilheyri ekki þeim vörulið sem kærandi krefst. Svo sem fram kemur í umsögn tollgæslustjóra fellur undir vörulið 3214 alls kyns kítti og þéttiefni, þar á meðal gluggakítti. Samkvæmt fyrrnefndu skýringarriti Alþjóðatollastofnunarinnar við vörulið 3214 falla þar undir vörur sem aðallega er ætlað að stöðva, loka eða þétta sprungur en í sumum tilvikum til að tengja eða sameina íhluti. Aðgreina megi vörur í vörulið 3214 og annað lím á þeim grundvelli að vörurnar í vörulið 3214 séu notaðar í þykkum lögum og oftar en ekki með aðstoð kíttissprautu, kíttisspaða, spartlsspaða eða annarra sambærilegra verkfæra. Er vörunni því réttilega lýst í vörulið 3214. Þá er sérstaklega tekið fram í skýringarbókum WCO við vörulið 3506 að vörur sem hafi einkenni kíttis, spartls o.þ.h. séu útilokaðar frá flokkun í vörulið 3506 og flokkist slíkar vörur í vörulið 3214.

Að fyrrgreindu athuguðu er fallist á með tollgæslustjóra að hin umspurða vara falli undir tollskrárnúmer 3214.1002 í tollskrá. Með vísan til þess og reglu 1 og 6 í almennum reglum um túlkun tollskrár verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu. Samkvæmt þeim úrslitum málsins verður ennfremur að hafna málskostnaðarkröfu kæranda, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja