Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 774/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 3. gr. 6., 7. og 9. tl. — 7. gr. C-liður 1. og 3. tl. — 71. gr. 2. tl. 1. mgr. og 3. tl. 1. mgr. — 84. gr.  

Skattskylda — Skattskylda einstaklings — Takmörkuð skattskylda — Skattskyldar tekjur — Afurðatekjur — Vaxtatekjur — Eignatekjur — Lausafé — Bústofn — Búfjárafurðir — Viðskiptakrafa — Innstæða á viðskiptareikningi

Málavextir eru þeir, að kærandi, sem búsettur er í Danmörku, skilaði skattframtali árið 1989 samkvæmt áskorun skattstjóra í bréfi, dags. 25. október 1989, með því að hann taldi kæranda bera takmarkaða skattskyldu hérlendis samkvæmt 3. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Samkvæmt innsendu skattframtali voru tilgreindar tekjur kæranda innlagðar afurðir 59.387 kr. og vaxtatekjur 4.308 kr. eða alls 63.695 kr. Eignir voru innstæða á viðskiptareikningi 46.038 kr. og bústofn 22.650 kr. eða alls 68.688 kr. Framtal þetta og skattstofna samkvæmt því lagði skattstjóri til grundvallar álagningu sbr. endurákvörðun hans 10. nóvember 1989. Vísaði skattstjóri til 6. og 7. tl. 3. gr. laga nr. 75/1981 varðandi skattskyldu.

Í kæru, dags. 4. desember 1989, mótmælti umboðsmaður kæranda álagningunni. Kom þar fram, að umrætt fé hefði verið til styrktar kæranda í námi erlendis.

Af hálfu skattstjóra var kærunni synjað með kæruúrskurði, dags. 10. desember 1989. Segir þar svo:

„Kærandi hefur dvalið í Danmörku undanfarin ár og skilaði ekki framtali 1989 á framtalsfresti.

Eftir álagningu 1989 komu fram á skattstofu upplýsingar þess efnis að hún hefði haft á árinu afurðartekjur af sauðfé sem er í hennar eigu hér á landi. Af því tilefni ritaði skattstjóri kæranda bréf, dagsett 25.10.1989, og óskaði eftir að skilað yrði inn framtali 1989.

Faðir kæranda mætti á skattstofu 31.10.1989 og var þar gert framtal 1989 fyrir hana.

Svo sem áður segir tilkynnti svo skattstjóri um álagningu með breytingabréfi, dagsettu 10.11.1989. Sú álagning var gerð með tilliti til þess að kærandi bæri takmarkaða skattskyldu hér á landi og 6. töluliður 3. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt ætti því við um áðurnefndar tekjur kæranda og 9. töluliður sömu lagagreinar ætti við bústofnseign hennar og innstæðu á viðskiptareikningi kaupfélags. Tekjuskattur við álagninguna var því reiknaður samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 3. töluliðar í 71. gr. laga nr. 75/1981og eignarskattur samkvæmt 84. gr. sömu laga.

Í kærubréfi er á engan hátt véfengt að umrædd álagning sé í samræmi við lög eða reglugerðir um skattamál. Þar er álagningunni mótmælt með vísan til þess að hún sé ósanngjörn.

Kærandi hafi verið í námi í Danmörku þar til í janúar 1988 og síðan atvinnulaus þar í landi þangað til í janúar 1989. Hún sé með langan hala af námslánum, upphæð kr. 1.854.605.

Atriði þessi hafa lögum samkvæmt engin áhrif á skattalega meðferð tekna þeirra og eigna sem hér er um að tefla. Kærandi hefur ekki sýnt fram á neinar villur í meðferð skattstjóra á máli þessu né að lagastoð skorti fyrir álagningunni. Kröfu kæranda er því synjað og álögð gjöld á kæranda tilkynnt með bréfi skattstjóra frá 10.11.1989, standa óbreytt.“

Kæruúrskurði þessum hefur af hálfu umboðsmanns kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 16. janúar 1990, og þess krafist, að skattlagning skattstjóra verði niður felld.

Með bréfi, dags. 7. maí 1990, hefur ríkisskattstjóri krafist þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Skattstjóri þykir ekki hafa sýnt fram á, að kæranda beri að greiða hin kærðu gjöld. Er krafa kæranda því tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja