Úrskurður yfirskattanefndar
- Áætlun skattstofna
- Framfærslueyrir
- Málsmeðferð
- Álag
Úrskurður nr. 84/2025
Gjaldár 2024
Lög nr. 90/2003, 96. gr., 108. gr. 2. mgr.
Ríkisskattstjóri synjaði að leggja innsent skattframtal til grundvallar álagningu opinberra gjalda sökum þess að kærandi hefði ekki tilfært neinar tekjur í skattframtalinu og skýringar kæranda í þeim efnum ekki fullnægjandi. Í úrskurði yfirskattanefndar var ekki talið unnt að byggja á þeim skýringum að kærandi hefði framfleytt sér af tekjum sambýlismanns síns þar sem framtaldar tekjur hans væru langt frá því að teljast geta staðið undir framfærslu fjögurra manna fjölskyldu. Þar sem ekki var talið að áætlun ríkisskattstjóra væri úr hófi fram var kröfum kæranda hafnað, þar með talið kröfu um niðurfellingu 25% álags.
Ár 2025, föstudaginn 6. júní, er tekið fyrir mál nr. 39/2025; kæra A, dags. 26. febrúar 2025, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2024. Í málinu úrskurða Þórarinn Egill Þórarinsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Málavextir eru þeir að kærandi tilfærði engar tekjur í skattframtali 2024 aðrar en vaxtatekjur af sparifjárreikningi að fjárhæð 885 kr. Í kjölfar bréfaskipta, sbr. fyrirspurnarbréf ríkisskattstjóra, dags. 8. apríl 2024, og svarbréf kæranda, dags. 10. apríl 2024, þar sem kærandi bar því við að vera heimavinnandi og að hún drægi fram lífið á tekjum sambýlismanns síns, B, tilkynnti ríkisskattstjóri kæranda með bréfi, dags. 22. maí 2024, og með vísan til 1. og 3. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, um áætlun skattstofna kæranda með fjárhæðinni 4.750.000 kr. gjaldárið 2024 að viðbættu álagi að fjárhæð 712.500 kr. Kom fram að ríkisskattstjóra þætti innsent skattframtal ekki nægilega traust heimild til að byggja mætti álagningu opinberra gjalda á því þar sem kærandi hefði ekki sýnt fram á með óyggjandi hætti hvernig framfærslu hennar hefði verið háttað á tekjuárinu 2023, en tekjur sambýlismanns hennar væru að mati ríkisskattstjóra ekki það háar að þær dygðu til framfærslu kæranda og barna hennar. Kærandi kærði álagninguna 3. júní 2024 og í kjölfar fyrirspurnarbréfs ríkisskattstjóra, dags. 11. nóvember 2024, og svarbréfs umboðsmanns kæranda, dags. 25. nóvember 2024, kvað ríkisskattstjóri upp kæruúrskurð, sbr. 99. gr. laga nr. 90/2003, og synjaði kröfu kæranda um að falla frá áætlun skattstofna. Í úrskurðinum var rakið að í símtali ríkisskattstjóra og kæranda hefði komið fram að maki kæranda hefði unnið að hluta til erlendis á árinu 2023 og að óskað hefði verið eftir gögnum um tekjurnar. Engin gögn hefðu hins vegar borist sem sýndu fram á með óyggjandi hætti hvernig framfærslu kæranda hefði verið háttað á árinu 2023.
II.
Með kæru, dags. 26. febrúar 2025, hefur kærandi skotið kæruúrskurði ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar. Skilja verður kröfugerð í kæru þannig að þess sé aðallega krafist að áætlun skattstofna kæranda verði felld niður og til vara að álögð opinber gjöld verði lækkuð til muna. Loks er gerð krafa um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðunum breytingum.
Í kærunni eru málsatvik reifuð. Kærandi og maki hennar hafi verið í sambúð frá árinu 2010 og hafi eignast tvö börn saman. Í kjölfar barneigna hafi kærandi ákveðið að vera heimavinnandi og sinna börnunum. Hún hafi því verið tekjulaus frá 2016 og hafi fjölskyldan treyst á tekjur maka hennar til framfærslu, auk þess að treysta eftir aðstæðum á þá mataraðstoð sem sé í boði hverju sinni. Árið 2015 hafi kæranda og maka hennar verið gert að skrá sig sem sambúðarfólk í skattskilum sínum og skila upp frá því hvort í sínu lagi skattframtali með fjölskyldumerkingunni 7, þ.e. sambúðarfólk sem hefði rétt til samsköttunar en væri ekki samskattað. Frá árinu 2021 hafi ríkisskattstjóri svo nær árlega spurt kæranda út í framfærslu hennar og hún gefið sömu skýringar og að ofan greinir. Verði staðið við áætlaða skattstofna missi kærandi allan rétt til barnabóta sem hún hafi haft. Einhvern tíma á tímabilinu júní til nóvember 2024 eigi ríkisskattstjóri að hafa fengið munnlegar upplýsingar um erlendar tekjur maka kæranda en ekkert hafi verið skráð um þetta svo sem embættinu hafi borið að gera, sbr. 27. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Kærandi og maki hennar kannist ekki við að hafa verið með erlendar tekjur síðustu árin. Það að sambúðarfólk skrimti á lágum tekjum sé ekkert einsdæmi og eigi ekki að þurfa að koma ríkisskattstjóra sérstaklega á óvart.
Kærandi hafi frá upphafi borið því við að hafa verið heimavinnandi og geti engar tekjur ekki verið sönnun fyrir skattaundanskotum. Skýringar kæranda hafi ekki verið hraktar og verði að teljast fullnægjandi í skilningi 96. gr. laga nr. 90/2003. Samanburður á samanlagðri hreinni eign kæranda og maka hennar í skattframtölum gjaldáranna 2020 til 2024 sýni að hækkun á samanlagðri hreinni eign á tímabilinu, t.a.m. að teknu tilliti til hækkunar fasteignamats, sé í samræmi við samanlagðar tekjur þeirra að teknu tilliti til hóflegrar neyslu. Skattframtölin beri með sér að hækkun á hreinni eign sé aðallega tilkomin vegna hækkandi fasteignamats en ekki sé að sjá að handbært fé þeirra hafi aukist á milli ára sem myndi gefa til kynna óuppgefna skattstofna.
Þá telji kærandi að meðferð máls ríkisskattstjóra standist ekki þær kröfur sem gera verði til embættisins um vandaða stjórnsýslu. Rannsóknarreglan hafi ekki verið virt en ríkisskattstjóri hafi ekki á nokkurn hátt rannsakað og tekið afstöðu til skýringa kæranda. Skattyfirvöld verði að athuga og meta upplýsingar skattaðila áður en ákvörðun sé tekin. Þá sé rökstuðningi ríkisskattstjóra að sama skapi áfátt og ekki að sjá að embættið hafi tekið fram komin andmæli og sjónarmið kæranda til rökstuddrar úrlausnar. Með sömu rökum vísar umboðsmaður kæranda til þess að andmælaréttur kæranda hafi verið virtur að vettugi. Þessu til viðbótar hafi ríkisskattstjóri brotið hina óskráðu meginreglu um misbeitingu valds við val á leið til úrlausnar máls. Embættið hafi frá upphafi stefnt að ákveðinni niðurstöðu og komið sér hjá vandaðri, tímafrekari og fyrirhafnarmeiri málsmeðferð sem leiða myndi til réttari efnislegrar niðurstöðu. Loks er því borið við að ríkisskattstjóri hafi ekki byggt niðurstöðu sína á málefnalegum sjónarmiðum og réttmætisreglan því verið brotin. Embættið hafi byggt á getgátum og órökstuddu mati þvert á rökstudd andmæli kæranda. Sönnunarmat hafi ekki farið fram, sbr. álit Umboðsmanns Alþingis í sambærilegu máli (UA 4617/2005).
Meðfylgjandi kæru eru gögn til stuðnings málskostnaðarkröfu kæranda.
III.
Með bréfi, dags. 6. mars 2025, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 11. mars 2025, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og henni gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.
IV.
Samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal ríkisskattstjóri, ef í ljós kemur fyrir eða eftir álagningu að framtal eða einstakir liðir þess eða fylgigögn séu ófullnægjandi, óglögg eða tortryggileg, eigi skráð á lögmæltan hátt eða ófullnægjandi undirrituð eða ríkisskattstjóri telur frekari skýringa þörf á einhverju atriði, skora skriflega á framteljanda að bæta úr því innan ákveðins tíma og láta í té skriflegar skýringar og þau gögn, þar með talið bókhald og bókhaldsgögn, sem ríkisskattstjóri telur þörf á að fá. Fái ríkisskattstjóri fullnægjandi skýringar og gögn innan tiltekins tíma leggur hann skatt á eða endurákvarðar skattinn samkvæmt framtali og fengnum skýringum og gögnum, sbr. þó 108. gr. Ef eigi er bætt úr annmörkum á framtali, svar frá framteljanda berst ekki innan tiltekins tíma, skýringar hans eru ófullnægjandi, eigi eru send þau gögn sem óskað er eftir, send gögn eru ófullnægjandi eða tortryggileg eða bókhald og önnur gögn, sem skattframtal byggist á, verða ekki talin nægilega örugg heimild um atvinnurekstur eða starfsemi, skal ríkisskattstjóri áætla tekjur og eign skattaðila svo ríflega að eigi sé hætt við að fjárhæðir séu áætlaðar lægri en þær eru í raun og veru og ákvarða eða endurákvarða skatta hans í samræmi við þá áætlun, sbr. þó 108. gr. laganna.
Eins og rakið er hér að framan hófst málið með fyrirspurnarbréfi ríkisskattstjóra, dags. 8. apríl 2024, þar sem ríkisskattstjóri spurðist fyrir um tekjuleysi kæranda og gaf henni kost á að koma að skýringum og gögnum, sem kærandi gerði með bréfi, dags. 10. apríl 2024. Með tilkynningu um breytingu á skattframtali kæranda, dags. 22. maí 2024, gerði ríkisskattstjóri grein fyrir athugasemdum kæranda og tók afstöðu til þeirra. Hið sama var uppi á teningnum eftir að kærandi kærði álagningu ríkisskattstjóra, en ríkisskattstjóri sendi kæranda þá fyrirspurnarbréf, dags. 11. nóvember 2024, og gaf kæranda kost á að koma að frekari gögnum og varpa ljósi á hvernig hún hefði framfleytt sér á árinu 2023. Bréfinu svaraði kærandi með bréfi, dags. 25. nóvember 2024. Í kæruúrskurði sínum, dags. 27. nóvember 2024, gerði ríkisskattstjóri svo grein fyrir skýringum kæranda og tók afstöðu til þeirra. Samkvæmt þessu verður ekki talið að viðbárur kæranda viðhlítandi formhlið málsins eigi við rök að styðjast. Verður ekki fallist á með umboðsmanni kæranda að hnökrar hafi verið á málsmeðferð ríkisskattstjóra þannig að varði ómerkingu hins kærða úrskurðar.
Eins og fram er komið tilfærði kærandi engar tekjur í skattframtali gjaldárið 2024 og er því borið við af hálfu kæranda að hún, sambýlismaður hennar og börn þeirra hafi látið það duga að lifa af tekjum sambýlismannsins á árinu 2023. Samkvæmt upplýsingum úr upplýsingakerfum skattyfirvalda voru framtaldar tekjur sambýlismanns kæranda á árinu 2023 langt frá því að teljast geta staðið undir framfærslu fjögurra manna fjölskyldu. Þá bera skattframtöl kæranda og upplýsingar úr skattskilagögnum sambýlismanns hennar ekki með sér að þau hafi framfleytt sér með því að ganga á eignir sínar. Er því enn á huldu hvernig kærandi framfleytti sér á árinu 2023 en eins og málið liggur fyrir verður ekki talið að hægt sé að byggja á þeim skýringum sem kærandi hefur fært fram. Samkvæmt þessu verður að telja að rétt hafi verið hjá ríkisskattstjóra að áætla skattstofn kæranda með þeirri fjárhæð sem ákvörðuð var, svo sem lög standa til, sbr. 1. og 3. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, en ekki verður talið að áætlun ríkisskattstjóra sé úr hófi fram. Er kröfu kæranda um niðurfellingu eða lækkun tekjuskattsstofns gjaldárið 2024 því hafnað.
Í 1. málsl. 1. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, segir að ríkisskattstjóri megi bæta allt að 15% álagi við þá skattstofna sem hann áætlar telji framtalsskyldur aðili ekki fram til skatts innan tilskilins frests. Í 3. mgr. sömu lagagreinar er boðað að fella skuli niður álag samkvæmt greininni ef skattaðili færir rök að því að honum verði eigi kennt um annmarka á framtali eða vanskil þess, að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann skilaði framtali á réttum tíma, bætti úr annmörkum á framtali eða leiðrétti einstaka liði þess. Þegar litið er til þeirra annmarka sem voru á skattskilum kæranda umrætt ár, þar sem kærandi hefur enga grein gert fyrir tekjum sér og sínum til framfærslu, þykja ekki efni til að falla frá beitingu álags í tilviki kæranda, enda þykir hvorki hafa verið sýnt fram á af hálfu kæranda að atvikum sé svo farið að 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 eigi við þannig að fella beri álagið niður né að tilefni sé til að falla frá álagsbeitingu að öðru leyti. Er kröfu kæranda um niðurfellingu álags því hafnað.
Af hálfu kæranda er gerð krafa um að henni verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum. Samkvæmt úrslitum málsins eru ekki lagaskilyrði til að úrskurða kæranda málskostnað. Kröfu þess efnis er því hafnað.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.