Úrskurður yfirskattanefndar
- Bifreiðahlunnindi
- Skattmat
- Valdsvið yfirskattanefndar
Úrskurður nr. 76/2025
Gjaldár 2020-2023
Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 1. tölul., 118. gr. Lög nr. 30/1992, 2. gr. Skattmat fyrir tekjuárin 2019-2022.
Í máli þessu var ágreiningur um ákvörðun bifreiðahlunninda vegna afnota kæranda, sem var eigandi og fyrirsvarsmaður X ehf., af bifreið í eigu félagsins á árunum 2019-2022, en félagið hafði með höndum ferðaþjónustu. Í úrskurði yfirskattanefndar var talið verða að byggja á því að kærandi hefði haft umráð bifreiðarinnar utan vinnutíma, enda yrði ekki annað ráðið en að kærandi hefði sjálfur haft ákvörðunarvald um afnot sín af henni í einstökum tilfellum. Vegna athugasemda kæranda um að bifreiðin, sem var af gerðinni Toyota Land Cruiser, hefði hentað illa til einkanota kom fram að ekkert yrði ráðið af gögnum málsins um að gerð og búnaður bifreiðarinnar hefði torveldað kæranda einkanot af henni. Þá var ekki talið geta skipt máli að um væri að ræða bifreið af þeim toga sem félli undir 6. tölul. 2. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, enda yrði ekki séð að það gæti staðið í vegi fyrir einkanotum kæranda af bifreiðinni. Var kröfu kæranda hafnað, en kröfu hans um skaðabætur vegna tjóns sem hin kærða ákvörðun hefði haft í för með sér var vísað frá yfirskattanefnd þar sem ekki væri á valdsviði nefndarinnar að taka slíka kröfu til efnislegrar úrlausnar.
Ár 2025, miðvikudaginn 4. júní, er tekið fyrir mál nr. 143/2024; kæra A, dags. 26. september 2024, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárin 2020, 2021, 2022 og 2023. Í málinu úrskurða Þórarinn Egill Þórarinsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Með kæru, dags. 26. september 2024, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 24. september 2024, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2020, 2021, 2022 og 2023. Kæruefni málsins er sú ákvörðun ríkisskattstjóra að færa kæranda til tekna skattskyld bifreiðahlunnindi að fjárhæð 230.137 kr. í skattframtali árið 2022 og 2.520.000 kr. í skattframtali árið 2023 vegna meintra ótakmarkaðra einkaafnota kæranda af bifreið af gerðinni Toyota Land Cruiser með skráningarnúmerið N á árunum 2020 og 2021, en bifreiðin var í eigu X ehf. Bætti ríkisskattstjóri 25% álagi við hækkun skattstofna kæranda umrædd ár sem af breytingunum leiddi, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.
Af hálfu kæranda er farið fram á að tekjufærð bifreiðahlunnindi vegna bifreiðarinnar N verði felld niður. Þá gerir kærandi kröfu um að ríkisskattstjóri greiði skaðabætur vegna tapaðra tekna félagsins en aðgerðir embættisins hafi það í för með sér að selja þurfi bifreiðar X ehf. og hætta rekstri félagsins.
Tekið skal fram að með hinum kærða úrskurði tilkynnti ríkisskattstjóri jafnframt sambýliskonu kæranda, B, um breytingar á opinberum gjöldum hennar gjaldárin 2022 og 2023 sem leiddu af framangreindum breytingum á skattframtölum kæranda, en þar var um að ræða lækkun barnabóta og vaxtabóta. Ljóst er að kæruefnið varðar ekki B með öðrum hætti en sem leiðir af lagareglum um skattlagningu hjóna og sambýlisfólks. Tekur framsetning í úrskurði þessum mið af því.
II.
Helstu málavextir eru þeir að á þeim tíma sem málið varðar var kærandi eigandi alls hlutafjár í X ehf., ásamt því að vera stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi félagsins. Skráður tilgangur félagsins var ferðaþjónusta, sala ferða og akstur og leiðsögn með ferðamönnum. Á þeim tíma sem málið varðar var félagið eigandi þriggja bifreiða, þ.e. bifreiðar af gerðinni Skoda Octavia með skráningarnúmerið F frá 4. apríl 2019 til 1. desember 2021, bifreiðar af gerðinni Toyota Land Cruiser með skráningarnúmerið N frá 1. desember 2021 og bifreiðar af gerðinni Toyota Yaris með skráningarnúmerið E frá 9. maí 2022.
Með bréfi til kæranda og X ehf., dags. 25. mars 2024, fór ríkisskattstjóri fram á að látnar yrðu í té upplýsingar um notkun á umræddum þremur bifreiðum félagsins á árunum 2019 til 2022. Kom fram að hefði kærandi ekki haft umráð yfir umræddum bifreiðum félagsins þyrfti að upplýsa hver og hverjir hefðu haft bifreiðarnar til umráða á umræddum árum og hver þau umráð hefðu verið. Upplýsa þyrfti um tengsl þeirra sem í hlut ættu við félagið. Hefðu bifreiðarnar eingöngu verið notaðar í þágu rekstrar félagsins þyrfti að leggja fram gögn er sýndu ótvírætt fram á slíka notkun á umræddum árum. Hefði kærandi haft umráð yfir bifreiðum félagsins og greitt rekstrarkostnað vegna bifreiðanna þyrfti að leggja fram gögn sem sýndu fram á það. Að lokum lagði ríkisskattstjóri fyrir félagið að láta í té skýringar á því hverju það sætti að bifreiðin E hefði ekki verið eignfærð í skattskilum félagsins í ljósi eignarhalds félagsins á bifreiðinni. Þá var farið fram á að upplýst yrði um kaupverð bifreiðarinnar. Í svarbréfi kæranda og X ehf., dags. 11. apríl 2024, kom fram að kærandi og maki hans hefðu haft bifreiðina E, Toyota Yaris, til einkanota og að bifreiðin hafi verið keypt á 1.100.000 kr. Einnig hefðu þau haft afnot af bifreiðinni F, Skoda Octavia, en hún hefði þó verið mest notuð í tryggingasölu. Var tekið fram að miðað við þær upplýsingar sem fram kæmu í fyrirspurnarbréfi ríkisskattstjóra ætti hún að vera metin til hlunninda. Hvað varðaði bifreiðina N, Land Cruiser, þá væri hún breytt torfærubifreið sem eingöngu hefði verið notuð í ferðir og vinnu fyrir X ehf. og kærandi hefði ekki haft aðgang að henni nema vegna vinnu. Hefði hún verið geymd á bílastæði á höfuðborgarsvæðinu þegar hún væri ekki í notkun. Um væri að ræða atvinnutæki sem væri illa nothæft sem fjölskyldubifreið.
Með bréfi, dags. 26. júní 2024, boðaði ríkisskattstjóri kæranda endurákvörðun opinberra gjalda hans gjaldárin 2020, 2021, 2022 og 2023, sbr. 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, þar sem fyrirhugað væri að færa kæranda til skattskyldra tekna skattskyld bifreiðahlunnindi með tilgreindum fjárhæðum í skattframtölum hans árin 2019, 2020, 2021 og 2022, sbr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, vegna umráða kæranda yfir tveimur bifreiðum X ehf. að viðbættu 25% álagi samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Af hálfu kæranda var boðuðum breytingum mótmælt með bréfi, dags. 9. júlí 2024. Kom fram í bréfinu að reiknuð hlunnindi væru langt umfram meðalhóf þegar horft væri til umfangs rekstrar félagsins. Um væri að ræða vertíðabundinn rekstur og væri ekki um að ræða aðalstarf kæranda. Reiknuð hlunnindi væru hærri en sem næmi árssölu félagsins. Bifreiðin N væri ekki bifreið sem reikna bæri bifreiðahlunnindi vegna. Um væri að ræða hluta af seldri vöru en bifreiðin væri leigð út til ferðamanna ásamt bílstjóra sem einnig sinnti leiðsögn. Bifreiðin væri breytt torfærubifreið sem væri eina framleiðslutækið í eigu félagsins og væri hún eingöngu nýtt til að ferja viðskiptavini í ævintýraferðum um landið. Var akstur í seldum ferðum tekinn saman í töflu og var heildarakstur bifreiðarinnar tiltekinn 75.550 km. Var tekið fram að bifreiðinni hefði nú verið ekið um 180.000 km en henni hefði verið ekið 100.000 km þegar félagið festi kaup á henni og sýndi það að hún hefði einungis verið nýtt í þágu félagsins. Fylgdu bréfinu m.a. gögn sem sýndu fram á sölu ferða, útsendir reikningar og upplýsingar úr bókunarkerfi. Þá fylgdi skoðunar- og skráningarsaga bifreiðarinnar. Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 24. september 2024, hratt ríkisskattstjóri boðuðum breytingum í framkvæmd, sbr. 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003.
Í úrskurðinum, sbr. og boðunarbréf, gerði ríkisskattstjóri grein fyrir málavöxtum og lagagrundvelli málsins. Rakti ríkisskattstjóri í því sambandi ákvæði 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 og reglur um skattmat vegna tekna manna tekjuárin 2019, 2020, 2021 og 2022, sbr. auglýsingar nr. 1141/2018, 1223/2019, 1431/2020 og 1503/2021 í B-deild Stjórnartíðinda. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hefði X ehf. keypt bifreiðina F af gerðinni Skoda Octavia þann 4. apríl 2019 og hefði kaupverð hennar numið alls 3.800.000 kr. Þá hefði félagið keypt bifreiðina aftur 1. desember 2021. Félagið hefði enn fremur keypt bifreiðina E af gerðinni Toyota Yaris þann 9. maí 2022, en kærandi hefði upplýst að kaupverð hennar hefði numið 1.000.000 kr. Loks hefði félagið keypt bifreiðina N af gerðinni Toyota Land Cruiser þann 1.desember 2021 og hefði kaupverð hennar numið alls 10.000.000 kr.
Benti ríkisskattstjóri á að í skattmatsreglum vegna bifreiðahlunninda kæmi skýrt fram að eigendur fyrirtækja, framkvæmdastjórar þeirra og aðrir í sambærilegum störfum teldust ætíð hafa full og ótakmörkuð umráð yfir þeim fólksbifreiðum sem þeim væru látnar í té og þeir hefðu til einkanota. Tók ríkisskattstjóri m.a. fram að ekki væri efast um að umræddar bifreiðar félagsins hefðu verið nýttar í þágu rekstrar þess á umræddum árum. Kærandi og félag hans hefðu þó ekki lagt fram nein gögn sem sýndu fram á að notkun bifreiðanna hafi eingöngu verið í þágu rekstrarins eða að umráð kæranda yfir bifreiðunum hefðu verið takmörkuð með einhverjum sannanlegum hætti, þar með talin umráð kæranda yfir Toyota Land Cruiser bifreið með skráningarnúmerið N, en skýringar kæranda og félagsins á því að umrædd bifreið, breytt torfærubifreið, hefði eingöngu verið notuð í ferðir og vinnu fyrir félagið og að hún hefði verið illa nothæf sem fjölskyldubifreið, væru ekki til þess fallnar að líta bæri svo á að kærandi gæti ekki hafa haft umrædda bifreið til umráða. Yrði ekki annað ráðið en að kærandi hefði haft umráð og algert ákvörðunarvald um afnot af öllum framangreindum bifreiðum félagsins í skilningi skattmatsreglna án þess að nokkru eftirliti yrði við komið. Var það mat embættisins að reikna bæri kæranda til tekna í skattframtölum hans bifreiðahlunnindi vegna þessara umráða. Með hliðsjón af meðalhófi þætti þó að mati ríkisskattstjóra mega líta svo á að aðeins skyldi reikna kæranda hlunnindi af umráðum hans yfir einni bifreið í senn, eða af bifreiðunum F og N, en í úrskurðaframkvæmd hefði verið litið svo á að í þeim tilvikum sem ekki þætti vera tilefni til að reikna hlunnindi yfir fleiri en einni bifreið í einu væri rétt að miða útreikning bifreiðahlunninda við þær bifreiðar sem hærra viðmiðunarverð hefðu, sbr. úrskurð yfirskattanefndar í máli nr. 181/2006.
Vegna framkominna andmæla kæranda um að eignarhald félags hans á torfærubifreiðinni og atvinnutækinu N ættu ekki að teljast kæranda til bifreiðahlunninda tók ríkisskattstjóri fram að ekki væri efast um að umrædd Toyota Land Cruiser bifreið hefði verið notuð í þágu rekstrarins. Kærandi og félagið þættu þó ekki hafa lagt fram nein haldbær gögn sem sýndu fram á að það að aðgangur hans að bifreiðinni hefði verið takmarkaður með einhverjum sannanlegum hætti utan vinnutíma, að hann hefði ekki getað nýtt bifreiðina til persónulegra nota eða að allur akstur bifreiðarinnar hefði verið í þágu rekstrar félagsins. Þá áréttaði ríkisskattstjóri að hinn raunverulegi akstur eða notkun í eigin þágu væri ekki hið eiginlega inntak hlunninda miðað við full umráð, heldur hin ótakmörkuðu endurgjaldslausu umráð, sbr. dóma Hæstaréttar í máli nr. 356/1999 og í máli nr. 49/2015. Þá benti ríkisskattstjóri á að sú bifreið sem kærandi hefði viðurkennt umráð yfir, Skoda Octavia, hefði verið seld þann sama dag og bifreiðin N var keypt og hefðu hvorki kærandi, maki hans né félagið átt aðrar bifreiðar fyrr en félagið festi kaup á Toyota Yaris bifreiðinni í maí 2022. Að endingu áréttaði ríkisskattstjóri að reglur um skattskyldu hlunninda væru óháðar umfangi rekstrar, enda væru þær til þess gerðar að leggja mat á og skattleggja hlunnindi í höndum þess sem hlunninda nyti og legðust sem slíkar á þann aðila, eða kæranda í þessu tilviki.
III.
Í kafla I hér að framan er greint frá kröfugerð kæranda í kæru til yfirskattanefndar, dags. 26. september 2024. Í kærunni er rakið að kærandi hafi gengist við því að hafa átt að reikna sér bifreiðahlunnindi vegna bifreiðanna F og E eftir að hafa kynnt sér regluverk um bifreiðahlunnindi. Þá hafi ríkisskattstjóri vísað til þess að kærandi hafi selt bifreiðina F sama dag og bifreiðin N hafi verið keypt, 1. desember 2021, og haldið því fram að hvorki kærandi, félagið né maki hans hafi átt aðrar bifreiðar þar til í maí 2022. Maki kæranda hafi verið með bifreið á leigu þar til að hún eignaðist barn á árinu 2022. Þá hafi kærandi og maki hans verið með bifreið að láni frá föður maka þar til félagið festi kaup á E í maí 2022. Þar sem þau hafi verið í fæðingarorlofi með barn sitt á umræddum tíma hafi þau ekki haft mikla þörf fyrir bifreið. Ríkisskattstjóri hafi velt hlutum fyrir sér án þess að öll gögn lægju fyrir og án þess að embættið óskaði eftir frekari gögnum frá kæranda. Sé ljóst að starfsmennirnir hafi ákveðið að kærandi hafi nýtt virðisaukaskattsskylda bifreið félagsins til einkanota án þess að nokkur gögn sýndu fram á það. Hið andstæða hafi þeim verið ljóst, enda hafi kærandi fært fram gögn sem sýndu fram á að bifreiðin hefði vissulega einungis verið notuð í þágu fyrirtækisins sem hluti af útseldri virðisaukaskattsskyldri vöru. Kærandi telji að ályktun ríkisskattstjóra hafi verið varpað fram til að draga úr trúverðugleika kæranda. Verði að telja að ríkisskattstjóri hafi m.a. brotið meðalhófsreglu með því að fylgja ekki skattalögum og ákvarða kæranda bifreiðahlunnindi vegna bifreiðar sem ekki beri að ákvarða hlunnindi vegna. Sé ljóst að kærandi þurfi að selja bifreiðar X ehf. og hætta rekstri vegna ákvörðunar ríkisskattstjóra.
IV.
Með bréfi, dags. 15. nóvember 2024, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda þyki ekki hafa komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Í umsögninni er rakið að kærandi hafi gengist við því að hafa vegna vankunnáttu ekki gefið upp bifreiðahlunnindi vegna bifreiðanna F og E og hafi sæst á að greiða bifreiðahlunnindi afturvirkt vegna þeirra. Aftur á móti sé bifreiðin N, breytt Toyota Land Cruiser torfærubifreið, með rekstrarleyfi og notuð í ferðaþjónustu. Hafi bifreiðin verið atvinnutæki með leyfi til innsköttunar á virðisaukaskatti. Kærandi hafi sagst hafa lagt fram gögn sem sýni fram á að bifreiðin hafi samkvæmt akstursmæli eingöngu verið ekið í ferðum fyrir fyrirtækið. Hafi seldar ferðir jafngilt eknum kílómetrum á mæli bifreiðarinnar. Kærandi haldi því fram að starfsmenn ríkisskattstjóra hafi ekki tekið tillit til þess að um hafi verið að ræða atvinnubifreið sem hefði innskattsleyfi fyrir virðisaukaskatt og ekki svarað þeim rökstuðningi að bifreiðin hafi einungis verið seld út sem virðisaukaskattsskyld vara. Einungis bent á að kærandi hafi haft umráð yfir henni. Eins og fram komi í hinum kærða úrskurði efist ríkisskattstjóri ekki um að umrædd bifreið félagsins hafi verið notuð í þágu rekstrarins. Framlögð gögn sýni að bifreiðin hafi verið að miklu leyti notuð vegna útseldra ferða félagsins. Aftur á móti þættu reiknuð laun kæranda fyrir störf hans fyrir félagið ekki endurspegla það vinnuframlag. Að mati ríkisskattstjóra hafi kærandi ekki lagt fram nein haldbær gögn sem sýni fram á, með sannanlegum hætti, að aðgangur hans að umræddri bifreið hafi verið takmarkaður utan vinnutíma, að hann hafi ekki getað nýtt bifreiðina til persónulegra nota eða að allur akstur bifreiðarinnar hafi verið í þágu rekstrar félagins. Þrátt fyrir að heimild hafi verið til staðar til að telja til innskatts virðisaukaskatt af rekstri bifreiðarinnar girði það ekki fyrir einkaafnot af henni.
Með bréfi, dags. 14. desember 2024, hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum vegna umsagnar ríkisskattstjóra. Er tekið fram að starfsmenn ríkisskattstjóra hafi fengið gögn í hendurnar er sýni fram á að bifreiðin hafi eingöngu verið hluti af útseldum ferðum samkvæmt reikningum og akstursmæli bifreiðarinnar og viðurkenni að aksturinn hafi að mestu verið í þágu félagsins. Þrátt fyrir það haldi ríkisskattstjóri því fram að kærandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi ekki haft aðgang að bifreiðinni. Þá sé ýjað að því að kærandi hafi ekið bifreiðinni í einkaþágu, sem sé algjörlega ólöglegt, enda sé bifreiðin innsköttuð, en ríkisskattstjóri hafi ekki sýnt fram á nein gögn sem sýni fram á að kærandi hafi nýtt bifreiðina í einkaþágu. Þrátt fyrir að ríkisskattstjóri viðurkenni að bifreiðinni hafi verið ekið að mestu sem hluta af útseldum ferðum sé ætlast til þess að kærandi reikni sér hlunnindi sem nemi milljónum króna.
V.
Kæra í máli þessu varðar skattlagningu bifreiðahlunninda kæranda gjaldárin 2022 og 2023 vegna ætlaðra einkanota hans af bifreiðinni N á árunum 2021 og 2022, en bifreiðin var í eigu X ehf. Fram er komið að kærandi var eigandi alls hlutafjár í félaginu, ásamt því að vera stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi þess. Kærandi tilfærði engin laun frá félaginu gjaldárin 2020, 2021 og 2022 en gjaldárið 2023 tilfærði hann laun að fjárhæð 1.050.000 kr. Þá tilfærði kærandi engin skattskyld bifreiðahlunnindi í skattframtölum sínum umrædd ár, enda var og er viðhorf kæranda að engum einkaafnotum af bifreiðinni hafi verið fyrir að fara. Með hinum kærða úrskurði færði ríkisskattstjóri kæranda til tekna í skattframtölum hans árin 2020, 2021, 2022 og 2023 skattskyld bifreiðahlunnindi að fjárhæð 789.984 kr. fyrsta árið, 957.600 kr. annað árið, 1.021.141 kr. þriðja árið og 2.520.000 kr. fjórða árið á þeim grundvelli að kærandi hefði haft full og ótakmörkuð umráð yfir bifreiðunum F og N, í eigu X ehf., á greindum tíma, sbr. reglur ríkisskattstjóra um skattmat vegna tekna manna tekjuárin 2019, 2020, 2021 og 2022, sem ríkisskattstjóri vísaði til. Tóku umræddar fjárhæðir mið af tilgreindu kostnaðarverði bifreiðanna og öðrum atriðum sem ráða ákvörðun bifreiðahlunninda samkvæmt reglum skattmats miðað við að um full og ótakmörkuð umráð hafi verið að ráða, sbr. ákvæði um mat bifreiðahlunninda í skattmötunum. Ekki er ágreiningur um að kæranda hafi borið að tilfæra bifreiðahlunnindi vegna umráða yfir bifreiðinni F. Hins vegar hafnar kærandi því að um einkanot hafi verið að ræða af bifreiðinni N og hafi hún eingöngu verið nýtt í þágu rekstrar félagsins, enda sé um að ræða breytta bifreið með innskattsleyfi fyrir virðisaukaskatti og hafi hún því aðeins verið nýtt sem hluti af seldri þjónustu til ferðamanna.
Í 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er mælt fyrir um skattskyldu endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, sem innt er af hendi fyrir annan aðila. Eru í ákvæðinu nefnd í dæmaskyni ýmis konar laun svo og „fatnaður, fæði, húsnæði, risnufé, verkfærapeningar, ökutækjastyrkir, flutningspeningar og aðrar hliðstæðar greiðslur, fríðindi og hlunnindi, svo og framlög og gjafir sem sýnilega eru gefnar sem kaupauki“. Tekið er fram að hvorki skipti máli „hver tekur við greiðslu né í hvaða gjaldmiðli goldið er, hvort sem það er í reiðufé, fríðu, hlunnindum eða vinnuskiptum“. Samkvæmt þessu teljast ekki einungis beinar fjárgreiðslur til skattskyldra tekna sem laun fyrir vinnu, heldur einnig hvers konar fríðindi eða hlunnindi sem launamenn njóta í starfi. Undir skattskyld hlunnindi launamanna samkvæmt ákvæði þessu falla endurgjaldslaus afnot launamanns af bifreið í eigu atvinnurekanda, svonefnd bifreiðahlunnindi. Af eðli hlunninda leiðir að meta verður þau til verðs. Samkvæmt 118. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 21. gr. laga nr. 128/2009, skal ríkisskattstjóri, að fenginni staðfestingu ráðherra, gefa út reglur um mat á hlunnindum, sbr. 7. gr. laga nr. 90/2003, og öðrum tekjum og frádrætti sem meta þarf til verðs samkvæmt lögunum. Um útgáfu ríkisskattstjóra á matsreglum samkvæmt áðurgildandi ákvæði 116. gr. laga nr. 75/1981 er fjallað m.a. í úrskurði yfirskattanefndar nr. 664/1997 og vísast í þann úrskurð um almenn atriði um ákvörðun bifreiðahlunninda.
Kveðið er á um mat bifreiðahlunninda í lið 2.3 í reglum ríkisskattstjóra um skattmat vegna tekna manna tekjuárin 2019, 2020, 2021 og 2022, sbr. reglur nr. 1141/2018, 1223/2019, 1431/2020 og 1503/2021 sem birtar voru í B-deild Stjórnartíðinda. Í matsreglum þessum er greint á milli ákvörðunar bifreiðahlunninda miðað við full og ótakmörkuð umráð bifreiðar annars vegar og vegna takmarkaðra afnota hins vegar. Í reglunum kemur fram að láti launagreiðandi starfsmanni sínum í té fólksbifreið, þ.m.t. skutbifreið, jeppabifreið eða aðra bifreið sem hægt er að hafa sambærileg not af, til fullra umráða skuli meta þau starfsmanni til tekna án tillits til notkunar hans á bifreiðinni. Jafnframt er tekið fram að hafi starfsmaður fleiri en eina bifreið frá launagreiðanda sínum til fullra eða ótakmarkaðra umráða samtímis fyrir sig eða fjölskyldu sína skuli reikna starfsmanninum til hlunninda umráð hans yfir hverri bifreið fyrir sig. Í reglunum er sérstaklega tekið fram að eigendur fyrirtækja, framkvæmdastjórar þeirra og aðrir í sambærilegum störfum sem og stjórnarmenn félaga teljist hafa full og ótakmörkuð umráð yfir þeim fólksbifreiðum sem þeim eru látnar í té og þeir hafa til einkanota.
Eins og fram er komið er kærandi eigandi og fyrirsvarsmaður X ehf. Að því athuguðu og þar sem engar haldbærar upplýsingar hafa komið fram um annað verður að byggja á því að bifreið félagsins hafi verið í umsjá kæranda sjálfs á þeim árum sem málið tekur til. Við slíkar aðstæður þykir verða að gera nokkuð ríkar kröfur til þess að kærandi leiði í ljós með gögnum, t.d. varðandi nýtingu bifreiðar í þágu rekstrar, eða sýni skýrlega fram á með öðrum hætti að hann hafi ekki þau umráð yfir bifreið launagreiðanda að þau verði metin honum til skattskyldra tekna eftir reglum um bifreiðahlunnindi miðað við full umráð. Tekið skal fram að miðað við aðstæður í málinu veltur úrlausn þess á því hvort eigin notum kæranda af umræddri bifreið hafi verið fyrir að fara, enda ber að ákvarða bifreiðahlunnindi miðað við ótakmörkuð afnot, þ.e. full umráð, verði niðurstaðan sú, sbr. fyrrgreindar skattmatsreglur þar sem fram kemur að eigendur fyrirtækja, framkvæmdastjórar þeirra og aðrir í sambærilegum störfum sem og stjórnarmenn félaga teljist ætíð hafa full og ótakmörkuð umráð yfir þeim fólksbifreiðum sem þeim eru látnar í té og þeir hafa til einkanota.
Hvað sem líður skýringum kæranda á notkun bifreiðarinnar í þágu X ehf., sem út af fyrir sig er ekki ástæða til að draga í efa, verður að byggja á því að kærandi hafi haft umráð bifreiðarinnar utan vinnutíma. Ekkert er fram komið um að kærandi hafi verið bundinn sérstökum takmörkunum varðandi afnot af bifreiðinni utan vinnutíma. Verður ekki annað ráðið en að í raun hafi kærandi sjálfur haft ákvörðunarvald um afnot sín af bifreiðinni í einstökum tilfellum. Við úrlausn málsins getur ekki haft þýðingu sú skýring kæranda að hann hafi á umræddum árum haft til umráða frá félagi sínu bifreiðarnar F og E, auk þess sem hann og maki hans hafi á einhverju tímabili haft bifreið að láni. Þá er ekki hægt að taka til greina skýringar kæranda um að umrædd bifreið af gerðinni Toyota Land Cruiser hafi hentað illa til einkanota en ekkert verður ráðið af gögnum málsins um að gerð og búnaður bifreiðarinnar hafi torveldað kæranda einkanot af henni. Ennfremur verður ekki talið skipta máli að um sé að ræða bifreið af þeim toga sem falli undir 6. tölul. 2. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, enda verður ekki séð að það hafi getað staðið í vegi fyrir einkanotum kæranda af bifreiðinni.
Í andmælabréfi kæranda, dags. 9. júlí 2024, var tekinn saman heildarakstur í seldum ferðum félagins og því haldið fram að aksturinn stemmdi við mældan akstur bifreiðarinnar sem hefði verið ekið um 180.000 km við ritun bréfsins en um 100.000 kr. við kaup bifreiðarinnar. Byggði samantektin á vegalengdum ferða sem gefnar voru upp í kílómetrafjölda sem ýmist var gefinn upp í heilum tugum eða hundruðum. Er ekki hægt að taka undir það með kæranda að umrædd samantekt sýni að engin notkun starfsmanna í einkaþágu hafi átt sér stað, svo sem segir í bréfinu, enda byggir samantektin ekki á nákvæmri kílómetraskráningu. Að því leyti sem ráða má af málatilbúnaði kæranda að hann líti svo á að notkun bifreiðar í raun hafi þýðingu skal vísað til dóms Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 356/1999 (H 2000:571), sbr. ennfremur dóm Hæstaréttar frá 24. september 2015 í máli nr. 49/2015, en í dómi þessum er m.a. tekið fram að með skattlagningu bifreiðahlunninda launamanns, sem nýtur ótakmarkaðra afnota af bifreið, sé verið að skattleggja umráðin sem slík og skipti ekki máli í því sambandi hversu mikið launþeginn nýtir sér umráðaréttinn. Í lið 2.3 í fyrrgreindum skattmatsreglum ríkisskattstjóra er tekið fram að láti launagreiðandi starfsmanni sínum í té fólksbifreið, þ.m.t. skutbifreið, jeppabifreið eða aðra bifreið sem hægt er að hafa sambærileg not af, til fullra umráða skuli meta þau starfsmanni til tekna án tillits til notkunar hans á bifreiðinni, eins og fram er komið.
Vegna kröfu kæranda um að honum verði ákvarðaðar skaðabætur vegna tjóns sem hin kærða ákvörðun ríkisskattstjóra hafi haft í för með sér skal tekið fram að úrskurðarvald yfirskattanefndar er skilgreint svo í 1. og 2. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, að það taki til ákvörðunar skatta, gjalda og skattstofna svo sem nánar greinir. Er ekki á valdsviði yfirskattanefndar að taka skaðabótakröfu kæranda til efnislegrar úrlausnar, en um slík mál fjalla dómstólar. Kröfu kæranda varðandi skaðabætur er af þessum sökum vísað frá yfirskattanefnd.
Að öllu fyrrgreindu gættu er óhjákvæmilegt að hafna kröfum kæranda í málinu.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Skaðabótakröfu kæranda er vísað frá yfirskattanefnd. Að öðru leyti er kröfum kæranda í máli þessu hafnað.