Úrskurður yfirskattanefndar

  • Endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna uppsetningar hleðslustöðvar

Úrskurður nr. 19/2025

Lög nr. 50/1988, 42. gr. 2. mgr., bráðabirgðaákvæði XXXII (brl. nr. 154/2019, 2. gr.)   Reglugerð nr. 449/1990, 4. gr.  

Í máli þessu vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna uppsetningar hleðslustöðvar fyrir bifreiðar var ekki talið að efniskostnaður vegna staura, brunnloks o.fl. gæti komið til álita þar sem endurgreiðsluheimild virðisaukaskattslaga tæki samkvæmt orðanna hljóðan aðeins til virðisaukaskatts af hleðslustöðinni sjálfri. Kröfu um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna jarðvinnu og kjarnaborunar var vísað frá yfirskattanefnd að svo stöddu þar sem ekki lá fyrir staðfesting seljanda þjónustu á skiptingu kostnaðar vegna þeirra liða eða nánari lýsing seljanda á þeirri vinnu sem innt var af hendi.

            Ár 2025, fimmtudaginn 20. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 148/2024; kæra A, húsfélags, dags. 2. október 2024, vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts. Í málinu úrskurða Þórarinn Egill Þórarinsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :

I.

            Kæruefni í máli þessu, sem barst yfirskattanefnd með kæru, dags. 2. október 2024, er sú ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 12. júlí 2024, að synja beiðni kæranda samkvæmt umsókn félagsins frá 2. apríl 2024 um endurgreiðslu virðisaukaskatts að fjárhæð 201.890 kr., sbr. 1. og 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXXII í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 2. gr. laga nr. 154/2019, um breytingu á ýmsum lögum um skatta (vistvæn ökutæki o.fl.), sbr. og 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988. Í kæru til yfirskattanefndar er þess krafist að ákvörðun ríkisskattstjóra verði hnekkt og að fallist verði á umkrafða endurgreiðslu virðisaukaskatts.

II.

            Með endurgreiðslubeiðni til ríkisskattstjóra, dags. 2. apríl 2024, fór kærandi fram á endurgreiðslu virðisaukaskatts að fjárhæð 360.561 kr. á grundvelli 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. reglugerð nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði. Til grundvallar beiðni þessari lá sölureikningur frá Ísorku ehf., dags. 31. desember 2023, þar sem verkþættir og vöruliðir voru tilgreindir á eftirfarandi hátt: 1) ALFEN ICU EVE MINI (2 stk.) heildarverð 559.800 kr. (virðisaukaskattur 108.348 kr.), 2) ONEPOLE f. 2 Alfen mini (1  stk.) heildarverð 112.500 kr. (virðisaukaskattur 21.774 kr.), 3) UNIMI AC Undirstaða steypt (2 stk.) heildarverð 163.800 kr. (virðisaukaskattur 31.703 kr.), 4) Unimi staurafesting f. ONEPOLE staura (1 stk.) heildarverð 41.900 kr. (virðisaukaskattur 8.110 kr.), 5) Brunnlok f. Unimi AC undirstöður (1 stk.) heildarverð 25.900 kr. (virðisaukaskattur 5.013 kr.), 6) Uppsetning á staur og stöðvum (2 stk.) heildarverð 260.000 kr. (virðisaukaskattur 50.323 kr.) og 7) jarðvinna+kjarnaborun út=áætlun (1 stk.) heildarverð 699.000 kr. (virðisaukaskattur 135.290 kr.). Samkvæmt umsókninni var um að ræða beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa á rafhleðslustöðvum.

Ríkisskattstjóri afgreiddi beiðnina með bréfi, dags. 12. júlí 2024, og synjaði henni að hluta þannig að fjárhæð til endurgreiðslu var lækkuð um 201.890 kr. Tók ríkisskattstjóri fram að fallist væri á endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa kæranda á hleðslustöðvum (ALFEN ICU EVE MINI) að fjárhæð 108.348 kr. og vegna vinnu við uppsetningu á staur og stöðvum að fjárhæð 50.323 kr.

Gerði ríkisskattstjóri grein fyrir því að endurgreiðsluheimild 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða nr. XXXII með lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, tæki til kaupa á hleðslustöðinni sjálfri en ekki til efnis eða annarra vara sem keyptar væru í tengslum við kaup á hleðslustöðvum. Því væru ekki forsendur til að fallast á beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa á staur, undirstöðum, festingum eða brunnloki. Þá varðaði beiðnin ekki að öllu leyti kaup á hleðslustöð eða hleðslustöðvum, en fram væri komið að keyptar hefðu verið undirstöður svo möguleiki væri á að fjölga hleðslustöðvum síðar.

Hvað varðaði verkþáttinn „jarðvinna+kjarnaborun út=áætlun“ yrði ekki annað ráðið en að um væri að ræða vinnu sem allavega að hluta til hefði verið unnin með vinnuvélum sem skráningarskyldar væru í vinnuvélaskrá, sbr. 2. tölul. 4. gr. reglugerðar nr. 449/1990. Teldist slík vinna ekki til vinnu manna á byggingarstað, hvorki í skilningi 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 né 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða nr. XXXII við lögin. Engin gögn hefðu verið lögð fram sem gæfu annað til kynna. Endurgreiðslubeiðnir samkvæmt 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 skyldu samkvæmt 1. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 449/1990, að því er aðkeypta þjónustu varðaði, byggjast á sölureikningum er fullnægðu skilyrðum reglugerðar nr. 50/1993. Ef um væri að ræða kaup annars vegar á vinnu á byggingarstað, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 449/1990, og hins vegar á efni, vinnuvélaþjónustu eða vinnu sem um ræddi í 4. gr. reglugerðarinnar, skyldu þessir þættir skýrt aðgreindir og sala vinnu á byggingarstað, sbr. 3. gr., tilgreind sérstaklega. Við útgáfu sölureiknings skyldi samkvæmt 3. tölul. 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 50/1993, sbr. einnig 1. mgr. 20. gr. laga nr. 50/1988, meðal annars færa á hann upplýsingar um tegund sölu, þ.e. lýsingu á hinu selda. Ekki væru samkvæmt framansögðu forsendur samkvæmt 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 og 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða nr. XXXII við lögin, sbr. reglugerð nr. 449/1990, til að fallast á umbeðna endurgreiðslu að fjárhæð 135.290 kr. vegna umrædds verkþáttar.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar kemur fram að kæran lúti að ákvörðun ríkisskattstjóra um lækkun endurgreiðslufjárhæðar virðisaukaskatts, sbr. umsókn kæranda þar um. Kærandi, sem sé húsfélag, hafi sótt um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna reiknings frá Ísorku ehf. vegna vinnu við kaup og uppsetningu á hleðslustöðvum fyrir rafmagnsbíla á lóð hússins. Til stuðnings kröfu sinni vísar kærandi til útgefins bæklings ríkisskattstjóra, „Leiðbeiningar um virðisaukaskatt“, sem gefinn hafi verið út í mars 2022, og 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis nr. XXXII við lög nr. 50/1988, sbr. 2. gr. laga nr. 154/2019. Telji kærandi undirstöður, staurafestingar og brunnlok vera nauðsynlega hluta hleðslustöðvarinnar og því beri að fallast á beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna þessara þátta. Er tekið fram að kærandi hafi keypt tvær undirstöður svo hægt væri að bæta við staur seinna og myndi kærandi því sætta sig við að fá helming endurgreiddan vegna þessa liðar. Þá er sérstaklega mótmælt ákvörðun ríkisskattstjóra að hafna endurgreiðslu vegna jarðvinnu og kjarnaborunar. Vísar kærandi um þetta til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 149/2022. Í úrskurðinum komi skýrt fram sá skilningur ríkisskattstjóra að endurgreiða skuli virðisaukaskatt af jarðvinnu við uppsetningu hleðslustöðvar.

IV.

Með bréfi, dags. 15. nóvember 2024, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að ákvörðun embættisins verði staðfest með vísan til forsendna hennar, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðuninni.

            Með tölvupósti til yfirskattanefndar 27. nóvember 2024 hefur kærandi komið á framfæri athugsemdum vegna umsagnar ríkisskattstjóra og ítrekað röksemdir í kæru.

V.

Ágreiningsefni í máli þessu er sú ákvörðun ríkisskattstjóra að synja kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts að fjárhæð 201.890 kr. af reikningi frá Ísorku ehf., dags. 31. desember 2023, vegna kaupa og uppsetningar rafhleðslustöðva við fjölbýlishús. Samkvæmt endurgreiðslubeiðni kæranda var reikningurinn vegna kaupa á hleðslustöðvum, staur, undirstöðum, staurafestingu og brunnloki, en einnig vegna uppsetningar, jarðvinnu og kjarnaborunar. Nam fjárhæð sölureikningsins 1.862.900 kr., þar af virðisaukaskattur 360.561 kr. Féllst ríkisskattstjóri á endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa á hleðslustöðvum og vegna vinnu við uppsetningu á staur og stöðvum að fjárhæð samtals 158.671 kr. Af hálfu kæranda er þess krafist að félaginu verði endurgreiddur virðisaukaskattur í samræmi við beiðni félagsins.

Í XIII. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er fjallað um endurgreiðslu virðisaukaskatts. Í 2. mgr. 42. gr. laganna, svo sem ákvæðið hljóðaði á síðari hluta ársins 2023, segir að endurgreiða skuli byggjendum íbúðarhúsnæðis 35% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað. Jafnframt skuli endurgreiða eigendum íbúðarhúsnæðis 35% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna við endurbætur eða viðhald þess.

Í 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis XXXII í lögum nr. 50/1988, sbr. 2. gr. laga nr. 154/2019, kemur fram að þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 42. gr. laganna sé á tímabilinu frá 1. janúar 2020 til og með 31. desember 2023 heimilt að endurgreiða byggjendum íbúðarhúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafi greitt af vinnu manna á byggingarstað við uppsetningu hleðslustöðvar fyrir bifreiðar í eða við íbúðarhúsnæði. Jafnframt sé heimilt á sama tímabili að endurgreiða eigendum íbúðarhúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna vegna uppsetningar hleðslustöðvar fyrir bifreiðar í eða við íbúðarhúsnæði. Að öðru leyti gildi ákvæði 2. mgr. 42. gr. á umræddu tímabili. Þá kemur fram í 2. mgr. greinds bráðabirgðaákvæðis að á tímabilinu frá 1. janúar 2020 til og með 31. desember 2023 sé heimilt að endurgreiða virðisaukaskatt vegna kaupa á hleðslustöð fyrir bifreiðar til uppsetningar í eða við íbúðarhúsnæði. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 154/2019 kemur fram að með hleðslustöð sé átt við sérstakan búnað sem notaður sé til þess að hlaða þau hreinorkuökutæki sem ganga fyrir rafmagni, sbr. þskj. 596 á 150. löggjafarþingi 2019-2020.

Í 6. málsl. 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 kemur fram að ráðherra setji með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd endurgreiðslna samkvæmt ákvæðinu. Það hefur verið gert með reglugerð nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði. Kemur fram í reglugerðinni að endurgreiða skuli tiltekið hlutfall virðisaukaskatts sem byggjendur íbúðarhúsnæðis hafi greitt vegna vinnu manna á byggingarstað og sem eigendur íbúðarhúsnæðis hafi greitt vegna vinnu manna við endurbætur eða viðhald þess, sbr. a- og b-lið 1. gr. reglugerðarinnar. Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar kemur fram að endurgreiðsla samkvæmt greindum a-lið 1. gr. taki til virðisaukaskatts vegna allrar vinnu manna sem unnin sé á byggingarstað íbúðarhúsnæðis við nýbyggingu þess, þ.m.t. vinnu við framkvæmdir við lóð hússins, jarðvegslagnir umhverfis hús, girðingar, bílskúra og garðhúsa á íbúðarhúsalóð. Endurgreiðsla samkvæmt b-lið 1. gr. reglugerðarinnar taki á sama hátt til virðisaukaskatts vegna allrar vinnu manna við endurbætur og viðhald íbúðarhúsnæðis. Í 4. gr. reglugerðarinnar er svo tilgreint að þrátt fyrir ákvæði 3. gr. taki endurgreiðsla ekki til virðisaukaskatts sem greiddur sé af vinnu veitufyrirtækja við lagnir að og frá húsi, sbr. 1. tölul. ákvæðisins, og vinnu stjórnenda vinnuvéla, jafnt þungavinnuvéla sem véla iðnaðarmanna o.fl. á byggingarstað, sbr. 2. tölul. ákvæðisins.

Þeir liðir á sölureikningi Ísorku ehf., dags. 31. desember 2023, sem deilt er um fyrir yfirskattanefnd, eru 1) ONEPOLE f. 2 Alfen mini (1  stk.) heildarverð 112.500 kr. (virðisaukaskattur 21.774 kr.), 2) UNIMI AC Undirstaða steypt (2 stk.) heildarverð 163.800 kr. (virðisaukaskattur 31.703 kr.), 3) Unimi staurafesting f. ONEPOLE staura (1 stk.) heildarverð 41.900 kr. (virðisaukaskattur 8.110 kr.), 4) Brunnlok f. Unimi AC undirstöður (1 stk.) heildarverð 25.900 kr. (virðisaukaskattur 5.013 kr.) og 5) „jarðvinna+kjarnaborun út=áætlun“ (1 stk.) heildarverð 699.000 kr. (virðisaukaskattur 135.290 kr.). Samkvæmt því sem fram er komið eru fjórir fyrstu liðirnir vegna efniskostnaðar, annars en kostnaðar vegna kaupa á hleðslustöðvum. Getur því ekki komið til endurgreiðslu virðisaukaskatts af þessum liðum, en eins og fram er komið tekur endurgreiðsluheimild 2. mgr. bráðabirgðaákvæðis XXXII í lögum nr. 50/1988 samkvæmt orðanna hljóðan aðeins til virðisaukaskatts af hleðslustöðinni sjálfri.

Hvað varðar þann lið sölureikningsins sem er með lýsinguna „jarðvinna+kjarnaborun út = áætlun“ er þess að geta að við meðferð málsins var kærandi krafinn um nánari sundurliðun á þessum lið sölureikningsins, sbr. tölvupósta ríkisskattstjóra til kæranda 17. apríl, 15. maí og 29. maí 2024, þar sem kæranda var m.a. tjáð að virðisaukaskattur væri endurgreiddur af kjarnaborun en ekki af jarðvinnu (vélavinnu), sbr. 2. tölul. 4. gr. reglugerðar nr. 449/1990. Ekki hafa verið lögð fram gögn af hálfu kæranda til staðfestingar á skiptingu kostnaðar vegna þessa liðar en í tölvupósti kæranda til ríkisskattstjóra 16. maí 2024 kom fram að kærandi hefði ekki getað fengið sundurliðun frá Ísorku þar sem þetta hefði verið „pakki“ sem hefði verið keyptur. Tekið skal fram vegna tilvísunar kæranda til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 149/2022, þar sem fallist hafi verið á endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna „jarðvinnu“ á sölureikningi frá Ísorku, að við meðferð endurupptökubeiðni kæranda í því máli barst ríkisskattstjóra staðfesting frá Ísorku um að ekki hefði verið unnt að vinna umrætt verk með vinnuvélum vegna mikils fjölda lagna í lóð og því hefði verið notast við skóflu og smærri verkfæri. Lá því óyggjandi fyrir ríkisskattstjóra við afgreiðslu málsins að ekki hefði verið um að ræða slíka vinnu sem fjallað er um í 2. tölul. 4. gr. reglugerðar nr. 449/1990 og fellur utan endurgreiðsluheimildar. Í tilviki kæranda liggur sem fyrr segir ekki fyrir staðfesting seljanda þjónustu á skiptingu kostnaðar samkvæmt þessum lið eða nánari lýsing seljanda á þeirri vinnu sem innt var af hendi. Að þessu athuguðu þykir kæran um þennan kærulið í þeim mæli vanreifuð að ekki verður hjá því komist að vísa henni frá yfirskattanefnd að svo stöddu. Kröfum kæranda er að öðru leyti hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna jarðvinnu og kjarnaborunar er vísað frá yfirskattanefnd að svo stöddu. Að öðru leyti er kröfum kæranda hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja