Úrskurður yfirskattanefndar

  • Tekjur erlendis
  • Sönnun

Úrskurður nr. 120/2025

Gjaldár 2019

Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 1. tölul.  

Ríkisskattstjóri færði kæranda til skattskyldra tekna greiðslur frá tveimur félögum, F Ltd. og X ehf., á árinu 2018, en greiðslurnar voru lagðar inn á bankareikning kæranda hér á landi. Kærandi hélt því fram að greiðslurnar tilheyrðu erlendu félagi í hans eigu, þ.e. Y Ltd., og að hann hefði aðeins haft milligöngu um að koma þeim í hendur félagsins. Yfirskattanefnd taldi engin haldbær gögn komin fram í málinu til stuðnings þeim skýringum og tók fram að af þeim gögnum, sem kærandi hefði látið ríkisskattstjóra í té, yrði ekkert ráðið um ráðstöfun fjármuna til Y Ltd. Þá þóttu skýringar kæranda á ástæðum þess, að greiðslurnar fóru um bankareikning hans hér á landi, með nokkrum ólíkindum. Var kröfum kæranda hafnað.

Ár 2025, miðvikudaginn 3. september, er tekið fyrir mál nr. 12/2025; kæra A, dags. 27. desember 2024, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2019. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 27. desember 2024, sem barst yfirskattanefnd 20. janúar 2025, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 17. október 2024, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2019. Kæruefnið er sú ákvörðun ríkisskattstjóra að skattleggja hjá kæranda sem launatekjur samkvæmt 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, greiðslur sem millifærðar voru að utan inn á bankareikning kæranda hér á landi á árinu 2018 alls að fjárhæð 5.541.330 kr. Af þessum sökum hækkaði ríkisskattstjóri tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda gjaldárið 2019 um sömu fjárhæð að viðbættu 25% álagi, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003.

Af hálfu kæranda er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi, enda sé ekki um skattskyldar tekjur kæranda að ræða.

II.

Málavextir eru þeir að með bréfi til kæranda, dags. 2. janúar 2023, óskaði ríkisskattstjóri á grundvelli 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, eftir gögnum og skýringum á greiðslum að utan á árinu 2018 að fjárhæð samtals 5.541.330 kr. Fram kom að um væri að ræða greiðslur frá annars vegar F Ltd. og hins vegar frá X ehf. inn á bankareikning kæranda. Óljóst væri af skattframtali kæranda árið 2019 hvert tilefni og uppruni greiðslnanna gæti verið og ekki væri gerð grein fyrir erlendum tekjum í skattframtalinu. Væri lagt fyrir kæranda að gera grein fyrir tilefni og uppruna greiðslnanna og að leggja fram gögn til stuðnings skýringum. Með tölvupósti 2. janúar 2023 greindi kærandi frá því að greiðslur til hans hefðu ekki verið skattskyldar tekjur. Með tölvupósti til kæranda 3. sama mánaðar ítrekaði ríkisskattstjóri beiðni um skýringar á greiðslunum og með tölvupósti 5. janúar upplýsti kærandi að hann hefði verið svokallaður „agent“ á vegum lítils fyrirtækis í Bretlandi sem ekki hefði getað tekið við greiðslum í erlendum gjaldmiðli, þ.e. evrum og bandaríkjadölum. Hefði kærandi því tekið að sér að aðstoða með greiðslurnar sem „intermediary agent“ án þess að fá þóknun fyrir. Ríkisskattstjóri sendi kæranda á ný tölvupóst 12. janúar 2023 þar sem fram kom að mikilvægt væri að kærandi legði fram gögn sem sýndu fram á að hann hefði millifært peningana áfram til þeirra aðila sem áttu þá. Í tölvupósti kæranda 17. janúar 2023 kom fram að hann myndi leitast við að útvega gögn, en bankinn hefði og ætti erfitt með að sinna erlendum greiðslum. Með tölvupósti 22. apríl 2023 greindi kærandi frá því að tæknilegir örðugleikar hefðu staðið í vegi fyrir því að hann millifærði af reikningi sínum til Bretlandseyja. Hefði kærandi því fengið eiginkonu sína til að annast greiðslurnar af reikningi sínum hjá X-banka hf. og inn á reikning hennar á Bretlandseyjum. Hefði kærandi fengið greiddar 32.898,09 evrur inn á reikning sinn sem „agent“ og hefði eiginkona kæranda greitt 33.635,00 evrur til Bretlandseyja fyrir kæranda. Bréfinu fylgdu tvö yfirlit, annað yfir fjórar símgreiðslur af bankareikningi eiginkonu kæranda samtals að fjárhæð 4.131.127 kr. og hitt yfir greiðslur inn á  bankareikning kæranda samtals að fjárhæð 33.635,18 evrur. Í framhaldi af þessum bréfaskiptum óskaði ríkisskattstjóri eftir því með bréfum, dags. 17. október 2023, að bankarnir létu embættinu í té yfirlit yfir hreyfingar á bankareikningum í eigu kæranda og eiginkonu hans.

Með bréfi til kæranda, dags. 25. september 2024, boðaði ríkisskattstjóri honum endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárið 2019. Í bréfinu voru málavextir og bréfaskipti við kæranda rakin auk þess sem gerð var grein fyrir helstu réttarheimildum málsins. Kom fram að kærandi hefði ekki gefið upp tekjur í skattframtali sínu árið 2019. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hefði kærandi fengið millifærðar samtals 5.541.330 kr. (1.134.140 + 4.407.190) eða 9.247,72 bandaríkjadali frá X ehf. og 33.635,18 evrur frá F Ltd. á tímabilinu 31. júlí til 30. nóvember 2018 í sjö færslum. Kærandi hefði greint frá því að hann hefði átt í erfiðleikum með erlendar millifærslur af bankareikningi sínum og því fengið eiginkonu sína til að millifæra fjármuni yfir á reikning sinn á Bretlandseyjum. Hefði hún gert það með fjórum færslum á tímabilinu 12. mars til 24. september 2018 samtals 4.131.127 kr. eða u.þ.b. 32.915 evrur miðað við meðalgengi þá daga sem greiðslurnar fóru fram. Engin frekari gögn hefðu verið lögð fram, svo sem um stöðu kæranda sem „agent“ eða um að millifærslurnar hefðu skilað sér til F Ltd. eða annarra aðila. Tímalína frá því að kærandi fékk fjármunina frá X ehf. og F Ltd. millifærða á sig og sá tími sem eiginkona kæranda millifærði út væri ekki sú sama. Þá hefði aðeins verið sýnt fram á að hún hefði millifært fjármuni inn á erlendan bankareikning í hennar eigu, en það sýndi ekki millifærslu til þriðja aðila.

Ríkisskattstjóri hefði óskað eftir yfirliti yfir bankareikninga kæranda á greindum tíma, en kærandi hefði bæði verið með bankareikninga hjá … á árinu 2018. Þá hefði verið óskað eftir yfirliti yfir bankareikning eiginkonu kæranda hjá X-banka hf. Við skoðun á millifærslum inn á bankareikning kæranda væri ekki að sjá að hann og/eða eiginkona hans hefðu millifært þá fjármuni áfram í samræmi við skýringar kæranda. Yrði ekki annað séð en að fjármunir hefðu verið nýttir til persónulegra þarfa eins og að borga greiðslukort og reikninga ásamt því að millifæra fram og til baka á milli bankareikninga í eigu þeirra hjóna. Væri því ekki unnt að sjá að kærandi hefði tekið við erlendum greiðslum sem „agent“, svo sem haldið væri fram. Ríkisskattstjóri hefði haft til skoðunar mörg sambærileg mál annarra skattaðila sem hefðu fengið greiðslur frá F Ltd. og í öllum tilvikum hefði verið um tekjur að ræða. Með hliðsjón af því og hvernig fjármunirnir hefðu verið nýttir af kæranda og eiginkonu hans yrði ekki annað séð en að um tekjur kæranda væri að ræða á árinu 2018. Væri því fyrirhugað að hækka stofn kæranda til tekjuskatts og útsvars um 5.541.330 kr. gjaldárið 2019 þar sem ekki yrði annað séð en að um vantaldar skattskyldar tekjur væri að ræða, sbr. 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90./2003, sbr. og 1. mgr. 96 gr. sömu laga. Þá boðaði ríkisskattstjóri beitingu 25% álags, sbr. heimild í 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003.

Engar athugasemdir bárust frá kæranda innan veitts frests og hratt ríkisskattstjóri hinum boðuðu breytingum í framkvæmd með úrskurði, dags. 17. október 2024, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2019.

Með bréfi, dags. 7. nóvember 2024, fór kærandi fram á endurupptöku á úrskurði ríkisskattstjóra. Kom fram í bréfinu að hvorki boðunarbréf né úrskurður ríkisskattstjóra hefði borist kæranda. Óskaði kærandi eftir því að fá frest til að kynna sér efni bréfanna. Með bréfi, dags. 22. nóvember 2024, fór kærandi síðan fram á að hinn kærði úrskurður yrði felldur niður. Ítrekaði kærandi að greiðslur að utan inn á bankareikning hans hefðu ekki verið tekjur. Hefði farið meira fé af reikningi hans til útlanda en hefði orðið eftir á Íslandi og munaði þar 736,91 evrum. Tæknilegir örðugleikar hjá banka hefðu staðið því í vegi að kærandi millifærði greiðslurnar út sjálfur og hefði ekkert mælt gegn því að hann fengi eiginkonu sína til að millifæra. Þótt tímalína greiðslnanna stemmdi ekki nákvæmlega hefði ríkisskattstjóri ekki fært fullnægjandi rök fyrir því að um væri að ræða skattskyldar tekjur kæranda hér á landi.

Með bréfi, dags. 3. desember 2024, hafnaði ríkisskattstjóri beiðni kæranda um endurupptöku málsins, sbr.  1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kom fram að kærandi hefði ekki lagt fram nein ný gögn eða frekari upplýsingar og skýringar um málið og væri um að ræða sömu rök og kærandi hefði byggt á frá upphafi. Í ljósi þeirra upplýsinga og gagna sem ríkisskattstjóri hefði undir höndum teldust ekki hafa verið lagðar fram nýjar upplýsingar og gögn og því þætti ekkert hafa komið fram hjá kæranda sem gæti haft áhrif á niðurstöðu ríkisskattstjóra. Erindi kæranda um endurupptöku úrskurðar embættisins, sbr. 1. og 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, væri því hafnað, enda þætti ekkert komið fram í gögnum kæranda um að ákvörðun ríkisskattstjóra hefði byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik hefðu breyst verulega frá því ákvörðunin var tekin.

III.

Yfirskattanefnd barst 20. janúar 2025 bréf frá kæranda, dags. 27. desember 2024, og var bréfið tekið til meðferðar sem kæra á úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 17. október 2024. Bréfið er stílað á þann sem málið varðar og er bréfið undirritað af kæranda sem stjórnarmanni Y Ltd. Kemur fram í bréfinu að kærandi hafi sem milligöngumaður („intermediary agent“) aðstoðað umrætt félag við millifærslur á 33.635,18 evrum og 9.247,72 bandaríkjadölum frá tveimur viðskiptavinum félagsins, þ.e. annars vegar F Ltd. á Möltu og hins vegar X ehf. á Íslandi. Hafi kærandi veitt félaginu aðgang að gjaldeyrisreikningum sínum tímabundið og hafi verið í góðri trú. Hafi félagið fengið fjárhæðirnar greiddar á árinu 2018, svo sem samið hafi verið um munnlega. Bréfinu fylgir  sölureikningur „Business Support by Y Ltd.“, dags. 26. nóvember 2018, stílaður á F Ltd. samtals að fjárhæð 6.509,34 sterlingspund. Ber reikningurinn m.a. með sér að vera vegna veittrar þjónustu í nóvember 2018 og útlagðs kostnaðar vegna flugs, gistingar og hönnunar. Þá fylgir reikningur kæranda á hendur F Ltd., dags. 19. september 2018, alls að fjárhæð 1.166,24 evrur, að því er virðist vegna útlagðs kostnaðar kæranda vegna ferða, gistingar og fæðis.

IV.

Með bréfi, dags. 10. mars 2025, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu. Í umsögninni er rakið að ríkisskattstjóra hafi borist erindi frá kæranda 22. nóvember 2024 sem skilja hafi mátt sem sem beiðni um endurupptöku á úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 17. október 2024, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Beiðni kæranda hafi verið synjað með ákvörðun 3. desember 2024 á grundvelli þess að kærandi hefði ekki lagt fram nein ný gögn eða frekari upplýsingar eða skýringar um málið, en erindi kæranda hafi byggst á sömu rökum og hann hafi lagt fram við upphaf málsins. Hafi það verið mat ríkisskattstjóra að ekkert hefði komið fram sem gæfi tilefni til endurupptöku málsins á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ekki verði ráðið af kæru til yfirskattanefndar hvaða atriði í úrskurði ríkisskattstjóra sæti kæru og ekki sé getið rökstuðnings þess efnis. Þyki kæran ekki fullnægja ákvæðum 2. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Erindi kæranda til yfirskattanefndar virðist samanstanda af bréfi frá kæranda, þar sem hann titli sig stjórnarmann Y Ltd., til hans sjálfs, en einnig til fleiri óþekktra viðtakenda. Undir rekstri máls kæranda hafi aldrei komið fram um hvaða erlenda félag væri að ræða. Þá hafi ekki komið fram að félagið væri í eigu kæranda eða að hann hafi verið í forsvari fyrir það. Staðhæfingar í bréfinu hafi þó áður komið fram, þ.e. að kærandi hafi eingöngu verið ,,agent“ á árinu 2018, verið í góðri trú og endurgreitt viðsemjendum sínum. Í ljósi þess að kærandi hafi haldið því fram að hinar erlendu greiðslur séu ekki skattskyldar tekjur veki athygli að bréfi kæranda fylgi reikningur, stílaður á F Ltd. á Möltu, sem virðist vera vegna ferðakostnaðar, auk yfirlits yfir útgjöld. Ekki sé ljóst hvaða þýðingu fram komin gögn eigi að hafa í málinu.

Með bréfi, dags. 11. apríl 2025, hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum í tilefni af umsögn ríkisskattstjóra. Í bréfinu er tekið fram að gögn með kæru staðfesti að kærandi hafi sem „intermediary agent“ tekið við greiðslum viðskiptavina Y Ltd., félags í eigu kæranda, vegna þess hve stuttir samningar félagsins við viðskiptavini hafi verið og vegna mikilla áskorana við að taka við greiðslum á Bretlandseyjum í annarri mynt en breskum pundum. Kærandi hafi ekki hagnast af þeirri milligöngu og Y Ltd. hafi heldur ekki hagnast á viðskiptunum. Framlögð gögn um útlagðan kostnað staðfesti að stór hluti greiðslna sem bárust Y Ltd. í gegnum bankareikning kæranda hafi verið útlagður kostnaður félagsins vegna vinnu fyrir hönd viðskiptavina. Y Ltd. hafi aldrei skilað hagnaði, enda hafi félagið gengið í gegnum hvert áfallið á fætur öðru. Verði ekki séð hvaða tekjur ríkisskattstjóri sé að skattleggja.

V.

Kæruefni máls þessa er sú ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt úrskurði hans um endurákvörðun, dags. 17. október 2024, að færa kæranda til skattskyldra tekna gjaldárið 2019 greiðslur frá F Ltd. og X ehf. að fjárhæð 5.541.330 kr. á árinu 2018. Leit ríkisskattstjóri svo á að um væri að ræða launatekjur kæranda samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sem kærandi hefði ekki gert neina grein fyrir í skattframtali sínu árið 2019. Um væri að ræða greiðslur félaganna tveggja inn á bankareikning kæranda hér á landi, þ.e. greiðslur frá F Ltd. að fjárhæð alls 33.635,18 evrur og eina greiðslu frá X ehf. að fjárhæð 9.247,72 bandaríkjadalir. Hefði kærandi ekki lagt fram nein gögn til stuðnings þeim skýringum að um væri að ræða fjármuni sem hann hefði haft milligöngu um að koma í hendur félagi á Bretlandi. Af þessum sökum hækkaði ríkisskattstjóri tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda um 5.541.330 kr. gjaldárið 2019.

Af hálfu kæranda er þess krafist að breytingu ríkisskattstjóra verði hnekkt. Er sú krafa byggð á því að hinar umdeildu greiðslur séu til komnar vegna viðskipta bresks félags í eigu kæranda, Y Ltd., við fyrrnefnd tvö félög og tilheyri því breska félaginu en ekki kæranda. Er komið fram af hálfu kæranda að sú staðreynd, að greiðslurnar fóru um persónulegan bankareikning hans hér á landi, helgist af því að breska félaginu hafi ekki verið unnt að taka við greiðslum í erlendum gjaldmiðlum, þ.e. evrum og bandaríkjadölum, á greindum tíma. Kærandi hafi af þessum sökum haft milligöngu um að koma greiðslunum til félagsins. Tæknileg vandamál hjá banka varðandi erlendar greiðslur hafi einnig átt þátt í þessu og kærandi því brugðið á það ráð að fá eiginkonu sína til að millifæra greiðslurnar inn á bankareikning sinn í Bretlandi. Vísast um þetta til tölvupósta kæranda til ríkisskattstjóra dagana 2. og 5. janúar og 22. apríl 2023, sbr. einnig bréf kæranda til yfirskattanefndar, dags. 11. apríl 2025.

Samkvæmt upphafsákvæði 7. gr. laga nr. 90/2003 teljast til skattskyldra tekna, með þeim undantekningum og takmörkunum er greinir í lögunum, hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs og skiptir ekki máli hvaðan tekjurnar stafa eða í hvaða formi þær eru. Síðan eru í dæmaskyni tilgreindar í 7. gr. skattskyldar tekjur í þremur stafliðum. Í 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 er mælt fyrir um skattskyldu endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, sem innt er af hendi fyrir annan aðila. Eru í ákvæðinu nefnd í dæmaskyni ýmis konar laun svo og „fatnaður, fæði, húsnæði, risnufé, verkfærapeningar, ökutækjastyrkir, flutningspeningar og aðrar hliðstæðar greiðslur, fríðindi og hlunnindi, svo og framlög og gjafir sem sýnilega eru gefnar sem kaupauki“.

Samkvæmt framansögðu liggur fyrir í málinu að kærandi móttók greiðslur frá F Ltd. og X ehf. á árinu 2018 sem ekki var gerð grein fyrir í skattframtali hans árið 2019. Að því athuguðu verður að gera þá kröfu til kæranda að fram komnar skýringar hans um að greiðslurnar hafi í reynd tilheyrt erlendu félagi í hans eigu, þ.e. Y Ltd., og hafi verið ráðstafað til félagsins séu studdar viðhlítandi gögnum, enda verður að ganga út frá því að kæranda sem eiganda þess félags séu slík gögn tiltæk. Taka verður undir með ríkisskattstjóra að engin haldbær gögn þessu til styrktar hafa komið fram í málinu. Gögn sem fylgdu tölvupósti kæranda til ríkisskattstjóra 22. apríl 2023 og þar eru auðkennd sem „millifærsluyfirlit“ bera ekki með sér að stafa frá fjármálafyrirtæki og hafa burtséð frá því aðeins að geyma upplýsingar um millifærslur af bankareikningi kæranda hér á landi inn á bankareikning eiginkonu hans í Bretlandi. Ekkert verður því ráðið af þessum gögnum um ráðstöfun fjármuna til hins erlenda félags. Bréf í nafni þess félags, dags. 27. desember 2024, sem fylgdi kæru til yfirskattanefndar, ber með sér að vera útbúið af kæranda sjálfum, enda stílað á kæranda og sent í nafni hans sem stjórnarmanns Y Ltd. Þá hefur kærandi lagt fram sölureikning útgefinn af M á hendur F Ltd., dags. 26. nóvember 2018, í sterlingspundum og hins vegar útgjaldayfirlit, dags. 19. september 2018, vegna verkefna kæranda sem „Project Manager“ í þágu F Ltd. á árinu 2018, en í yfirliti þessu eru tilgreind útgjöld að fjárhæð samtals 1.166,24 evrur vegna ferðalaga, svo sem nánar er sundurliðað. Er tekið fram í bréfi kæranda, dags. 11. apríl 2025, að þau gögn sýni að „stór hluti“ greiðslna sem um ræðir séu útlagður kostnaður Y Ltd. vegna vinnu fyrir hönd umræddra aðila í Evrópu. Enga frekari grein hefur kærandi þó gert fyrir þessum störfum sínum á vegum Y Ltd. á árinu 2018 og tilhögun endurgjalds til hans vegna þeirra, en síðastnefndar skýringar fá tæpast samrýmst fyrri skýringum kæranda um að aðkoma hans að verkefnunum hafi aðeins verið fólgin í því að miðla greiðslunum til hins erlenda félags. Þá þykja fram komnar skýringar kæranda á ástæðum þess, að greiðslur félaganna tveggja fóru um bankareikning kæranda hér á landi, með nokkrum ólíkindum, en þær eru engum gögnum studdar.

Að framangreindu athuguðu og eins og skýringum kæranda er háttað þykja ekki efni til að hrófla við hinni kærðu tekjufærslu ríkisskattstjóra. Er kröfu kæranda um niðurfellingu á úrskurði ríkisskattstjóra því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja