Úrskurður yfirskattanefndar

  • Rekstrarstuðningur vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ

Úrskurður nr. 48/2025

Lög nr. 15/2024, 4. gr.  

Kærandi var félag sem hafði með höndum starfsemi víðs vegar um landið, þar með talið í Grindavíkurbæ. Umsókn kæranda um rekstrarstuðning á grundvelli laga nr. 15/2024 var hafnað þar sem lagaskilyrði um 40% tekjufall milli ára vegna náttúruhamfara á Reykjanesi var ekki talið uppfyllt í tilviki félagsins. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að af lögum nr. 15/2024 yrði ekki önnur ályktun dregin en sú að við mat á tekjufalli rekstraraðila bæri að miða við heildartekjur viðkomandi aðila. Hefði löggjafanum verið í lófa lagið að búa svo um hnútana að í tilviki rekstraraðila, sem hefðu með höndum starfsemi víðar á landinu en í Grindavíkurbæ, skyldi einungis miða við tekjur af starfsstöð rekstraraðila í Grindavík, en það hefði ekki verið gert. Var kröfum kæranda hafnað.

Ár 2025, mánudaginn 7. apríl, er tekið fyrir mál nr. 163/2024; kæra A, dags. 15. nóvember 2024, vegna ákvörðunar um rekstrarstuðning. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 15. nóvember 2024, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðun ríkisskattstjóra 30. ágúst 2024 að hafna umsókn kæranda um rekstrarstuðning samkvæmt lögum nr. 15/2024, um tímabundinn rekstrarstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ. Ákvörðun ríkisskattstjóra var byggð á því að skilyrði rekstrarstuðnings á grundvelli laga nr. 15/2024 væru ekki uppfyllt í tilviki kæranda. Fram kom að kærandi hefði með höndum starfsemi um land allt, þar með talið í Grindavíkurbæ. Vísaði ríkisskattstjóri til 1. gr. og 2. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 15/2024 og lögskýringargagna að baki lögunum og tók fram að ekkert gæfi tilefni til þeirrar túlkunar félagsins á ákvæðunum að skilyrði þeirra, þar með talið um tekjutap vegna náttúruhamfara, væru einungis bundin við þá starfsemi sem færi fram í Grindavík. Starfsstöð kæranda í bænum væri ekki sjálfstæður skattaðili, sbr. 1. eða 2. tölul. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, heldur hluti af öðrum lögaðila og skipti engu máli þótt rekstri í bænum væri haldið aðskildum frá rekstri annars staðar á landinu. Starfsemin uppfyllti ekki önnur skilyrði laga nr. 15/2024, svo sem að greiða laun og vera skráð á launagreiðendaskrá, sbr. 1. tölul. 3. gr. þeirra. Félagið félli undir 1. gr. laganna þ.e. föst starfstöð í Grindavík. Félli félagið því undir gildissvið laganna. Í umsókn kæranda um rekstrarstuðning kæmi aðeins fram samanburður á tekjum starfsemi milli tímabila en ekki samanburður á tekjum kæranda, en samkvæmt virðisaukaskattsskilum kæranda hefði heildarvelta félagsins hækkað milli nóvember-desember 2022 og sömu mánaða á árinu 2023. Þar sem kærandi hefði þannig ekki sýnt fram á að félagið hefði orðið fyrir lágmarks tekjufalli í mánuðunum nóvember og desember 2023, sbr. 2. tölul. 4. gr. laga nr. 15/2024, yrði að hafna umsókn félagins um rekstrarstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.

Í kæru til yfirskattanefndar er þess aðallega krafist að ákvörðun ríkisskattstjóra verði felld úr gildi og kæranda ákvarðaður rekstrarstuðningur að fjárhæð … kr. vegna rekstrarkostnaðar frá nóvember 2023 til  apríl 2024, sbr. 5. gr. laga nr. 15/2024. Til vara er gerð krafa um að kæranda verði ákvarðaður rekstrarstuðningur að fjárhæð … kr. vegna rekstrarkostnaðar í nóvember og desember 2023. Til þrautavara er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi og málið sent embættinu til nýrrar meðferðar. Í öllum tilvikum er gerð krafa um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

Í kærunni er stuttlega gerð grein fyrir málsatvikum og atburðum á Reykjanesi síðla árs 2023 sem haft hafi í för með sér tímabundna lokun starfsstöðvar kæranda í Grindavík og ýmislegt tjón, svo sem nánar er rakið. Forsendur rekstrar kæranda í bæjarfélaginu hafi í reynd brostið í nóvember 2023, en vonir standi til þess að kæranda muni verða kleift að hefja starfsemi á nýjan leik. Með setningu laga nr. 15/2024 hafi Alþingi brugðist við neyðarástandinu til að koma til móts við fyrirtæki á svæðinu. Þá eru í kærunni rakin ákvæði laga nr. 15/2024 og skilyrði fyrir rekstrarstuðningi samkvæmt þeim, sbr. 1. gr. og 4. gr. laganna. Óumdeilt sé að kærandi uppfylli þau skilyrði og að tekjufall starfsstöðvar félagsins í Grindavík sé yfir 40% á því tímabili sem um ræðir, sbr. 2. tölul. 4. gr. nefndra laga. Hafa beri í huga að úrlausnarefni málsins sé ekki á sviði skatta og gjalda heldur snúi að úthlutun styrkja úr ríkissjóði og eigi lögskýringarreglur skattaréttar því ekki við. Þá sé ekki ótvírætt að túlka beri lögin með þeim hætti sem ríkisskattstjóri geri, sbr. m.a. athugasemdir með frumvarpi til laga nr. 15/2024 sem styðji það að starfsemin eigi rétt á stuðningi þrátt fyrir að hafa ekki verið rekin á sérstakri kennitölu heldur aðeins verið haldið aðskilinni í bókhaldi kæranda. Löggjafanum hafi verið í lófa lagið að undanskilja sérstaklega starfsstöðvar og rekstrareiningar í lögunum eða í athugasemdum með þeim, en það hafi ekki verið gert. Munur sé á útfærslu úrræða samkvæmt lögunum og annarra úrræða sem tekin hafi verið upp með lögum nr. 102/2023 varðandi áfengisgjald, gistináttaskatt, virðisaukaskatt o.fl., sbr. t.d. 20. gr. nefndra laga sem geri ráð fyrir því að úrræðið sé í boði fyrir aðila með „skráða starfsstöð“ í Grindavíkurbæ. Í lögunum sjálfum sé hins vegar rætt um „fasta starfsstöð“, sbr. 1. og 2. gr. laganna. Hugtakið „föst starfsstöð“ hafi ákveðna merkingu og taki ekki til sérstakra lögaðila, en hugtakið sé skilgreint í ákvæði 3. gr. a laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og í reglugerð nr. 1165/2016, um fasta starfsstöð, sbr. 2. gr. hennar. Óumdeilt sé að starfsstöð kæranda í Grindavíkurbæ falli undir skilgreiningu á fastri starfsstöð. Vonir standi til þess að hægt verði að hefja starfsemi á nýjan leik þrátt fyrir umtalsvert tjón kæranda og ýmsum kostnaði.

II.

Með bréfi, dags. 16. desember 2024, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna. Kemur fram að það sé álit ríkisskattstjóra að hin kærða ákvörðun skuli vera staðfest með vísan til forsendna, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á niðurstöðu ríkisskattstjóra.

Með bréfi, dags. 3. janúar 2025, hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum vegna umsagnar ríkisskattstjóra. Bréfinu fylgja gögn til stuðnings málskostnaðarkröfu, þ.e. afrit reikninga og hreyfingalisti, og kemur fram að kostnaður kæranda er rekstri málsins nemi 534.600 kr. auk virðisaukaskatts.

III.

Í 1. gr. laga nr. 15/2024, um tímabundinn rekstrarstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ, kemur fram að lögin gildi um einstaklinga og lögaðila sem stunduðu tekjuskattsskyldan atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi og voru með fasta starfsstöð í Grindavíkurbæ 10. nóvember 2023. Er markmið laganna að stuðla að því að rekstraraðilar samkvæmt 1. gr. laganna sem orðið hafa fyrir verulegu tekjufalli vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ geti viðhaldið nauðsynlegri lágmarksstarfsemi, varðveitt viðskiptasambönd og hafið starfsemi á ný með stuttum fyrirvara, sbr. 2. gr. laganna. Í 4. gr. laga nr. 15/2024 kemur fram að aðili sem falli undir gildissvið laganna og uppfylli öll eftirtalin skilyrði greinarinnar, sem talin eru í fjórum töluliðum, eigi rétt á tímabundnum rekstrarstuðningi úr ríkissjóði vegna hvers almanaksmánaðar frá nóvember 2023 til og með júní 2024. Skilyrðin eru m.a. þau að aðili beri ótakmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 1. eða 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 1. tölul., og að tekjur hans í þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar hafi verið a.m.k. 40% lægri en í sama almanaksmánuði ári áður og tekjufall megi rekja til náttúruhamfara í Grindavíkurbæ. Hafi hann hafið starfsemi eftir upphaf sama almanaksmánaðar ári fyrr skuli miðað við meðaltekjur hans á jafn mörgum dögum og séu í þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar frá því að hann hóf starfsemi til og með 9. nóvember 2023. Við sérstakar aðstæður megi nota annað tímabil til viðmiðunar sýni aðili fram á að það gefi betri mynd af tekjufalli hans en viðmiðunartímabil samkvæmt 1.-2. málsl. Samkvæmt orðskýringu í 3. gr. laga nr. 15/2024 er með tekjum átt við skattskyldar tekjur samkvæmt B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að frátöldum hagnaði af sölu varanlegra rekstrarfjármuna, sbr. 7. tölul. lagagreinarinnar.

Kærandi í máli þessu er félag sem hefur með höndum starfsemi víða um land, þar með talið í Grindavíkurbæ. Í byrjun nóvember 2023 var lýst yfir neyðarstigi almannavarna í Grindavíkurbæ vegna yfirvofandi eldsumbrota á Reykjanesi og íbúum bæjarins gert að rýma hús sín og yfirgefa bæinn. Starfsstöð kæranda í bænum var lokað samdægurs og mun hafa verið lokuð síðan, en rakið er í kæru til yfirskattanefndar að allar forsendur fyrir rekstri séu í raun brostnar. Ekki er í sjálfu sér deilt um það í málinu að skilyrði 2. tölul. 4. gr. laga nr. 15/2024 um a.m.k. 40% tekjufall milli ára vegna náttúruhamfara á Reykjanesi sé ekki fullnægt í tilviki kæranda, enda liggur fyrir að félagið hefur með höndum starfsemi víðs vegar um land. Í ákvörðun ríkisskattstjóra kemur þannig fram að virðisaukaskattsskil kæranda beri með sér að heildarvelta félagsins í nóvember og desember hafi aukist milli áranna 2023 og 2024. Af hálfu kæranda er hins vegar byggt á því að við mat á tekjufalli félagsins beri einungis að líta til tekna af rekstri þess í Grindavíkurbæ en ekki annarra tekna, en tekjufall þeirrar starfsemi milli ára sé á bilinu 60,0-99,5%, sbr. umsókn kæranda um rekstrarstuðning.

Í tilefni af framangreindum sjónarmiðum kæranda skal tekið fram að af ákvæðum 1. tölul. 4. gr. laga nr. 15/2024 og ákvæðum laganna að öðru leyti verður ekki önnur ályktun dregin en sú að við mat á tekjufalli rekstraraðila, sem fellur undir gildissvið laganna, beri að miða við heildartekjur viðkomandi aðila, þ.e. skattskyldar tekjur samkvæmt B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, að frátöldum hagnaði af sölu varanlegra rekstrarfjármuna, sbr. 7. tölul. 3. gr. laga nr. 15/2024. Hvorki í lögunum sjálfum né í tiltækum lögskýringargögnum með þeim kemur neitt fram sem bendir til þess að löggjafinn hafi litið svo á að í þeim tilvikum þegar rekstraraðili hefði með höndum starfsemi víðar á landinu en í Grindavíkurbæ bæri við mat á tekjufalli aðilans vegna náttúruhamfara einungis að miða við tekjur af starfsstöð hans í Grindavíkurbæ. Ekki fer þó á milli mála að við undirbúning löggjafarinnar lá fyrir að aðstæður væru í einhverjum tilvikum með þessum hætti, sbr. skilgreiningu á fastri starfsstöð í 2. tölul. 3. gr. laganna (föst atvinnustöð þar sem tekjuaflandi starfsemi aðila fer að nokkru eða öllu leyti fram) og umfjöllun í almennum athugasemdum með frumvarpi til laganna þar sem vikið er að rekstraraðilum með skráðar höfuðstöðvar í öðru sveitarfélagi en Grindavík en starfsstöð þar í bæ. Var löggjafanum í lófa lagið að búa svo um hnútana við setningu laganna að við mat á tekjufalli rekstraraðila skyldi aðeins miðað við tekjur af starfsstöðvum hlutaðeigandi rekstraraðila í Grindavíkurbæ, en það var ekki gert. Í þessu sambandi ber jafnframt að hafa í huga að rekstrarstuðningur eftir greindum lögum nr. 15/2024 tekur ekki til allra rekstraraðila sem urðu fyrir tekjufalli vegna náttúruhamfaranna heldur eingöngu þeirra rekstraraðila sem urðu fyrir verulegu tekjufalli eða a.m.k. 40%, en það viðmið var þó lækkað í 20% með lögum nr. 65/2024, um breyting á ýmsum lögum vegna framhalds á stuðningsaðgerðum vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ, sbr. 1. gr. síðastnefndra laga.

Með vísan til þess sem að framan greinir, sbr. 1. tölul. 4. gr. laga nr. 15/2024, verður að hafna kröfum kæranda í máli þessu. Samkvæmt þeim úrslitum málsins verður ennfremur að hafna kröfu kæranda um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja