Úrskurður yfirskattanefndar
- Staðgreiðsla fjármagnstekjuskatts af arði
- Álag vegna staðgreiðsluskila
Úrskurður nr. 38/2025
Lög nr. 94/1996, 1. gr., 5. gr. 4. mgr. (brl. nr. 165/2010, 25. gr.), 17. gr. 6. mgr. Lög nr. 37/1993, 9. gr.
Í máli þessu sætti kæru ákvörðun álags vegna staðgreiðsluskila, en ríkisskattstjóri hafnaði þeirri skýringu kæranda að tilfærsla arðs til hluthafa í skattframtali og ársreikningi félagsins árið 2017 væri til komin vegna mistaka við framtalsgerð. Yfirskattanefnd tók kröfu kæranda til greina, m.a. með vísan til þess að kærandi hefði lagt fram samtímagögn úr bókhaldi til stuðnings fram komnum skýringum.
Ár 2025, miðvikudaginn 12. mars, er tekið fyrir mál nr. 118/2024; kæra A ehf., dags. 31. júlí 2024, vegna ákvörðunar skilaskyldrar staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur árið 2017. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Með kæru, dags. 31. júlí 2024, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkiskattstjóra, dags. 2. maí 2023, um endurákvörðun skilaskyldrar staðgreiðslu kæranda vegna fjármagnstekna árið 2017. Með úrskurðinum ákvarðaði ríkisskattstjóri skilaskylda fjárhæð staðgreiðslu 1.457.000 kr. vegna meintrar arðsúthlutunar félagsins á árinu 2017 að fjárhæð 7.285.000 kr., sbr. ákvæði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, með áorðnum breytingum. Þá ákvarðaði ríkisskattstjóri kæranda álag á vangreidda staðgreiðslu samkvæmt 1. og 2. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996. Nam fjárhæð þess álags 145.700 kr.
Af hálfu kæranda er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi og að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.
II.
Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 19. febrúar 2020, skoraði ríkisskattstjóri á kæranda að láta í té upplýsingar varðandi staðgreiðsluskil félagsins vegna arðgreiðslu til hluthafa á árinu 2017. Í skattframtali árið 2018 kæmi fram að félagið hefði greitt hluthöfum arð að fjárhæð 7.285.000 kr. á árinu 2017, sbr. reit 6216 í skattframtali. Í samræmi við það hefði félaginu borið að halda eftir staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts af arði 7.285.000 kr. og skila í ríkissjóð 20% skatti eða 1.457.000 kr., sbr. 1. mgr. 1. gr. og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 94/1996, og standa skil á sundurliðaðri skilagrein vegna arðgreiðslunnar í gegnum þjónustusíðu ríkisskattstjóra, sbr. 1. mgr. 9. gr. sömu laga. Ekki yrði séð að félagið hefði skilað staðgreiðslu. Skyldi gerð yrði grein fyrir þessu misræmi og styðja nauðsynlegum gögnum. Í svarbréfi kæranda, dags. 3. mars 2020, kom fram að gerð hefðu verið mistök við framtalsgerð kæranda árið 2018. Það hefði ekki verið greiddur arður að fjárhæð 7.285.000 kr. heldur að fjárhæð 960.000 kr. Bréfinu fylgdi leiðrétt skattframtal kæranda árið 2018 og leiðréttir hlutafjármiðar.
Með bréfi, dags. 8. febrúar 2023, boðaði ríkisskattstjóra kæranda endurákvörðun á skilaskyldri staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts vegna greiðslutímabilsins október-desember 2017. Af hálfu kæranda var boðuðum breytingum mótmælt með bréfi, dags. 20. febrúar 2023, þar sem ítrekað var að mistök hefðu átt sér stað við gerð skattframtals og ársreiknings félagsins fyrir árið 2017. Leiðréttingar hefðu verið gerðar á bókhaldi, ársreikningum og skattframtölum af því tilefni. Með úrskurði, dags. 2. maí 2023, hratt ríkisskattstjóri hinni boðuðu endurákvörðun í framkvæmd.
III.
Í úrskurði ríkisskattstjóra sem og í boðunarbréfi var gerð grein fyrir upplýsinga- og gagnaöflun í málinu og helstu réttarheimildum sem á reyndi. Í því sambandi var gerð grein fyrir viðeigandi ákvæðum laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, auk laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Kom fram að ríkisskattstjóri hefði ákveðið að áætla skilaskylda staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts fyrir greiðslutímabilið október-desember árið 2017 samkvæmt 2. og 3. mgr. 9. gr. og 7. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996, sbr. einnig 1. og 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Í skattframtali árið 2018 kæmi fram að félagið hefði á árinu 2017 úthlutað og greitt hluthöfum arð að fjárhæð 7.285.000 kr., sbr. reit 6216. Ekki hefði verið skilað staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts af arðgreiðslunni eins og lög gerðu ráð fyrir. Í svörum kæranda frá 3. mars 2020 kæmi fram að gerð hefðu verið mistök við framtalsgerð félagsins árið 2018. Þá kæmi fram í svörum 20. febrúar 2023 að umrædd fjárhæð 7.285.000 kr. hefði verið ranglega bókuð sem arður í bókhaldi félagsins. Í raun hefði verið um að ræða endurgreiðslu á láni hluthafa til félagsins að fjárhæð 5.125.000 kr., arðgreiðslu frá árinu 2016 sem láðst hefði að færa í skattframtal og ársreikning vegna þess árs að fjárhæð 1.200.000 kr. og greiðslu til hluthafa í janúar 2017 vegna arðgreiðslu ársins 2016 að fjárhæð 960.000 kr.
Upplýsingar um arðgreiðslu á árinu 2017 í skattframtali árið 2018 og í ársreikningi fyrir árið 2017 samrýmdust því sem fram kæmi í sjóðsstreymi ársins 2017 og í skýringum við ársreikning kæranda. Ákvæði laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, bæru með sér að formkröfur vegna úthlutunar arðs úr einkahlutafélögum væru mjög miklar og eðli máls samkvæmt yrði arði ekki úthlutað nema að vandlega athuguðu máli. Slíkt gerðist ekki fyrir mistök. Þá yrði ekki séð að mistök við gerð skattframtals árið 2018 gætu skýrt tilgreindan arð í skattframtali félagsins þegar sama arðsúthlutun væri skýrlega tilgreind í ársreikningi félagsins fyrir árið 2017, bæði í sjóðstreymi ársins 2017 og í skýringum við ársreikninginn. Bæði skattframtal og ársreikningur byggðu á bókhaldi félagsins. Ársreikningur væri síðan staðfestur af stjórn félagsins.
Í svarbréfi kæranda frá 20. febrúar 2023 væri því haldið fram að stór hluti fjárhæðar arðs eða 5.125.000 kr. væri endurgreiðsla á láni hluthafa til félagsins. Yrði ekki fallist á þá skýringu. Í skattframtölum félagsins árin 2014-2022 væri engin grein gerð fyrir skuldum við tengda aðila, hvorki vaxtalausum né vaxtareiknuðum, en framtalsform gerði þó ráð fyrir því að gerð væri sérstaklega grein fyrir slíkum lánveitingum. Þá væru ekki tilgreindar neinar útistandandi kröfur eða lánveitingar til félagsins í skattframtölum hluthafa kæranda. Síðari skattframtöl félagsins árið 2019, 2020, 2021 og 2022 og ársreikningar þess fyrir árin 2018, 2019, 2020 og 2021 bæru ennfremur með sér að umrædd arðsúthlutun að fjárhæð 7.285.000 kr. hefði átt sér stað á árinu 2017. Óráðstafað eigið fé félagsins sem þar kæmi fram, þ.e. í árslok 2018, 2019, 2020 og 2021, endurspeglaði arðsúthlutunina. Af þeim skattframtölum og ársreikningum yrði ekki ráðið að úthlutunin hefði ekki átt sér stað eða að fallið hefði verið frá henni og hún bakfærð. Þá yrði ekki ráðið af skattframtölum og ársreikningum að arðgreiðslan hefði numið annarri fjárhæð en gögnin bæru með sér. Þá hefði ársreikningur fyrir árið 2017, þar sem arðgreiðsla að fjárhæð 7.285.000 kr. væri tilgreind, verið sendur til ársreikningaskrár til opinberrar birtingar. Fyrirvarsmenn kæranda hefðu því haft fjölmörg tækifæri til að koma auga á og eftir atvikum leiðrétta meint mistök við framtalsgerð. Loks þætti ótrúverðugt að fullyrðing um mistök við framtalsgerð kæmi ekki fram fyrr en félagið væri krafið um skil á staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts af arðgreiðslunni.
Væri það því niðurstaða ríkisskattstjóra að áætla félaginu skilaskylda staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts 1.457.000 kr. vegna greindrar arðsúthlutunar á árinu 2017, sbr. 2. og 3. mgr. 9. gr. laga nr. 94/1996. Staðgreiðslan færðist á greiðslutímabilið október-desember 2017, sbr. 4. mgr. 5. gr. og 7. gr. laga nr. 94/1996. Þá væri kæranda ákvarðað 10% álag vegna vanskila á staðgreiðslu eða álag að fjárhæð 145.700 kr., en álag reiknaðist að öðru leyti í samræmi við 2. tölul. 2. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996.
IV.
Í kafla I hér að framan er greint frá kröfugerð í kæru til yfirskattanefndar, dags. 31. júlí 2024. Í kærunni, sbr. rökstuðning í bréfi, dags. 19. desember 2024, er rakið að málið sé þannig vaxið að ríkisskattstjóri kjósi að virða að vettugi þær skýringar sem hafi verið gefnar á mistökum sem hafi átt sér stað við gerð skattframtals árið 2018 og ársreiknings fyrir árið 2017. Þetta sé gert þrátt fyrir heiðarleg svör kæranda. Kjósi ríkisskattstjóri að leggja áherslu á að skýringar séu í andstöðu við skattframtöl og ársreikninga, jafnvel þótt skýringarnar lúti einmitt að því að þessi gögn hafi ekki verið rétt í upphafi. Þetta geri ríkisskattstjóri þrátt fyrir að kærandi hafi skilað inn leiðréttum gögnum, bæði skattframtölum árin 2017 til 2022 og ársreikningum fyrir árin 2016 til 2021 og hafi óskað eftir því að skattframtöl kæranda umrædd ár yrðu leiðrétt. Sé þetta í hróplegu ósamræmi við afgreiðslu ársreikningaskrár sem hafi tekið við nýjum ársreikningum sem hafi verið leiðréttir hvað snertir arðgreiðslur og stöðu eigin fjár. Það sé vissulega svo að ekki sé einungis bagalegt að skattframtal árið 2018 og ársreikningur árið 2017 hafi ekki verið réttir í upphafi heldur líka hitt að skýringar sem áður hafi komið fram hafi ekki alltaf verið réttar. Þær skýringar sem hafi verið gefnar í bréfi kæranda, dags. 20. febrúar 2023, séu hins vegar réttar og sé farið fram á það að þær verði lagðar til grundvallar í málinu.
Í endurupptökubeiðni kæranda til ríkisskattstjóra hafi verið gefnar skýringar á því hvernig lán hluthafa sé til komið, þ.e. vegna kaupa á jörð og fjármögnun þeirra viðskipta og hvernig endurgreiðslu lánsins hafi verið háttað. Ekki skipti máli hvernig gerð hafi verið grein fyrir lánunum í ársreikningum kæranda árin þar á undan eða hvernig hluthafarnir hafi gert grein fyrir lánunum í skattskilum sínum. Sé vísað til meðfylgjandi gagna úr bókhaldi kæranda sem sýni glöggt færslur vegna umræddrar lántöku árið 2014 og greiðslu lánanna í júlí 2017 auk gagna sem áður hafi verið lögð fram til staðfestingar fasteignaviðskiptum á árinu 2014 sem lántakan tengist. Þá fylgi gögn úr bókhaldi kæranda vegna arðgreiðslu á árinu 2016 og greiðslu til hluthafa að fjárhæð 960.000 kr. í janúar 2017. Eins og áður hafi komið fram hafi arðsúthlutun á árinu 2016 numið 1.200.000 kr. og af þeirri fjárhæð hafi kærandi haldið eftir 20% fjármagnstekjuskatti eða 240.000 kr. sem skilað hafi verið til innheimtumanns. Þetta sé í samræmi við leiðrétta ársreikninga kæranda þar sem sjá megi að ákvarðaður arður á árinu 2016 hafi numið 1.200.000 kr. en arður í ársreikningi árið 2017 hafi verið 0 kr.
Í niðurlagi kærunnar kemur fram að mál félagsins hafi dregist mjög í meðförum ríkisskattstjóra. Ekki liggi fyrir hvað hafi valdið því að málinu hafi ekki verið haldið áfram af hálfu ríkisskattstjóra fyrr en í febrúar 2023, en skýringar kæranda hafi legið fyrir í febrúar 2020. Hafi þannig liðið tæplega þrjú ár. Að mati kæranda sé um óhóflegan drátt að ræða, sbr. m.a. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í því sambandi beri sérstaklega að hafa í huga að um sé að ræða beitingu íþyngjandi viðurlaga, þ.e. beitingu álags í formi dráttarvaxta sem eðli máls samkvæmt hækki eftir því sem málsmeðferð dragist á langinn.
V.
Með bréfi, dags. 12. september 2024, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á niðurstöðu ríkisskattstjóra.
Með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 19. desember 2024, hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum í tilefni af umsögn ríkisskattstjóra. Bréfinu fylgja gögn úr bókhaldi kæranda, þ.e. hreyfingalistar úr fjárhagsbókhaldi, og er tekið fram í bréfinu að gögnin beri með sér færslur í bókhaldi vegna lántöku á árinu 2014, endurgreiðslu lánsins í júlí 2017 og arðgreiðslu á árinu 2016. Eru kröfur kæranda ítrekaðar, þar með talið krafa um niðurfellingu álags.
VI.
Í kæru til yfirskattanefndar eru m.a. gerðar athugasemdir við drátt sem orðið hafi á meðferð málsins hjá ríkisskattstjóra. Eins og fram er komið hófst mál kæranda með bréfi ríkisskattstjóra til félagsins, dags. 19. febrúar 2020, þar sem ríkisskattstjóri leitaði skýringa á staðgreiðsluskilum kæranda vegna arðgreiðslu til hluthafa á árinu 2017. Bréfi þessu var svarað með tölvupósti kæranda 3. mars sama ár. Eins og rakið er í kæru til yfirskattanefndar verður ekki séð að neitt hafi gerst í málinu fyrr en ríkisskattstjóri boðaði kæranda hinar umdeildu breytingar á staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts með bréfi, dags. 8. febrúar 2023. Á þeim drætti hafa engar skýringar komið fram í málinu. Þá verður ekki ráðið að kæranda hafi verið tilkynnt um fyrirsjáanlegar tafir á afgreiðslu málsins á neinu stigi þess, en hvorki í úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 2. maí 2023, né í umsögn embættisins í málinu kemur neitt fram um ástæður þeirra tafa sem um ræðir.
Samkvæmt framansögðu má taka undir með kæranda að ónauðsynlegur dráttur hafi orðið á afgreiðslu málsins af hendi ríkisskattstjóra, sem brotið hafi í bága við hina almennu málshraðareglu 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt langvarandi dóma- og úrskurðaframkvæmd hafa brot stjórnvalda gegn almennum málshraðareglum og ákvæðum um lögmælta fresti til að ljúka málum almennt ekki verið talin leiða til þess ein sér að ómerkja beri viðkomandi ákvarðanir, sbr. H 1948:179, H 1997:385, H 1998:1094 og H 1998:3781. Má í þessu sambandi jafnframt vísa til dóms Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 424/2004 sem kveðinn var upp 19. nóvember 2004 (H 2004:4482). Að þessu athuguðu geta fyrrgreindar tafir ekki haft í för með sér ógildingu á ákvörðun ríkisskattstjóra.
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, með síðari breytingum, eins og lagagreinin hljóðaði á þeim tíma sem hér skiptir máli, skal innheimta í staðgreiðslu 20% tekjuskatt til ríkissjóðs af vöxtum og arði eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum. Er staðgreiðsla samkvæmt lögunum bráðabirgðagreiðsla tekjuskatts nema annað sé tekið fram. Um afdrátt staðgreiðslu af vöxtum og arði er fjallað í 5. gr. laga nr. 94/1996. Samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laganna, sbr. 25. gr. laga nr. 165/2010, um breyting á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld, skal afdráttur staðgreiðslu af arði fara fram þegar hlutafélag greiðir arðinn eða eigi síðar en í lok þess árs þegar ákvörðun um úthlutun er tekin. Er tekið fram að með greiðslu sé átt við greiðslu í hvaða formi sem er, hvort heldur í peningum, kröfu eða öðru því sem hefur peningalegt verðgildi og látið er af hendi í stað peninga.
Samkvæmt 73. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, er óheimilt að úthluta af fjármunum einkahlutafélags til hluthafa nema það fari fram eftir reglum um úthlutun arðs, sem endurgreiðsla vegna lækkunar hlutafjár eða varasjóðs eða vegna félagsslita. Í 1. mgr. 74. gr. laganna er m.a. mælt svo fyrir að einungis sé heimilt að úthluta sem arði hagnaði samkvæmt samþykktum ársreikningi síðasta reikningsárs, yfirfærðum hagnaði frá fyrri árum og frjálsum sjóðum eftir að dregið hefur verið frá tap sem ekki hefur verið jafnað og það fé sem samkvæmt lögum eða félagssamþykktum skal lagt í varasjóð eða til annarra þarfa. Samkvæmt 1. mgr. 76. gr. laganna tekur hluthafafundur ákvörðun um úthlutun arðs eftir að félagsstjórn hefur lagt fram tillögur um það efni. Ekki má ákveða að úthluta meiri arði en félagsstjórn leggur til eða samþykkir.
Kærandi í máli þessu er einkahlutafélag um rekstur alifuglabús. Eins og áður greinir var í yfirliti eiginfjárreikninga í skattframtali kæranda árið 2018 gerð grein fyrir úthlutun arðs til hluthafa félagsins að fjárhæð 7.285.000 kr. á árinu 2017, sbr. reit 6216 í framtalinu. Í sjóðstreymi ársins 2017 í ársreikningi með skattframtali kæranda umrætt ár var að sama skapi tilgreind arðgreiðsla til hluthafa að sömu fjárhæð. Í kjölfar þess að ríkisskattstjóri fór fram á skýringar kæranda með bréfi, dags. 19. febrúar 2020, á ástæðum þess að ekki hefðu verið staðin skil á afdreginni staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts af arðgreiðslunni á árinu 2017 kom fram í tölvupósti umboðsmanns kæranda 3. mars 2020 að mistök hefðu átt sér stað við framtalsgerð fyrir kæranda þar sem greiddur arður til hluthafa hefði numið 960.000 kr. en ekki 7.285.000 kr. Ekki var gerð nein frekari grein fyrir þessu í tölvupóstinum. Á seinni stigum málsins hafa þessar skýringar um mistök við framtalsgerð verið ítrekaðar, en þó þannig að ekki hafi verið um að ræða neinar arðgreiðslur til hluthafa á árinu 2017 þar sem sú fjárhæð, sem tilfærð var sem arðgreiðsla í skattframtali kæranda árið 2018, sé til komin vegna endurgreiðslu láns frá hluthöfum kæranda til félagsins að fjárhæð 5.125.000 kr. á árinu 2017, úthlutunar arðs til hluthafa að fjárhæð 1.200.000 kr. vegna rekstrarársins 2016 sem láðst hafi að tilgreina í skattskilum kæranda árið 2017 og loks greiðslu þess arðs að frádreginni staðgreiðslu að fjárhæð 960.000 kr. í janúar 2017, sbr. bréf umboðsmanns kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 20. febrúar 2023. Í því bréfi kom fram að leiðréttingar hefðu verið gerðar á bókhaldi, ársreikningum og skattskilum kæranda af þessu tilefni og var vísað til meðfylgjandi gagna í því sambandi, m.a. leiðréttra ársreikninga fyrir árin 2016-2021. Í kæru til yfirskattanefndar kemur fram að lánveiting hluthafa kæranda til félagsins hafi komið til vegna kaupa kæranda á jarðarparti við N af tveimur hluthafanna á árinu 2014 fyrir 5.000.000 kr., sbr. afsal, dags. 11. apríl 2014, sem liggur fyrir í gögnum málsins. Hluthafar kæranda hafi lánað félaginu fyrir kaupunum og félagið endurgreitt lánið með vöxtum á árinu 2017. Kæru til yfirskattanefndar fylgja gögn úr bókhaldi kæranda þessu til stuðnings, þ.e. hreyfingalistar úr fjárhagsbókhaldi sem bera með sér færslur vegna kaupa lands af eigendum fyrir 5.000.000 kr. á árinu 2014 og úthlutun arðs að fjárhæð 1.200.000 kr. á árinu 2016.
Ríkisskattstjóri taldi ekki unnt að fallast á skýringu kæranda um mistök við gerð skattframtals og ársreiknings félagsins vegna rekstrarársins 2016, eins og fram er komið. Í því sambandi vísaði ríkisskattstjóri einkum til þess að arðsúthlutunin væri tilgreind í skattframtalinu og ársreikningnum og gengið út frá því í skattskilum kæranda vegna síðari ára að úthlutun arðsins hefði farið fram. Til þess er að líta að það er einmitt nefnd tilgreining í skattframtalinu sem kærandi telur ekki vera rétta með því að mistök hafi átt sér stað við framtalsgerðina. Að því leyti sem ríkisskattstjóri kann að hafa í huga viðhorf um bindandi áhrif skattframtals og þá reglu 2. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að breyting á skattframtali að frumkvæði skattaðila skuli byggja á nýjum gögnum og upplýsingum skal áréttað að kærandi hefur lagt fram gögn úr bókhaldi félagsins sem ætlað er að varpa ljósi á umræddan lið í skattframtali og ársreikningi. Það að skattframtalið hafi verið þannig úr garði gert sem raun ber vitni getur því naumast verið sérstök röksemd gegn kröfu kæranda. Af hálfu kæranda hafa verið lögð fram samtímagögn úr bókhaldi til stuðnings fram komnum skýringum félagsins, sbr. hér að framan. Að þessu virtu þykir ekki verða daufheyrst við skýringum kæranda í málinu, enda verður naumast talið að ríkisskattstjóri hafi skotið nægilega styrkum stoðum undir hinar kærðu breytingar. Er krafa kæranda um ógildingu hins kærða úrskurðar því tekin til greina. Er ríkisskattstjóra falið að annast um breytingar sem leiða af þeirri niðurstöðu, sbr. 18. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum, og 1. gr. reglugerðar nr. 1146/2014, um gjaldabreytingar á grundvelli laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.
Af hálfu kæranda er gerð krafa um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga 30/1992, um yfirskattanefnd, með síðari breytingum. Af hálfu kæranda hafa engin gögn verið lögð fram um útlagðan kostnað vegna meðferðar málsins þrátt fyrir ábendingu þar að lútandi í bréfi yfirskattanefndar, dags. 8. ágúst 2024, þar sem móttaka kærunnar var staðfest. Með vísan til framanritaðs, sbr. og starfsreglur yfirskattanefndar um ákvörðun málskostnaðar frá 21. nóvember 2014, sem birtar eru á vef nefndarinnar, er málskostnaðarkröfu kæranda hafnað.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Hin kærða ákvörðun ríkisskattstjóra er felld úr gildi. Málskostnaðarkröfu kæranda er hafnað.