Úrskurður yfirskattanefndar

  • Tekjur erlendis
  • Tvísköttunarsamningur
  • Álag

Úrskurður nr. 20/2025

Gjaldár 2019

Lög nr. 90/2003, 1. gr. 1. mgr., 7. gr. A-liður 1. tölul., 108. gr. 2. mgr.   Tvísköttunarsamningur milli Norðurlandanna, 15. gr.  

Ríkisskattstjóri færði kæranda til skattskyldra tekna vanframtaldar launatekjur frá erlendu félagi vegna starfa um borð í skipi sem gert var út frá Færeyjum. Talið var að miða yrði við að skattar hefðu ekki verið greiddir af tekjunum erlendis og að skattlagning þeirra hér á landi væri í samræmi við íslenska löggjöf og ákvæði tvísköttunarsamnings. Var kröfum kæranda hafnað, þar með talið kröfu um niðurfellingu 25% álags.

Ár 2025, fimmtudaginn 20. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 151/2024; kæra A, dags. 1. október 2024, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2019. Í málinu úrskurða Þórarinn Egill Þórarinsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir.

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 1. október 2024, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 9. júlí 2024, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2019. Með hinum kærða úrskurði færði ríkisskattstjóri kæranda til tekna meintar vanframtaldar launatekjur frá G Limited að fjárhæð 4.850.216 kr. í skattframtali árið 2019. Ríkisskattstjóri bætti 25% álagi við vantalda skattstofna, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og nam fjárhæð álags 1.212.554 kr. Leiddu breytingarnar til þess að áður ákvarðaðar barnabætur kæranda lækkuðu um 9.273 kr.

Af hálfu kæranda er farið fram á endurskoðun á hinum hinum kærða úrskurði, enda hafi ekki verið um vísvitandi undanskot að ræða. Telji kærandi sig hafa greitt þá skatta sem honum bar. Biðst kærandi í það minnsta undan álagsbeitingu.

Tekið skal fram að með hinum kærða úrskurði tilkynnti ríkisskattstjóri jafnframt maka kæranda, B, um breytingar á áður álögðum opinberum gjöldum hennar gjaldárið 2019 sem leiddu af framangreindum breytingum, en þar var um að ræða lækkun barnabóta. Kæra í málinu er sett fram í nafni beggja hjóna, þó ekki sé vikið sérstaklega að breytingum er varða B í kærunni. Ljóst er að kæruefnið varðar ekki B með öðrum hætti en sem leiðir af lagareglum um skattlagningu hjóna og sambýlisfólks. Tekur framsetning í úrskurði þessum mið af því.

II.

Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 13. október 2023, lagði ríkisskattstjóri fyrir kæranda með vísan til 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 að láta í té skýringar á þremur greiðslum að utan, samtals að fjárhæð 4.850.216 kr., inn á innlendan bankareikning kæranda á árinu 2018. Um væri að ræða greiðslur frá G Limited en ekki hefði verið gerð grein fyrir erlendum tekjum/greiðslum frá því félagi í skattframtali kæranda árið 2019. Skyldi gerð grein fyrir tilefni innborgana og skýringar kæranda studdar viðeigandi gögnum. Hefði kærandi greitt skatta erlendis vegna umspurðra greiðslna var óskað eftir gögnum því til staðfestingar.

Í svarbréfi kæranda, dags. 31. október 2023, var greint frá því að kærandi hefði starfað sem vélstjóri hjá E ehf. frá miðju ári 2013 og fram á árið 2018. Launamál hefðu farið fram í gegnum S sem skráð væri í Færeyjum. Fyrri hluta árs 2016 hefði launagreiðandinn hætt að greiða í lífeyrissjóð og stéttarfélag. Á árinu 2018 hefðu launaseðlar hætt að berast og launaskuldir félagsins safnast upp. Þegar stöðva hefði átt skip félagsins vegna vangoldinna launa hefði leigutakinn G Limited boðist til að greiða launin til að halda skipinu gangandi. Væru það líklega hinar umspurðu greiðslur. Hefði kærandi talið að um væri að ræða uppgjör launa sinna frá S en kærandi hefði þó ekki fengið launaseðla. Hefði launagreiðanda borið að skila skattgreiðslum í Færeyjum en væntanlega hefði því ekki verið sinnt. S hefði síðan verið úrskurðað gjaldþrota. Þar sem launagreiðandi hefði verið erlendur hefði Ábyrgðarsjóður launa ekki ábyrgst launagreiðslur og hefðu greiðslur til lífeyrissjóðs ekki verið gerðar upp. Loks var tekið fram að launamiði hefði ekki borist í ársbyrjun 2019 svo einhverra hluta vegna hefði farist fyrir að færa greiðslurnar í skattframtal kæranda.

Með bréfi, dags. 26. janúar 2024, óskaði ríkisskattstjóri eftir frekari skýringum og gögnum frá kæranda. Var þess óskað að kærandi léti embættinu í té gögn sem staðfestu að um vanframtaldar launatekjur hefði verið að ræða á árinu 2018. Hefðu skattar verið greiddir af umspurðum greiðslum, þ.e. að fjárhæð samtals 4.850.216 kr. á árinu 2018, var óskað eftir gögnum sem staðfestu það, t.d. frá skattyfirvöldum í Færeyjum.

Kærandi upplýsti með bréfi, dags. 11. febrúar 2024, að hann hefði engin gögn vegna málsins en S hefði verið úrskurðað gjaldþrota og hefðu engin gögn fengist frá því félagi. Hefði kærandi talið greiðslur frá G Limited vera vegna launa frá S. Væri kæranda ekki kunnugt um hverju hefði verið skilað til færeyskra skattyfirvalda og hefði hann engin gögn um það. Teldi kærandi sig hafa greitt þá skatta sem honum bæri.

Með bréfi, dags. 14. maí 2024, boðaði ríkisskattstjóri kæranda endurákvörðun opinberra gjalda hans gjaldárið 2019, sbr. 1. og 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, með því að fyrirhugað væri að færa honum til tekna greiðslur að utan að fjárhæð 4.850.216 kr. á árinu 2018. Ríkisskattstjóri boðaði jafnframt beitingu 25% álags á vantalda skattstofna, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Með bréfi, dags. 29. maí 2024, gerði kærandi athugasemdir við fyrirhugaðar breytingar ríkisskattstjóra. Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 9. júlí 2024, hratt ríkisskattstjóri hinum boðuðu breytingum í framkvæmd og endurákvarðaði opinber gjöld kæranda gjaldárið 2019 til samræmis.

III.

Í úrskurði ríkisskattstjóra um endurákvörðun, dags. 9. júlí 2024, sbr. einnig boðunarbréf, dags. 14. maí 2024, var gerð grein fyrir bréfaskiptum og gagnaöflun í málinu. Þá gerði ríkisskattstjóri grein fyrir lagagrundvelli málsins og rakti í því sambandi ákvæði 1. mgr. 1. gr., 1. tölul. A-liðar 7. gr. og 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003.

Málið varðaði réttmæti skattframtalsskila kæranda vegna erlendra greiðslna sem kærandi hefði fengið á árinu 2018 en ekki hefði verið gerð grein fyrir erlendum tekjum í skattframtali kæranda árið 2019. Um væri að ræða þrjár greiðslur að fjárhæð samtals 48.821,21 bandaríkjadalir eða 4.850.216 kr. frá G Limited sem kærandi hefði greint frá að væru launagreiðslur. Kærandi hefði verið starfsmaður hjá E ehf. og hefðu laun til hans verið greidd af S sem skráð hefði verið í Færeyjum. Fram væri komið að S hefði lent í rekstrarerfiðleikum og hefði kærandi talið greiðslurnar frá G Limited vera vegna uppgjörs á launum hans frá S. Kærandi hefði ekki sinnt ítrekuðum beiðnum embættisins um að leggja fram gögn til staðfestingar á greiðslu skatta af laununum í Færeyjum. Þá hefði kærandi greint frá því að honum væri ekki kunnugt um hverju hefði verið skilað til færeyskra skattyfirvalda og hefði hann engin gögn undir höndum um það. Tók ríkisskattstjóri fram að samkvæmt upplýsingum frá færeyskum skattyfirvöldum hefði kærandi hvorki skilað skattframtali vegna tekjuársins 2018 þar í landi né hefðu verið greiddir skattar af tekjum er stöfuðu frá G Limited.

Með hliðsjón af framangreindu væri það mat ríkisskattstjóra að hinar erlendu innborganir á bankareikning kæranda á árinu 2018 hefðu verið launatekjur kæranda sem skattskyldar væru hér á landi, sbr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Færði ríkisskattstjóri kæranda því til tekna 4.850.216 kr. í skattframtali árið 2019. Ríkisskattstjóri bætti 25% álagi á vantalinn skattstofn kæranda samkvæmt heimild í 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Þætti kærandi ekki haft fært rök fyrir því að fella ætti niður boðaða álagsbeitingu á grundvelli 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, en vantaldar tekjur þættu vera verulegur annmarki á skattframtalsgerð. Tók ríkisskattstjóri fram vegna athugasemda kæranda að ekki hefði verið litið svo á í úrskurðarframkvæmd að rétt væri að fallast á niðurfellingu álags þó um mistök eða vankunnáttu skattaðila hefði verið að ræða og framtalsgerð verið eftir bestu vitund.

IV.

Í kafla I hér að framan er greint frá kröfugerð kæranda í kæru til yfirskattanefndar, dags. 1. október 2024. Í kærunni eru raktar áður fram komnar skýringar kæranda á greiðslum til hans á árinu 2018. Hafi kærandi talið greiðslur frá G Limited vera nettóuppgjör á launum hans frá S, enda hafi ekki verið um neinn samning að ræða milli hans og G Limited. Enginn launamiði hafi borist kæranda í ársbyrjun 2019 svo einhverra hluta vegna hafi farist fyrir að færa greiðslurnar í skattframtal hans árið 2019. Kærandi hafi engin gögn í höndum um greiðslurnar og hafi hann ekki getað sótt vangoldin laun til Ábyrgðasjóðs launa. Hann hafi staðið í þeirri trú að greiðslur frá G Limited væru það sem hann hafi átt að frá greitt frá S að frádregnum sköttum og lífeyrissjóðsiðgjöldum. Hafi kærandi talið skattyfirvöld eiga auðveldara með að afla upplýsinga frá færeyskum skattyfirvöldum og farið fram á að fá aðgang að gögnum skattyfirvalda. Hafi hann aðeins fengið svar skattyfirvalda í Færeyjum þar sem fram hafi komið að G Limited hafi ekki skilað neinu til þeirra vegna kæranda. Ekki verði séð að spurt hafi verið um S en það félag hefði væntanlega átt að skila einhverju vegna starfssambands kæranda við það félag. Hafi kærandi sent fyrirspurn til færeyskra skattyfirvalda. Með svarbréfi, dags. 2. október 2024, hafi þau upplýst að S hefði ekki skilað neinum gögnum varðandi launamál kæranda. Sé kærandi því í lausu lofti með sín mál en hann hafi talið sig hafa greitt þá skatta sem honum bar. Fylgir kæru til yfirskattanefndar fyrrgreint svarbréf, auk staðgreiðsluyfirlits og ráðningarsamnings kæranda við S.

V.

Með bréfi, dags. 18. nóvember 2024, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda þyki ekki hafa komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Vegna athugasemda kæranda um aðgengi að gögnum málsins er tekið fram í bréfinu að málið byggi að mestu á upplýsingum um erlendar innborganir á bankareikning kæranda hér á landi ásamt svari frá færeyskum skattyfirvöldum um skattskil kæranda í Færeyjum. Þessar upplýsingar hafi komið skýrt fram í fyrirspurnarbréfum ríkisskattstjóra til kæranda, dags. 13. október 2023 og 26. janúar 2024, boðunarbréfi ríkisskattstjóra, dags. 14. maí 2024, sem og í hinum kærða úrskurði. Öll framangreind bréf, sem og samskipti ríkisskattstjóra við kæranda, séu þegar hluti af fylgiskjölum sem fylgt hafi kæru kæranda í máli þessu og telji ríkisskattstjóri því óþarft að senda þau með umsögninni. Meðfylgjandi sé þó svarbréf færeyskra skattyfirvalda, dags. 5. apríl 2024, við fyrirspurn embættisins.

Með bréfi, dags. 20. desember 2024, hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum í tilefni af umsögn ríkisskattstjóra. Í bréfinu ítrekar kærandi fram komnar kröfur. Þá gerir kærandi athugasemd við að skattyfirvöld hafi skoðað bankareikninga hans án þess að fá heimild hjá honum, en slíka heimild hefði kærandi veitt athugasemdalaust.

VI.

Ágreiningsefnið í máli þessu er skattaleg meðferð greiðslna frá G Limited að fjárhæð 40.922,21 bandaríkjadalir eða 4.850.216 kr. inn á bankareikning kæranda á árinu 2018, en greiðslur þessar voru ekki tilfærðar í skattframtali kæranda árið 2019. Gaf kærandi þá skýringu á umræddum greiðslum að hann teldi þær vera uppgjör á vangoldnum launum frá S í Færeyjum vegna starfa hans á skipi sem gert hefði verið út af félaginu, en G Limited hefði verið leigutaki skipsins. Með hinum kærða úrskurði færði ríkisskattstjóri kæranda umrædda fjárhæð til tekna sem almenn laun, sbr. 1. tölul. A-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, í skattframtali hans árið 2019. Við þá hækkun tekjuskatts- og útsvarsstofns kæranda umrætt gjaldár, sem af þessari breytingu leiddi, bætti ríkisskattstjóri 25% álagi samkvæmt heimildarákvæði 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Af hálfu kæranda er krafist endurskoðunar hins kærða úrskurðar, enda hafi ekki verið um vísvitandi undanskot að ræða en kærandi hafi talið sig vera búinn að greiða þá skatta sem honum bar. Biðst kærandi í það minnsta undan álagsbeitingu.

Kærandi bar ótakmarkaða skattskyldu hér á landi tekjuárið 2018 samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 19. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Í því felst að kæranda var skylt að greiða tekjuskatt og útsvar af öllum tekjum sínum hvar sem þeirra var aflað, þar með töldum umræddum tekjum frá G Limited, sem samkvæmt skýringum kæranda voru laun vegna starfa um borð í skipi sem gert var út af færeyska félaginu S. Eins og málið liggur fyrir verður að miða við það að kærandi hafi ekki greitt skatta erlendis af umræddum tekjum, enda hefur ekkert komið fram af hálfu kæranda því til stuðnings auk þess sem fyrir liggja tvö bréf frá færeyskum skattyfirvöldum þar sem upplýst er að kærandi hafi ekki greitt skatta þar í landi á árinu 2018. Samkvæmt þessu verður að ganga út frá því að um hafi verið að ræða launagreiðslur til kæranda, svo sem kærandi telur, sem skattskyldar séu samkvæmt 1. tölul A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Í þessu sambandi er rétt að taka fram að eins og málið liggur fyrir verður ekki talið að ákvæði tvísköttunarsamnings Norðurlandanna, sem Ísland og Færeyjar eru aðilar að, breyti neinu um skattlagningu á þessum grundvelli. Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðar þessa að skattaleg meðferð tekna kæranda frá G Limited hafi verið í fullu samræmi við íslenska löggjöf og ákvæði fyrrnefnds tvísköttunarsamnings. Er kröfu kæranda um að hinni kærðu ákvörðun verði hnekkt því hafnað.

Víkur þá að kröfu kæranda um niðurfellingu álags sem ríkisskattstjóri bætti við þá hækkun skattstofna hans sem leiddi af greindum breytingum, sbr. heimildarákvæði 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt ákvæði þessu má ríkisskattstjóri bæta 25% álagi við áætlaða eða vantalda skattstofna séu annmarkar á framtali, sbr. 96. gr., eða einstakir liðir ranglega fram taldir. Bæti skattaðili úr annmörkum eða leiðrétti einstaka liði á framtali áður en álagning fer fram, má ríkisskattstjóri þó eigi beita hærra álagi en 15%. Samkvæmt 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 skal fella niður álag samkvæmt lagagrein þessari ef skattaðili færir rök að því að honum verði ekki kennt um annmarka á framtali eða vanskil þess, að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann skilaði framtali á réttum tíma, bætti úr annmörkum á framtali eða leiðrétti einstaka liði þess. Þegar litið er til þeirra annmarka sem voru á skattskilum kæranda umrætt ár, þar sem tekjur kæranda að utan voru vanframtaldar, þykja ekki efni til að falla frá beitingu álags í tilviki kæranda, enda þykir hvorki hafa verið sýnt fram á af hálfu kæranda að atvikum sé svo farið að 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 eigi við né að tilefni sé til að falla frá álagsbeitingu að öðru leyti. Er kröfu kæranda um niðurfellingu álags því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja