Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 749/1991
Gjaldár 1990
Lög nr. 75/1981 — 63. gr. — 64. gr. 1. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 2. ml. — 100. gr. 3. og 5. mgr.
Hjón — Sköttun hjóna — Sköttun hjóna á skilnaðarári — Skilnaður — Hjónaskilnaður — Hjúskaparslit — Kröfugerð kæranda — Framtalsháttur — Lögmætisreglan — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Skattmeðferð, hagstæðasta — Hagstæðasta skattmeðferð — Sköttun einstaklings — Ábending ríkisskattanefndar til skattstjóra — Skattframtal tekið sem kæra — Skattframtal í stað áætlunar — Síðbúin framtalsskil
Málavextir eru þeir, að hinn 2. júlí 1990 barst skattstjóra skattframtal kæranda og fyrrverandi eiginmanns hennar árið 1990, en þau hjón skildu í október 1989. Með kæruúrskurði, dags. 8. október 1990, féllst skattstjóri á að leggja hið innsenda skattframtal til grundvallar álagningu opinberra gjalda kæranda og fyrrverandi eiginmanns hennar án álags vegna síðbúinna framtalsskila. Framtal þetta miðaðist við allt árið 1989 þrátt fyrir nefndan skilnað.
Með kæru, dags. 3. nóvember 1990, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Kemur fram hjá kæranda, að hún og fyrrverandi eiginmaður hennar hafi skilað sameiginlegu skattframtali árið 1990 vegna þess, að þau hefðu verið í sambúð meirihluta ársins 1989. Hefði eiginmaðurinn leitað eftir upplýsingum hjá Skattstofu Reykjavíkur um þessa tilhögun og hafi á grundvelli þeirra dregið þá ályktun, að það skaðaði ekki hagsmuni þeirra á neinn hátt. Annað hefði komið í ljós, þar sem sameiginlegt framtal hefði leitt til þess, að af kæranda hefðu verið teknar barnabætur þær, er komið hefðu til útborgunar 1. nóvember 1989. Fer kærandi fram á breytta álagningu, þar sem um skilnað hefði verið að ræða frá og með október 1989.
Með bréfi, dags. 22. maí 1991, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:
„Af 1. mgr. 64. gr. laga nr. 75/1981 verður ekki annað ráðið en að samþykki beggja aðila þurfi til að þau verði skattlögð sem hjón út það ár er slit á hjúskap eða sambúð átti sér stað. Í ljósi þess ber að fallast á kröfu kæranda.“
Engin lagaheimild er til þess að skattleggja kæranda og fyrrverandi eiginmann hennar sem hjón allt árið 1989 eins og skattstjóri hefur ranglega gert á grundvelli skattframtals, sem að þessu leyti var ekki í samræmi við lög. Kröfugerð ríkisskattstjóra í máli þessu er sama marki brennd. Er engin heimild til þeirrar skattmeðferðar, sem þar er reifuð. Í tilviki kæranda og fyrrv. eiginmanns hennar kom tvennt til greina. Annars vegar tekjusköttun eftir reglum þeim, sem gilda um hjón, þann tíma, sem hjúskapur stóð, og eftir reglum um einstaklinga annan tíma, sbr. 1. og 2. ml. 1. mgr. 64. gr. laga nr. 75/1981, og hins vegar tekjusköttun hjá hvoru í sínu lagi allt árið, sbr. lokamálslið 1. mgr. nefndrar lagagreinar. Skilja verður kröfugerð kæranda í máli þessu svo, sbr. og það hvernig framtalsgögn eru lögð fyrir, að hún krefjist síðastnefndrar skattmeðferðar. Eftir öllum atvikum þykir rétt að fallast á kröfu kæranda. Rétt er að skattstjóri hlutaðist til um nýja álagningu á fyrrverandi eiginmann kæranda að lögum.