Úrskurður yfirskattanefndar
- Stimpilgjald
Úrskurður nr. 13/2025
Lög nr. 138/2013, 3. gr. 1. mgr.
Kærandi var vistmaður á hjúkrunarheimili og hafði verið svipt fjárræði á árinu 2022. Í máli þessu vegna stimpilgjalds lá fyrir að ráðstafanir maka kæranda, sem jafnframt var skipaður lögráðamaður hennar, í tengslum við sölu fasteignar á árinu 2022 fóru í bága við ákvæði kaupmála þeirra hjóna frá árinu 1988. Að því athuguðu og atvikum málsins að öðru leyti þótti ekki varhugavert að líta á skjal, sem fól í sér beiðni um breytingu á skráningu fasteignar í þinglýsingabók, sem lið í leiðréttingu á rangri eigendaskráningu fasteignarinnar af þessu tilefni. Var því fallist á með kæranda að ekki væri um að ræða eignaryfirfærslu fasteignar í skilningi laga um stimpilgjald.
Ár 2025, föstudaginn 7. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 129/2024; kæra A, dags. 30. ágúst 2024, vegna ákvörðunar stimpilgjalds. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Með kæru, dags. 30. ágúst 2024, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðun sýslumanns um stimpilgjald. Í kæru kemur fram að kærandi sé vistmaður á hjúkrunarheimili og hafi verið svipt fjárræði með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur í febrúar 2022 að kröfu barna hennar, sbr. a-lið 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Yfirlögráðandi hafi í kjölfar þessa skipað eiginmann kæranda lögráðamann hennar í samræmi við 52. gr. lögræðislaga. Í júlí 2022 hafi lögráðamaður kæranda selt íbúðarhúsnæði þeirra að M fyrir 147.000.000 kr. og í kjölfarið keypt fasteign að K fyrir 78.200.000 kr. Í maí 2024 hafi að kröfu yfirlögráðanda orðið að breyta skráðu eignarhaldi að K þannig að kærandi yrði ein skráður eigandi fasteignarinnar, enda hafi verið mælt fyrir um það í kaupmála hjónanna frá árinu 1988 að fasteignin við M teldist séreign kæranda sem og það sem kæmi í stað eignarinnar. Hafi lögráðamaður farið þess á leit við sýslumann að skráningunni yrði breytt, en sýslumaður hafi synjað því erindi nema gegn greiðslu stimpilgjalds af eignaryfirfærslunni.
Fram kemur í kærunni að ákvörðun sýslumanns sé mótmælt þar sem kærandi líti svo á að skjalið sé undanþegið stimpilgjaldi, enda hafi kærandi og eiginmaður hennar verið hjón þegar stimpilgjald hafi verið greitt af afsali vegna kaupa fasteignarinnar á árinu 2022. Sú eignayfirfærsla sem um ræðir sé ekki gerð í tengslum við kaup eða gjafagerning af neinu tagi, sbr. 3. gr. laga nr. 138/2013, um stimpilgjald. Ekkert endurgjald komi fyrir eignarhlut heldur sé um að ræða leiðréttingu að kröfu sýslumanns. Sé vísað til ákvæða b- og c-liðar 6. gr. laga nr. 138/2013 sem kærandi telji eiga við. Þótt ákvæðið ræði um búshelming maka megi ætla að ákvæðið geti einnig tekið til yfirfærslu á öllum séreignarhlut maka, enda sé ekki um samhliða sölu eða söluafsal að ræða. Það skjóti skökku við og stríði gegn tilgangi laga um stimpilgjald að þeim hjónum sé gert að greiða stimpilgjald öðru sinni af viðskiptum með fasteignina. Sé þess því krafist að hin kærða ákvörðun sýslumanns verði felld úr gildi og að sýslumanni verði gert að endurgreiða kæranda stimpilgjald að fjárhæð 657.600 kr. Þá sé þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði.
II.
Með bréfi, dags. 4. október 2024, hefur sýslumaður lagt fram umsögn í málinu. Í umsögninni er því mótmælt að ákvæði b- og c-liðar 6. gr. laga nr. 138/2013 eigi við í tilviki kæranda, enda sé um að ræða undanþáguákvæði sem skýra beri þröngt. Megi jafnframt vísa til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 9/2022. Ákvæði b-liðar 6. gr. eigi ekki við þar sem ekki sé um að ræða skilnað eða fjárslit milli aðila, sbr. og úrskurð yfirskattanefndar nr. 109/2019. Kaupsamningur vegna fasteignarinnar að K hafi verið færður í þinglýsingabók í júlí 2022 og hafi verið greitt stimpilgjald að fjárhæð 497.300 kr. Bæði í kaupsamningi og afsali vegna fasteignarinnar sé B tilgreindur kaupandi og undirriti hann bæði skjölin í eigin nafni. Ekki verði annað séð en að eignarheimild B hafi verið réttilega þinglýst í samræmi við efni þeirra skjala sem bárust til þinglýsingar. Gjaldskylda skjals fari eftir þeim réttindum sem það veitir en ekki nafni þess eða formi, sbr. 5. mgr. 3. gr. laga nr. 138/2013. Um sé að ræða eignayfirfærslu milli annarra aðila en á árinu 2022 og geti því ákvæði c-liðar 6. gr. laganna ekki átt við þar sem um nýja eignaryfirfærslu sé að ræða. Þá sé hvorki tilefni né lagaheimild til að samsama hjónum þegar komi að skýringu ákvæðisins.
Með tölvupósti til yfirskattanefndar 4. nóvember 2024 hefur kærandi áréttað áður fram komin sjónarmið í málinu.
III.
Kæra í máli þessu varðar ákvörðun stimpilgjalds af skjali, dags. 28. júní 2024, þar sem farið er fram á að sýslumaður breyti þinglýstri skráningu fasteignar við K þannig að eignin verði skráð eign kæranda í stað skipaðs lögráðamanns kæranda, B, sem undirritar skjalið í eigin nafni og fyrir hönd kæranda. Er tekið fram í skjalinu, sem ber yfirskriftina „Leiðrétting“, að leiðrétt eigendaskráning sé gerð í samræmi við ákvæði kaupmála kæranda og B, sem séu hjón, frá árinu 1988 og að ábendingu sýslumanns (yfirlögráðanda). Ekkert endurgjald komi til vegna leiðréttingarinnar. Deiluefni málsins er það hvort kæranda beri að greiða stimpilgjald af skjalinu, svo sem sýslumaður hefur talið. Er byggt á því í kæru að með greindri leiðréttingu á eigendaskráningu K hafi ekki átt sér stað eignaryfirfærsla fasteignar í skilningi 3. gr. laga nr. 138/2013, um stimpilgjald, heldur sé einungis um að ræða leiðréttingu skráningar að kröfu sýslumanns án nokkurs endurgjalds. Er jafnframt litið svo á í kæru að skjalið sé undanþegið stimpilgjaldi samkvæmt b-lið og/eða c-lið 6. gr. umræddra laga.
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 138/2013, um stimpilgjald, skal greiða í ríkissjóð sérstakt gjald, stimpilgjald, af þeim skjölum sem gjaldskyld eru samkvæmt lögunum. Í 1. mgr. 3. gr. laganna kemur fram að greiða skuli stimpilgjald af skjölum er varða eignaryfirfærslu fasteigna hér á landi. Fer gjaldskylda skjals eftir þeim réttindum er það veitir en ekki nafni þess eða formi, sbr. 5. mgr. sömu lagagreinar. Í 6. gr. laga nr. 138/2013 eru talin skjöl sem undanþegin eru stimpilgjaldi. Samkvæmt b-lið lagagreinarinnar falla þar undir skjöl er sýna yfirfærslu fasteigna er lagðar hafa verið út erfingjum sem arfur eða maka upp í búshelming, enda sé ekki samhliða um sölu eða söluafsal að ræða. Þá fellur einnig undir undanþáguna skjal sem samkvæmt efni sínu er gjaldskylt í samræmi við ákvæði laganna en er undanþegið stimpilgjaldi vegna sambands þess við annað gjaldskylt skjal, sbr. c-lið greinarinnar.
Í gögnum málsins kemur fram að ráðstafanir skipaðs lögráðamanns kæranda, B, í tengslum við sölu fasteignar við M á árinu 2022 hafi farið í bága við ákvæði kaupmála þeirra hjóna frá árinu 1988 þar sem mælt sé fyrir um að fasteignin skuli vera séreign kæranda sem og verðmæti sem komi í stað hennar, sbr. bréf sýslumanns til B, dags. 8. maí 2024, þar sem þessu er lýst. Í bréfinu er lögráðamanni veittur frestur til að bæta úr framangreindu innan tiltekins frests og var það tilefni þeirrar leiðréttingar sem um er deilt.
Í umsögn sýslumanns í málinu kemur ekki fram hvort samþykki yfirlögráðanda hafi legið fyrir við sölu fasteignarinnar að M á árinu 2022, sbr. ákvæði 1. mgr. 69. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, en af atvikum verður frekast dregin sú ályktun að svo hafi ekki verið. Í umsögn sýslumanns er hins vegar bent á að kaupsamningi og afsali vegna kaupa fasteignarinnar við K á árinu 2022 hafi verið þinglýst á sama ári. Er tekið fram að þar sem B hafi undirritað skjölin í eigin nafni verði ekki annað séð en að eignarheimild hans yfir fasteigninni hafi verið réttilega þinglýst í samræmi og samkvæmt efni þeirra skjala sem borist hafi til þinglýsingar. Verður að ætla að sýslumaður hafi hér í huga ákvæði þinglýsingalaga nr. 39/1978. Út af fyrir sig má fallast á þetta með sýslumanni, enda mun kaupmáli kæranda og B frá árinu 1988 ekki hafa verið skráður hjá sýslumanni, sbr. 83. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, eins og getið er í umsögn sýslumanns. Á hinn bóginn hefur ekki verið vefengt í málinu að fyrrgreindar ráðstafanir lögráðamanns kæranda á árinu 2022 hafi farið í bága við kaupmálann og strítt gegn ákvæðum lögræðislaga nr. 71/1997, eins og rakið er í bréfi sýslumanns til lögráðamannsins, dags. 8. maí 2024. Að því athuguðu og atvikum málsins að öðru leyti þykir ekki varhugavert að líta á hið umdeilda skjal sem lið í leiðréttingu á rangri eigendaskráningu fasteignarinnar við K af þessu tilefni. Verður því fallist á með kæranda að með nefndu skjali hafi ekki verið um eignaryfirfærslu fasteignar að ræða í skilningi 1. mgr. 3. gr. laga nr. 138/2013. Því ber að hnekkja ákvörðun sýslumanns um innheimtu stimpilgjalds af skjalinu.
Samkvæmt 18. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, ber undir stjórnvald að framkvæma gjaldabreytingar sem stafa af úrskurði yfirskattanefndar. Er sýslumanni því falið að annast um gjaldabreytingu samkvæmt úrskurði þessum.
Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með síðari breytingum. Samkvæmt úrslitum málsins þykir bera að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis. Samkvæmt framlögðum gögnum með kæru nemur kostnaður kæranda vegna meðferðar málsins 232.500 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti vegna fimm klukkustunda vinnu lögmanns vegna kærunnar, en annar kostnaður er vegna samskipta við sýslumann og lögráðamann kæranda. Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til lagaskilyrða fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði og starfsreglna yfirskattanefndar 21. nóvember 2014 um ákvörðun málskostnaðar þykir málskostnaður hæfilega ákveðinn 170.000 kr.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Hin kærða ákvörðun sýslumanns er felld úr gildi. Málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði ákveðst 170.000 kr.