Úrskurður yfirskattanefndar

  • Óvenjuleg skipti í fjármálum
  • Málsmeðferð
  • Álag

Úrskurður nr. 128/2025

Gjaldár 2019

Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 1. tölul. og 4. tölul., 57. gr. 2. mgr., 96. gr., 108. gr. 2. mgr.   Lög nr. 37/1993, 10. gr., 13. gr.  

A og B seldu Y ehf., sem var í eigu föður A, íbúð í fjölbýlishúsi á árinu 2018. Ríkisskattstjóri taldi söluverð íbúðarinnar 66.200.000 kr. hafa verið óeðlilega hátt í skilningi 2. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003 og færði A og B mismun söluverðs annars vegar og matsverðs hins vegar til skattskyldra tekna, þ.e. sem launatekjur í tilviki A og sem gjöf í tilviki B, en A var skráður framkvæmdastjóri Y ehf. Í úrskurði yfirskattanefndar var vísað til þess að íbúðin hefði verið til sölumeðferðar hjá fasteignasölu á sama tíma og ásett verð hennar numið 57.900.000 kr. Þegar litið væri til þess skamma tíma sem leið frá því íbúðin var auglýst til sölu í mars 2018 og þar til íbúðin var seld Y ehf. fyrir 66.200.000 kr. í byrjun apríl sama ár var ekki talið að söluverð gæti skýrst af almennri þróun fasteignaverðs á sama tíma, svo sem kærendur héldu m.a. fram í málinu. Að því marki sem styðjast mætti við upplýsingar á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um meðalverð íbúða af svipaðri stærð og aldri í sama hverfi sem seldar voru á árinu 2018 þættu þær ekki skjóta neinum stoðum undir sjónarmið kærenda. Þá var ekki talið að neitt hafi staðið því í vegi að byggja matsverð íbúðarinnar á ásettu verði fasteignasölunnar í mars 2018, en sú viðmiðun væri kærendum hagfelldari en viðmiðun við fasteignamatsverð sem í gildi var við söluna. Var kröfum kærenda hafnað.

Ár 2025, miðvikudaginn 17. september, er tekið fyrir mál nr. 35/2025; kæra A og B, dags. 25. febrúar 2025, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2019. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 25. febrúar 2025, hafa kærendur skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 26. nóvember 2024, um endurákvörðun opinberra gjalda kærenda gjaldárið 2019. Með úrskurðinum færði ríkisskattstjóri 8.300.000 kr. til tekna í skattframtali kærenda árið 2019 vegna sölu kærenda á fasteign að G til Y ehf. á meintu yfirverði á árinu 2018, þ.e. 4.150.000 kr. í tilviki hvors kærenda um sig. Taldi ríkisskattstjóri að atvikum væri svo farið að 2. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, ætti við þannig að mismun söluverðs 66.200.000 kr. og matsverðs, sem ríkisskattstjóri ákvarðaði 57.900.000 kr., bæri að telja kærendum til skattskyldra tekna. Fjárhæð þessa mismunar eða 4.150.000 kr. í tilviki hvors kærenda taldi ríkisskattstjóri að virða bæri sem launatekjur kæranda, A, sbr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, en sem gjöf samkvæmt 4. tölul. A-liðar 7. gr. sömu laga í tilviki kæranda, B. Við hækkun tekjuskatts- og útsvarsstofns kærenda sem af þessum breytingum leiddi bætti ríkisskattstjóri 25% álagi, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Framangreindar breytingar leiddu til þess að barnabætur kærenda lækkuðu um 398.034 kr. hjá hvoru þeirra ásamt því að vaxtabætur kærenda lækkuðu um 225.497 kr. hjá hvoru.

Í kæru til yfirskattanefndar er þess aðallega krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi. Til vara er þess krafist að 25% álag verði fellt niður. Þá er þess krafist að kærendum verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

II.

Helstu málavextir eru þeir að með bréfi til kærenda, dags. 9. október 2024, óskaði ríkisskattstjóri eftir upplýsingum og gögnum um sölu kærenda á fasteign að G til Y ehf. fyrir 66.200.000 kr. á árinu 2018, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Í bréfinu kom fram að samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum úr fasteignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar hefði fasteignamat hinnar seldu fasteignar numið 47.750.000 kr. á árinu 2018. Fyrir lægi að kærendur væru tengd hluthafa Y ehf. fjölskylduböndum. Væri óskað upplýsinga um hvort gætt hefði verið að ákvæðum 57. gr. laga nr. 90/2003 í viðskiptunum. Í því sambandi væri óskað eftir því að lagður yrði fram kaupsamningur, tilboð og önnur skrifleg gögn um samskipti aðila vegna viðskiptanna. Fram hefði komið af hálfu Y ehf. í tilefni af fyrirspurn ríkisskattstjóra til félagsins að við ákvörðun kaupverðs fasteignarinnar hefði verið horft til meðalverðs seldra fasteigna á svæðinu á þessum tíma, en fasteignin sem um ræðir væri á efstu hæð og búið að leggja mikið í hana. Því hefði verið talið að verðið væri sanngjarnt. Kauptilboð hefði verið gert fyrir milligöngu fasteignasölu, en enginn kaupsamningur hefði verið gerður.

Með hliðsjón af fyrirliggjandi upplýsingum og gögnum þætti ríkisskattstjóra ekki annað séð en að við sölu kærenda á fasteigninni að G hefði borið að miða við það viðmiðunarverð sem sett væri með opinberu fasteignamati fasteignarinnar 47.750.000 kr. eða markaðsvirði sambærilegra eigna samkvæmt opinberum gögnum á svipuðum tíma 56.490.909 kr. Jafnvel hefði mátt miða við ásett verð fasteignarinnar 57.900.000 kr. þegar hún hefði verið auglýst til sölu sem hlyti að hafa verið byggt á mati fasteignasala. Að þessu virtu væri kærendum gefinn kostur á því að láta ríkisskattstjóra í té skýringar á ákvörðun söluverðs fasteignarinnar og hverju sætti að ekki hefði verið miðað við opinbert verðmat sem legið hefði fyrir með fasteignamati fasteignarinnar eða markaðsverði. Væri þess óskað að skýringar yrðu studdar viðeigandi rekjanlegum samtímagögnum eða öðrum gögnum sem varpað gætu ljósi á málið. Að lokum væri óskað eftir afstöðu kæranda, A, til þess hvort hann sem framkvæmdastjóri félagsins hefði talist starfsmaður þess, en fyrir lægi að hann hefði ekki fengið greidd laun frá félaginu á árinu 2018. Með bréfi til kærenda, dags. 23. október 2024, var framangreind fyrirspurn ítrekuð.

Af hálfu kærenda urðu ekki viðbrögð við framangreindu bréfi ríkisskattstjóra og með bréfi, dags. 5. nóvember 2024, boðaði ríkisskattstjóri kærendum endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda gjaldárið 2019, sbr. 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Fyrrnefnd rök til stuðnings fyrirhugaðri ákvörðun voru stuttlega rakin í bréfinu. Veittur var 16 daga frestur til að koma að andmælum vegna boðaðrar endurákvörðunar.

Með úrskurði, dags. 26. nóvember 2024, um endurákvörðun opinberra gjalda kærenda gjaldárið 2019 hratt ríkisskattstjóri hinum boðuðu breytingum í framkvæmd og endurákvarðaði opinber gjöld kærenda til samræmis, sbr. kafla I hér að framan. Í úrskurði ríkisskattstjóra var áréttað að opinbert fasteignamat væri gangverð fasteignar, umreiknað til staðgreiðslu, miðað við heimila og mögulega nýtingu á hverjum tíma sem ætla mætti að fasteignin hefði í kaupum og sölum í febrúarmánuði næst á undan matsgerð og væri það áætlað út frá gangverði svipaðra eigna á markaði og uppfært árlega í samræmi við þróun fasteignaverðs. Þegar metin væru viðskipti með fasteignir á milli tengdra aðila þætti því rétt og eðlilegt að miða við það opinbera verðmat sem lægi fyrir, nema sýnt væri fram á með óyggjandi hætti að miða bæri við annað verðmat. Í 2. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003 kæmi fram að keypti skattaðili eign á óeðlilega háu verði eða seldi eign á óeðlilega lágu verði gætu skattyfirvöld metið það hvað telja skyldi eðlilegt kaup- eða söluverð. Mismun kaupverðs eða söluverðs annars vegar og matsverðs hins vegar skyldi telja til skattskyldra tekna hjá þeim aðila sem slíkra viðskipta nyti. Hefði verið litið svo á að ákvæðið tæki fyrst og fremst til þeirrar aðstöðu þegar sala eignar væri í reynd liður í gjöf eða annars konar örlætisgerningi milli tveggja eða fleiri skattaðila, sbr. m.a. úrskurði yfirskattanefndar nr. 456/1997 og 252/1998.

Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum af vefsíðunni www.fastinn.is hefði íbúðin að G verið auglýst til sölu og ásett verð numið alls 57.900.000 kr. Samkvæmt upplýsingum úr verðsjá fasteignaskrár um meðalverð á fjölbýlishúsum í svipaðri stærð sem byggð hefðu verið á svipuðum tíma og umrædd íbúð á sama svæði á tímabilinu frá 1. janúar til 31. desember 2018 hefði meðalkaupverð verið 56.490.909 kr. og meðalstærð eigna 110,9 fermetrar, en um væri að ræða samtals ellefu kaupsamninga. Með hliðsjón af þessum upplýsingum og gögnum þætti ekki annað séð en að við sölu kærenda á fasteigninni að G til Y ehf. hefði borið að miða við það viðmiðunarverð sem sett væri með opinberu fasteignamati fasteignarinnar við sölu hennar á árinu 2018 eða 47.750.000 kr., markaðsvirði sambærilegra eigna samkvæmt opinberum gögnum á sama eða svipuðum tíma eða 56.490.909 kr. eða þá ásettu verði fasteignarinnar þegar hún var auglýst til sölu. Til skattskyldra tekna teldust beinar gjafir í peningum eða öðrum verðmætum, þar með talin afhending slíkra verðmæta í hendur nákominna ættingja, nema um fyrirframgreiðslu upp í arf væri að ræða. Að öllu framangreindu virtu yrði ekki annað séð en að við sölu kærenda á fasteigninni til félagsins á árinu 2018 hefði að mesta lagi átt að miða við ásett verð eignarinnar þegar hún var auglýst til sölu eða 57.900.000 kr., enda hefðu kærendur ekki sýnt fram á að annað verðmat ætti við. Yrði því ekki annað séð en að kærendur hefðu selt félagi í eigu föður og tengdaföður síns fasteignina að G í krafti tengsla við félagið á verði sem telja yrði hafa verið óeðlilega hátt í skilningi 2. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003. Fæli yfirverðið í sér tekjuviðbót í hendi kærenda að fjárhæð 8.300.000 kr. Sá verðmunur væri því færður kærendum til tekna að jöfnu í skattframtali árið 2019.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi en til vara að fallið verði frá beitingu 25% álags. Í kærunni kemur fram að kröfur kærenda byggi á málsástæðum sem lúti að bæði form- og efnishlið málsins. Er rakið að bréf ríkisskattstjóra, dags. 9. og 23. október 2024, hafi aldrei borist kærendum. Tekið er fram að samkvæmt úrskurði hafi kærendum verið tilkynnt um fyrirhugaða endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárið 2019 með bréfi þann 5. nóvember 2024. Ekki komi fram hvert sú boðun hafi verið send en í öllu falli hafi hún ekki borist til kærenda, ekki frekar en meint fyrri bréf ríkisskattstjóra. Kærendur hafi ekki fengið veður af umræddri endurákvörðun gjalda fyrr en í janúar 2025 þegar vinnuveitandi kæranda, B, lét hana vita að hún væri með skattskuld skráða á sig sem myndi hafa áhrif á útborguð laun. Hafi kærendur þá haft samband við ríkisskattstjóra og fengið afrit af úrskurði embættisins. Tekið er fram að ríkisskattstjóri hafi úrskurðað í málinu vegna svarleysis án þess að reyna að hafa uppi á kærendum þrátt fyrir að það hafi verið hægðarleikur. Þá sé með öllu ósannað að ríkisskattstjóri hafi yfir höfuð sent kærendum fyrirspurnarbréf, boðunarbréf og endanlegan úrskurð.

Til stuðnings kröfum kæranda sé í fyrsta lagi byggt á því að ríkisskattstjóri hafi brotið gegn málsmeðferðarreglum laga nr. 90/2003 og meginreglum stjórnsýsluréttar, sbr. stjórnsýslulög nr. 37/1993. Samkvæmt málsatvikum í úrskurði ríkisskattstjóra sé vísað til fyrirspurnarbréfs, ítrekunarbréfs og tilkynningar um fyrirhugaða endurákvörðun sem fullyrt sé að kærendum hafi verið send. Í úrskurðinum komi hvergi fram hvernig eða hvert umrædd bréf voru send. Hins vegar sé ljóst að kærendur hafi aldrei fengið bréfin. Þá hafi kærendur leitað að umræddum bréfum á heimili sínu, í tölvupóstum og á opinberum þjónustusíðum, en þau hafi ekki komið í leitirnar. Í ljósi framangreinds telji kærendur að andmælaréttur þeirra samkvæmt 13. gr. laga nr. 37/1993 hafi verið gróflega brotinn þar sem embættið gekk ekki úr skugga um að skattaðilar fengju tækifæri til að tjá sig áður en embættið úrskurðaði á grundvelli svarleysis. Einnig hafi verið brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. sömu laga með því að úrskurða í málinu á grundvelli svarleysis, án nokkurra tilrauna til að reyna að hafa uppi á kærendum áður en embættið tók íþyngjandi ákvörðun varðandi skattskil þeirra. Kærendur hafi enga sönnun fyrir því að ríkisskattstjóri hafi sent meint bréf til þeirra. Eina sem þau hafi fyrir sér í þeim efnum séu fullyrðingar ríkisskattstjóra í úrskurðinum sem þau fengu afrit af í janúar 2025, en samkvæmt honum var fyrsta bréf sent 9. október 2024. Ekki komi þó fram hvert bréfið var sent.

Í úrskurði ríkisskattstjóra komi ekki fram hvort embættið hafi leitað leiða til að hafa uppi á kærendum svo þau gætu nýtt sér andmælarétt sinn samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þannig að málið yrði nægjanlega upplýst áður en embættið tók ákvörðun í því, sbr. 10. gr. sömu laga. Sé vísað til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 87/2024 þar sem tekið hafi verið undir með skattaðila að andmælaréttar hans hafi ekki verið gætt með fullnægjandi hætti, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1993. Ríkisskattstjóri hafi haldið áfram að senda bréfin á einhvern stað þar sem þau bárust kærendum ekki, þ.e. hafi þau yfir höfuð verið send. Hafi ríkisskattstjóra þó verið í lófa lagið að hafa uppi á kærendum, en m.a. megi finna netföng þeirra beggja á leitarsíðunni google auk þess sem kærendur séu skráð á ja.is með netföng og símanúmer. Að lokum komi fram í úrskurði ríkisskattstjóra að embættið hafi átt í bréfaskiptum við fyrirsvarsmann Y ehf., sem sé faðir og tengdafaðir kærenda, og hefði embættið getað fengið tengiliðaupplýsingar frá þeim aðila. Hefði embættið reynt að hafa uppi á kærendum undir meðferð málsins hefði það leitt til þess að ekki hefði verið úrskurðað í málinu vegna svarleysis og þá verið gætt að því að málið upplýstist ásamt því að það hefði samrýmst vönduðum stjórnsýsluháttum. Vinnubrögð ríkisskattstjóra helgist líkast til af því að sex ára frestur til endurákvörðunar vegna ársins 2018 hafi liðið undir lok um áramótin 2024-2025, sbr. 1. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003, tæpum þremur mánuðum eftir að fyrsta fyrirspurnarbréf hafi átt að hafa verið sent kærendum. Því hafi embættið séð hag í að halda málinu áfram án viðbragða af hálfu kærenda. Sé vísað til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 217/2016 í þessu sambandi. Í tilviki kærenda hafi þau ekki vitað á neinu stigi að málið væri til meðferðar hjá ríkisskattstjóra og ekki komi fram í úrskurðinum hvert bréf embættisins voru send. Engin rafræn samskipti sé að finna vegna málsins á tölvunetfangi kærenda. Með 4. gr. laga nr. 50/2018 hafi verið innleidd heimild til rafrænnar málsmeðferðar, þar með talið samkvæmt ákvæðum 94.-96. gr., 98., 99. og 101. gr. laga nr. 90/2003, og því sé með ólíkindum að ríkisskattstjóri hafi ekki haft samband við kærendur með rafrænum hætti, sér í lagi í ljósi þess hversu auðvelt hafi verið að afla netfanga þeirra.

Um efnisþátt málsins kemur fram í kærunni að Y ehf. sé fasteignafélag í eigu föður og tengdaföður kærenda. Með samrunaáætlun, dags. … 2018, hafi félagið verið sameinað ásamt tveimur öðrum einkahlutafélögum við Z ehf. Kærendur hafi engan eignarhlut átt í Y ehf. eða Z ehf., en kærandi, A, verið skráður framkvæmdastjóri Y ehf. að nafninu til. Hann hafi þó ekkert komið að rekstri þess félags frá árinu 2016. Einkahlutafélagið sé kærendum því algerlega óviðkomandi og þau starfi ekki hjá félaginu. Aðdragandi að sölu fasteignarinnar til Y ehf. sé sá að félagið hafi fyrir átt fasteign í sama húsi og haft reynslu af húsnæðinu sem sé virkilega vandað og vel með farið. Félagið hafi því vitað að um góða fjárfestingu væri að ræða, sér í lagi þar sem önnur íbúð félagsins að G hafi hækkað mikið í verði. Félagið sé enn skráður eigandi fasteignarinnar og sé með íbúðina í útleigu eins og aðrar fasteignir í eigu þess.

Kærendur hafi auglýst íbúðina til sölu á opnum markaði og hæsta tilboð komið frá Y ehf. Kaupverð hafi með engu móti verið óeðlilegt miðað við staðsetningu eignarinnar og þá hækkun sem hafi átt sér stað á sambærilegum fasteignum á svæðinu, eftirspurn eftir sambærilegum eignum og þá sérstöðu að íbúðin sé á efstu hæð og mikið verið lagt í hana. Þá hafi verið miðað við ásett verð í mars 2018 og hafi eftirspurn eftir fasteignum hækkað ásamt því að verð fasteigna hækkaði mikið milli mánaða. Kærendur hafi ekki haft neitt annað um verðlagninguna að segja en fram komi í tilboðinu frá Y ehf. og að þau hefðu tekið hæsta tilboði sem barst í eignina. Stjórnarmaður félagsins hafi skrifað undir tilboðið en ekki framkvæmdastjóri þess, enda hafi kærandi, A, þá látið af störfum fyrir félagið. Í úrskurðaframkvæmd hafi verið talið að við beitingu 2. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003 velti mat á tveimur þýðingarmiklum atriðum, þ.e. að um óeðlilega hátt eða lágt verð sé að ræða og að ekki komi til ákvörðunar á matsverði skattyfirvalda nema fyrri þátturinn liggi fyrir, sbr. úrskurð yfirskattanefndar nr. 117/2022. Í úrskurðinum hafi yfirskattanefnd litið svo á að almennt yrði ekki talið að óverulegur munur á söluverði fasteigna í viðskiptum og ætluðu gangverði þeirra á sama tíma gæfi tilefni til ályktunar um að söluverð væri óeðlilegt í skilningi 2. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003. Atvik í úrskurði yfirskattanefndar nr. 117/2022 séu þó ekki fyllilega sambærileg máli kærenda, í fyrsta lagi þar sem kærendur séu hvorki eigendur Y ehf., starfsmenn þess né fyrirsvarsmenn, enda sé ekki byggt á 1. og 2. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003 í úrskurði ríkisskattstjóra. Þá hafi kærendur selt félaginu fasteignina og eignin síðan verið notuð í atvinnurekstri til útleigu en ekki til persónulegra nota hluthafa. Ríkisskattstjóra hafi ekki tekist að sýna fram á að verðlagning í viðskiptum kærenda hafi verið óvenjuleg í skilningi 2. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003, eins og yfirskattanefnd hafi einnig komist að í úrskurði nr. 117/2022.

Ríkisskattstjóri byggi mat sitt á verði fasteignarinnar í mars 2018, en viðskiptin hafi átt sér stað í apríl sama ár. Á þessu ári hafi fasteignamarkaður verið á mikilli siglingu og fasteignir, sérstaklega fasteignir með ákveðna sérstöðu, hækkað mikið í verði. Frá einum mánuði til annars hafi verð fasteigna hækkað sem endurspeglist í verðsögu í opinberum gögnum. Mikil eftirspurn hafi verið eftir litlum og meðalstórum fasteignum og slíkar eignir oft á tíðum verið mjög stutt í sölu og oftar en ekki selst langt yfir ásettu verði, sérstaklega á viðkomandi stað. Sé því með engu móti unnt að fallast á með ríkisskattstjóra að kaupverðið, sem nam 66.200.000 kr. eða um 14% yfir ásettu verði, hafi verið óeðlilegt í skilningi 2. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003. Í auknum mæli hafi einkahlutafélög verið farin að kaupa fasteignir til fjárfestinga þar sem allar spár hafi bent til þess að fasteignir myndu hækka verulega í verði á næstu mánuðum og árum. Af þeim sökum hafi kaup oft farið fram á yfirverði eins og sjá megi í opinberlega birtum gögnum. Mótmælt sé aðferð ríkisskattstjóra að skoða ellefu kaupsamninga sem gerðir voru á tímabilinu 1. janúar til 31. desember 2018 á sama svæði á tilteknu stærðarbili, enda verði ekki talið að kaupsamningar þessi geti verið til viðmiðunar við mat á virði fasteignarinnar að G. Sér í lagi þegar ljóst sé að ásett verð eignarinnar í mars 2018 endurspegli með engu móti meðalverð þeirra kaupsamninga sem vísað er til.

Þá sé því mótmælt að litið sé á tekjuviðbót sem viðbótarlaun í tilviki A, enda liggi fyrir í málinu að hann hafi ekki verið starfsmaður Y ehf., eins og nefnt sé í úrskurði ríkisskattstjóra og upplýsingar séu um á grundvelli launamiða. Því sé ekki lagaheimild til staðar til að endurákvarða honum einhvern mismun sem laun á grundvelli 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Vísað sé til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 124/2020 í því samhengi. Fasteignin hafi verið seld í ágúst 2018 fyrir 66.200.000 kr. Sambærileg íbúð á efstu hæð í næsta stigagangi hafi verið seld fyrir 94.900.000 kr. í lok árs 2023. Megi því gera ráð fyrir að ef félagið myndi selja fasteignina nú á árinu 2025 yrði söluhagnaður um 30 milljónir króna og að fullu skattskyldur. Í ljósi alls framangreinds sé því hafnað að kærendur hafi selt Y ehf. fasteign í krafti tengsla sinna við félagið á verði sem telja verði óeðlilega hátt í skilningi 2. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003. Sé það mat kærenda að þeim hafi verið frjálst að eiga í viðskiptum við félagið eins og aðra aðila og að viðskiptin hafi farið fram óháð því hver átti í hlut.

Ákvörðun ríkisskattstjóra um að bæta 25% álagi við vantalinn stofn til útreiknings tekjuskatts gjaldárið 2019 á grundvelli 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 sé mótmælt. Sýnt hafi verið fram á að kærendur hafi verið í góðri trú um að viðskipti þeirra við Y ehf. hafi farið fram á eðlilegu verði, enda hafi viðskiptin verið gerð við einkahlutafélag í eigu annars aðila. Sé því ekki til staðar ásetningur eða stórkostlegt gáleysi um að vantelja skattskyldar tekjur. Grundvöllur álagsbeitingar sé sök, enda sé viðurkennt í dómaframkvæmd að um sé að ræða refsikennd viðurlög, sbr. m.a. úrskurði yfirskattanefndar nr. 282/2015 og 141/2022. Í þessu máli séu engar vísbendingar um saknæma háttsemi af hálfu kærenda sem réttlætt geti álagsbeitingu.

IV.

Með bréfi, dags. 11. apríl 2025, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda þyki ekki hafa komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Vegna athugasemda í kæru um brot gegn andmælarétti og rannsóknarreglu, sbr. 13. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, kemur fram í umsögninni að ríkisskattstjóri hafi sent kærendum fyrirspurnarbréf samkvæmt 96. gr. laga nr. 90/2003 í bréfpósti þann 9. október 2024. Ekkert svar hafi borist og hafi bréfið því verið ítrekað með bréfi, dags. 28. október 2024, og síðan með tilkynningu um fyrirhugaða endurákvörðun, dags. 5. nóvember sama ár. Í kjölfarið hafi verið úrskurðað í málinu og úrskurðurinn verið sendur kærendum með bréfi 26. nóvember 2024. Öll bréfin hafi verið send með bréfpósti á lögheimili kærenda og ekkert þeirra hafi borist endursent til ríkisskattstjóra. Bréfin hafi því verið send kærendum með lögboðnum hætti, sbr. 1. og 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, og verði að teljast á ábyrgð kærenda hafi bréfin ekki borist þeim í hendur. Þar sem ekkert bréfanna hafi verið endursent ríkisskattstjóra hafi ekkert bent til þess undir rekstri málsins, annað en svarleysi kærenda, að kærendur væru ekki upplýst um að ríkisskattstjóri hefði mál þeirra til skoðunar. Verði ekki fallist á með kærendum að brotið hafi verið á andmælarétti þeirra eða að rannsóknarreglu ekki verið gætt í málinu.

Ítrekað sé að söluverð umræddrar fasteignar hafi verið töluvert yfir fasteignamati á þeim tíma samkvæmt upplýsingum í fasteignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Við beitingu ákvæðis 2. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003 hafi verið byggt á því að við ákvörðun matsverðs beri að taka mið af ætluðu gangverði eigna. Hafi fasteignamatsverð verið talið tæk viðmiðun í því sambandi, sbr. úrskurð yfirskattanefndar nr. 411/2004. Á þeim tíma sem kaupin áttu sér stað hafi Y ehf. verið alfarið í eigu föður og tengdaföður kærenda auk þess sem annað kærenda hafi verið skráður framkvæmdastjóri félagsins. Liggi því ljóst fyrir að Y ehf. var tengt kærendum fjölskylduböndum. Verði því að gera ríkar kröfur til þess að skýringar kærenda um fasteignaviðskiptin séu studdar rekjanlegum samtímagögnum sem sýni með óyggjandi hætti að miða beri við annað verð en opinbert verðmat gefi til kynna. Kærendur hafi ekki lagt fram nein slík gögn. Fullyrðingum kærenda um verðhækkanir á fasteignamarkaði, og þá sérstaklega í viðkomandi hverfi, sé hafnað á þeim grundvelli að engin frekari grein sé gerð fyrir þeim með gögnum eða tilvísun í opinber gögn. Telja verði líklegt að söluverð fasteignarinnar hafi í raun verið ákveðið fyrir 6. apríl 2018 og þannig nær því tímamarki þegar fasteignin var tekin af sölu þann 22. mars 2018. Vegna tilvísunar til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 117/2022 sé til þess að líta að í því máli hafi söluverð fasteignar verið tæplega 6% hærra en matsverð sem ríkisskattstjóri ákvarðaði. Í máli kærenda sé söluverð rúmlega 14% hærra en matsverð sem ríkisskattstjóri ákvarðaði. Hlutfallið sé því meira en tvöfalt hærra í tilviki kærenda heldur en í nefndum úrskurði. Málin séu einnig ólík að því leyti að kærendur hafi ekki lagt fram nein gögn til stuðnings því að ákvörðun söluverðs hafi verið eðlileg.

Í tilefni af athugasemdum við skattlagningu launatekna í hendi kæranda, A, sé rétt að benda á að hann hafi verið skráður framkvæmdastjóri Y ehf. á þeim tíma þegar viðskiptin áttu sér stað. Því verði ekki fallist á með kærendum að úrskurður ríkisskattstjóra sé haldinn sömu annmörkum og raun var í máli sem lauk með úrskurði yfirskattanefndar nr. 124/2020.

Vanframtaldar tekjur teljist til verulegs annmarka á skattskilum í skilningi 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Rík skylda hvíli á tengdum aðilum að gæta að því að verð í viðskiptum þeirra í millum sé byggt á eðlilegu söluverði, en það þyki ekki hafa verið gert í tilviki kærenda. Kærendur þyki því hvorki hafa sýnt fram á að aðstæður hafi verið með þeim hætti sem greinir í 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 þannig að fella beri álag niður né að tilefni sé til að falla frá beitingu heimildarákvæðis 2. mgr. sömu lagagreinar í tilviki kærenda að öðru leyti.

V.

Með bréfi, dags. 2. maí 2025, hafa kærendur komið á framfæri fyrir athugasemdum sínum vegna umsagnar ríkisskattstjóra og ítrekað áður fram komin rök og málsástæður í kæru. Ekki liggi fyrir nein sönnun þess að bréf ríkisskattstjóra hafi verið send kærendum. Hafi svo verið ættu þær bréfasendingar að vera rekjanlegar og gerð grein fyrir því með fylgiskjölum með umsögn ríkisskattstjóra. Tilvísanir ríkisskattstjóra til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 320/2015 og úrskurðar yfirskattanefndar nr. 217/2016 séu marklausar þar sem í þeim málum hafi legið fyrir með sannanlegum hætti að embættið hefði sent bréf sín til skattaðila, sbr. þá staðreynd að bréfin voru endursend ríkisskattstjóra, og því sannað með gögnum að bréfin hefðu raunverulega verið send. Það sama eigi ekki við í máli kærenda þar sem engar sannanir þess efnis hafi verið lagðar fram, þ.e. um að bréfin hafi raunverulega verið send með bréfpósti á lögheimili kærenda. Hafa beri í huga að ávallt beri að gæta að því að málsmeðferðarreglur stjórnsýsluréttar séu virtar, enda setji stjórnsýslulög nr. 37/1993 lágmarkskröfur á stjórnvöld. Þær kröfur séu fremur meiri þegar um íþyngjandi ákvörðun sé að tefla. Sé því ljóst að embættið hafi ekki gætt þess að ákvæði laga nr. 37/1993 væru virt við töku íþyngjandi ákvörðunar í máli kærenda. Embættið hefði getað gætt meðalhófs og haft uppi á kærendum með öðrum hætti undir meðferð málsins.

VI.

Mál þetta varðar endurákvörðun ríkisskattstjóra á opinberum gjöldum kærenda gjaldárið 2019, sbr. hinn kærða úrskurð, dags. 26. nóvember 2024. Með úrskurðinum færði ríkisskattstjóri 8.300.000 kr. til tekna í skattframtali kærenda árið 2019 vegna sölu kærenda á fasteign að G til Y ehf. á meintu yfirverði á árinu 2018, þ.e. 4.150.000 kr. í tilviki hvors kærenda um sig. Byggði ríkisskattstjóri á því að kærendur hefðu selt húseignina fyrir of hátt verð og að öðru leyti við slíkar aðstæður að skattyfirvöldum væri heimilt samkvæmt 2. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að meta hvað telja skyldi eðlilegt kaup- eða söluverð. Bæri því að telja kærendum til tekna mismun söluverðs eignarinnar, 66.200.000 kr. og matsverðs, sem ríkisskattstjóri ákvarðaði 57.900.000 kr. Fjárhæð þessa mismunar eða 4.150.000 kr. í tilviki hvors kærenda taldi ríkisskattstjóri að virða bæri sem launatekjur kæranda, A, sbr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, en sem gjöf samkvæmt 4. tölul. A-liðar 7. gr. sömu laga í tilviki kæranda, B. Við hækkun skattstofna kærenda sem af breytingunni leiddi bætti ríkisskattstjóri 25% álagi samkvæmt heimild í 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Af hálfu kærenda er þess aðallega krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi. Til vara er þess krafist að fallið verði frá beitingu 25% álags á vanframtalda skattstofna.

Krafa kæranda um ógildingu úrskurðar ríkisskattstjóra er m.a. byggð á því að kærendum hafi ekki borist nein bréf ríkisskattstjóra vegna málsins, þar með talið hvorki boðunarbréf embættisins né hinn kærði úrskurður. Hafi kærendur fyrst komist á snoðir um endurákvörðun ríkisskattstjóra í janúar 2025 þegar vinnuveitandi kæranda, B, hafi vakið athygli hennar á skattskuld sem hefði áhrif á útborguð laun.

Samkvæmt því sem rakið er í úrskurði ríkisskattstjóra á málið sér þann aðdraganda að ríkisskattstjóri mun hafa aflað upplýsinga um kaup Y ehf. á fasteigninni að G af kærendum á árinu 2018 með bréfi til félagsins og hluthafa þess á árinu 2024 og m.a. lagt fyrir félagið að láta í té gögn um viðskiptin, svo sem afrit kaupsamnings, kauptilboðs og eftir atvikum verðmats á eigninni. Kemur fram í úrskurðinum að svar hafi borist frá Y ehf. og hluthafanum þar sem m.a. hafi verið greint frá því að við ákvörðun kaupverðs hafi verið litið til meðalverðs fasteigna á svæðinu á þeim tíma er kaup eignarinnar fóru fram. Kaupsamningur hafi ekki verið gerður en afsal verið gefið út 28. ágúst 2018 og þinglýst í september sama ár. Afrit framangreindra bréfaskipta eru ekki meðal þeirra gagna sem ríkisskattstjóri hefur lagt fyrir yfirskattanefnd vegna meðferðar máls kærenda, sbr. 2. og 3. mgr. 6. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum, en út af fyrir sig hafa ekki verið gerðar sérstakar athugasemdir við lýsingu þessara samskipta í úrskurði ríkisskattstjóra.

Samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 skal ríkisskattstjóri, ef í ljós kemur fyrir eða eftir álagningu að skattframtal eða einstakir liðir þess eða fylgigögn séu ófullnægjandi, óglögg eða tortryggileg, eigi skráð á lögmæltan hátt eða ófullnægjandi undirrituð eða ríkisskattstjóri telur frekari skýringa þörf á einhverju atriði, skora skriflega á framteljanda að bæta úr því innan ákveðins tíma og láta í té skriflegar skýringar og þau gögn, þar með talið bókhald og bókhaldsgögn, sem ríkisskattstjóri telur þörf á að fá. Þá kemur fram í 4. mgr. 96. gr. laganna að sé gerð breyting á framtali eða sköttum eftir álagningu eða fari fram ný skattákvörðun, sbr. 1. og 2. mgr. þessarar greinar, skuli ríkisskattstjóri gera skattaðila eða þeim sem framtalsskyldan hvílir á viðvart um fyrirhugðar breytingar og af hvaða ástæðum þær eru gerðar og senda tilkynningu um það skriflega. Skal ríkisskattstjóri veita skattaðila a.m.k. 15 daga frest, frá póstlagningu tilkynningar um fyrirhugaðar breytingar, til að tjá sig skriflega um efni máls og leggja fram viðbótargögn áður en úrskurður er kveðinn upp. Skal rökstuddur úrskurður um endurákvörðun álagningar kveðinn upp innan tveggja mánaða að jafnaði og skal senda hann í ábyrgðarbréfi, almennri póstsendingu eða rafrænt til skattaðila eða þess sem framtalsskyldan hvílir á, sbr. 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003.

Í tilefni af athugasemdum kærenda um að bréf ríkisskattstjóra hafi ekki borist þeim skal tekið fram að í samræmi við fyrirliggjandi gögn málsins verður að leggja til grundvallar að bréfin, þar með talið boðunarbréf ríkisskattstjóra og hinn kærði úrskurður, hafi verið send á skráð lögheimili kærenda á greindum tíma að …, svo sem fram kemur í umsögn ríkisskattstjóra, enda er ekkert komið fram í málinu sem bendir til annars. Hvað sem öðru líður verður því að telja að bréfin hafi verið send kærendum með lögboðnum hætti, sbr. 4. og 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, og að það hafi verið á ábyrgð kærenda ef bréfin bárust þeim ekki í hendur, sbr. og úrlausn um hliðstæða viðbáru í dómi Hæstaréttar Íslands 4. febrúar 2016 í máli nr. 320/2015. Ekkert liggur fyrir um það í gögnum málsins að nein þessara bréfa hafi verið endursend ríkisskattstjóra, en við slíkar aðstæður hefur verið litið svo á að embættinu sé rétt í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að leita annarra leiða til að koma bréfum sínum og/eða ákvörðunum til skattaðila, sbr. til hliðsjónar sjónarmið í greindum dómi Hæstaréttar 4. febrúar 2016 og í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 31. mars 1999 sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 5. maí 1999 í máli nr. 164/1999. Vanræksla stjórnvalds í þessu efni getur þó vart nema í undantekningartilvikum leitt til ógildingar á ákvörðun stjórnvaldsins. Enn síður verður talið geta haggað gildi hins kærða úrskurðar þótt ríkisskattstjóri hafi látið undir höfuð leggjast að grafast fyrir um netföng eða símanúmer kærenda vegna meðferðar málsins, svo sem byggt er á í kæru.

Með vísan til þess, sem hér að framan er rakið, verður úrskurður ríkisskattstjóra ekki felldur úr gildi á þeim grundvelli að farið hafi verið á svig við lögboðinn andmælarétt kærenda við meðferð málsins eða að ríkisskattstjóri hafi vanrækt rannsóknarskyldu sína, sbr. ákvæði 1. og 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 og 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Víkur þá að efnisþætti málsins.

Samkvæmt 2. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003 geta skattyfirvöld metið hvað telja skuli eðlilegt kaup- eða söluverð, ef skattaðili kaupir eign á óeðlilega háu verði eða selur eign á óeðlilega lágu verði, og skal þá telja mismun söluverðs eða kaupverðs annars vegar og matsverðs hins vegar til tekna hjá þeim aðila sem slíkra viðskipta nýtur. Líta verður á þetta ákvæði sem sérákvæði gagnvart 1. mgr. sömu lagagreinar, enda yngra að stofni til. Með hliðsjón af viðteknum sjónarmiðum um lögskýringu þykir því bera að skýra ákvæðið þröngt gagnvart hinu almenna ákvæði 1. mgr. greinarinnar. Samkvæmt því og í ljósi þess að ákvæði 2. mgr. 57. gr. laganna mælir einungis fyrir um skattlagningu annars aðila að viðskiptum, þ.e. þess aðila sem viðskiptanna nýtur, verður að telja að ákvæðið taki fyrst og fremst til þeirrar aðstöðu þegar sala á eign er í reynd liður í gjöf eða annars konar örlætisgerningi milli tveggja eða fleiri skattaðila, sbr. til hliðsjónar m.a. úrskurði yfirskattanefndar nr. 456/1997, 252/1998, 395/1998, 98/2003, 252/2003 og 257/2003. Í úrskurðaframkvæmd hefur ákvæðið m.a. verið talið taka til þess þegar hlutafélag eða einkahlutafélag kaupir eignir af hluthafa á óeðlilega háu verði, svo sem úrskurður yfirskattanefndar nr. 98/2003 er dæmi um.

Ljóst er að við beitingu 2. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003 velta tvö þýðingarmikil atriði á mati. Í fyrsta lagi verður að liggja fyrir, svo að óyggjandi sé, að um óeðlilega hátt eða lágt verð sé að ræða. Hvort svo sé ræðst óhjákvæmilega að verulegu leyti af mati og atvikum í einstökum tilfellum. Jafnframt verður að ætla að sá þáttur ráðist mjög af og sé samtvinnaður því matsverði sem skattyfirvöldum er ætlað að ákvarða samkvæmt greininni. Ekki verður þó talið að slíkt þurfi ævinlega að fara saman, enda verður að ætla að verð geti talist eðlilegt þótt matsverð, sem ákveðið er eftir tilteknum viðmiðunum, sé annað. Í öðru lagi byggist beiting 2. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003 á matsverði skattyfirvalda og kemur ekki til kasta þess nema fyrri þátturinn liggi fyrir, þ.e. óeðlilega hátt eða lágt kaup- eða söluverð. Báða framangreinda þætti ber skattyfirvöldum að leiða fram á viðhlítandi hátt við skattlagningu tekjuviðbótar samkvæmt 2. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003. Ber þeim annars vegar að sýna fram á, svo að óyggjandi sé, að verð sé óeðlilega hátt eða lágt, og hins vegar að skjóta traustum stoðum undir matsverð það sem þau ákvarða. Þar sem 2. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003 kveður á um skattlagningu tekjuviðbótar á svo matskenndum grundvelli, sem fyrr greinir, er brýnt að gætt sé varfærni við ákvörðun skattskyldra tekna samkvæmt þessu ákvæði. Í 2. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003 eru skattyfirvöldum ekki settar sérstakar viðmiðanir við ákvörðun matsverðs og gefa lögskýringargögn enga vísbendingu um það. Eðli málsins samkvæmt verður að telja að skattyfirvöldum beri að meginstefnu til að taka mið af ætluðu gangverði við ákvörðun matsverðs. Af því leiðir að fasteignamatsverð er tækt sem viðmiðun í þessum efnum þegar um fasteignir er að ræða, sbr. 27. gr. laga nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna. Ekki verður þó talið að slegið sé í gadda um ákvörðun matsverðs með því að leiða fram fasteignamatsverð á söludegi, enda kunna aðstæður að vera með þeim hætti að fasteignamat sé ekki tækur mælikvarði á raunvirði eignar á þeim tíma, sbr. til hliðsjónar úrskurð yfirskattanefndar nr. 40/2018.

Eins og fram er komið seldu kærendur Y ehf. íbúð á þriðju hæð fjölbýlishússins við G fyrir 66.200.000 kr. á árinu 2018, sbr. samþykkt kauptilboð vegna viðskiptanna, dags. 6. apríl 2018, sem er meðal gagna málsins. Fyrir liggur að faðir kæranda, A, var eigandi Y ehf. á umræddum tíma og var A jafnframt skráður framkvæmdastjóri félagsins. Í kæru til yfirskattanefndar er rakið að fasteignasalan T hafi haft milligöngu um sölu fasteignarinnar og hafi ásett verð eignarinnar verið 57.900.000 kr. Hæsta tilboð í eignina hafi borist frá Y ehf. sem keypt hafi íbúðina í fjárfestingarskyni, enda sé félagið fasteignafélag sem á greindum tíma hafi verið eigandi annarrar íbúðar í húsinu að G. Til stuðnings ályktun sinni um að kærendur hefðu selt Y ehf. íbúðina á óeðlilega háu verði skírskotaði ríkisskattstjóri í fyrsta lagi til fasteignamats eignarinnar á sama ári sem hefði verið 47.750.000 kr. eða allnokkru lægra en söluverð fasteignarinnar í viðskiptunum. Í öðru lagi vísaði ríkisskattstjóri til ásetts verðs eignarinnar sem hefði numið 57.900.000 kr. og tók fram að það verð hlyti að hafa byggst á mati fasteignasala. Í þriðja lagi vísaði ríkisskattstjóri til upplýsinga úr verðsjá fasteigna á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um meðalverð íbúða í fjölbýli í sama hverfi á árinu 2018. Komst ríkisskattstjóri að þeirri niðurstöðu að meðalverð íbúða af svipaðri stærð í hverfinu hefði verið í kringum 56,5 milljónir króna, svo sem nánar greindi. Kom fram að athugun ríkisskattstjóra hefði náð til ellefu kaupsamninga og tekið til íbúða á stærðarbilinu 90-120 fermetrar í fjölbýlishúsum sem byggð hefðu verið á árunum 2004-2006. Samkvæmt gögnum málsins er hin selda íbúð um 114 fermetrar að stærð.

Ekki er komið fram í málinu að skriflegt verðmat á íbúðinni við G hafi legið fyrir við sölu hennar til Y ehf. í apríl 2018. Á hinn bóginn er ágreiningslaust að íbúðin var til sölumeðferðar hjá fasteignasölu og nam ásett verð hennar 57.900.000 kr. í mars sama ár. Þykir mega ganga út frá því að það mat á líklegu söluverði íbúðarinnar hafi byggst á skoðun fasteignasala á eigninni og gögnum og upplýsingum um hana sem hann hafi aflað sér, sbr. til hliðsjónar 11. og 12. gr. laga nr. 70/2015, um sölu fasteigna og skipa. Af hálfu kærenda hafa ekki komið fram aðrar skýringar á því hvernig söluverð íbúðarinnar var ákvarðað í viðskiptunum en að hagstætt tilboð hafi borist frá Y ehf., en að öðru leyti er í kæru til yfirskattanefndar einungis fjallað með almennum hætti um þróun fasteignaverðs sem verið hafi á mikilli siglingu á árinu 2018, einkum í tilviki lítilla og meðalstórra íbúða auk þess sem íbúðir í hverfinu hafi verið eftirsóttar. Þegar litið er til þess skamma tíma sem leið frá því að íbúðin var auglýst til sölu í mars 2018 og þar til hún var seld Y ehf. í byrjun apríl sama ár þykir fjarstæðukennt að söluverð eignarinnar geti skýrst af slíkum atriðum einum saman. Greindar skýringar kærenda eru aukinheldur engum gögnum studdar og af þeirra hálfu hefur ekkert komið fram um önnur verðtilboð í eignina, en nærtækt er að skilja kæruna svo að um önnur tilboð hafi verið að ræða.

Eins og áður greinir vísaði ríkisskattstjóri m.a. til upplýsinga sem er að finna á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um meðalverð íbúða í sama hverfi. Ljóst er að þær upplýsingar taka ekki að neinu leyti mið af eiginleikum og ástandi viðkomandi íbúðar að G. Sama á þó við um þær upplýsingar sem kærendur hafa lagt fram um sölu annarrar íbúðar í sama húsi í árslok 2023. Að því marki sem styðjast má við fyrrgreindar upplýsingar á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um almennt verð minni íbúða í hverfinu verður ekki litið framhjá því að sé horft til íbúða af svipaðri stærð í húsum sem byggð voru á svipuðum tíma og seldar voru á árinu 2018 er meðalverð á áþekku róli og nemur ásettu verði íbúðarinnar samkvæmt mati fasteignasala í mars 2018 eða um 56 milljónir króna, eins og tíundað er í úrskurði ríkisskattstjóra. Þykja þær upplýsingar því ekki skjóta neinum stoðum undir sjónarmið kærenda í málinu heldur þvert á móti.

Samkvæmt framansögðu og með vísan til þess, sem fyrr er rakið um viðmiðun gangverðs við beitingu 2. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003 og þýðingu fasteignamatsverðs sem viðmiðunar í þeim efnum, svo og með sérstöku tilliti til fyrrgreinds verðmats fasteignasölu í mars 2018, þar sem verð íbúðarinnar var metið til muna lægra en sem nam söluverði hennar um mánuði síðar, verður að telja einsýnt að söluverð eignarinnar í viðskiptum kærenda og Y ehf. hafi verið óeðlilega hátt í skilningi fyrrnefnds lagaákvæðis.

Eins og greinir hér að framan verður að telja að við ákvörðun matsverðs fasteigna á grundvelli 2. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003 beri skattyfirvöldum að meginstefnu til að taka mið af ætluðu gangverði. Er fasteignamatsverð því tækt sem viðmiðun í þessum efnum þegar um fasteignir er að ræða, sbr. 27. gr. laga nr. 6/2001. Ríkisskattstjóri ákvarðaði matsverð íbúðarinnar að G til samræmis við ásett verð íbúðarinnar þegar hún var auglýst til sölu hjá fasteignasala í mars 2018 eða 57.900.000 kr. Ljóst er að sú viðmiðun er kærendum hagfelldari en viðmiðun við fasteignamatsverð eignarinnar sem í gildi var við söluna. Að því athuguðu og með vísan til þess sem að framan greinir verður ekki talið að neitt hafi staðið því í vegi að ríkisskattstjóri byggði á því verði sem matsverði eignarinnar, svo sem málið lá fyrir.

Með vísan til framanritaðs verður að hafna aðalkröfu kærenda í máli þessu.

Ríkisskattstjóri leit á þá tekjuviðbót sem ákvörðuð var á framangreindum grundvelli sem launatekjur kæranda, A, sem skattskyldar væru á grundvelli 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, en í tilviki kæranda, B, byggði ríkisskattstjóri á því að um væri að ræða gjöf til hennar samkvæmt 4. tölul. A-liðar sömu lagagreinar. Í kærunni eru gerðar athugasemdir við tekjufærslu á þessum grundvelli hjá kæranda, A, þar sem hann hafi ekki verið starfsmaður Y ehf. og skráning hans sem framkvæmdastjóra félagsins aðeins verið að nafninu til. Af hálfu kærenda hafa engin gögn verið lögð fram þessu til stuðnings önnur en útprentun af þjónustusíðu Skattsins sem ber með sér upphaf einstaklingsrekstrar kæranda, A, á árinu 2016. Hvað sem því líður er allt að einu ljóst að greind aðstaða getur ekki ráðið neinum úrslitum um skattlagningu tekjuviðbótar í hendi kæranda, sbr. ákvæði 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 sem að öðrum kosti yrði talið eiga við í tilviki hans. Verður hin umdeilda tekjuviðbót ríkisskattstjóra ekki felld úr gildi á þeim forsendum sem hér um ræðir.

Víkur þá að kröfu kærenda um niðurfellingu álags sem ríkisskattstjóri bætti við þá hækkun skattstofna þeirra sem leiddi af greindum breytingum, sbr. heimildarákvæði 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt ákvæði þessu má ríkisskattstjóri bæta 25% álagi við áætlaða eða vantalda skattstofna séu annmarkar á framtali, sbr. 96. gr., eða einstakir liðir ranglega fram taldir. Bæti skattaðili úr annmörkum eða leiðrétti einstaka liði á framtali áður en álagning fer fram, má ríkisskattstjóri þó eigi beita hærra álagi en 15%. Samkvæmt 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 skal fella niður álag samkvæmt lagagrein þessari ef skattaðili færir rök að því að honum verði ekki kennt um annmarka á framtali eða vanskil þess, að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann skilaði framtali á réttum tíma, bætti úr annmörkum á framtali eða leiðrétti einstaka liði þess. Þegar litið er til þeirra annmarka sem voru á skattskilum kærenda umrætt ár þykja ekki efni til að falla frá beitingu álags í tilviki kærenda, enda þykir hvorki hafa verið sýnt fram á að atvikum sé svo farið að 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 eigi við né að tilefni sé til að falla frá álagsbeitingu að öðru leyti. Er kröfu um niðurfellingu álags því hafnað.

Af hálfu kærenda er höfð uppi krafa um að þeim verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum. Samkvæmt úrslitum málsins eru ekki fyrir hendi lagaskilyrði til þess að ákvarða kærendum málskostnað. Kröfu þess efnis er því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kærenda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja