Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattskylda
  • Félagasamtök
  • Almannaheill
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 109/2025

Gjaldár 2024

Lög nr. 90/2003, 4. gr. (brl. nr. 32/2021, 1. gr.), 71. gr. 4. mgr. (brl. nr. 32/2021, 4. gr.), 99. gr.   Lög nr. 37/1993, 22. gr.  

Kærandi, sem var félagasamtök, fór fram á endurgreiðslu fjármagnstekjuskatts með því að kærandi væri undanþeginn skattskyldu. Kæruúrskurður ríkisskattstjóra í málinu var felldur úr gildi þar sem úrskurðurinn þótti í veigamiklum atriðum órökstuddur. Var kærunni því vísað til ríkisskattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar.

Ár 2025, þriðjudaginn 8. júlí, er tekið fyrir mál nr. 93/2025; kæra A, dags. 10. apríl 2025, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2024. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 10. apríl 2025, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 26. febrúar 2025, vegna álagningar opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2024. Með úrskurði þessum, sem kveðinn var upp í kjölfar kæru, dags. 22. nóvember 2024, hafnaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda um að álagður tekjuskattur af fjármagnstekjum (vaxtatekjum) að fjárhæð 11.746.456 kr. yrði endurgreiddur kæranda með því að kærandi væri undanþeginn skattskyldu á grundvelli 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og bæri þar af leiðandi ekki að greiða fjármagnstekjuskatt, sbr. 4. mgr. 71. gr. sömu laga. Voru forsendur ríkisskattstjóra þær að kærandi félli ekki undir umrætt ákvæði heldur ákvæði 5. tölul. 4. gr. sömu laga þar sem fram kæmi að félög, sjóðir og stofnanir, sbr. 5. tölul. 2. gr. laganna, sem ekki rækju atvinnu væru undanþegin tekjuskatti. Þá lægi fyrir að kærandi væri ekki skráður í almannaheillaskrá og félli því ekki undir 9. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003. Umrædd undanþága vegna fjármagnstekjuskatts ætti því ekki við í tilviki kæranda.

Í kæru til yfirskattanefndar er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi og að kæranda verði endurgreiddur fjármagnstekjuskattur að fjárhæð 11.746.456 kr. gjaldárið 2024. Jafnframt er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði. Í kærunni kemur fram að kærandi fallist ekki á með ríkisskattstjóra að kærandi falli undir undanþáguákvæði 5. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003. Er m.a. gerð grein fyrir stofnun kæranda og starfsemi félagasamtakanna. Þá er lýst tekjuöflun kæranda með vísan til upplýsinga þar um í ársreikningum. Vikið er að úrskurðaframkvæmd með tilliti til túlkunar ákvæða 4. og 5. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003 og tekið fram að sú niðurstaða ríkisskattstjóra, að kærandi teljist ekki stunda atvinnurekstur, sé órökstudd af hendi embættisins. Þá verði ekki talið að gætt hafi verið rannsóknarreglu við meðferð málsins. Í kærunni eru að svo búnu færð fram rök fyrir því að kærandi falli undir 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, enda sé hafið yfir vafa að starfsemi kæranda teljist til menningarmálastarfsemi samkvæmt b-lið ákvæðisins.

II.

Með bréfi, dags. 20. maí 2025, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu þar sem fram kemur að það sé álit ríkisskattstjóra að hinn kærði úrskurður skuli verða staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á niðurstöðu ríkisskattstjóra.

Með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 2. júní 2025, hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum vegna umsagnar ríkisskattstjóra. Þá fylgja bréfinu gögn til stuðnings kröfu um greiðslu málskostnaðar.

III.

Eins og rakið er í kafla I hér að framan laut kæra kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 22. nóvember 2024, á álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2024, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að niðurfellingu álagðs fjármagnstekjuskatts umrætt gjaldár þar sem kærandi væri undanþeginn skatti þessum samkvæmt 4. tölul. 4. gr. nefndra laga. Í ákvæði þessu kemur fram að þeir lögaðilar sem um ræðir í 2. gr. laganna og hér eiga heimili séu undanþegnir tekjuskatti ef þeir verja hagnaði sínum einungis til almannaheilla og hafa það að einasta markmiði samkvæmt samþykktum sínum. Í kærunni fór kærandi einnig fram á niðurfellingu álags fjármagnstekjuskatts gjaldárin 2022 og 2023 á sömu forsendum, sbr. heimild ríkisskattstjóra samkvæmt 2. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003 til leiðréttinga á álögðum gjöldum. Ríkisskattstjóri hafnaði kröfu kæranda með hinum kærða úrskurði sínum á þeirri forsendu að kærandi félli undir undanþáguákvæði 5. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003 sem tekur til félaga, sjóða og stofnana, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 2. gr., sem ekki reka atvinnu. Um slíka aðila gildir að þrátt fyrir undanþágu frá tekjuskatti ber þeim að greiða tekjuskatt af tilgreindum fjármagnstekjum, sbr. 4. mgr. 71. gr. laga nr. 90/2003.

Taka verður undir með kæranda að fyrrgreind afstaða ríkisskattstjóra til skattalegrar stöðu kæranda er í raun alveg órökstudd í kæruúrskurði embættisins, enda er þar látið sitja við almenna staðhæfingu þess efnis að kærandi falli undir 5. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003 án nokkurrar umfjöllunar um tilgang og starfsemi kæranda, umfang starfseminnar og önnur atriði sem skipt geta máli í þessu sambandi, sbr. dóma- og úrskurðaframkvæmd á þessu sviði sem að nokkru leyti er reifuð í kæru kæranda til yfirskattanefndar. Að öðru leyti hefur úrskurðurinn aðeins að geyma almenna umfjöllun um breytingar á 4. gr. laga nr. 90/2003 sem gerðar voru með lögum nr. 32/2021, um breyting á ýmsum lögum um skatta og gjöld, án þess þó að dregnar séu ályktanir af þeim um skýringu laga eða þýðingu þeirra fyrir kæruefni málsins. Kemur m.a. ekkert fram um það af hvaða ástæðum ríkisskattstjóri taldi kæranda ekki eiga undir 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003.

Samkvæmt framansögðu er kæruúrskurður ríkisskattstjóra í veigamiklum atriðum órökstuddur, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003 og 1. og 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður því að ómerkja hinn kærða úrskurð og vísa málinu til nýrrar meðferðar hjá ríkisskattstjóra og uppkvaðningar kæruúrskurðar að nýju. Með úrskurði þessum er þá ekki tekin nein efnisleg afstaða til ágreiningsefnis málsins.

Af hálfu kæranda er gerð krafa um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998 og 6. gr. laga nr. 69/2021, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins þykir bera að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis. Í bréfi kæranda kemur fram að kostnaður kæranda af rekstri málsins fyrir yfirskattanefnd nemi 928.258 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti vegna rúmlega tuttugu klukkustunda vinnu umboðsmanna kæranda við málið. Ekki verður talið að hér sé að öllu leyti um kostnað að ræða sem eðlilegt sé að til hafi verið stofnað vegna málsins, sbr. lagaskilyrði fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði. Er þá einkum litið til þess hvernig málið ber að, en það getur ekki talist svo umfangsmikið að réttlæti slíkan kostnað. Að þessu athuguðu og með vísan til starfsreglna yfirskattanefndar um ákvörðun málskostnaðar þykir málskostnaður kæranda hæfilega ákvarðaður 500.000 kr. og er þá miðað við u.þ.b. fimmtán klukkustunda vinnu sérkunnáttumanns við málið.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hinn kærði úrskurður ríkisskattstjóra er ómerktur. Málinu er vísað til ríkisskattstjóra til nýrrar meðferðar og uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar. Málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði ákveðst 500.000 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja