Úrskurður yfirskattanefndar
- Reiknað endurgjald
- Greiðslur frá alþjóðastofnun
- Starfssamband
Úrskurður nr. 28/2025
Gjaldár 2021, 2022 og 2023
Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 1. tölul. 2. mgr., 30. gr. 1. mgr. A-liður 2. tölul., 58. gr., 118. gr. Reglur um reiknað endurgjald tekjuárin 2020, 2021 og 2022.
Kærandi var eigandi og framkvæmdastjóri R ehf. og starfaði á vegum félagsins í þágu T, alþjóðastofnunar. Deilt var um ákvörðun reiknaðs endurgjalds kæranda vegna þeirrar vinnu. Vegna athugasemda kæranda um að hann hefði í raun verið gerviverktaki hjá T og að virða bæri greiðslur til R ehf. vegna starfa hans sem launatekjur er tilheyrðu kæranda sjálfum en ekki R ehf. kom fram í úrskurði yfirskattanefndar að til grundvallar störfunum hefði legið verksamningur milli erlends félags, C, og R ehf., en R ehf. hefði verið undirverktaki C við verkefni í þágu T. Hefðu greiðslur C verið færðar til tekna í skattskilum R ehf. til samræmis við það. Var enginn grundvöllur talinn vera fyrir því að telja greiðslur C tilheyra kæranda sjálfum sem launatekjur hans. Reiknað endurgjald kæranda tekjuárið 2020 var hins vegar lækkað þar sem fallist var á sjónarmið kæranda um að viðmiðunarflokkur A(9) í reglum um reiknað endurgjald gæti átt við í tilviki hans umrætt tekjuár í stað viðmiðunarflokks A(6) sem ríkisskattstjóri miðaði við.
Ár 2025, fimmtudaginn 20. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 104/2024; kæra A, dags. 27. júní 2024, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárin 2021, 2022 og 2023. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Með kæru, dags. 27. júní 2024, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 4. apríl 2024, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2021, 2022 og 2023. Með úrskurðinum hækkaði ríkisskattstjóri reiknað endurgjald kæranda vegna vinnu á vegum R ehf. um 3.000.000 kr. tekjuárið 2020, um 5.400.000 kr. tekjuárið 2021 og um 1.700.000 kr. tekjuárið 2022. Við ákvörðun fjárhæðar reiknaðs endurgjalds kæranda tók ríkisskattstjóri mið af viðmiðunarflokki A(6) í reglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald. Við hækkun tekjuskatts- og útsvarsstofns kæranda gjaldárin 2021, 2022 og 2023, sem af breytingum þessum leiddi, bætti ríkisskattstjóri 25% álagi samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Af hálfu kæranda er þess krafist að ákvörðun ríkisskattstjóra verði endurskoðuð.
II.
Málavextir eru þeir að kærandi er framkvæmdastjóri R ehf. og eigandi alls hlutafjár í félaginu. Í skattframtölum sínum árin 2021 og 2022 tilfærði kærandi laun frá félaginu að fjárhæð 5.300.000 kr. fyrra árið og 1.500.000 kr. það síðara, en í skattframtali kæranda árið 2023 voru engin laun frá félaginu færð til tekna.
Með bréfi til kæranda, dags. 26. september 2023, óskaði ríkisskattstjóri með vísan til 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, eftir skýringum og gögnum frá kæranda. Óskaði ríkisskattstjóri eftir upplýsingum um hvernig laun kæranda hjá R ehf. hefðu verið ákveðin, en fram þyrfti að koma hvert hefði verið umfang og eðli starfs kæranda. Þá skyldi upplýst um við hvaða flokk viðmiðunarreglna ríkisskattstjóra vegna reiknaðs endurgjalds starf kæranda hjá félaginu félli. Ef kærandi teldi starfshlutfall sitt vera minna en 100% þyrfti að styðja það með gögnum. Þá þyrfti sérstaklega að rökstyðja hvort tekjur félagsins byggðu á öðru en vinnuframlagi/útseldri vinnu kæranda. Rakti ríkisskattstjóri ákvæði laga nr. 90/2003 um reiknað endurgjald, þar á meðal 2. mgr. A-lið 7. gr., sbr. 58. gr. laganna.
Í tölvupósti kæranda til ríkisskattstjóra 4. október 2023 kom fram að starfsemi R ehf. hefði verið tvíþætt á árunum 2019-2022, þ.e. annars vegar verktakavinna fyrir alþjóðastofnunina T sem kærandi hefði sjálfur sinnt og hins vegar nýsköpunarverkefni sem hefðu verið á könnu dóttur kæranda og tengdasonar. Kærandi hefði því aðeins reiknað sér laun fyrir vinnu hjá T. Gerði kærandi tölulega grein fyrir greiðslum frá T á árunum 2019-2022 og kom fram að kærandi hefði verið starfsmaður T á árunum 2019 og 2022, en á árunum 2020 og 2021 hefði kærandi annast verktakavinnu hjá T á vegum R ehf. Við ákvörðun reiknaðs endurgjalds síðarnefnd ár hefði kærandi tekið mið af viðmiðunarflokki A(9) í reglum um reiknað endurgjald.
Í kjölfar frekari bréfaskipta, sbr. bréf ríkisskattstjóra til kæranda, dags. 25. október 2023, og tölvupóst kæranda 5. nóvember 2023, boðaði ríkisskattstjóri kæranda með bréfi, dags. 5. mars 2024, endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2021, 2022 og 2023, sbr. ákvæði 1. og 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, vegna fyrirhugaðrar hækkunar reiknaðs endurgjalds úr 5.300.000 kr. í 8.300.000 kr. tekjuárið 2020, úr 1.500.000 kr. í 6.900.000 kr. tekjuárið 2021 og úr 0 kr. í 1.700.000 kr. tekjuárið 2022. Af hálfu kæranda var boðuðum breytingum ríkisskattstjóra mótmælt með tölvupósti 18. mars 2024. Með úrskurði, dags. 4. apríl 2024, hratt ríkisskattstjóri hinni boðuðu endurákvörðun í framkvæmd, sbr. 1. og 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, enda væri það mat embættisins að ekkert hefði komið fram sem kallaði á að falla bæri frá boðaðri endurákvörðun.
III.
Í úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 4. apríl 2024, sbr. einnig umfjöllun í boðunarbréfi, var gerð grein fyrir upplýsinga- og gagnaöflun embættisins og helstu réttarheimildum sem á reyndi í málinu. Tók ríkisskattstjóri fram að málið varðaði réttmæti framtalsskila kæranda gjaldárin 2021, 2022 og 2023 vegna reiknaðra launa kæranda hjá einkahlutafélagi í hans eigu, R ehf., á árunum 2020, 2021 og 2022. Kærandi hefði verið framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi félagsins og eigandi alls hlutafjár í því. Þá hefðu starfsmenn félagsins verið tveir til þrír á greindum árum, þ.e. kærandi, dóttir hans og tengdasonur. Vegna eigna- og stjórnunartengsla kæranda og félagsins hefði honum borið að reikna sér endurgjald vegna starfa sinna á vegum félagsins, sbr. 2. mgr. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 og 1. og 2. mgr. 58. gr. sömu laga.
Rekstrartekjur R ehf. hefðu numið 33.908.946 kr. rekstrarárið 2020, 34.490.676 kr. rekstrarárið 2021 og 31.056.944 kr. rekstrarárið 2022, en þar af hefðu tekjur frá T numið 125.400 evrum eða um það bil 19.462.080 kr. á árinu 2020, 88.977 evrum eða um það bil 13.061.824 kr. á árinu 2021 og 23.825 evrum eða 3.330.735 kr. á árinu 2022. Samkvæmt skattframtölum kæranda hefði hann fengið launagreiðslur frá T að fjárhæð 12.059.052 kr. á árinu 2019 og 7.906.574 kr. á árinu 2022. Það væri álit ríkisskattstjóra að með tilliti til eðlis og umfangs hluta rekstrar félagsins, þ.e. að teknu tilliti til fjárhæða og reglulegra greiðslna frá T, að reiknað endurgjald kæranda ætti að taka mið af viðmiðunarflokki A(6) í reglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald tekjuárin 2020, 2021 og 2022, sbr. auglýsingar nr. 1222/2019, 1430/2020 og 1504/2021, en undir þann flokk féllu sérfræðingar sem störfuðu einir og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag samsvöruðu árslaunum eins starfsmanns. Þá yrði að miða endurgjald kæranda við fullt starf árin 2020 og 2021 og þrjá mánuði árið 2022, enda hefðu ekki komið fram nein gögn eða rök fyrir öðru en að miða í því sambandi við heildartekjur frá T samkvæmt útgefnum reikningum. Samkvæmt rekstrarreikningum R ehf. væru tekjur félagsins frá T eingöngu til komnar vegna útseldrar vinnu kæranda sem verið hefði einu launaði starfsmaður félagsins þegar kom að verkefnum fyrir T. Þá yrði að líta til þess að kærandi væri framkvæmdastjóri félagsins. Ekki yrði séð að flokkur A(9) gæti átt við um kæranda þar sem sá flokkur tæki aðeins til þeirra sem væru að hefja sjálfstæða starfsemi í fyrsta sinn. Til að gæta meðalhófs yrði þó miðað við lægri fjárhæðir en sem næmi lágmarksfjárhæðum samkvæmt viðmiðunarflokki A(6). Hækkun reiknaðra launa kæranda yrði því 3.000.000 kr. árið 2020, 5.400.000 kr. árið 2021 og 1.700.000 kr. árið 2022.
Í tilefni af andmælum kæranda tók ríkisskattstjóri fram að ákvæði um skattfrelsi launatekna manna frá alþjóðastofnunum eða ríkjasamtökum í 2. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003 gæti ekki átt við í tilviki kæranda þar sem um væri að tefla tekjur lögaðila af atvinnurekstri, þ.e. verktakatekjur T ehf. Þá yrði ekki fallist á með kæranda að líta mætti svo á að kærandi hefði verið gerviverktaki hjá T, enda lægi fyrir samkvæmt samningi T og einkahlutafélagsins og útgefnum reikningum félagsins að félagið hefði tekið að sér verktöku fyrir stofnunina. Um beitingu 25% álags kom fram að ekki yrði litið svo á að kæranda yrði ekki kennt um þá annmarka sem hefðu verið á skattframtölum hans með tilliti til reiknaðs endurgjalds.
IV.
Í kæru til yfirskattanefndar kemur fram að lögð sé á það áhersla af hálfu kæranda að um sé að ræða gerviverktöku í hans tilviki þar sem framkvæmd samnings vegna starfa hans í þágu T hafi alfarið verið eins og um ráðinn starfsmann T væri að ræða. Er vísað til meðfylgjandi starfslýsingar frá T í því sambandi sem beri glöggt með sér að um vinnusamning hafi verið að tefla þrátt fyrir form samningsins. Þannig hafi verið um að ræða vinnu fyrir einn aðila, T hafi lagt til vinnuaðstöðu, tækjakost o.fl., kærandi verið skuldbundinn til að inna vinnuna af hendi persónulega og enga ábyrgð borið á árangri af vinnunni umfram þá ábyrgð sem launamenn beri jafnan, yfirmaður kæranda hafi ákveðið hvar og hvenær vinnan væri unnin og greiðslur fyrir vinnuna hafi tekið mið af tímaskráningu (tímaeiningu). Samkvæmt samningi hafi kæranda borið „að starfa í gegnum félag“ og kærandi því valið nærtækasta kostinn, þ.e. að starfa á vegum félags sem þá hafi verið skráð. Útboðsferli T vegna starfanna hafi haft þann eina tilgang að lágmarka launakostnað vinnuveitanda og firra hann ábyrgð. Þegar öllu sé á botninn hvolft sé því um gerviverktöku að ræða.
Í ýmsum úrskurðum yfirskattanefndar hafi verið fjallað um slíka gerviverktöku, sbr. t.d. úrskurði nr. 43/2016, 223/2013 og 41/2012, og ítrekað komið fram að ekki hafi nein úrslitaáhrif við mat á eðli starfssambands hvort samningur sé kallaður vinnusamningur eða verksamningur. Það sé nánari skoðun á samningi og framkvæmd hans sem leiði hið rétta í ljós. Í tilfelli kæranda sé einsýnt að vinnusamningur hafi legið til grundvallar starfi hans og því sé ótækt að hafna því að 2. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003 eigi ekki við um tekjur af starfinu. Þar sem tekjurnar séu í raun sprottnar af vinnusambandi séu þær að fullu frádráttarbærar á grundvelli ákvæðisins. Sé þess því krafist að hin kærða ákvörðun ríkisskattstjóra verði endurskoðuð til samræmis.
V.
Með bréfi, dags. 22. ágúst 2024, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 23. ágúst 2024, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og kæranda gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.
VI.
Kæran í máli þessu varðar úrskurð ríkisskattstjóra, dags. 4. apríl 2024, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2021, 2022 og 2023. Með úrskurðinum hækkaði ríkisskattstjóri reiknað endurgjald kæranda vegna vinnu á vegum R ehf. um 3.000.000 kr. tekjuárið 2020, 5.400.000 kr. tekjuárið 2021 og 1.700.000 kr. tekjuárið 2022. Eins og fram er komið var kærandi á þeim tíma sem málið varðar eigandi R ehf. og framkvæmdastjóri félagsins. Í skattframtölum sínum árin 2021 og 2022 tilfærði kærandi laun frá félaginu að fjárhæð 5.300.000 kr. fyrra árið og 1.500.000 kr. það síðara, en í skattframtali kæranda árið 2023 voru engin laun frá félaginu færð til tekna. Ríkisskattstjóri taldi að atvikum væri svo farið að kæranda bæri að reikna sér endurgjald vegna starfa sinna hjá félaginu, sbr. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og áleit að hin tilfærðu laun væru lægra endurgjald en ef kærandi hefði innt starfið af hendi fyrir óskyldan eða ótengdan aðila, sbr. áskilnað lagaákvæðisins. Við ákvörðun fjárhæðar reiknaðs endurgjalds kæranda vegna vinnu á vegum félagsins tók ríkisskattstjóri mið af viðmiðunarflokki A(6) í reglum um reiknað endurgjald á tekjuárunum 2020, 2021 og 2022, sbr. auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda nr. 1222/2019, 1430/2020 og 1504/2021, þó þannig að embættið miðaði við nokkru lægri fjárhæðir reiknaðra launa en reglurnar gera ráð fyrir og vísaði í því sambandi til meðalhófs. Þá miðaði ríkisskattstjóri við að um fullt starf kæranda hefði verið að ræða árin 2020 og 2021 og þrjá fyrstu mánuði ársins 2022, sbr. umfjöllun hér að framan í kafla II. Ákvarðaði ríkisskattstjóri reiknað endurgjald kæranda með 8.300.000 kr. gjaldárið 2021, 6.900.000 kr. gjaldárið 2022 og 1.700.000 kr. gjaldárið 2023.
Grundvallarákvæðið um reiknað endurgjald og sköttunarheimild þess til tekjuskatts er 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, að því er varðar útsvar. Samkvæmt nefndu ákvæði laga nr. 90/2003 ber þeim manni, sem vinnur við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, að telja sér til tekna eigi lægra endurgjald fyrir starf sitt og hefði hann innt það af hendi fyrir óskyldan eða ótengdan aðila. Sama gildir um vinnu við atvinnurekstur eða starfsemi sem rekin er í sameign með öðrum og einnig um vinnu manns við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann er ráðandi aðili vegna eignar- eða stjórnunaraðildar. Í 58. gr. laga nr. 90/2003 eru ákvæði um vefengingu ríkisskattstjóra á tilfærðu reiknuðu endurgjaldi af hendi skattaðila, ákvarðanir ríkisskattstjóra í því sambandi og viðmiðanir og skorður sem þessu ákvörðunarvaldi eru settar. Í 1. mgr. 58. gr. laga nr. 90/2003 kemur fram að ríkisskattstjóri skuli árlega við upphaf tekjuárs setja reglur um reiknað endurgjald og birta þær að fenginni staðfestingu ráðherra. Við ákvörðun lágmarksendurgjalds skuli höfð hliðsjón af raunverulegum tekjum fyrir sambærileg störf. Í 2. mgr. 58. gr. laga nr. 90/2003 er tekið fram að færi maður sér til tekna á framtali lægra endurgjald en áskilið sé í reglum ríkisskattstjóra, sbr. 1. mgr., skuli ríkisskattstjóri hækka endurgjaldið, óháð ákvörðun á staðgreiðsluári, enda hafi framteljandi ekki lagt fram fullnægjandi gögn og rökstuðning með skattframtali sem honum beri að gera ótilkvöddum. Ríkisskattstjóra sé heimilt að fallast á lægra endurgjald en viðmiðunarreglur þessar kveði á um, enda liggi fyrir viðhlítandi gögn og rökstuðningur framteljanda og eftir atvikum launagreiðanda sem réttlætt geti slíka ákvörðun. Skuli framteljandi m.a. láta í té upplýsingar um umfang og eðli starfs og starfsemi, afkomu rekstrarins, fjármagn bundið í rekstri og upplýsingar um útselda vinnu eftir því sem það eigi við. Samkvæmt 4. mgr. 58. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 3. gr. laga nr. 73/2011, skulu ákvæði 1. og 2. mgr. greinarinnar gilda um starf á vegum lögaðila eftir því sem við getur átt, enda vinni maður við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann, maki hans, barn eða nákomnir ættingjar hafa ráðandi stöðu vegna eignar- eða stjórnunaraðildar, þó ekki ef um er að ræða starf á vegum lögaðila sem skráður er á skipulegum markaði.
Fram er komið að R ehf. var að öllu leyti í eigu kæranda á þeim tíma sem málið varðar. Ljóst er því að kæranda bar að reikna sér endurgjald vegna vinnu sinnar á vegum einkahlutafélagsins, sbr. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. og 4. mgr. 58. gr. laganna. Í tölvupósti til ríkisskattstjóra 4. október 2023 greindi kærandi frá því að starfsemi félagsins hefði verið tvíþætt þau ár sem málið tekur til, þ.e. annars vegar verktakavinna fyrir T sem kærandi einn hefði sinnt og hins vegar nýsköpunarverkefni sem hefðu verið á könnu dóttur kæranda og tengdasonar. Síðarnefnd starfsemi hefði verið meginstarfsemi félagsins og kærandi sjálfur ekkert komið að henni. Hefði kærandi því aðeins reiknað sér endurgjald vegna starfa í þágu T. Um þau störf er komið fram af hálfu kæranda, sbr. m.a. tölvupóst 30. janúar 2024, að hann hafi starfað hjá … á árinu 2019 í tengslum við starfsemi T erlendis, en frá og með árinu 2023 hafi kærandi starfað hjá einni af undirstofnunum T. Með tölvupósti til ríkisskattstjóra 5. nóvember 2023 fylgdu útgefnir sölureikningar R ehf. vegna þessara verkefna á árunum 2020, 2021 og 2022. Kemur fram í tölvupóstinum að reikningarnir hafi verið gefnir út á hendur C sem hafi verið aðalverktaki gagnvart T. R ehf. hafi verið undirverktaki þess félags vegna verkefnastjórnunar hjá … sem sé undirstofnun T. Í reynd hafi kærandi verið eins og hver annar starfsmaður T. Í úrskurði ríkisskattstjóra er rakið að greiðslur til R ehf. vegna starfa kæranda hafi numið alls 125.400 evrum á árinu 2020, 88.977 evrum á árinu 2021 og 23.825 evrum á árinu 2022 samkvæmt útgefnum reikningum.
Út af fyrir sig er ekki ágreiningur um það í málinu að kæranda hafi borið að reikna sér endurgjald vegna vinnu á vegum R ehf. þau ár sem málið tekur til. Krafa kæranda um endurskoðun á ákvörðun ríkisskattstjóra er hins vegar byggð á því að hinar umdeildu greiðslur C til R ehf. vegna starfa kæranda séu í raun sprottnar af vinnusambandi kæranda við T þannig að virða beri þær sem launatekjur samkvæmt 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 er tilheyri kæranda sjálfum en ekki R ehf. Af því leiði jafnframt að tekjurnar séu skattfrjálsar á grundvelli 1. málsl. 2. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003 er mælir fyrir um frádráttarbærni launatekna sem greiddar eru embættismönnum, fulltrúum og öðrum starfsmönnum sem starfa hjá alþjóðastofnunum eða ríkjasamtökum, enda sé kveðið á um skattfrelsið í samningum sem Ísland er aðili að. Er tekið fram í kæru að starfslýsing vegna starfs kæranda hjá …, sem fylgi kærunni, beri með sér ýmis atriði sem séu til marks um að greiðslurnar hafi í raun verið launagreiðslur en ekki grundvallast á verksamningi milli félaganna tveggja. Þannig sé um að ræða vinnu fyrir einn og sama aðila, þ.e. T, sem lagt hafi til vinnuaðstöðu og allan búnað, kærandi hafi verið skuldbundinn til að inna vinnuna af hendi í eigin persónu og enga ábyrgð borið á vinnunni umfram venjulega ábyrgð launamanna, hann hafi verið undirseldur húsbóndavaldi T og yfirmanna T og greiðslur fyrir störfin miðast við tímaeiningu.
Af hálfu kæranda er komið fram að störf hans í þágu T á því tímabili sem um ræðir hafi komið til í kjölfar útboðs T á hlutaðeigandi verkefnum. Er sú lýsing í samræmi við önnur gögn málsins, sbr. tilboðsbeiðni (e. „Request for Quotation“), dags. 9. nóvember 2018, vegna verkefnastjórnunar o.fl., sem nefnd er starfslýsing í kæru, og staðlaða samningsskilmála …, dags. 16. október 2014 (e. „Contract General Provisions“), en gögn þessi lágu fyrir ríkisskattstjóra við meðferð málsins. Er þannig ljóst að til grundvallar störfunum lá verksamningur milli hins erlenda félags, C, og R ehf., enda hefur kærandi greint frá því að hið síðarnefnda félag hafi verið undirverktaki þess fyrrnefnda við greind verkefni í þágu T, sbr. samning (e. „Subcontract Agreement“), dags. 28. desember 2019. Byggja greiðslur hins erlenda félags C á þeim samningi og fóru fram á grundvelli mánaðarlegra sölureikninga R ehf. Til samræmis við framangreint voru greiðslurnar færðar til tekna í skattskilum R ehf. vegna áranna 2020, 2021 og 2022. Að framangreindu athuguðu verður ekki talið að neinn grundvöllur sé fyrir því að telja umræddar greiðslur hins erlenda félags tilheyra kæranda sjálfum sem launatekjur hans samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Verður því að hafna kröfu kæranda þar að lútandi.
Rétt þykir hins vegar að víkja að ákvörðun viðmiðunarflokks reiknaðs endurgjalds í tilviki kæranda, en eins og hér að framan greinir tók ríkisskattstjóri í því sambandi mið af viðmiðunarflokki A(6) í reglum um reiknað endurgjald á tekjuárunum 2020, 2021 og 2022, sbr. auglýsingar nr. 1222/2019, 1430/2020 og 1504/2021 í B-deild Stjórnartíðinda, þó með þeim hætti að ríkisskattstjóri miðaði við lægri fjárhæðir reiknaðra launa en sá flokkur gerir ráð fyrir. Með tölvupósti til ríkisskattstjóra 18. mars 2024 gerði kærandi þá athugasemd við þetta að miða bæri við viðmiðunarflokk A(9) tekjuárið 2020 þar sem um væri að ræða fyrsta ár kæranda í sjálfstæðri starfsemi, en hann hefði áður starfað sem launamaður hjá T á árinu 2019.
Samkvæmt reglum um reiknað endurgjald tekjuárið 2020, sbr. auglýsingu nr. 1222, 9. desember 2019 í B-deild Stjórnartíðinda, tekur viðmiðunarflokkur A í reglum þessum til „sérfræðiþjónustu“. Flokkur þessi skiptist í nokkra undirflokka eftir umsvifum og fjölda starfsmanna. Sérfræðingar, þó ekki þeir sem falla undir flokka A(2)-A(5) í reglunum, sem starfa einir og greiðslur samkvæmt reikningum fyrir aðkeypt vinnuframlag samsvara árslaunum eins starfsmanns, falla undir viðmiðunarflokk A(6) tekjuárið 2020. Árslaun samkvæmt þessum flokki nema 10.980.000 kr. Eins og fram er komið taldi ríkisskattstjóri þann viðmiðunarflokk eiga við í tilviki kæranda þau ár sem málið tekur til og er út af fyrir sig ekki ágreiningur um það nema að því er snertir tekjuárið 2020. Viðmiðunarflokkur A(9) í reglunum tekur til sérfræðinga sem eru að hefja starfsemi og starfa einir eða með einum starfsmanni. Er tekið fram í reglunum að undir þann flokk heyri einungis þeir sem eru að hefja sjálfstæða starfsemi í fyrsta sinn, og einungis í eitt ár frá upphafi starfseminnar. Í boðunarbréfi ríkisskattstjóra kom það eitt fram varðandi þetta að ekki yrði séð að flokkur A(9) ætti við um kæranda, án þess að gerð væri nánari grein fyrir ástæðum þess. Úrskurður ríkisskattstjóra er sama marki brenndur að þessu leyti, enda kom þar ekki annað fram en að reiknað endurgjald kæranda tekjuárið 2020 hefði verið ákvarðað með lægri fjárhæð en sem næmi viðmiðunarfjárhæð samkvæmt flokki A(9). Af gögnum málsins verður ekki annað séð en að athugasemdir kæranda um upphaf þess rekstrarþáttar R ehf. sem um ræðir eigi við rök að styðjast þannig að viðmiðunarflokkur A(9) geti átt við í tilviki kæranda tekjuárið 2020, enda verður ekki talið að launuð störf kæranda á vegum T á árinu 2019 girði fyrir það. Að þessu virtu og eins og málið liggur fyrir með tilliti til þessa og rökstuðningi ríkisskattstjóra var háttað þykir mega fallast á með kæranda að flokkur A(9) eigi við í hans tilviki umrætt tekjuár. Við ákvörðun reiknaðra launa kæranda miðaði ríkisskattstjóri við um 75% viðmiðunarfjárhæðar samkvæmt flokki A(6) eða 8.300.000 kr. Miðað við sama hlutfall af viðmiðunarfjárhæð samkvæmt flokki A(9) þykir reiknað endurgjald kæranda tekjuárið 2020 því hæfilega ákvarðað 6.900.000 kr. og lækkar því um 1.400.000 kr. frá því sem ákveðið var með hinum kærða úrskurði. Að öðru leyti er kröfum kæranda hafnað.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Reiknað endurgjald kæranda ákvarðast 6.900.000 kr. gjaldárið 2021 og lækkar því um 1.400.000 kr. frá því sem ríkisskattstjóri ákvað. Að öðru leyti er kröfum kæranda í máli þessu hafnað.