Úrskurður yfirskattanefndar
- Söluhagnaður af frístundahúsnæði
- Söluhagnaður ófyrnanlegrar fasteignar
- Tímamörk endurákvörðunar
Úrskurður nr. 102/2025
Gjaldár 2021
Lög nr. 90/2003, 7. gr. C-liður, 8. tölul., 15. gr., 17. gr. 1. og 8. mgr. (brl. nr. 142/2020, 1. gr.), 97. gr. 2. mgr.
Ríkisskattstjóri færði kæranda til tekna söluhagnað vegna sölu sumarhúss á árinu 2020 á þeim forsendum að ekki væri um að ræða söluhagnað af íbúðarhúsnæði í skilningi 17. gr. laga nr. 90/2003 og að kæranda væri því óheimilt að færa söluhagnaðinn til lækkunar á stofnverði íbúðarhúsnæðis sem hann keypti á sama ári. Í úrskurði yfirskattanefndar í málinu voru raktar breytingar sem gerðar voru á skattalögum á árinu 2020 og lutu að meðferð hagnaðar af sölu frístundahúsnæðis. Var talið að skýra bæri hugtakið frístundahúsnæði í 17. gr. laga nr. 90/2003 til samræmis við skilgreiningu hugtaksins í lögum nr. 75/2008, um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús, þannig að átt væri við húsnæði utan þéttbýlis sem einkum væri nýtt til tímabundinnar orlofsdvalar. Yrði því fyrst og fremst að líta til hlutrænna atriða á borð við skráða notkun hlutaðeigandi húsnæðis og skipulags þess svæðis þar sem húsnæðið stæði og gætu eiginleg not húsnæðis frá einum tíma til annars, þ.e. hvort húsnæði væri í reynd haft til samfelldra íbúðarnota eða ekki, því ekki haft sömu þýðingu og áður. Á hinn bóginn var fallist á með kæranda að fullnægjandi upplýsingar, sem byggja mætti rétta álagningu á, hefðu legið fyrir ríkisskattstjóra þannig að ákvæði um tveggja ára tímafrest til endurákvörðunar hefðu bundið hendur embættisins. Var úrskurður ríkisskattstjóra því felldur úr gildi.
Ár 2025, fimmtudaginn 26. júní, er tekið fyrir mál nr. 13/2025; kæra A, dags. 22. janúar 2025, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2021. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Með kæru, dags. 22. janúar 2025, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 7. sama mánaðar, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2021. Með úrskurði þessum, sem kveðinn var upp í kjölfar bréfaskipta, sbr. bréf ríkisskattstjóra til kæranda, dags. 22. maí 2024, og boðunarbréf, dags. 5. september sama ár, og svarbréf kæranda, dags. 15. júlí og 19. september 2024, færði ríkisskattstjóri kæranda til skattskyldra tekna í skattframtali árið 2021 söluhagnað að fjárhæð 5.949.360 kr. vegna sölu fasteignar að G á árinu 2020. Voru forsendur ríkisskattstjóra þær að þar sem fasteignin væri skráð sem sumarhús í fasteignaskrá gæti hagnaður af sölu hennar ekki fallið undir 1. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sem tæki til söluhagnaðar af íbúðarhúsnæði. Í skatt- og úrskurðaframkvæmd hefði verið miðað við að íbúðarhúsnæði teldist húsnæði sem fallið væri til samfelldra íbúðarnota eða fastrar búsetu allan ársins hring, væri skráð sem íbúðarhúsnæði í fasteignaskrá og gæti gengið kaupum og sölu sem slíkt, sbr. úrskurð yfirskattanefndar nr. 113/2023. Skilyrði þessi væru ekki uppfyllt í tilviki G, þ.e. þótt óumdeilt væri að kærandi hefði búið í eigninni á meðan hún var í eigu hans og skilyrði um samfelld íbúðarnot því uppfyllt hefði eignin ekki verið skráð sem íbúðarhúsnæði og því ekki getað gengið kaupum og sölu sem íbúðarhúsnæði. Viðeigandi lagaákvæði, þ.e. 15. og 17. gr. laga nr. 90/2003, væru skýr um hvernig fara bæri með söluhagnað íbúðarhúsnæðis annars vegar og annars konar eigna hins vegar.
Í kæru til yfirskattanefndar er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi og að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum. Í kærunni eru áréttuð sjónarmið sem fram komu í andmælabréfi kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 19. september 2024, og lúta að því að ekki sé efnislegur grundvöllur fyrir breytingum ríkisskattstjóra auk þess sem frestur ríkisskattstjóra til endurákvörðunar samkvæmt 2. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003 hafi verið liðinn í tilviki kæranda. Af úrskurðum yfirskattanefndar verði ekki dregin sú ályktun að skráning húsnæðis í fasteignaskrá ráði úrslitum um hvort það teljist vera íbúðarhúsnæði í skilningi 17. gr. laga nr. 90/2003. Skráning geti haft áhrif við þetta mat en það séu allt að einu raunveruleg not húsnæðis sem skipti mestu máli í því sambandi. Þessi skilningur fái stoð í úrskurðum yfirskattanefndar nr. 76/2022 og 113/2023 og dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 181/2009. Þótt fasteign kæranda að G sé skráð sem sumarhús hafi kærandi búið í eigninni frá kaupum hennar á árinu 2018 og þar til eignin var seld á árinu 2020. Hafi kærandi lagt fram gögn til staðfestingar því, þ.e. yfirlýsingar samstarfsmanna og ættingja og staðfestingu á breyttu póstfangi. Kærandi telji því ljóst að húsið falli undir að teljast íbúðarhúsnæði samkvæmt 17. gr. laga nr. 90/2003 og meðferð söluhagnaðar vegna sölu hússins í skattframtali kæranda árið 2021 sé því heimil. Þá verði ekki séð að í dóma- og úrskurðaframkvæmd hafi verið gerð krafa um að sýnt væri fram á að fasteign, sem ekki væri skráð sem íbúðarhúsnæði, væri fallin til íbúðarnota eða fastrar búsetu. Verði ákvörðun ríkisskattstjóra því ekki byggð á slíku, sbr. jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá sé óljóst hvaða gögn ríkisskattstjóri hafi í huga í því efni, en kærandi hafi ekki á neinu stigi málsins verið krafinn um tiltekin gögn um þetta, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá hafi ríkisskattstjóri ekki leitast við að upplýsa um það með sjálfstæðum hætti. Verði ekki séð að ríkisskattstjóri hafi gætt ákvæða 10. og 13. gr. laganna að þessu leyti.
Í skattframtali kæranda árið 2021 hafi verið gerð grein fyrir sölu G á árinu 2020 og komið skýrt fram að um sumarbústað væri að ræða. Fyrir ríkisskattstjóra hafi því legið allar nauðsynlegar upplýsingar til að leiðrétta skattframtalið miðað við þann skilning embættisins að ekki væri um íbúðarhúsnæði að ræða. Af þessum sökum standi 2. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003 í vegi fyrir endurákvörðun ríkisskattstjóra, enda sé ákvörðunin byggð á því að skráning húsnæðisins í fasteignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar ráði úrslitum um skattalega meðferð.
Í niðurlagi kærunnar er málskostnaðarkrafa kæranda áréttuð.
II.
Með bréfi, dags. 27. febrúar 2025, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu. Í umsögninni kemur fram að þörf hafi verið á því að afla frekari skýringa frá kæranda á meðferð söluhagnaðar vegna sölu G í skattframtali hans árið 2021 þannig að leitt yrði í ljós hvort skilyrði, sem miðað hafi verið við í skatt- og úrskurðaframkvæmd við mat þess hvort um íbúðarhúsnæði sé að ræða, væru uppfyllt í tilviki kæranda, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Fallist hafi verið á að skilyrði um fasta búsetu væri uppfyllt, en öðrum skilyrðum, þ.e. um skráningu húsnæðisins og að það gæti gengið kaupum og sölu sem íbúðarhúsnæði, hafi ekki verið fullnægt. Verði því ekki fallist á sjónarmið í kæru til yfirskattanefndar og sé þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 3. mars 2025, hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum vegna umsagnar ríkisskattstjóra og ítrekað áður fram komin sjónarmið og rök í málinu. Bréfinu fylgja gögn til stuðnings málskostnaðarkröfu kæranda, þ.e. reikningur, vinnustundayfirlit og greiðslustaðfesting.
III.
Ágreiningur málsins lýtur að því hvort telja beri hagnað kæranda af sölu fasteignar að G á árinu 2020 til tekna sem hagnað af sölu fasteignar sem ekki er heimilt að fyrna, sbr. 15. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, eða sem hagnað af sölu íbúðarhúsnæðis, sbr. 17. gr. laganna. Í skattframtali árið 2021 tilfærði kærandi söluna sem sölu íbúðar- eða frístundahúsnæðis, sbr. greinargerð um kaup og sölu eigna (RSK 3.02) með framtalinu. Var gerð grein fyrir útreikningi söluhagnaðar að fjárhæð 5.949.360 kr. og ráðstöfun hans til lækkunar á kaupverði íbúðarhúsnæðis að K sem kærandi keypti á árinu 2020. Kom því ekki til skattlagningar á söluhagnaðinum. Samkvæmt hinum kærða úrskurði leit ríkisskattstjóri hins vegar svo á að um sölu ófyrnanlegrar fasteignar væri að ræða og færði kæranda 5.949.360 kr. til tekna í lið 3.9 í skattframtali árið 2021, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 90/2003, sbr. einnig 8. tölul. C-liðar 7. gr. sömu laga. Í þessu sambandi vísaði ríkisskattstjóri til þess að eignin væri skráð sem sumarhús í fasteignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og gæti ekki gengið kaupum og sölu sem íbúðarhúsnæði. Ákvæði 17. gr. laga nr. 90/2003 tækju því ekki til hagnaðar af sölu húsnæðisins. Af hálfu kæranda er þessu mótmælt og lögð áhersla á að kærandi hafi nýtt húsnæðið til íbúðar allt frá kaupum þess á árinu 2018 og þar til húsnæðið var selt á árinu 2020. Sé því um að ræða íbúðarhúsnæði í skilningi 17. gr. laga nr. 90/2003. Þá er byggt á því í kæru að ákvæði um tveggja ára tímafrest til endurákvörðunar í 2. mgr. 97. gr. sömu laga hafi staðið breytingu ríkisskattstjóra í vegi.
Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 90/2003 telst hagnaður af sölu fasteigna, sem ekki er heimilt að fyrna samkvæmt 33. gr., þar með talin ófyrnanleg mannvirki, lönd, lóðir, ófyrnanleg náttúruauðæfi og réttindi tengd þessum eignum, svo sem lóðarréttindi, að fullu til skattskyldra tekna á söluári og skiptir ekki máli hve lengi skattaðili hefur átt hina seldu eign. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 15. gr. er meginreglan um ákvörðun söluhagnaðar þess efnis að hagnaður af sölu þessara eigna telst mismunur á söluverði þeirra annars vegar og stofnverði þeirra, að frádregnum áður fengnum niðurfærslum samkvæmt 32. gr. og söluhagnaði, sbr. 4. mgr. 15. gr. og 4. mgr. 12. gr., hins vegar.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2003 telst hagnaður af sölu íbúðarhúsnæðis að fullu til skattskyldra tekna á söluári hafi maður átt hið selda húsnæði skemur en tvö ár, en hafi hann átt hið selda í tvö ár eða lengur telst söluhagnaðurinn ekki til skattskyldra tekna. Er tekið fram að ákvæði þessarar greinar gildi aðeins um sölu íbúðarhúsnæðis sem er í eigu manna og aðeins að því marki sem heildarrúmmál íbúðarhúsnæðis seljanda fer ekki fram úr 600 m³ á söludegi ef um einstakling er að ræða en 1.200 m³ ef hjón, sbr. 62. gr. laganna, eiga í hlut, þó ekki þegar um er að ræða íbúðarhúsnæði til eigin nota. Um söluhagnað af íbúðarhúsnæði umfram þessi mörk gilda ákvæði 15. gr. laganna. Samkvæmt 8. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2003 gilda ákvæði greinarinnar einnig um hagnað af sölu búseturéttar og sölu íbúðarhúsnæðis úr dánarbúi manns, enda séu uppfyllt framangreind skilyrði um eignarhaldstíma og stærðarmörk. Sama gildir um sölu á frístundahúsnæði, að teknu tilliti til stærðarmarka samkvæmt 1. mgr., sem nýtt hefur verið af eigendum og ekki verið til útleigu gegn endurgjaldi, enda hafi eignarhald varað að lágmarki 7 ár.
Síðastnefnt niðurlagsákvæði 8. mgr. 17. gr. um frístundahúsnæði var tekið upp með 1. gr. laga nr. 142/2020, um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003. Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 142/2020 kom fram að breytingin væri gerð til að bregðast við misræmi í skattlagningu söluhagnaðar (auka) íbúðar annars vegar og frístundahúsnæðis hins vegar og því lagt til að frístundahúsnæði til eigin nota félli einnig undir ákvæði 17. gr., enda væru uppfyllt skilyrði um eignarhaldstíma og stærðarmörk. Með því yrði í flestum tilvikum komið í veg fyrir skerðingu bóta einstaklinga úr almannatryggingum sem og skattlagningu söluhagnaðar af sölu frístundahúsnæðis til eigin nota að uppfylltum skilyrðum 17. gr. laga nr. 90/2003 (Þskj. 466 á 151. löggjafarþingi 2020-2021). Frumvarpið tók síðan nokkrum breytingum í meðförum Alþingis, m.a. þannig að mælt var fyrir um sjö ára eignarhaldstíma frístundahúsnæðis í stað fimm ára eins og í upphaflegu frumvarpi (Þskj. 602). Lög nr. 142/2020 voru samþykkt 17. desember 2020, öðluðust þegar gildi og komu til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2021 vegna tekna ársins 2020, sbr. gildistökuákvæði 4. gr. laganna.
Skilgreiningu á hugtakinu íbúðarhúsnæði er ekki að finna í lögum nr. 90/2003. Eins og rakið er í úrskurði ríkisskattstjóra í málinu hefur í skatt- og úrskurðaframkvæmd verið miðað við að til íbúðarhúsnæðis teljist húsnæði sem fallið sé til samfelldra íbúðarnota eða fastrar búsetu allan ársins hring, sé skráð sem íbúðarhúsnæði í fasteignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, áður Þjóðskrár Íslands, og geti gengið kaupum og sölum sem slíkt. Má um þetta vísa til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 76/2022, sbr. og sjónarmið í dómi Hæstaréttar Íslands frá 10. desember 2009 í málinu nr. 181/2009. Samkvæmt þessu verður að skilja ákvæði 17. gr. laga nr. 90/2003 þannig að vísað sé til húsnæðis sem ætlað sé til íbúðar og ekki haft til annarra nota.
Að því er snertir hugtakið frístundahúsnæði í 8. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 1. gr. laga nr. 142/2020, er það ekki heldur skilgreint nánar, hvorki í lögunum sjálfum né í greinargerð með frumvarpi til hinna síðarnefndu laga. Slíka skilgreiningu er hins vegar að finna í lögum nr. 75/2008, um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús, sem er fyrsta heildarlöggjöf hér á landi um frístundahús og réttarstöðu eigenda og íbúa slíkra húsa. Í 2. tölul. 2. gr. laganna kemur fram að með frístundahúsi sé átt við hús utan þéttbýlis sem aðallega er nýtt til að fólk geti dvalist þar tímabundið til að eyða frítíma sínum og þar sem að öðru jöfnu er óheimilt að hafa skráð lögheimili. Mannvirki sem stendur á lóð fyrir frístundahús, svo sem geymsla, en er ekki samtengt frístundahúsi, sé hluti hússins í skilningi laga þessara. Þó teljist fjallaskálar, gangnamannaskálar, aðstöðuhús, neyðarskýli, kofar og önnur slík mannvirki utan þéttbýlis ekki frístundahús í skilningi laga þessara. Enn fremur teljist hús og önnur mannvirki, sem standa á landi sem fellur utan 3. tölul. sömu lagagreinar, ekki frístundahús í skilningi laga þessara. Í 3. tölul. greinarinnar segir að með lóð undir frístundahús sé átt við skika lands utan þéttbýlis sem afmarkaður er í samningi eða skipulagi, sem á grundvelli sérgreindrar hagnýtingar, auðkenna eða landamerkja getur talist sjálfstæð eind og hefur a.m.k. að hluta til verið nýttur undir frístundahús eða heimilt er að reisa slíkt hús þar.
Samkvæmt framansögðu er í lögum nr. 90/2003 gerður greinarmunur á annars vegar íbúðarhúsnæði og hins vegar frístundahúsnæði. Geta nú hliðstæðar reglur gilt um skattalega meðferð hagnaðar af sölu slíks húsnæðis að uppfylltum þeim viðbótarskilyrðum um nýtingu og eignarhaldstíma í tilviki frístundahúsnæðis sem greinir í lokamálslið 8. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 1. gr. laga nr. 142/2020. Lagaákvæði ber almennt að skýra með hliðsjón af öðrum ákvæðum og getur þar hvoru tveggja verið um að ræða þau lög sem viðkomandi ákvæði sjálf skipa og önnur lög sem varða það réttaratriði sem lagaákvæðið fjallar um. Að þessu athuguðu þykir bera að skýra hugtakið frístundahúsnæði í 8. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2003 til samræmis við skilgreiningu hugtaksins í fyrrgreindum lögum nr. 75/2008, sbr. 2. tölul. 2. gr. hinna síðarnefndu laga, þannig að átt sé við húsnæði utan þéttbýlis sem einkum er nýtt til tímabundinnar orlofsdvalar. Verður því fyrst og fremst að líta til hlutrænna atriða á borð við skráða notkun hlutaðeigandi húsnæðis og skipulags þess svæðis þar sem húsnæðið stendur. Eftir breytingar á ákvæðum um skattalega meðferð frístundahúsa með lögum nr. 142/2020 geta eiginleg not húsnæðis frá einum tíma til annars, þ.e. hvort húsnæði sé í reynd haft til samfelldra íbúðarnota eða ekki, því ekki haft sömu þýðingu og áður. Fær þessi hugtakaskilningur jafnframt stoð í samanburði við reglur um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðar- og frístundahúsnæði í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 42. gr. laganna og ákvæði til bráðabirgða XV., XXXIII. og XLV. í þeim og orðskýringar í 2. gr. reglugerða nr. 440/2009, 690/2020 og 376/2022 vegna tímabundinnar endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu við íbúðar- og frístundahúsnæði. Loks hníga ákvæði laga nr. 80/2018, um lögheimili, að sömu niðurstöðu með því að af ákvæðum þeirra leiðir að lögheimili manns, sem er sá staður þar sem einstaklingur hefur fasta búsetu, verður almennt ekki skráð í öðru húsnæði en því sem skráð er sem íbúðarhúsnæði í fasteignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sbr. 2. og 3. gr. laga nr. 80/2018.
Fasteignin að G stendur á lóð undir frístundahús í skipulagðri frístundabyggð utan þéttbýlis og er eignin skráð sem frístundahús í fasteignaskrá. Að því athuguðu verður að fallast á með ríkisskattstjóra að um meðferð hagnaðar af sölu hússins á árinu 2020 fari eftir ákvæðum um söluhagnað af frístundahúsnæði í 8. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2003 og fá íbúðarnot kæranda af húsnæðinu á því tímabili sem það var í hans eigu því ekki breytt, eins og skýra verður ákvæði þetta samkvæmt framansögðu. Þar sem skilyrði ákvæðisins um a.m.k. sjö ára eignarhaldstíma er ekki fullnægt í tilviki kæranda fer um meðferð söluhagnaðar hússins eftir 15. gr. laga nr. 90/2003, svo sem byggt er á í úrskurði ríkisskattstjóra.
Samkvæmt 2. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er ekki heimilt að endurákvarða skattaðila skatt nema vegna síðustu tveggja ára sem næst eru á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram þótt í ljós komi að álagning hafi verið of lág, enda hafi skattaðili látið í té í framtali sínu eða fylgigögnum þess fullnægjandi upplýsingar sem byggja mátti rétta álagningu á. Í athugasemdum við 2. mgr. 97. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, kemur fram að í þessu laganýmæli felist „að frestur til endurupptöku er styttur ef ástæðan fyrir henni er ófullnægjandi skoðun skattstjóra á framtali og fylgigögnum þess en ekki ófullnægjandi upplýsingar skattaðila“. Er og tekið fram að málsgreinin eigi aðeins við „ef upplýsingar, sem byggja mátti rétta álagningu á, koma beinlínis fram í framtali eða fylgigögnum þess, en 1. mgr. gildir ef þessi gögn eru ófullnægjandi enda þótt skattstjóra hefði mátt vera ljóst fyrr að eitthvað var athugavert við framtalið“. Um skýringu á þessu lagaákvæði hafa gengið allnokkrir dómar Hæstaréttar Íslands. Samkvæmt þeirri dómaframkvæmd, sbr. m.a. H 1996:470, ber að líta til orðalags 2. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003 og meta hvort fyrir hafi legið nægjanlegar upplýsingar í framtali eða fylgigögnum þess sem rétt álagning varð byggð á. Jafnframt ber samkvæmt þessari dómaframkvæmd að skýra ákvæði 2. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003 með hliðsjón af leiðréttingarheimildum ríkisskattstjóra í 3. málsl. 1. mgr. 95. gr. sömu laga, sbr. dóma Hæstaréttar frá 5. nóvember 2015 í málunum nr. 210 og 211/2015 og dóm réttarins frá 12. nóvember 2015 í málinu nr. 217/2015. Samkvæmt síðastnefndu lagaákvæði getur ríkisskattstjóri fyrir álagningu leiðrétt fjárhæðir einstakra liða ef þeir eru í ósamræmi við gildandi lög og fyrirmæli skattyfirvalda, svo og einstaka liði skattframtals ef telja má að óyggjandi upplýsingar séu fyrir hendi, en gera skal skattaðila viðvart um slíkar breytingar. Í 1. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003 er að finna aðalregluna um tímatakmörk endurákvörðunar. Þar segir að heimild til endurákvörðunar skatts samkvæmt 96. gr. laga nr. 90/2003 nái til skatts vegna tekna og eigna síðustu sex ára sem næst eru á undan því ári er endurákvörðun fer fram.
Kærandi gerði grein fyrir sölu sumarhússins að G í skattframtali sínu árið 2021 og tilfærði söluna sem sölu íbúðar- eða frístundahúsnæðis í greinargerð um kaup og sölu eigna (RSK 3.02) með framtalinu, eins og form þess eyðublaðs gerði ráð fyrir. Í greinargerðinni kom fram að um væri að ræða sumarbústað og fyrir lá að húsnæðið var skráð sem frístundahúsnæði í fasteignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Að þessu virtu og eins og skattframtal kæranda árið 2021 var úr garði gert verður að fallast á með kæranda að fyrir ríkisskattstjóra hafi legið óyggjandi upplýsingar í skilningi 3. málsl. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003 þannig að embættinu hafi verið kleift að ráðast í hinar kærðu breytingar á skattframtali kæranda árið 2021 á grundvelli þess ákvæðis. Verður því að telja að fullnægjandi upplýsingar, sem byggja mátti rétta álagningu á, hafi legið fyrir ríkisskattstjóra þannig að ákvæði 2. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003 um þargreind tímamörk endurákvörðunar hafi bundið hendur ríkisskattstjóra, eins og skýra verður ákvæði þetta samkvæmt framansögðu, sbr. til hliðsjónar úrskurð yfirskattanefndar nr. 257/2011. Hinn kærði úrskurður um endurákvörðun var kveðinn upp 7. janúar 2025 og tók til tekjuársins 2020. Var þá liðinn sá frestur til endurákvörðunar sem settur er í 2. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003. Af þessum sökum ber að fella úrskurð ríkisskattstjóra um endurákvörðun úr gildi svo sem krafist er af hálfu kæranda.
Af hálfu kæranda er þess krafist að honum verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með síðari breytingum. Samkvæmt úrslitum málsins þykir bera að ákvarða kæranda málskostnað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis. Með bréfi, dags. 3. mars 2025, hefur kærandi lagt fram gögn til stuðnings kröfu um greiðslu málskostnaðar, þ.e. reikning vegna vinnu umboðsmanns kæranda við málið, sem bera með sér útgjöld að fjárhæð samtals 49.600 kr. án virðisaukaskatts vegna um einnar klukkustundar vinnu. Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til lagaskilyrða fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði og starfsreglna yfirskattanefndar 21. nóvember 2014 um ákvörðun málskostnaðar þykir málskostnaður hæfilega ákveðinn 35.000 kr.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Úrskurður ríkisskattstjóra er felldur úr gildi. Málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði ákveðst 35.000 kr.