Úrskurður yfirskattanefndar

  • Staðgreiðsla fjármagnstekjuskatts af arði
  • Álag vegna staðgreiðsluskila
  • Samlagsfélag

Úrskurður nr. 121/2025

Staðgreiðsla 2021

Lög nr. 90/2003, 2. gr. 1. mgr. 3. tölul. og 3. mgr.   Lög nr. 94/1996, 1. gr., 4. gr. 3. mgr. (brl. nr. 69/2021, 9. gr.), 17. gr. 6. mgr.  

Í úrskurði yfirskattanefndar í máli þessu var talið að kæranda, sem var hlutafélag, hafi borið að halda eftir staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts af arðgreiðslum til hluthafa félagsins á árinu 2021, en hluthafarnir voru fimm samlagsfélög sem voru ósjálfstæðir skattaðilar. Kom fram að samlagsfélög væru sjálfstæðir aðilar að lögum og til þess bær að eiga réttindi og bera skyldur sem slík, hvað sem liði skattalegri stöðu þeirra. Væru félögin sjálf þannig rétthafar arðs en ekki eigendur félaganna sem voru fjögur einkahlutafélög. Samlagsfélög væru ekki tilgreind meðal félagaforma sem væru undanþegin staðgreiðsluskyldu arðs. Var kröfum kæranda hafnað, þar með talið kröfu um niðurfellingu álags.

Ár 2025, miðvikudaginn 3. september, er tekið fyrir mál nr. 15/2025; kæra F hf., dags. 28. janúar 2025, vegna ákvörðunar skilaskyldrar staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur árið 2021. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 28. janúar 2025, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkiskattstjóra, dags. 12. apríl 2024, um endurákvörðun skilaskyldrar staðgreiðslu kæranda vegna fjármagnstekna árið 2021. Með úrskurðinum ákvarðaði ríkisskattstjóri skilaskylda fjárhæð staðgreiðslu 3.300.000 kr. vegna arðsúthlutunar félagsins á árinu 2021 að fjárhæð 15.000.000 kr., sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, með áorðnum breytingum. Þá ákvarðaði ríkisskattstjóri kæranda álag á vangreidda staðgreiðslu samkvæmt 1. og 2. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996. Nam fjárhæð álags 330.000 kr. Úrskurðurinn var kveðinn upp í framhaldi af bréfaskriftum, sbr. bréf ríkisskattstjóra til kæranda, dags. 9. janúar 2024, og boðunarbréf, dags. 28. febrúar sama ár, en af hálfu kæranda urðu engin viðbrögð við bréfum þessum. Með bréfi til ríkisskattstjóra, dags. 17. maí 2024, fór kærandi fram á endurupptöku málsins með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en í beiðninni kom fram að viðtakendur arðgreiðslna kæranda á árinu 2021, sem væru fjögur einkahlutafélög, hefðu öll gert grein fyrir arðinum í skattskilum sínum vegna þess árs. Með bréfi, dags. 3. desember 2024, synjaði ríkisskattstjóri beiðninni.

Af hálfu kæranda er þess aðallega krafist í kæru til yfirskattanefndar að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi en til vara að álag verði fellt niður. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

II.

Í kæru til yfirskattanefndar kemur fram að eigendur kæranda séu fimm samlagsfélög sem ekki séu sjálfstæðir skattaðilar, þ.e. A slf., B slf., C slf., D slf. og E slf., sem hvert sé eigandi 20% hlutar í kæranda. Eigendur samlagsfélaganna séu fimm einkahlutafélög sem séu viðtakendur þess arðs sem greiddur hafi verið á árinu 2021 vegna tekjuársins 2020 og hafi einkahlutafélögin gert grein fyrir arðinum í skattskilum sínum vegna ársins 2021. Vísað sé til meginreglu 3. mgr. 4. gr. laga nr. 94/1996 og arðurinn hafi þannig í skattalegu tilliti verið greiddur til félaga sem falli undir undanþáguákvæði greinarinnar. Auk þess séu skil á afdráttarskatti af arðinum á árinu 2024 samkvæmt ákvörðun ríkisskattstjóra óeðlileg í ljósi þess sem fyrir liggi um framtöl viðtakenda arðsins, enda sé um tvísköttun tekna að ræða. Sé vísað til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 í því sambandi. Ríkisskattstjóri hafi ákvarðað kæranda afdráttarskyldu vegna arðsins þremur árum eftir uppgjör hans án þess að upplýsa eða kanna hvernig staðið hafi verið að skattskyldu vegna arðsins sem sé í andstöðu við meðalhóf og rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

III.

Með bréfi, dags. 26. febrúar 2025, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu. Í tilefni af sjónarmiðum í kærunni kemur fram að samlagsfélög séu ekki undanþegin staðgreiðslu samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 94/1996 og sé því ótvírætt að kæranda hafi borið að standa skil á staðgreiðslu af arðinum. Engu máli skipti í því efni hverjir séu eigendur samlagsfélaganna eða hver sé skattaleg staða þeirra. Þau atriði geti hins vegar skipt máli varðandi álagningu tekjuskatts þeirra. Þótt það hafi ekki sérstaka þýðingu varðandi kæruefnið þyki þó rétt að benda á að ekki hafi öll samlagsfélögin staðið skil á ársreikningi með skattframtali sínu og þau sem það hafi gert hafi ekki öll gert grein fyrir mótteknum arði. Þá hafi ekki öll einkahlutafélögin gert grein fyrir arðinum í ársreikningi eða fyllt skattframtöl rétt út hvað varði móttekna arðgreiðslu frá hlutdeildarfélagi. Sé það álit ríkisskattstjóra að staðfesta skuli hinn kærða úrskurð með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á niðurstöðu ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 27. febrúar 2025, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og kæranda gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

IV.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, með síðari breytingum, skal innheimta í staðgreiðslu 22% tekjuskatt til ríkissjóðs af vöxtum og arði eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum. Staðgreiðsla samkvæmt lögunum er bráðabirgðagreiðsla tekjuskatts nema annað sé tekið fram. Um skattstofn staðgreiðslu er fjallað í 4. gr. laga nr. 94/1996. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laganna, sbr. 9. gr. laga nr. 69/2021, um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld, teljast til stofns til staðgreiðslu sem arður samkvæmt lögum þessum tekjur, sbr. 4. og 5. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þ.e. fjárhæð sú er félög samkvæmt 1. og 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, greiða eða úthluta, að undanskilinni fjárhæð arðs sem úthlutað er eða greiddur af félögum samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. til hlutafélaga, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr., og félaga og samlaga sem falla undir 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laga nr. 94/1996, sbr. 25. gr. laga nr. 165/2010, um breyting á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld, skal afdráttur staðgreiðslu af arði fara fram þegar hlutafélag greiðir arðinn eða eigi síðar en í lok þess árs þegar ákvörðun um úthlutun er tekin.

Kærandi gerði í skattframtali árið 2022 grein fyrir úthlutun arðs til hluthafa félagsins að fjárhæð 15.000.000 kr. Hluthafar kæranda eru fimm samlagsfélög með 20% hlut hvert, þ.e. A slf., B slf., C slf., D slf. og E slf., og eru öll félögin ósjálfstæðir skattaðilar, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Ekki voru staðin skil á afdreginni staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts af arði á árinu 2021 og er komið fram af hálfu kæranda að ástæða þess sé sú að þar sem viðtakendur arðsins, þ.e. fyrrnefnd samlagsfélög, séu ekki sjálfstæðir skattaðilar hafi verið litið svo á að arðurinn hafi verið greiddur eigendum þeirra sem séu fjögur einkahlutafélög, þ.e. X ehf., Y ehf., Z ehf. og Ö ehf., sbr. m.a. bréf kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 17. maí 2024, þar sem farið var fram á endurupptöku málsins. Er krafa kæranda í málinu byggð á því að þar sem arðurinn hafi þannig í skattalegu tilliti verið greiddur einkahlutafélögunum fjórum sé arðurinn undanþeginn staðgreiðslu samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 94/1996. Verður að ætla að kærandi hafi hér í huga ákvæði 3. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003 þar sem fram kemur að sé þess ekki óskað við skráningu samlagsfélags, samlagshlutafélags eða sameignarfélags að félagið sé sjálfstæður skattaðili eða fullnægi lögaðili samkvæmt 1.-4. tölul. greinarinnar ekki skilyrðum til að teljast sjálfstæður skattaðili skuli tekjum hans og eignum skipt milli félagsaðila í samræmi við félagssamning þeirra og þær skattlagðar með öðrum eignum og tekjum félagsaðilanna.

Ekki verður fallist á þetta með kæranda, enda eru hluthafar félagsins, þ.e. fyrrnefnd samlagsfélög, sjálfstæðir aðilar að lögum og til þess bærir að eiga réttindi og bera skyldur sem slíkir hvað sem líður skattalegri stöðu þeirra samkvæmt 2. gr. laga nr. 90/2003. Eru félögin sjálf þannig rétthafar arðs sem kom til úthlutunar af hendi kæranda á árinu 2021 en ekki eigendur þeirra þótt tekjur þessar geti komið til skattlagningar hjá eigendunum með öðrum tekjum samlagsfélaganna á grundvelli 3. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003. Samlagsfélög, sem falla undir 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. nefndra laga, eru ekki tilgreind í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 94/1996 meðal félagaforma sem undanþága ákvæðisins frá staðgreiðsluskyldu arðs tekur til, en undanþágan er bundin við tilgreind félög sem falla undir 1. og 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, sbr. hér að framan. Þá taka önnur undanþáguákvæði laga nr. 94/1996, sbr. 3. mgr. 2. gr. þeirra laga, ekki til samlagsfélaganna. Er því fallist á með ríkisskattstjóra að kæranda hafi borið að halda eftir staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts af arðgreiðslum þessum á árinu 2021 og standa skil á henni í ríkissjóð samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 94/1996. Er aðalkröfu kæranda hafnað.

Víkur þá að varakröfu kæranda um niðurfellingu álags.

Í 1. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996 er tekið fram að séu greiðslur samkvæmt lögunum eigi inntar af hendi á tilskildum tíma skuli ríkisskattstjóri gera skilaskyldum aðila að sæta álagi til viðbótar þeim skatti sem honum bar að standa skil á. Sama gildir ef skilagrein hefur ekki verið skilað eða henni verið ábótavant og skattur því verið áætlaður, sbr. 3. mgr. 9. gr. laganna, nema skilaskyldur aðili hafi greitt fyrir eindaga fjárhæð er svarar til áætlunarinnar. Í 2. mgr. 17. gr. eru síðan ákvæði um álag á vanskilafé samkvæmt 1. mgr. Þar er í fyrsta lagi mælt svo fyrir í 1. tölulið málsgreinarinnar að álagið skuli vera einn hundraðshluti af fjárhæð vanskilafjár fyrir hvern dag eftir eindaga, þó ekki hærra en tíu hundraðshlutar, og í öðru lagi er í 2. tölulið málsgreinarinnar mælt fyrir um álag til viðbótar af upphæð vanskilafjár reiknað frá og með gjalddaga, hafi ekki verið greitt á 1. degi næsta mánaðar eftir eindaga, og skuli álag þetta vera hið sama og dráttarvextir sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir, sbr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Samkvæmt 6. mgr. 17. gr. má fella niður álag samkvæmt 2. mgr. ef skilaskyldur aðili færir gildar ástæður sér til afsökunar og metur ríkisskattstjóri það í hverju einstöku tilviki hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi.

Samkvæmt framansögðu er álag samkvæmt 1. og 2. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996 lögbundið og leiðir sjálfkrafa af þeim tilteknu aðstæðum sem lýst er í 1. mgr. greinarinnar. Er því ekki að lögum til að dreifa mati ríkisskattstjóra á beitingu álags að undanskilinni niðurfellingu álags samkvæmt heimildarákvæði 6. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996 við þær sérstöku aðstæður er þar greinir.

Fyrir liggur og er óumdeilt að kærandi stóð ekki skil á greiðslu fjármagnstekjuskatts á eindaga þannig að lagaskilyrði voru til beitingar álags samkvæmt 1. og 2. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996. Þá þykir kærandi ekki með fram komnum skýringum, sem lúta að því að talið hafi verið að arðgreiðslur félagsins væru undanþegnar staðgreiðslu á grundvelli 3. mgr. 4. gr. laga nr. 94/1996, hafa fært fram gildar ástæður í skilningi 6. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996 er geti leyst félagið undan greiðslu álags samkvæmt 1. og 2. mgr. sömu lagagreinar. Verður því að hafna varakröfu kæranda um niðurfellingu álagsins.

Af hálfu kæranda er gerð krafa um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga 30/1992, um yfirskattanefnd, með síðari breytingum. Samkvæmt úrslitum málsins eru ekki lagaskilyrði til að úrskurða kæranda málskostnað. Er kröfu þar að lútandi því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja