Úrskurður yfirskattanefndar

  • Duldar arðgreiðslur
  • Lánveiting einkahlutafélags til tengds aðila
  • Álag

Úrskurður nr. 21/2025

Gjaldár 2021

Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 1. tölul. 1. mgr. og 3. mgr., 11. gr. 2. mgr., 108. gr. 2. mgr.   Lög nr. 138/1994, 73. gr., 79. gr. 1. mgr.  

Ríkisskattstjóri færði kærendum, sem voru eigendur og fyrirsvarsmenn K ehf., til tekna í skattframtali þeirra meintar óheimilar lánveitingar frá K ehf. á árinu 2020. Í málinu lá fyrir að greiðslum K ehf. hafði verið ráðstafað til fasteignakaupa dóttur kærenda og maka hennar á sama ári. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að greiðslur einkahlutafélagsins í þágu dóttur kærenda hefðu ekki verið heimilar að lögum sem lánveitingar, hvorki til dótturinnar né kærenda sjálfra, enda þætti vafalaust að ekki væri um venjulegt viðskiptalán að ræða. Kröfum kærenda var hafnað, þar með talið kröfu um niðurfellingu 25% álags.

Ár 2025, fimmtudaginn 20. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 164/2024; kæra A og B, dags. 16. nóvember 2024, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2021. Í málinu úrskurða Þórarinn Egill Þórarinsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 16. nóvember 2024, hafa kærendur skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 20. ágúst 2024, um endurákvörðun opinberra gjalda kærenda gjaldárið 2021. Með úrskurðinum hækkaði ríkisskattstjóri tekjuskatts- og útsvarsstofn hvors kæranda um sig um 20.850.262 kr. gjaldárið 2021 vegna meintrar óheimillar lánveitingar K ehf. til kærenda á árinu 2020, sbr. 79. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, sem skattleggja bæri sem launatekjur kærenda samkvæmt 3. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Ríkisskattstjóri bætti 25% álagi við hækkun skattstofna kærenda sem af breytingunni leiddi, sbr. heimildarákvæði 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Nam fjárhæð álags 5.212.566 kr. hjá hvoru kærenda fyrir sig. Af hálfu kærenda er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi. Þá krefjast kærendur dráttarvaxta frá greiðslu endurálagningar til endurgreiðsludags.

II.

Helstu málavextir eru þeir að í kjölfar gagna- og upplýsingaöflunar ríkisskattstjóra samkvæmt 94. gr. laga nr. 90/2003, sbr. bréf embættisins til K ehf., 24. febrúar 2022, svarbréf umboðsmanns félagsins, dags. 9. mars 2022, fyrirspurnarbréf ríkisskattstjóra til kærenda, dags. 3. júní 2022, svarbréf kærenda, dags. 7. júlí 2022, fyrirspurnarbréf ríkisskattstjóra til dóttur kærenda og maka hennar, C og D, dags. 2. nóvember 2023, svarbréf umboðsmanns C, dags. 13. nóvember 2023, fyrirspurnarbréf ríkisskattstjóra til kæranda, A, dags. 21. nóvember 2023, svarbréf umboðsmanns A, K ehf. og C, dags. 22. nóvember 2023, fyrirspurnarbréf ríkisskattstjóra til kæranda, B, dags. 16. apríl 2024, og svarbréf B, dags. 23. maí 2024, tilkynnti ríkisskattstjóri kærendum með bréfi, dags. 4. júní 2024, um fyrirhugaða endurákvörðun opinberra gjalda kærenda gjaldárið 2021. Með bréfi, dags. 27. júní 2024, andmæltu kærendur fyrirhuguðum breytingum ríkisskattstjóra. Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 20. ágúst 2024, hratt ríkisskattstjóri boðuðum breytingum í framkvæmd, sbr. 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, að gerðum tilteknum breytingum með hliðsjón af andmælum kærenda.

Í úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 20. ágúst 2024, sbr. og umfjöllun í boðunarbréfi embættisins, var gerð grein fyrir upplýsinga- og gagnaöflun embættisins í málinu og helstu réttarheimildum sem á reyndi, sbr. ákvæði 73. gr., 1. mgr. 74. gr., 1. mgr. 76. gr. og 79. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, og 7. gr. og 2. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003. Ríkisskattstjóri tók fram að málið varðaði réttmæti framtalsskila kærenda gjaldárið 2021 vegna greiðslna K ehf. í þágu dóttur kærenda á árinu 2020. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum ættu kærendur hvort um sig helmingshlut í félaginu og væri kærandi, A, skráður framkvæmdastjóri og prókúruhafi, og kærandi, B, skráður stjórnarmaður þess. Skráður tilgangur K ehf. væri byggingarstarfsemi, rekstur fasteigna, nauðsynleg lánastarfsemi og annar skyldur rekstur. Engir starfsmenn hefðu verið á launaskrá hjá félaginu á árinu 2020.

Fram hefði komið að K ehf. hefði átt vaxtalausa kröfu á hendur dóttur kærenda og maka hennar að fjárhæð 41.700.524 kr. í lok árs 2020. Nánar tiltekið lægi fyrir að K ehf. hefði lagt 35.000.000 kr. inn á bankareikning tilgreindrar fasteignasölu þann 31. mars 2020 vegna kaupa dóttur kærenda og maka hennar á fasteign, en þessu til viðbótar hefði félagið lagt samtals 5.977.965 kr. inn á bankareikning dóttur kærenda í þremur greiðslum á árinu 2020. Hefði kærandi, A, gefið þær skýringar á kröfunni að um lán hefði verið að ræða en hann hefði talið að full heimild stæði til lánveitingarinnar þar sem fasteign hefði staðið til tryggingar greiðslu lánsins. Engar athugasemdir hefðu verið gerðar af hálfu endurskoðanda félagsins við þetta fyrirkomulag og hefði kærandi því verið í góðri trú um lánveitingin væri í samræmi við lög, enda hefði arðgreiðsluheimild verið til staðar upp á um 56 milljónir króna. Vegna þessa tók ríkisskattstjóri fram að skattskil félagsins bæru með sér að ekkert hefði verið greitt af láninu og bentu skattskil dóttur kærenda til þess sama. Komið hefði fram að kærendur hefðu yfirtekið kröfuna á árunum 2022 og 2023 og hefði dóttir þeirra og maki hennar byrjað að greiða kærendum vexti en ekkert hefði enn verið greitt af láninu. Þá hefði ekki verið gerður lánssamningur.

Samkvæmt 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994 væri einkahlutafélagi hvorki heimilt að veita hluthöfum, stjórnarmönnum eða framkvæmdastjórum félagsins lán né setja tryggingu fyrir þá. Þá væri einkahlutafélögum óheimilt að veita lán til niðja (barna) hluthafa, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, nema um væri að ræða venjulegt viðskiptalán. Með hliðsjón af gögnum málsins væri það mat ríkisskattstjóra að kærendur hefðu í krafti eignarhalds síns og fyrirsvars K ehf. úthlutað sér fjármunum úr félaginu með lánveitingu sem runnið hefði til dóttur þeirra vegna kaupa hennar og maka hennar á fasteign. Eftir að ríkisskattstjóri hefði farið að spyrjast fyrir um kröfuna hefðu kærendur fært kröfuna á sig í formi arðgreiðslu. Þá hefði enginn lánssamningur verið gerður. Þar af leiðandi væri krafan ekki tryggð með veði í fasteign eins og kærendur héldu fram. Þessi meinta trygging hefði því ekki byggt á neinu öðru en fjölskylduböndum, en ekki yrði séð að um venjulegt viðskiptalán hefði verið að ræða. Greind lánveiting nefnds einkahlutafélags til dóttur kærenda og maka hennar umrætt ár hefði því verið óheimil samkvæmt 79. gr. laga nr. 138/1994.

Líta yrði svo á að um málamyndagerning hefði verið að ræða og að kærendur hefðu í raun fengið umrædda fjármuni að láni frá félaginu. Ekki hefði verið um að ræða venjulega rekstrarlega ákvörðun innan félagsins eða venjulegt viðskiptalán, enda félagið ekki í þeim rekstri að lána einstaklingum til fasteignakaupa. Að þessu virtu þætti bera að skattleggja bæri hina óheimilu lánveitingu hjá kærendum sem laun, sbr. 3. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Skýra bæri ákvæði þetta til samræmis við 2. mgr. 11. gr. sömu laga þannig að það fyrrnefnda tæki til starfsmanns sem jafnframt væri hluthafi. Að þessu athuguðu og með samanburðarskýringu á 3. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. og 2. mgr. 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. og 2. mgr. 11. gr. sömu laga, væri almennt litið svo á að fara bæri með óheimila úthlutun verðmæta sem launatekjur samkvæmt hinu fyrrnefnda ákvæði án tillits til þess hvort hluthafinn, sem jafnframt væri skráður framkvæmdastjóri eða stjórnarmaður, hefði í raun tilfært reiknuð laun frá félaginu. Ekki hefði verið gerð grein fyrir úthlutuninni sem arðgreiðslu og því ekki farið með hana eftir reglum XII kafla laga nr. 138/1994 um úthlutun arðs, sbr. 73., 74. og 1. mgr. 76. gr. nefndra laga. Hækkaði tekjuskattsstofn hvors kærenda um sig því um 20.850.262 kr.

Ríkisskattstjóri bætti 25% álagi á hækkun skattstofna kærenda samkvæmt heimild í 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Kærendur hefðu ekki gert grein fyrir lánveitingum K ehf. til sín í skattframtali árið 2021 sem væri verulegur annmarki á skattskilum. Þá gæti það ekki haft áhrif á niðurstöðuna að kærendur hefðu verið í góðri trú um að skattskilin væru rétt. Nam fjárhæð álags 5.212.566 kr. hjá hvoru kærenda fyrir sig.

Með úrskurðinum féllst ríkisskattstjóri á erindi kærenda, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um að arðstekjur í reit 307 í skattframtali árið 2023 yrðu lækkaðar um 41.700.524 kr. til samræmis við niðurstöðu málsins. Var tekið fram að staðgreiðsla að fjárhæð 9.350.000 kr. stæði óbreytt í skattframtali og kæmi greidd staðgreiðsla að fjárhæð 9.174.115 kr. því til endurgreiðslu með úrskurðinum.

III.

Í kafla I hér að framan er greint frá kröfugerð kærenda í kæru til yfirskattanefndar, dags. 16. nóvember 2024. Í kærunni eru málsatvik rakin. Þá gera kærendur fjölmargar athugasemdir við tilvísanir ríkisskattstjóra til gagna málsins og það sem kærendur telja rangfærslur, villandi framsetningu og tilbúning í málavaxtalýsingu ríkisskattstjóra. Vísast til kæru um þessi atriði.

Leggja kærendur áherslu á að um lán til dóttur þeirra og maka hennar hafi verið að ræða. Kærendur hafi verið meðvituð um að félagið mætti ekki lána þeim en þau hafi talið félaginu heimilt að lána dóttur þeirra. Sé rangt hjá ríkisskattstjóra að ekki hafi verið gerður lánssamningur en samningurinn hafi verið munnlegur. Þá hafi verið viðskiptalegur hvati að lánveitingunni. Þegar bornir væru saman greiddir vextir af láninu og vextir á bankareikningi K ehf. kæmi í ljós að K ehf. hefði hagnast um 736.854 kr. á lánveitingunni. Innvextir á bankareikningi félagsins hefðu verið nálægt núlli og hefði farið betur á því að geyma peningana með þessum hætti með „baktryggingu“ í fasteign. Kærendur skilji ekki hvernig ríkisskattstjóri komist að þeirri niðurstöðu að þau hafi tekið fjármuni að láni frá félaginu og lánað dóttur þeirra með því að yfirtaka lánið með arðgreiðslum.Kærendur séu sammála því að ekki hafi verið um lögformlega arðgreiðslu úr félaginu að ræða heldur liggi fyrir að félagið hafi lánað dóttur þeirra og maka hennar umrædda fjármuni. Arðgreiðslur á árunum 2022 og 2023 hafi verið inntar af hendi í samráði við endurskoðanda félagsins og séu án efa lögformlegar. Telji kærendur vaxtagreiðslur og uppgreiðslu á láni í lok árs 2022 og á árinu 2023 sýna með óyggjandi hætti að um venjulegt viðskiptalán hafi verið að ræða, en lánið hafi verið greitt upp til að eyða óvissu til framtíðar. Lánið hafi byggt á trausti eins og tíðkist í viðskiptum og hafi það ekki verið frábrugðið því sem almennt gerist í lánaviðskiptum. Telji kærendur ríkisskattstjóra vera að flækja einfalt mál en ríkisskattstjóri hafi aldrei í raun skoðað viðskiptalegan ábata K ehf. af láninu. Sönnunarbyrði um málamyndagerning liggi hjá ríkisskattstjóra en ríkisskattstjóri skauti framhjá þeirri sönnunarbyrði.

IV.

Með bréfi, dags. 10. janúar 2025, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Í umsögninni bregst ríkisskattstjóri við athugasemdum kærenda um rangfærslur og villandi framsetningu í úrskurði embættisins. Hvað hinn meinta lánssamning varði rekur ríkisskattstjóri ákvæði 79. gr. laga nr. 138/1994 og áréttar að úttekt kærenda hafi til málamynda verið færð sem krafa á dóttur þeirra í bókhaldi K ehf. þar sem kærendum hafi verið ljóst að félaginu væri óheimilt að lána þeim. Breyti form lánssamningsins engu.

Með bréfi, dags. 14. janúar 2025, hafa kærendur lagt fram athugasemdir í tilefni af umsögn ríkisskattstjóra. Í bréfinu eru ítrekaðar athugasemdir um rangfærslur og villandi framsetningu ríkisskattstjóra. Þá eru ítrekaðar þær röksemdir sem fram koma í kæru.

V.

Kæruefnið í máli þessu er sú ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt úrskurði um endurákvörðun, dags. 20. ágúst 2024, að færa kærendum til tekna í skattframtali þeirra árið 2021 greiðslur frá K ehf. að fjárhæð samtals 41.700.542 kr. sem ráðstafað var til fasteignakaupa dóttur kærenda og maka hennar á árinu 2020. Kærendur áttu hvort um sig helmingshlut í K ehf. á þeim tíma sem málið varðar. Þá var kærandi, A, framkvæmdastjóri og prókúruhafi einkahlutafélagsins, og kærandi, B, stjórnarmaður þess. Byggði ríkisskattstjóri á því að um væri að ræða óheimilar lánveitingar einkahlutafélagsins til kærenda í skilningi 79. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, sem féllu undir 2. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og bæri að skattleggja sem skattskyld laun í hendi þeirra samkvæmt 3. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. sömu laga. Ríkisskattstjóri bætti 25% álagi samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 við hækkun tekjuskatts- og útsvarsstofns kærenda gjaldárið 2021 sem af þessum breytingum leiddi. Af hálfu kærenda er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi og að kærendum verði ákvarðaðir dráttarvextir á ofgreidda skatta frá greiðsludegi til endurgreiðsludags.

Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003 telst til arðs af hlutum og hlutabréfum í félögum, sem um ræðir í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna, auk venjulegrar arðgreiðslu, „sérhver afhending verðmæta til hlutareiganda með takmarkaða eða ótakmarkaða ábyrgð eða hluthafa er telja verður sem tekjur af hlutareign þeirra í félaginu“. Arður af hlutum og hlutabréfum telst til skattskyldra tekna, sbr. 4. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003 er tekið fram að úthlutun verðmæta samkvæmt 1. mgr. sömu lagagreinar til hluthafa eða hlutareiganda sem jafnframt er starfsmaður félags, eða tengds félags, teljist vera laun samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. ef hún er óheimil samkvæmt lögum um hlutafélög eða lögum um einkahlutafélög. Ef úthlutun til annarra en starfsmanna sé óheimil samkvæmt lögum um hlutafélög eða einkahlutafélög skuli skattleggja úthlutunina sem tekjur samkvæmt 4. tölul. A-liðar 7. gr. Ef slík úthlutun eigi sér stað til sameignarfélags, þar sem einn sameigenda sé hluthafi, stjórnarmaður eða starfsmaður félagsins sem úthlutar verðmætum, skuli úthlutunin teljast til tekna hjá honum samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. Þá er þess að geta að í 3. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 er mælt svo fyrir að lán til starfsmanna sem óheimil eru samkvæmt lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög teljist til tekna sem laun. Ennfremur er í 2. mgr. 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 tekið fram að til skattskyldra gjafa teljist lán til hluthafa og stjórnarmanna sem óheimil séu samkvæmt lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög.

Samkvæmt 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, er slíku félagi hvorki heimilt að veita hluthöfum, stjórnarmönnum eða framkvæmdastjórum félagsins eða móðurfélags þess lán né setja tryggingu fyrir þá. Félagi er einnig óheimilt að veita þeim lán eða setja fyrir þann tryggingu sem giftur er eða í óvígðri sambúð með aðila sem fyrr greinir eða er skyldur honum að feðgatali eða niðja ellegar stendur hlutaðeigandi að öðru leyti sérstaklega nærri. Undanskilin eru þó venjuleg viðskiptalán. Hliðstæðar reglur gilda varðandi hlutafélög, sbr. 1. mgr. 104. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög. Í athugasemdum við 82. gr. í frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 137/1994, um breytingu á lögum nr. 32/1978, um hlutafélög, með síðari breytingum, en lög þessi voru endurútgefin sem lög nr. 2/1995, var tekið fram að greint ákvæði um bann við lánveitingum tæki til láns á peningum eða ígildi þeirra, t.d. í formi ávísana, víxla, skuldabréfa og hlutabréfa. Takmörkunin næði ekki til venjulegra viðskiptalána, t.d. greiðslukortaviðskipta, eða til lána til fyrirtækja sem væru hluthafar ef þau væru liður í viðskiptum og venjubundin bæði í fyrirtækinu og almennt í slíkum fyrirtækjum (Alþt. 1994, A-deild, bls. 810). Tekið er fram í 4. mgr. 104. gr. laga nr. 2/1995 og 4. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994 að ef hlutafélag eða einkahlutafélag innir af hendi greiðslur í tengslum við ráðstafanir, sem andstæðar eru fyrrgreindum ákvæðum, skuli endurgreiða þær með dráttarvöxtum.

Fram er komið að samtals 41.700.524 kr. var ráðstafað af bankareikningi K ehf. til fasteignakaupa dóttur kærenda og maka hennar á árinu 2020, þ.e. nánar tiltekið voru 35.000.000 kr. lagðar inn á bankareikning tilgreindrar fasteignasölu þann 31. mars 2020 og samtals 5.977.965 kr. inn á bankareikning dóttur kærenda í þremur greiðslum sama ár. Af hálfu kærenda hafa þær skýringar verið gefnar á greiðslunum að um lán til dóttur þeirra hafi verið að ræða, en farið var með greiðslurnar sem kröfu á hendur dóttur kærenda og maka hennar í bókhaldi K ehf. Viðskiptalegur hvati hafi legið að baki lánveitingunni og hafi kærendur talið að félagið væri í fullum rétti að veita dóttur þeirra lán. Miðað við þessar skýringar kærenda verður að telja ljóst að umræddar greiðslur hafi að öllu leyti verið lán í skilningi 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994, eins og skýra verður ákvæðið með hliðsjón af lögskýringargögnum, sbr. hér að framan, en rétt þykir að árétta í þessu sambandi vegna málatilbúnaðar kærenda að samkvæmt 2. málsl. greinds lagaákvæðis er einkahlutafélagi óheimilt að veita barni hluthafa, stjórnarmanns eða framkvæmdastjóra lán eða setja fyrir það tryggingu. Fyrir liggur að kærendur voru eigendur og fyrirsvarsmenn K ehf. á greindum tíma. Af því leiðir að greiðslur einkahlutafélagsins í þágu dóttur þeirra voru ekki heimilar að lögum sem lánveitingar, hvorki til dóttur kærenda né þeirra sjálfra, enda þykir vafalaust að ekki var um venjulegt viðskiptalán að ræða, sbr. fyrrgreint ákvæði og lögskýringargögn með því. Þykja viðbárur kærenda um efnahagslegan ábata af lánveitingunni engu fá breytt í því sambandi.

Eins og fram er komið leit ríkisskattstjóri svo á að umræddum fjármunum hefði í raun verið ráðstafað til kærenda og að umræddar greiðslur teldust til skattskyldra tekna hjá kærendum sem laun í skattframtali þeirra árið 2021, sbr. 3. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Hvað sem líður síðari ráðstöfun kærenda á fjármunum til dóttur þeirra verður eins og atvikum málsins er háttað að telja að rétt hafi verið að beina málinu að kærendum. Eftir orðalagi nefnds ákvæðis 3. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 teljast til tekna sem laun „lán til starfsmanna sem óheimil eru samkvæmt lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög“. Eins og fram er komið var kærandi, A, framkvæmdastjóri og prókúruhafi K ehf. á því tímabili sem í málinu greinir og kærandi, B, stjórnarmaður þess. Litið hefur verið svo á í úrskurðaframkvæmd yfirskattanefndar að skýra beri ákvæði 3. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 til samræmis við 2. mgr. 11. gr. laganna þannig að fyrrnefnda ákvæðið taki til starfsmanns sem jafnframt er hluthafi. Að þessu athuguðu og með samanburðarskýringu á 3. mgr. 1. tölul. og 2. mgr. 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. og 2. mgr. 11. gr. þeirra laga, hefur almennt verið litið svo á að fara beri með úthlutun verðmæta sem launatekjur samkvæmt hinu fyrrnefnda ákvæði án tillits til þess hvort hluthafi, sem jafnframt er starfsmaður, hafi í raun tilfært reiknuð laun frá félaginu. Í kæru til yfirskattanefndar er ekkert vikið að störfum kærenda hjá K ehf. og liggur ekkert fyrir um vinnuframlag þeirra í þágu félagsins á árinu 2020 að öðru leyti en því að kærendur voru skráðir fyrirsvarsmenn félagsins, sbr. hér að framan. Að teknu tilliti til þessa og þar sem engin athugasemd er gerð af hálfu kærenda við þetta atriði þykir ekki ástæða til að hrófla við niðurstöðu ríkisskattstjóra um skattlagningu hjá kærendum á grundvelli 3. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003.

Samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 má ríkisskattstjóri bæta 25% álagi við áætlaða eða vantalda skattstofna séu annmarkar á framtali, sbr. 96. gr., eða einstakir liðir ranglega fram taldir. Bæti skattaðili úr annmörkum eða leiðrétti einstaka liði á framtali áður en álagning fer fram, má ríkisskattstjóri þó eigi beita hærra álagi en 15%. Samkvæmt 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 skal fella niður álag samkvæmt lagagrein þessari ef skattaðili færir rök að því að honum verði ekki kennt um annmarka á framtali eða vanskil þess, að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann skilaði framtali á réttum tíma, bætti úr annmörkum á framtali eða leiðrétti einstaka liði þess. Þegar litið er til þeirra annmarka sem voru á skattskilum kærenda umrætt ár, þar sem engin grein var gerð fyrir skattskyldu greiðslna frá K ehf., þykja ekki efni til að falla frá beitingu álags í tilviki kærenda, enda þykir hvorki hafa verið sýnt fram á af þeirra hálfu að atvikum sé svo farið að 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 eigi við þannig að fella beri álagið niður né að tilefni sé til að falla frá álagsbeitingu að öðru leyti. Með vísan til framangreinds er kröfum kærenda hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kærenda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja