Úrskurður yfirskattanefndar

  • Endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna íbúðarhúsnæðis

Úrskurður nr. 103/2025

Lög nr. 50/1988, 42. gr. 2. mgr.   Reglugerð nr. 449/1990, 4. gr.  

Kröfu kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna eftirlits með lyftu á heimili hans var hafnað þar sem slík þjónusta, sem fæli einkum í sér reglubundna umhirðu og skoðun á virkni lyftunnar, gæti ekki talist til vinnu við endurbætur eða viðhald íbúðarhúsnæðis í skilningi virðisaukaskattslaga.

Ár 2025, þriðjudaginn 8. júlí, er tekið fyrir mál nr. 14/2025; kæra A, dags. 27. janúar 2025, vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts. Í málinu úrskurða Þórarinn Egill Þórarinsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 27. janúar 2025, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 24. janúar 2024, um að synja beiðni kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts að fjárhæð 1.335 kr. af vinnu manna við íbúðarhúsnæði. Í ákvörðun ríkisskattstjóra kom fram að beiðni kæranda varðaði vinnu við eftirlit með lyftu á heimili kæranda að L samkvæmt þjónustusamningi en til grundvallar beiðninni lá sölureikningur frá Y ehf. þar sem tilgreint var að hann væri vegna eftirlits L. Vísaði ríkisskattstjóri til þess að 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1998, um virðisaukaskatt, tæki einungis til vinnu manna á byggingarstað við byggingu íbúðarhúsnæðis, eða við viðhald og endurbætur þess, sbr. a-lið og b-lið 1. gr. og 3. gr. reglugerðar nr. 449/1990, sbr. einnig 4. gr. reglugerðarinnar.

Í kæru til yfirskattanefndar er þess krafist að endurgreiðslubeiðni kæranda verði tekin til greina. Kærandi telji ástæðu synjunar beiðni hans um endurgreiðslu virðisaukaskatts vera þá að vinna vegna samningsbundinnar fyrirbyggjandi viðhaldsþjónustu hafi ekki verið unnin á byggingarstað, sbr. orðalag í hinni kærðu ákvörðun um að umrædd heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts tæki einungis til vinnu manna á byggingarstað, við byggingu húsnæðis, eða við viðhald og endurbætur þess. Hið rétta í málinu sé að vinna vegna þjónustunnar hafi verið unnin á byggingarstað. Þá hafi virðisaukaskattur verið greiddur þjónustufyrirtækinu samkvæmt reikningum Y ehf. og endurgreiddur af skattyfirvöldum í 13 ár án athugasemda. Kærandi lýsir því hvað felst í þjónustunni og geti hún hvergi annars staðar verið innt af hendi en á þeim stað sem lyftan sé staðsett, þ.e. á byggingarstað heimilis kæranda að L.

II.

Með bréfi, dags. 20. mars 2025, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að hin kærða ákvörðun embættisins verði staðfest með vísan til forsendna, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Hin kærða ákvörðun hafi byggt á því að ekki væri um eiginlegt viðhald eða endurbætur að ræða í skilningi 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði, en ekki að vinnan hafi ekki verið unnin á byggingarstað. Í samningi kæranda við Y ehf. um þjónustu og eftirlit á lyftu komi fram að þjónustan sé einungis fólgin í skoðun á virkni lyftunnar en ekki í eiginlegu viðhaldi eða endurbótum á henni. Vinnan feli því í sér mat á viðhaldsþörf. Þá beri reikningurinn ekki með sér nokkra skiptingu vinnu sem myndi stofn til endurgreiðslu og aðra vinnu eða efni, sbr. 1. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 449/1990.

Með bréfi, dags. 25. mars 2025, hefur kærandi lagt fram athugasemdir í tilefni af umsögn ríkisskattstjóra. Kærandi telji að ekki sé um að ræða úttekt á viðhaldsþörf, eins og ríkisskattstjóri leggi til grundvallar, heldur fyrirbyggjandi viðhald eins og þjónustusamningur geri ráð fyrir í því skyni að tryggja öryggi lyftubúnaðar og draga úr viðhalds- og viðgerðaþörf eftir að hugsanleg bilun hafi átt sér stað.

III.

Í XIII. kafla laga nr. 50/1988 er fjallað um endurgreiðslu virðisaukaskatts. Í 2. mgr. 42. gr. laga þessara segir að endurgreiða skuli byggjendum íbúðarhúsnæðis 35% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað. Jafnframt skuli endurgreiða eigendum íbúðarhúsnæðis 35% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna við endurbætur eða viðhald þess. Í lagaákvæðinu eru nokkur nánari fyrirmæli um skilyrði og framkvæmd endurgreiðslu. Einnig kemur fram að fjármálaráðherra setji með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara endurgreiðslna.

Nánari ákvæði um endurgreiðslur á grundvelli 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 er að finna í reglugerð nr. 449/1990, með áorðnum breytingum. Í a-lið 1. gr. reglugerðarinnar kemur fram að eftir því sem nánar sé ákveðið í reglugerðinni skuli endurgreiða virðisaukaskatt sem byggjendur íbúðarhúsnæðis hafi greitt af vinnu manna á byggingarstað. Í 3. gr. reglugerðarinnar er tekið fram að endurgreiðsla samkvæmt a-lið 1. gr. taki til virðisaukaskatts vegna allrar vinnu manna sem unnin sé á byggingarstað íbúðarhúsnæðis við nýbyggingu þess, þ.m.t. vinnu við framkvæmdir við lóð hússins, jarðvegslagnir umhverfis hús, girðingar, bílskúra og garðhýsa á íbúðarhúsalóð. Þá er mælt fyrir um í 4. gr. reglugerðarinnar að þrátt fyrir ákvæði 3. gr. taki endurgreiðslan ekki til virðisaukaskatts sem greiddur er af hvers konar vinnu við ræstingu, garðslátt, skordýraeyðingu og aðra reglulega umhirðu íbúðarhúsnæðis sem ekki verður talin viðhald eignar, sbr. 5. tölul. ákvæðisins. 

Eins og fram er komið í málinu tóku endurgreiðslubeiðnir kæranda til virðisaukaskatts samkvæmt sölureikningi frá Y ehf. vegna eftirlits með lyftu á heimili kæranda að L. Af hálfu kæranda er því haldið fram að eftirlitið feli í sér fyrirbyggjandi viðhald samkvæmt þjónustusamningi sem eigi að tryggja öryggi lyftubúnaðar og draga úr viðhalds- og viðgerðaþörf eftir að hugsanleg bilun hafi átt sér stað. Samkvæmt því sem fram er komið í málinu felst þjónusta samkvæmt þjónustusamningi kæranda og Y ehf. meðal annars í því að öryggiskerfi lyftunnar eru prófuð, rafkerfi skoðað, gangur lyftunnar yfirfarinn og stilltur ef nauðsyn krefur og allar hurðir smurðar, yfirfarnar og stilltar. Þá séu öryggiskerfi lyftunnar reynd og fallprófuð einu sinni á ári og haldin dagbók um eftirlit og viðgerðir. Eins og rakið hefur verið synjaði ríkisskattstjóri endurgreiðslubeiðni kæranda á þeim grundvelli að sú þjónusta sem um ræddi ætti ekki undir ákvæði 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, sbr. a- og b-lið 1. gr. og 3. gr. reglugerðar nr. 449/1990, sbr. einnig 4. gr. reglugerðarinnar, enda væri ekki um viðhald og endurbætur á íbúðarhúsnæði að ræða. Þeirri þjónustu sem um ræðir er lýst hér að framan. Verður að taka undir með ríkisskattstjóra að slík þjónusta, þ.e. þjónusta sem felur einkum í sér reglubundna umhirðu og skoðun á virkni lyftunnar með tilliti til öryggisatriða og mats á viðhaldsþörf, myndi ekki stofn til endurgreiðslu virðisaukaskatts samkvæmt 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 og greindum ákvæðum reglugerðar nr. 449/1990, sbr. og 5. tölul 4. gr. reglugerðarinnar. Gildir þá einu þótt þjónustan kunni að draga úr viðhalds- og viðgerðaþörf síðar og þannig fela í sér „fyrirbyggjandi viðhald“, svo sem kærandi ber við.

Að þessu athuguðu og þar sem ekki verður séð að endurgreiðslu virðisaukaskatts verði komið við á öðrum grundvelli er kröfu kæranda í máli þessu hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja