Úrskurður yfirskattanefndar

  • Almannaheillaskrá
  • Félagasamtök

Úrskurður nr. 96/2025

Lög nr. 90/2003, 4. gr. 4. tölul. og 9. tölul. (brl. nr. 32/2021, 1. gr., sbr. brl. nr. 133/2021, 1. gr.)   Lög nr. 110/2021, 1. gr.  

Ríkisskattstjóri synjaði kæranda (almennt félag) um skráningu í almannaheillaskrá á þeim forsendum að samþykktir kæranda bæru ekki með sér að tilgangur félagsins miðaði að almannaheill. Fram kom í úrskurði yfirskattanefndar að kæranda væri markaður almennur og víðtækur tilgangur í samþykktunum og að samþykktirnar bæru með sér að félaginu væri fyrst og fremst ætlað að hlúa að hag félagsmanna og skapa þeim starfsaðstöðu og aðstöðu til að koma eigin verkum á framfæri. Var kröfu kæranda hafnað.

Ár 2025, fimmtudaginn 26. júní, er tekið fyrir mál nr. 182/2024; kæra F, mótt. 13. desember 2024, vegna skráningar í almannaheillaskrá. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Kæruefnið í máli þessu er sú ákvörðun ríkisskattstjóra frá 13. nóvember 2024 að hafna skráningu kæranda í almannaheillaskrá, sbr. ákvæði 9. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með áorðnum breytingum. Kærandi er almennt félag sem starfar samkvæmt samþykktum frá september 2024. Ákvörðun ríkisskattstjóra var byggð á því að ekki yrði talið að samþykktir kæranda bæru það með sér með nægilega skýrum og afmörkuðum hætti að tilgangur félagsins, eins og honum væri lýst í 3. gr. samþykktanna og hvernig honum skyldi náð, sbr. 4. gr., félli í öllum megindráttum undir þá starfsemi til almannaheilla sem tilgreind væri í b-lið 2. mgr. 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, sbr. einnig b-lið 17. gr. reglugerðar nr. 1300/2021, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Yrði ekki séð að kærandi hefði það að eina markmiði sínu eða sem meginmarkmið þá almannaheillastarfsemi sem getið væri um í tilgreindum staflið heldur virtist meginhluti starfseminnar ganga út á að tryggja vinnuaðstöðu félagsmanna með aðgengi að vinnustofum og sýningarrými. Þættu samþykktirnar bera með sér að kæranda væri fyrst og fremst ætlað að hlúa að hag félagsmanna og skapa þeim starfsaðstöðu og aðstöðu til að koma eigin verkum á framfæri. Þannig yrði ekki beinlínis séð að starfsemi kæranda væri í öllum megindráttum ætlað að vinna að bættum hag ótiltekins fjölda manna með skýrt ákveðnum hætti og með samfélagsleg markmið að leiðarljósi og starfa þannig í raun með þeim hætti að unnt væri að fallast á að starfsemin væri til almannaheilla með þeim hætti sem ákvæðum b-liðar 2. mgr. 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, sbr. einnig b-lið 17. gr. reglugerðar nr. 1300/2021, væri ætlað að ná til. Varðandi úthlutun eigna við slit samkvæmt 12. gr. samþykktanna tók ríkisskattstjóri fram að óljóst væri hvað fælist í þeirri úthlutun þar sem einungis væri vísað almennt til menningartengdra verkefna og því ekki ljóst til hvers konar menningarstarfsemi eignum yrði úthlutað eða hvort viðkomandi aðili stundaði starfsemi sem félli undir 2. mgr. 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003. Ekki væri nægilegt að orða með almennum hætti hvernig eignum skyldi ráðstafað við slit heldur þyrfti að koma skilmerkilega fram hvernig eignum væri ráðstafað í samræmi við skýrt afmarkað markmið eða tilgang félagsins, og/eða með því að tilgreina aðila til móttöku eigna sem sinntu sambærilegri starfsemi.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar, mótt. 13. desember 2024, er því borið við að markmið félagsins séu ótvírætt til almannaheilla þar sem þau stuðli að menningarauði, skapi vettvang fyrir nýsköpun í listum og efli tengsl milli listamanna og samfélags. Að líta svo á að markmiðið þjóni aðeins félagsmönnum sé misskilningur á því hvernig félagið starfi og hvernig starfsemi þess komi samfélaginu til góða. Starfsemi félagsins þjóni ótilteknum fjölda manna. Kærandi reki opið sýningarrými fyrir almenning þar sem fólk úr samfélaginu hafi aðgang að listrænu efni án greiðslu eða sérstakra takmarkana. Þá haldi kærandi viðburði sem miði að því að virkja samfélagið, með listþingum, sýningum og vinnustofum sem séu öllum opnar og ýti undir samfélagslega þátttöku. Það sé rangt að draga þá ályktun að kærandi starfi einungis til að tryggja vinnuaðstöðu fyrir félagsmenn. Þvert á móti sé markmiðið að skapa rými þar sem menningarstarfsemi geti blómstrað með áherslu á aðgengi almennings að framúrskarandi listsköpun, tilraunastarfsemi og þróun sem stuðli að framþróun íslenskrar myndlistar og alþjóðlegri sýnileika sem tengi íslenskt menningarlíf við heiminn. Félagið sé rekið án hagnaðarsjónarmiða og fjárhagslegur ávinningur félagsmanna sé hverfandi. Áherslan sé á samfélagsleg áhrif, en ekki einstaklingshagsmuni.

II.

Með bréfi, dags. 29. janúar 2025, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að ákvörðun embættisins verði staðfest með vísan til forsendna hennar, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á niðurstöðu ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 3. febrúar 2025, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefin kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

III.

Ákvæði um skráningu lögaðila í svonefnda almannaheillaskrá voru tekin upp í lög nr. 90/2003, um tekjuskatt, með I. kafla laga nr. 32/2021, um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (skattalegir hvatar fyrir lögaðila sem starfa til almannaheilla). Öðluðust ákvæði þessi gildi 1. nóvember 2021, sbr. 12. gr. laga nr. 32/2021. Samkvæmt 9. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, eins og ákvæðið hljóðar eftir breytingar með 1. gr. laga nr. 32/2021 og 1. gr. laga nr. 133/2021, eru þeir lögaðilar sem um ræðir í 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 5. tölul. 4. gr. sömu laga, sem hafa með höndum starfsemi sem fellur undir a-g-lið 2. mgr. 4. tölul. og eru skráðir í sérstaka almannaheillaskrá hjá Skattinum undanþegnir tekjuskatti. Er tekið fram að ákvæði II.–VI. og VIII. kafla laga nr. 110/2021, um félög til almannaheilla, gildi um lögaðila eftir því sem við á vegna skráningar og hæfis lögaðila í almannaheillaskrá Skattsins. Þá er það skilyrði fyrir skráningu og endurskráningu lögaðila í almannaheillaskrá að staðin hafi verið skil á skattframtali og ársreikningi til ríkisskattstjóra eftir því sem við á og að ekki sé um að ræða vanskil eða áætlanir skatta, skattsekta, gjalda og skýrsluskila, sbr. 3. málsl. 9. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 1. gr. laga nr. 133/2021.

Samkvæmt framansögðu er skilyrði fyrir skráningu lögaðila í almannaheillaskrá að aðili eigi undir ákvæði 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, þ.e. verji hagnaði sínum einungis til almannaheilla og hafi það að einasta markmiði samkvæmt samþykktum sínum. Í 2. mgr. 4. tölul. greinarinnar er skilgreint nánar hvaða starfsemi telst til almannaheilla, sbr. a-g-lið málsgreinarinnar þar sem m.a. er tiltekin mannúðar- og líknarstarfsemi, sbr. a-lið, og æskulýðs- og menningarmálastarfsemi, sbr. b-lið. Svipað ákvæði var að finna í eldri lögum, sbr. 2. málsl. A-liðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt. Það ákvæði tók þó samkvæmt orðan sinni einungis til hlutafélaga og annarra félaga með takmarkaðri ábyrgð félagsaðila. Núgildandi ákvæði, sem upphaflega var lögtekið með 4. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 7/1980, um breyting á þeim lögum, tekur hins vegar til allra þeirra lögaðila sem tilgreindir eru í 2. gr. laganna, uppfylli þeir þau skilyrði sem sett eru í 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003. Skilyrði skattfrelsis samkvæmt ákvæðinu er m.a. að lögaðili hafi það að einasta markmiði samkvæmt samþykktum sínum að verja hagnaði til almannaheilla. Af dóma- og úrskurðaframkvæmd verður glögglega ráðið að það sé raunverulegt markmið með starfsemi lögaðila sem ræður úrslitum í þessum efnum þannig að liggi fyrir, að tilgangur með starfsemi sé í raun annar en skráður er í samþykktum, getur slík aðstaða girt fyrir skattfrelsi, sbr. til nokkurrar hliðsjónar H 1995:435.

Í 1. gr. samþykkta kæranda kemur fram að félagið heiti F. Í 3. gr. er mælt fyrir um tilgang félagsins sem sé að efla íslenska menningarsköpun, færa myndlist nær almenningi og skapa tækifæri fyrir framþróun í íslenskri samtímalist. Tilgangur félagsins sé eingöngu að halda úti félagasamtökum til að tryggja vinnuaðstöðu listamanna með aðgengi að vinnustofum og sýningarrými. Ekki sé um að ræða atvinnurekstur. Þá kemur fram í ákvæðinu að allur ágóði félagsins verði nýttur til að greiða niður kostnað vegna vinnustofu listamanna og sýningarrýmis félagsins. Í 4. gr. er tekið fram að tilgangi félagsins skuli náð með því að reka vinnustofur fyrir listamenn, til að vinna listaverk, og sýningarrými til að sýna afrakstur verka fyrir almenning. Að lokum er tekið fram í 11. gr. samþykkta kæranda að rekstrarafgangur/hagnaði af starfsemi félagsins skuli varið í að tryggja áframhaldandi starfsemi þess.

Samkvæmt framansögðu er kæranda markaður almennur og víðtækur tilgangur í samþykktum félagsins. Taka verður undir með ríkisskattstjóra að gera verði ríkar kröfur til afmörkunar á tilgangi lögaðila og ráðstöfun hagnaðar af starfsemi hans til almannaheilla þannig að til skattfrelsis geti komið á grundvelli 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, svo sem dómaframkvæmd þykir bera órækan vott um, sbr. einkum H 1945:197 og H 1951:46, en dómar þessir vörðuðu báðir eldri skattfrelsisákvæði í þágildandi lögum um skemmtanaskatt og útsvar, sem þó gerðu ekki eins strangar kröfur til forms samþykkta og gerðar eru í ákvæði 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003. Afmörkun á tilgangi kæranda í samþykktum félagsins getur ekki talist fullnægja framangreindum áskilnaði. Til hliðsjónar um þetta þykir mega vísa til ákvæða 1. gr. laga nr. 110/2021, um félög til almannaheilla, þar sem fram kemur að lögin gildi um félög sem stofnuð eru til eða starfrækt eru í þeim tilgangi að efla afmörkuð málefni til almannaheilla samkvæmt samþykktum sínum. Í athugasemdum með ákvæði þessu í frumvarpi því, er varð að lögum nr. 110/2021, kemur m.a. fram að lögin taki til svonefndra hugsjónafélaga sem stofnuð séu til mannræktar eða styrktar á einhverju sviði og beinist að ákveðnum einstaklingum sem uppfylli ákveðin skilyrði eða málefni sem nánar sé skilgreint í samþykktum félagsins, þ.e. félaga sem stofnuð eru til þess að efla og styrkja skýrt afmörkuð málefni á þeim sviðum sem um ræðir (þskj. 1030 á 151. löggjafarþingi). Þá verður og að fallast á með ríkisskattstjóra að samþykktir kæranda beri með sér að félaginu sé fyrst og fremst ætlað að hlúa að hag félagsmanna og skapa þeim starfsaðstöðu og aðstöðu til að koma eigin verkum á framfæri. Verður ekki talið að slík starfsemi fyrir félagsmenn teljist starfsemi til almannaheilla í skilningi 2. mgr. 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003.

Með vísan til þess, sem hér að framan greinir, verður ekki talið að kærandi uppfylli skilyrði fyrir skráningu í almannaheillaskrá, sbr. 9. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003. Er kröfu kæranda því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja