Úrskurður yfirskattanefndar

  • Virðisaukaskattur
  • Sérstök skráning
  • Frjáls skráning vegna útleigu fasteigna
  • Álag á virðisaukaskatt
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 63/2025

Virðisaukaskattur 2021 og 2022

Lög nr. 50/1988, 3. gr. 2. mgr., 6. gr. 1. og 4. mgr., 16. gr. 1. mgr., 26. gr. 4. mgr. (brl. nr. 42/2023, 15. gr. ), 27. gr.   Reglugerð nr. 192/1993, 7. gr.   Reglugerð nr. 577/1989, 1. gr., 4. gr., 5. gr., 7. gr.  

Í úrskurði yfirskattanefndar var talið að kæranda, sem var einkahlutafélag sem skráð var frjálsri skráningu vegna útleigu fasteignar til Z hf., hefði verið óheimilt að færa til innskatts vegna hinnar frjálsu skráningar virðisaukaskatt sem féll til á árunum 2021 og 2022 vegna viðbyggingar við fasteignina, enda hefði frjáls skráning kæranda ekki tekið til þess hluta eignarinnar. Færsla innskatts af framkvæmdum við stækkun húsnæðisins hefði því verið óheimil nema að undangenginni öflun sérstakrar skráningar vegna þeirra eða eftir atvikum breytinga á frjálsri skráningu kæranda. Fallist var á kröfu kæranda um niðurfellingu álags á virðisaukaskatt þar sem talið var að málsmeðferð ríkisskattstjóra í því sambandi hefði verið áfátt, m.a. þar sem ekki hefði verið heimilt að ákvarða kæranda álag án tilkynningar, enda varð ekki litið svo á að ákvörðun álagsins hefði verið til samræmis við beiðni kæranda um leiðréttingu í skilningi virðisaukaskattslaga.

Ár 2025, mánudaginn 28. apríl, er tekið fyrir mál nr. 153/2024; kæra A ehf., dags. 11. október 2024, vegna ákvörðunar virðisaukaskatts árin 2021 og 2022. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 11. október 2024, sbr. greinargerð fyrir kæruatriðum í bréfi, dags. 31. sama mánaðar, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 23. apríl 2024, vegna ákvörðunar álags tilgreind uppgjörstímabil virðisaukaskatts á árunum 2021 og 2022, sbr. 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Af hálfu kæranda er þess krafist að ákvörðun ríkisskattstjóra verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir ríkisskattstjóra að fella niður álag. Þá er gerð krafa um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum. Þess er að geta að með erindi til ríkisskattstjóra 21. maí 2024 fór kærandi fram á endurupptöku málsins. Með úrskurði, dags. 11. júlí 2024, féllst ríkisskattstjóri á að endurupptaka mál kæranda, en komst að þeirri niðurstöðu að fyrri ákvörðun skyldi standa óhögguð. Í úrskurðinum leiðbeindi ríkisskattstjóri um kærurétt til yfirskattanefndar vegna hans og tilgreindi þriggja mánaða kærufrest í því sambandi frá dagsetningu úrskurðarins að telja.

Í kærunni er rakið að kærandi hafi verið skráður í grunnskrá virðisaukaskatts vegna útleigu fasteignar að G, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 50/1988 og ákvæði I. kafla reglugerðar nr. 577/1989, um frjálsa og sérstaka skráningu vegna leigu eða sölu á fasteign. Á árinu 2021 hafi leigutaki húsnæðisins óskað eftir því að ráðist yrði í stækkun húsnæðisins og framkvæmdir hafist á sama ári. Innskattur vegna framkvæmdanna hafi verið færður á skráningarnúmeri kæranda vegna frjálsrar skráningar. Að fengnum leiðbeiningum um að tilkynna bæri ríkisskattstjóra um viðbótarframkvæmdir við eignina hafi kærandi sótt um sérstaka skráningu þann 24. apríl 2023, þ.e. afturvirkt frá upphafi framkvæmda, og lagt fram virðisaukaskattsskýrslur vegna gjaldfallinna tímabila þar sem innskattur hafi verið færður að nýju. Jafnframt hafi verið tilkynnt um að viðbyggingin við húsnæðið yrði leigð sama aðila og áður. Ríkisskattstjóri hafi fallist á umsókn kæranda um sérstaka skráningu frá 1. nóvember 2021 þann 26. júní 2023.

Hinn 16. október 2023 hafi kæranda síðan borist fyrirspurn frá ríkisskattstjóra vegna innsendrar leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts með skattframtali kæranda árið 2023 þar sem vakin hafi verið athygli á því að innskattur af byggingarframkvæmdum kæranda hefði verið tvítalinn. Í kjölfar þessa hafi kærandi leiðrétt virðisaukaskattsskil sín og endurgreitt ofgreiddan innskatt 19. sama mánaðar. Hafi kærandi þá talið málinu lokið. Í nóvember sama ár hafi birst kröfur í heimabanka kæranda og í framhaldi af samskiptum við ríkisskattstjóra hafi félaginu verið greint frá því að krafa að fjárhæð 10.032.087 kr. væri til komin vegna álags og dráttarvaxta í tilefni af breytingum á virðisaukaskatti. Engin ákvörðun um álagið, formleg eða óformleg, hafi borist kæranda. Henni hafi verið mótmælt með tölvupósti 20. nóvember 2023 en ríkisskattstjóri hafi hafnað kröfu kæranda um niðurfellingu álags með hinum kærða úrskurði, dags. 23. apríl 2024. Kærandi hafi leitað eftir endurupptöku málsins 21. maí sama ár og hafi ríkisskattstjóri fallist á endurupptöku, en úrskurðað að álagið skyldi standa óhaggað, þó með nýjum lagarökum.

Í úrskurði ríkisskattstjóra sé sú málsástæða ríkisskattstjóra, að kærandi hafi ekki verið með sérstaka skráningu vegna byggingarframkvæmda við G á greindum tíma, ekki heimfærð undir ákvæði 27. gr. laga nr. 50/1988 sem lúti að álagsbeitingu. Um langt skeið hafi skattyfirvöld fallist á niðurfellingu álags í tilvikum þegar eingöngu sé um að ræða tilfærslu virðisaukaskatts milli skráningarnúmera, enda leiði slík tilfærsla ekki til breytinga á stöðu gjaldenda gagnvart ríkissjóði, sbr. meðfylgjandi tölvupóst ríkisskattstjóra 20. apríl 2021 til annars aðila. Sé því um að ræða viðurkennda stjórnsýsluvenju og verði ekki séð að ríkisskattstjóri geti án nokkurs fyrirvara vikið frá henni með íþyngjandi hætti, sbr. m.a. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4058/2004 og jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki verði séð að beiting álags í tilviki kæranda fái samrýmst ákvæðum 10., 20. og 22. gr. sömu laga. Ákvörðunin hafi ekki verið birt kæranda þegar ákvörðunin var tekin, en óljóst sé hvenær það hafi verið, og félaginu ekki verið kunnugt um forsendur hennar. Þá telji kærandi rökstuðning í úrskurði ríkisskattstjóra ófullnægjandi, m.a. þar sem hvergi sé vikið að 27. gr. laga nr. 50/1988. Í kæruúrskurði ríkisskattstjóra í málinu sé síðan byggt á öðrum sjónarmiðum. Þá sé brotið gegn 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með því að ekki sé veittur andmælaréttur, sbr. úrskurð yfirskattanefndar nr. 87/2024, en kærandi hafi haft augljósa hagsmuni af því að koma á framfæri andmælum vegna álags.

Engu sé líkara en ríkisskattstjóri líti svo á að við þær aðstæður þegar innskattur sé færður af frjálsri skráningu yfir á sérstaka skráningu með afturvirkum hætti komi sjálfkrafa til beitingar álags. Það sé þó beinlínis rangt að kærandi hafi ekki haft heimild til að telja fram innskatt þegar það var gert, sbr. 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 577/1989. Í ljósi þess að framkvæmdir við fasteignina hafi átt sér stað eftir upphaf frjálsrar skráningar á árinu 2006 hafi kærandi talið heimilt að telja fram innskatt af framkvæmdunum á frjálsu skráningunni, en óljóst sé hvenær framkvæmdir séu þess eðlis að ríkisskattstjóri líti svo á að sækja beri um sérstaka skráningu vegna þeirra, sbr. 7. gr. fyrrnefndrar reglugerðar. Þá sé til þess að líta að ríkisskattstjóri hafi fallist á sérstaka skráningu vegna framkvæmdanna þann 26. júní 2023 og þannig áður en tilkynning kæranda um breyttar forsendur fyrir frjálsu skráningunni var afgreidd 16. október sama ár. Þversögn sé því í málatilbúnaði ríkisskattstjóra. Þá missi tilvísun ríkisskattstjóra til reglna um sérstaka skráningu, sbr. 4. mgr. 6. gr. laga nr. 50/1988 og 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 577/1989, marks í ljósi þess að kærandi hafi ekki sótt um skráningu vegna fyrirhugaðrar sölu fasteignar heldur vegna útleigu hennar á grundvelli 2. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar. Kærandi hafi ráðist í framkvæmdir við fasteign sem þegar hafi verið í útleigu og verið með frjálsa skráningu vegna hennar. Þá telji kærandi færslu innskatts hafa verið heimila samkvæmt 7. gr. margnefndrar reglugerðar.

II.

Með bréfi, dags. 20. desember 2024, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu. Kemur fram að það sé álit ríkisskattstjóra að staðfesta beri hina kærðu álagsbeitingu þar sem ekki hafi komið fram nein þau gögn eða málsástæður sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Ástæða álagsbeitingar sé sú að kærandi hafi tvífært innskatt af aðföngum við uppgjör samkvæmt skráningarnúmerum félagsins og þannig lækkað álagningu sína sem næmi fjárhæð oftalins innskatts. Kærandi hafi lagt fram umsókn um sérstaka skráningu að eigin frumkvæði og erindinu hafi fylgt virðisaukaskattsskýrslur þar sem færður hafi verið sem innskattur virðisaukaskattur sem áður hafi verið talinn til innskatts við uppgjör vegna frjálsrar skráningar. Ekkert hafi komið fram um þessa tvífærslu í erindi kæranda og hafi ríkisskattstjóri fallist á skráninguna til samræmis við erindið sem og ákvörðun virðisaukaskatts samkvæmt meðfylgjandi skýrslum.

Við yfirferð leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts vegna tímabilsins september 2021 til og með ágúst 2022 hafi ríkisskattstjóri orðið þess áskynja að innskattur hefði verið færður á bæði skráningarnúmer kæranda. Virðisaukaskattur samkvæmt númeri vegna sérstakrar skráningar hafi verið endurgreiddur 16. ágúst 2023, en leiðrétting númers vegna frjálsrar skráningar hafi ekki verið gerð fyrr en í október sama ár. Þar sem skýrslur kæranda hafi verið lagðar til grundvallar álagningu án breytinga á þeim hafi virðisaukaskattur verið endurákvarðaður án sérstakrar tilkynningar, sbr. ákvæði 4. og 5. málsl. 4. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1988. Að mati ríkisskattstjóra sé ekki unnt að taka undir með kæranda að um sé að ræða tilfærslu inneigna milli skráningarnúmera heldur sé um að tefla leiðréttingu álagningar vegna tvífærslu innskatts. Þá hafi ekki verið færðar fram neinar vítaleysisástæður sem leitt geti til þess að fella beri niður álag samkvæmt 27. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 6. mgr. lagagreinarinnar.

Þess sé þó að geta að álag hafi ekki verið réttilega ákvarðað. Álagi hafi aðeins verið bætt við útskatt umfram innskatt eftir endurákvörðun vegna skráningarnúmersins … en ekki á heildarlækkun innskatts samkvæmt henni. Sé álag því talsvert lægra en kærandi hafi mátt eiga von á.

III.

Með bréfi, dags. 19. janúar 2025, hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum í tilefni af umsögn ríkisskattstjóra. Fram kemur að í umsögn ríkisskattstjóra sé byggt á öðrum sjónarmiðum og forsendum en í hinni kærðu ákvörðun, þ.e. að kærandi hafi tvífært innskatt í stað þess að hafa verið óheimilt að færa aðföng til innskatts á því tímabili sem um ræðir. Þá sé áréttað að beiting álags hafi ekki verið í samræmi við innsent erindi kæranda og verði því ekki með nokkru móti séð að 4. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1988 leysi ríkisskattstjóra undan því að boða beitingu álagsins og veita andmælarétt, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá sé í fyrsta sinn upplýst í umsögn ríkisskattstjóra að álag sé lagt á mismun útskatts og innskatts, þ.e. á nettólækkun virðisaukaskatts til greiðslu, sem gangi bersýnilega gegn þeim forsendum að færsla innskatts hafi verið óheimil eða að innskattur hafi verið tvífærður. Í ákvörðun ríkisskattstjóra komi skýrt fram að álag sé lagt á vangreiddan virðisaukaskatt sem sé í algerri andstöðu við málsatvik. Lagarök ríkisskattstjóra í málinu séu þannig síbreytileg og löguð að andmælum kæranda eftir því sem meðferð málsins hafi miðað áfram. Ótækt sé að kæranda hafi ekki verið tilkynnt um beitingu álags í upphafi og félaginu þannig gert að leita réttar síns með kæru á ódagsettri og órökstuddri ákvörðun.

Í niðurlagi bréfsins er málskostnaðarkrafa kæranda rökstudd og vísað til gagna sem fylgdi bréfinu henni til stuðnings, þ.e. reikninga, dags. 19. desember 2014, að fjárhæð alls 3.113.850 kr. án virðisaukaskatts vegna um 90 klukkustunda vinnu umboðsmanna kæranda við málið.

IV.

Eins og rakið er hér að framan mun kærandi á árinu 2006 hafa verið skráður frjálsri skráningu í grunnskrá virðisaukaskatts (skráningarnúmer …) vegna útleigu fasteignar við G til Z hf., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og ákvæði II. kafla reglugerðar nr. 577/1989, um frjálsa og sérstaka skráningu vegna leigu eða sölu á fasteign, með síðari breytingum. Á árinu 2021 hóf kærandi framkvæmdir við stækkun húsnæðisins og færði virðisaukaskatt af byggingarkostnaði í virðisaukaskattsskilum árin 2021, 2022 og 2023 vegna hinnar frjálsu skráningar, þ.e. til innskatts. Hinn 24. apríl 2023 fór kærandi fram á með erindi til ríkisskattstjóra að félagið yrði skráð sérstakri skráningu í virðisaukaskattsskrá vegna framkvæmdanna, sbr. umsókn, dags. 13. sama mánaðar, þar sem m.a. kom fram að framkvæmdir hefðu hafist í nóvember 2021 og að farið væri fram á sérstaka skráningu frá og með 1. nóvember 2021 til og með 31. ágúst 2024. Þá væri óskað eftir frjálsri skráningu frá og með 1. september 2024 vegna útleigu húsnæðisins. Umsókn kæranda fylgdu ýmis gögn, þar með talið afrit af samþykki byggingarfulltrúa frá 2022 og samningur um viðbótarleigu, dags. 28. febrúar 2022, milli kæranda og Z hf. um stækkaðan hluta fasteignarinnar. Þá fylgdu erindi kæranda virðisaukaskattsskýrslur vegna tilgreindra uppgjörstímabila á árunum 2021, 2022 og 2023 þar sem virðisaukaskattur af byggingarkostnaði var færður til innskatts, þ.e. sami virðisaukaskattur og áður hafði verið tilfærður sem innskattur í virðisaukaskattsskilum vegna hinnar frjálsu skráningar. Ríkisskattstjóri féllst á umsóknir kæranda um sérstaka og frjálsa skráningu með bréfum, dags. 26. júní 2023. Jafnframt mun ríkisskattstjóri hafa endurákvarðað virðisaukaskatt kæranda árin 2021, 2022 og 2023 til samræmis við meðfylgjandi virðisaukaskattsskýrslur.

Í umsögn ríkisskattstjóra í málinu kemur fram að við yfirferð á leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts (RSK 10.26) með skattframtali kæranda árið 2023 hafi embættið orðið þess áskynja að virðisaukaskattur af byggingarframkvæmdum við G hefði verið færður til innskatts tvívegis í virðisaukaskattsskilum kæranda, þ.e. vegna beggja skráningarnúmera kæranda. Í framhaldi af tölvupóstsamskiptum af þessu tilefni í október 2023 mun kærandi hafa látið ríkisskattstjóra í té leiðréttar virðisaukaskattsskýrslur vegna skráningarnúmersins … og endurgreitt ofgreiddan innskatt 19. október 2023. Samkvæmt gögnum málsins var kæranda ákvarðað 10% álag samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 við þá leiðréttingu virðisaukaskatts sem um ræðir sem tók til uppgjörstímabilanna nóvember-desember 2021 og allra uppgjörstímabila ársins 2022, nánar tiltekið álag að fjárhæð 19.776 kr. fyrra árið og 7.218.651 kr. síðara árið. Er sú álagsbeiting kæruefni málsins, en kærandi telur að hvorki hafi verið tilefni til beitingar álagsins né hafi málsmeðferð ríkisskattstjóra í því sambandi verið lögum samkvæmt. Út af fyrir sig er ekki deilt um það að kæranda hafi borið að hlutast til um leiðréttingu á virðisaukaskattsskilum vegna byggingarframkvæmda við G með þeim hætti sem félagið gerði í apríl 2023, sbr. hér að framan.

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skal aðili sem ekki greiðir virðisaukaskatt á tilskildum tíma, sæta álagi til viðbótar skatti samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu eða til viðbótar þeim skatti sem honum bar að standa skil á, sbr. 19. gr. laganna. Sama gildir ef virðisaukaskattsskýrslu hefur ekki verið skilað eða verið ábótavant og virðisaukaskattur því áætlaður eða endurgreiðsla samkvæmt 25. gr. sömu laga verið of há. Samkvæmt 6. mgr. sömu lagagreinar má fella niður álag ef aðili færir gildar ástæður sér til málsbóta og geta skattyfirvöld metið það í hverju tilviki hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi.

Samkvæmt framansögðu er álag samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 lögbundið og leiðir sjálfkrafa af þeim tilteknu aðstæðum sem lýst er í 1. mgr. greinarinnar. Er því ekki að lögum til að dreifa mati ríkisskattstjóra á beitingu álags að undanskilinni niðurfellingu álags samkvæmt heimildarákvæði 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 við þær sérstöku aðstæður er þar greinir.

Fyrir liggur að kærandi færði til innskatts í virðisaukaskattsskilum vegna frjálsrar skráningar félagsins virðisaukaskatt sem féll til á árunum 2021, 2022 og 2023 vegna viðbyggingar við fasteignina að G sem skráning kæranda tók til. Þar sem frjáls skráning kæranda tók ekki til þess hluta fasteignarinnar (viðbyggingarinnar), sbr. 2. mgr. 4. gr. og 7. gr. reglugerðar nr. 577/1989 og til hliðsjónar 7. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, er ljóst að umrædd færsla innskatts af framkvæmdum við stækkunina var óheimil nema að undangenginni öflun sérstakrar skráningar vegna þeirra eða eftir atvikum breytinga á frjálsri skráningu kæranda, sbr. 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 577/1989. Lagaskilyrði voru því til beitingar álags samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988.

Af hálfu kæranda er því borið við að félaginu hafi ekki verið gefinn kostur á því að neyta andmælaréttar síns og gæta hagsmuna sinna vegna álagsbeitingar ríkisskattstjóra. Er bent á að félagið hafi ekki fengið aðra tilkynningu um ákvörðun virðisaukaskatts, álags og dráttarvaxta en með birtingu kröfu í heimabanka í nóvember 2023. Þeirri kröfu hafi ekki fylgt neinar sundurliðanir eða skýringar og örðugt um vik fyrir kæranda að gera sér grein fyrir fjárhæð álagsins eða hvernig hún væri fengin. Í umsögn ríkisskattstjóra í málinu kemur fram af þessu tilefni að álagið hafi ekki verið réttilega ákvarðað, en sá ágalli sé kæranda til hagsbóta þar sem fjárhæð álagsins sé lægri „en kærandi hefði mátt eiga von á“, eins og þar segir. Að því er snertir andmælarétt kæranda kemur fram í umsögninni, sbr. einnig ákvörðun ríkisskattstjóra frá 11. júlí 2024, að í tilviki kæranda hafi skýrslur félagsins verið lagðar til grundvallar ákvörðun virðisaukaskatts án breytinga á þeim. Virðisaukaskattur kæranda hafi þannig verið endurákvarðaður án sérstakrar tilkynningar, sbr. ákvæði 4. og 5. málsl. 4. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1988.

Samkvæmt 4. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1988 skal ríkisskattstjóri við ákvörðun eða endurákvörðun, sbr. 1.-3. mgr. sömu greinar, tilkynna aðila skriflega um fyrirhugaðar breytingar og af hvaða ástæðum þær séu gerðar til að aðili geti tjáð sig skriflega um efni máls og lagt fram viðbótargögn. Við endurákvörðun skal ríkisskattstjóri þó veita aðila a.m.k. 15 daga frest frá póstlagningu tilkynningar um fyrirhugaðar breytingar. Sé ekki kunnugt um dvalarstað aðila er ríkisskattstjóra heimilt að gera breytingar án þess að tilkynna um þær. Í lokamálslið 4. mgr., sbr. 15. gr. laga nr. 42/2023, um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (kaupréttur, mútubrot o.fl.), segir að sé fallist á beiðni skattaðila um breytingu á virðisaukaskatti skuli tilkynning þó ekki send. Eigi það við hvort sem breyting leiðir til hækkunar eða lækkunar á skatti, enda sé breytingin ekki umfram það sem í beiðni hans greinir.

Í athugasemdum við framangreint ákvæði í frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 42/2023, er m.a. vísað til 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem tekið sé fram að aðili máls skuli eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Eigi hið síðastgreinda við t.d. í þeim tilfellum þegar aðili sæki um tiltekin réttindi eða fyrirgreiðslu á grundvelli framlagðra gagna þannig að óþarft sé talið að veita þurfi aðila færi á að tjá sig um breytingu eða úrlausn sem hann hafi sjálfur farið fram á og stjórnvaldið tekur að fullu til greina, enda verði að telja að afstaða aðila liggi ljós fyrir við aðstæður sem þessar (Þskj. 502 á 153. löggjafarþingi 2022-2023).

Af hálfu kæranda er komið fram að erindi félagsins til ríkisskattstjóra í október 2023 hafi lotið að leiðréttingu innskatts án álags. Verður að ganga út frá því að í hinum leiðréttu virðisaukaskattsskýrslum kæranda, sem fylgdu erindinu, hafi ekki verið gert ráð fyrir álagi, enda hefur ekkert annað komið fram. Í tölvupóstsamskiptum ríkisskattstjóra og kæranda í október 2023 sem voru undanfari leiðréttingarbeiðninnar kom ekkert fram um ákvörðun álags, en eins og áður greinir er staðhæft í kæru að kærandi hafi ekki fengið upplýsingar um álagsákvörðunina fyrr en krafa um greiðslu hafi birst í heimabanka í nóvember sama ár.

Að framangreindu athuguðu verður ekki fallist á með ríkisskattstjóra að heimilt hafi verið að ákvarða kæranda hið umdeilda 10% álag án tilkynningar á grundvelli fyrrnefnds ákvæðis í 4. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1988, enda verður ekki litið svo á að ákvörðun álagsins hafi verið til samræmis við beiðni kæranda í skilningi ákvæðisins. Með vísan til þess og þar sem eina vísbendingin um álagsbeitinguna var krafa sem innheimtumaður ríkissjóðs lagði í heimabanka kæranda, en þar kom út af fyrir sig ekkert fram um álagið, verður að taka undir með kæranda að andmælaréttar félagsins hafi ekki verið gætt með fullnægjandi hætti, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Eins og atvikum var farið samkvæmt framansögðu þykir engu breyta um þetta þótt um sé að ræða lögbundið álag, eins og fyrr er lýst, enda hafði kærandi hagsmuni af því að koma að athugasemdum við álagsbeitinguna, m.a. með tilliti til 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Þá er til þess að líta að hvorki í ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 23. apríl 2024, né í úrskurði hans, dags. 11. júlí sama ár, er álagsfjárhæðar getið né kemur neitt fram um það hvernig hún var fengin. Verður því að taka undir með kæranda að ákvörðun ríkisskattstjóra sé óskýr um þetta. Í umsögn ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar kemur og fram að álagið hafi að mati ríkisskattstjóra verið ranglega ákvarðað.

Með vísan til framanritaðs þykir bera að ómerkja hina kærðu álagsbeitingu. Með úrskurði þessum er þá engin efnisafstaða tekin til ágreiningsefnisins. Ríkisskattstjóri annast um gjaldabreytingar sem leiða af fyrrgreindri niðurstöðu, sbr. 18. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 8. gr. laga nr. 123/2014, um breyting á þeim lögum, og 1. gr. reglugerðar nr. 1146/2014.

Af hálfu kæranda er þess krafist að félaginu verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með síðari breytingum. Samkvæmt úrslitum málsins þykir bera að ákvarða kæranda málskostnað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis. Með bréfi, dags. 19. janúar 2025, hefur kærandi lagt fram gögn til stuðnings kröfu um greiðslu málskostnaðar, þ.e. reikninga vegna vinnu umboðsmanna kæranda við málið, sem bera með sér útgjöld að fjárhæð samtals 3.113.850 kr. án virðisaukaskatts vegna um 90 klukkustunda vinnu. Á reikningi að fjárhæð 1.010.500 kr. án virðisaukaskatts kemur fram að hann sé vegna þjónustu í október 2024 og aðstoðar við kærumál til fjármálaráðuneytisins vegna dráttarvaxta á virðisaukaskatt. Verður því ekki talið að þau útgjöld geti komið til álita sem kostnaður vegna meðferðar máls kæranda fyrir yfirskattanefnd. Að því er snertir reikning að fjárhæð 2.103.350 kr. vegna tæplega 60 stunda vinnu við kæru til yfirskattanefndar þá verður ekki talið að þar sé að öllu leyti um kostnað að ræða sem eðlilegt sé að til hafi verið stofnað vegna málsins, sbr. lagaskilyrði fyrir greiðslu slíks kostnaðar úr ríkissjóði, og er þá einkum litið til þess að málið varðar afmarkað sakarefni, þ.e. beitingu álags, og getur ekki talist svo umfangsmikið að réttlæti slíkan kostnað. Að þessu athuguðu og með vísan til starfsreglna yfirskattanefndar um ákvörðun málskostnaðar þykir málskostnaður kæranda hæfilega ákvarðaður 600.000 kr. og er þá miðað við u.þ.b. tuttugu klukkustunda vinnu sérkunnáttumanns við málið.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hið kærða álag fellur niður. Málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði ákveðst 600.000 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja