Úrskurður yfirskattanefndar
- Húsnæðishlunnindi
- Málsmeðferð
Úrskurður nr. 141/2025
Gjaldár 2019-2022
Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 1. tölul., 96. gr. Lög nr. 37/1993, 10. gr., 13. gr.
Í máli þessu vegna tekjufærslu húsnæðishlunninda hjá kæranda vegna afnota hans af íbúð í eigu B ehf. hélt kærandi því fram að íbúðin hefði verið í skammtímaútleigu til ferðamanna fyrir milligöngu erlendra leigumiðlara og að hann hefði verið búsettur annars staðar. Ekki var fallist á með kæranda að málsmeðferð ríkisskattstjóra hefði verið háð slíkum annmarka að ógilda bæri úrskurð embættisins þar sem kæranda hefði verið veittur of skammur frestur til andsvara. Kæran var send ríkisskattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs úrskurðar þar sem kæran var studd upplýsingum og gögnum sem ríkisskattstjóri hafði ekki tekið rökstudda afstöðu til.
Ár 2025, miðvikudaginn 1. október, er tekið fyrir mál nr. 79/2025; kæra A, dags. 17. mars 2025, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárin 2019, 2020, 2021 og 2022. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Gerður Guðmundsdóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Með kæru, dags. 17. mars 2025, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 17. desember 2024, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2019, 2020, 2021 og 2022. Með úrskurðinum færði ríkisskattstjóri kæranda til skattskyldra tekna húsnæðishlunnindi að fjárhæð 2.202.500 kr. gjaldárið 2019, 2.367.600 kr. gjaldárið 2020, 2.427.500 kr. gjaldárið 2021 og 1.020.205 kr. gjaldárið 2022 vegna afnota kæranda af íbúðarhúsnæði að R á árunum 2018, 2019, 2020 og 2021, en húsnæðið var í eigu B ehf. Ríkisskattstjóri bætti 25% álagi við hækkun skattstofna kæranda umrædd ár sem af breytingunum leiddi, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.
Úrskurður ríkisskattstjóra í málinu var kveðinn upp í kjölfar bréfaskipta, sbr. bréf ríkisskattstjóra til B ehf. og kæranda, dags. 8. febrúar og 16. september og 2. og 30. október 2024, og svarbréf félagsins og kæranda, dags. 15. febrúar og 2. og 7. október sama ár. Með bréfi til kæranda, dags. 14. nóvember 2024, boðaði ríkisskattstjóri endurákvörðun opinberra gjalda hans gjaldárin 2019, 2020, 2021 og 2022 vegna fyrirhugaðrar tekjufærslu húsnæðishlunninda með fyrrgreindum fjárhæðum. Af hálfu kæranda var breytingum ríkisskattstjóra mótmælt með bréfi, dags. 29. nóvember 2024. Í framhaldi af bréfi ríkisskattstjóra til kæranda og B ehf., dags. 3. desember 2024, þar sem skorað var á kæranda og félagið að láta í té sundurliðun á tekjum einkahlutafélagsins af útleigu fasteigna umrædd ár og gögn þar að lútandi, svo sem nánar greindi, kvað ríkisskattstjóri upp hinn kærða úrskurð um endurákvörðun, dags. 17. desember 2024. Í úrskurðinum tók ríkisskattstjóri m.a. afstöðu til fram kominna andmæla kæranda í bréfi hans, dags. 29. nóvember 2024, en taldi þau ekki leiða til þess að falla bæri frá hinum boðuðu breytingum.
Í kæru til yfirskattanefndar er þess aðallega krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði ómerktur vegna annmarka á málsmeðferð, en til vara að úrskurðurinn verði felldur úr gildi. Til þrautavara sé krafist niðurfellingar 25% álags. Loks er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.
Í kærunni kemur fram að ríkisskattstjóri hafi byggt á því að kærandi hafi haft íbúðina að R til íbúðar fyrir sjálfan sig þrátt fyrir að kærandi hafi greint frá því að íbúðin hafi verið í skammtímaútleigu til ferðamanna fyrir milligöngu Airbnb og Booking, en þess á milli í langtímaútleigu. Kærunni fylgi gögn sem sýni fram á að íbúðin hafi verið í útleigu sem K ehf. hafi annast um fyrir B ehf. Málsmeðferð ríkisskattstjóra sé ýmsum annmörkum háð, m.a. hafi verið veittur of skammur frestur til að svara bréfi ríkisskattstjóra, dags. 3. desember 2024, eða einungis fimm dagar í jólamánuði. Brjóti þetta gegn rannsóknarreglu, andmælareglu og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar og skattaréttar, sbr. 96. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 10., 12. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærunni fylgi bókanir vegna R hjá Airbnb og Booking vegna útleigu eignarinnar, en K ehf. hafi fengið greitt fyrir umsýslu sína. Kæranda hafi því ekki verið unnt að búa í íbúðinni vegna útleigu hennar, en skráning lögheimilis hans hafi verið röng vegna sérstakra og persónulegra ástæðna. Sé vísað til meðfylgjandi staðfestingar M á búsetu kæranda að H á greindum tíma. Beri því að fella niður skattskyld húsnæðishlunnindi kæranda.
Með tölvupósti til yfirskattanefndar 7. maí 2025 hefur kærandi lagt fram gögn til stuðnings málskostnaðarkröfu, þ.e. afrit af reikningi vegna vinnu umboðsmanns kæranda við málið ásamt greiðslukvittun.
II.
Með bréfi, dags. 13. júní 2025, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur að öllu leyti þar sem engar viðhlítandi málsástæður eða ný gögn hafi komið fram sem gefi tilefni til breytinga á niðurstöðu embættisins. Er vísað til þess að kærandi byggi á því að hann hafi ekki búið í fasteigninni að R þar sem eignin hafi verið í skammtíma- eða langtímaútleigu þau ár sem málið tekur til. Þau gögn sem kærandi hafi afhent sýni þó eingöngu útleigu á takmörkuðum hluta hvers árs og beri ekki með sér hvaða fasteign hafi verið leigð út í hvert skipti. Engin gögn liggi fyrir sem staðfesti meinta langtímaleigu húseignarinnar. Þá sé framkomin yfirlýsing kæranda um eigin búsetu ekki trúverðug þar sem hún samræmist ekki bréfi umboðsmanns hans, dags. 29. nóvember 2024, þar sem fram komi að kærandi hafi verið með skráða búsetu að T umrædd ár. Að þessu virtu verði ekki fallist á að kærandi hafi sýnt fram á að hann hafi ekki haft búsetu í fasteigninni eins og opinber skráning lögheimilis hans greini. Vegna athugasemda kæranda um svarfresti og málsmeðferð sé til þess að líta að kæranda hafi verið veittur lögbundinn frestur til andmæla vegna fyrirhugaðra breytinga ríkisskattstjóra, sbr. 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, auk þess sem fjórtán dagar hafi liðið frá lokum frests sem ríkisskattstjóri hafi veitt kæranda til að leggja fram frekari gögn um útleigu húsnæðisins, m.a. yfirlit yfir tekjur af útleigu og gögn frá leigumiðlum. Að mati embættisins hafi kæranda verið veittur hæfilegur frestur til að leggja fram umbeðnar upplýsingar, enda hafi beiðnin snúið að afmörkuðum þáttum sem auðvelt sé að nálgast á vef leigumiðlara.
Með bréfi, dags. 17. júlí 2025, hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum í tilefni af umsögn ríkisskattstjóra. Ítrekað sé að fimm daga frestur hafi ekki verið nægilegur til að afla þeirra gagna sem ríkisskattstjóri hafi óskað eftir, enda hafi þurft að vinna úr þeim. Þá sé vísað til gagna sem fylgi bréfinu sem séu nákvæmar sundurliðanir þar sem fram komi hverjum sé leigt, hvenær og fyrir hvaða gjald. Meðfylgjandi sé samantekt og yfirlit yfir gistinætur öll umrædd ár. Greidd leiga vegna R og T að frádreginni þóknun þjónustuaðila hafi numið 10.896.555 kr. árið 2018, 9.299.379 kr. árið 2019 og 628.178 kr. vegna tímabilsins 1. janúar til 28. febrúar 2020. Kæranda hafi því verið ómögulegt að búa í eigninni og hafi hann verið búsettur að H á árunum 2018-2021 eins og framlögð staðfesting M beri með sér. Ómálefnalegt sé að líta framhjá þessum gögnum og staðreyndum og fullyrða um búsetu kæranda að R án þess að byggja á öðru en formlegri skráningu lögheimilis.
III.
Eins og fram er komið lutu breytingar ríkisskattstjóra á skattframtölum kæranda samkvæmt úrskurði hans um endurákvörðun, dags. 17. desember 2024, að tekjufærslu húsnæðishlunninda vegna afnota kæranda af íbúðarhúsnæði að R á árunum 2018, 2019, 2020 og 2021, sbr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og skattmatsreglur ríkisskattstjóra fyrir greind ár. Ríkisskattstjóri bætti 25% álagi við hækkun skattstofna kæranda umrædd gjaldár sem leiddi af tekjufærslu hlunnindanna, sbr. heimildarákvæði 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Af hálfu kæranda er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi og er sú krafa studd bæði formlegum og efnislegum rökum. Til vara er krafist niðurfellingar 25% álags.
Um formhlið málsins og meinta annmarka á málsmeðferð ríkisskattstjóra er einkum vísað til þess að málið hafi ekki verið nægjanlega rannsakað af hendi ríkisskattstjóra áður en breytingar voru boðaðar á skattframtölum kæranda og að kæranda hafi verið veittur of skammur frestur til að bregðast við bréfi ríkisskattstjóra, dags. 3. desember 2024, þar sem kærandi hafi verið krafinn um umfangsmikil gögn. Að því er snertir rannsókn málsins, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 og rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, er fyrst til þess að taka að með bréfi ríkisskattstjóra til kæranda og B ehf., dags. 30. október 2024, var kæranda gefinn kostur á að koma á framfæri skýringum sínum og eftir atvikum gögnum í tilefni af þeirri afstöðu ríkisskattstjóra að hann hefði haft íbúðarhúsnæðið að R til endurgjaldslausra afnota á árunum 2018-2020 þar sem hann hefði verið skráður til heimilis. Voru fyrri bréfaskipti í málinu reifuð og fram komnar skýringar B ehf. á útleigu húsnæðisins og m.a. tekið fram að takmörkuð grein hefði verið gerð fyrir umfangi útleigunnar og þar með notkun fasteignarinnar. Þannig lægju ekki fyrir neinar upplýsingar um útleigu einstakra fasteigna í eigu félagsins, þ.e. hvaða fasteign hefði verið leigð út hverju sinni, og dagafjölda útleigu á tímabilinu. Væri því mat ríkisskattstjóra að ekki hefði verið sýnt fram á aðra notkun fasteignarinnar að R en til búsetu kæranda. Engin viðbrögð urðu við bréfinu af hálfu kæranda eða félagsins innan veitts 10 daga frests og með bréfi, dags. 14. nóvember 2024, boðaði ríkisskattstjóri hinar kærðu breytingar. Andmælabréfi umboðsmanns kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 29. nóvember 2024, mun hafa fylgt yfirlýsing frá fyrirsvarsmanni K ehf. um aðkomu þess félags að útleigu fasteignanna að R og T á árunum 2017-2020 ásamt upplýsingum um fjárhæð leigutekna vegna beggja eignanna. Af því tilefni skoraði ríkisskattstjóri á kæranda og B ehf. með tölvupósti 3. desember 2024 að láta í té sundurliðun á tekjum félagsins af útleigu eignanna þar sem fram kæmu upplýsingar um lengd leigutíma, hvaða fasteign hefði verið í útleigu í hvert skipti o.fl. Var þess getið að skýringar þyrftu að vera studdar viðeigandi gögnum, t.d. færsluyfirlitum frá Airbnb eða sambærilegum leigumiðlunum. Taka má undir með kæranda að fimm daga svarfrestur samkvæmt tölvupóstinum hafi verið í knappara lagi. Hins vegar verður hvorki litið framhjá því að í reynd var einungis um að ræða ítrekun á fyrri beiðni ríkisskattstjóra um upplýsingar og gögn varðandi útleigu eignanna, sbr. fyrrnefnt bréf, dags. 30. október 2024, né að kærandi átti þess kost allt til uppkvaðningar hins kærða úrskurðar 17. desember 2024 að bregðast við tölvupóstinum. Þá verður ekki tekið undir með kæranda að um hafi verið að ræða beiðni um umfangsmikil gögn og upplýsingar. Verður þvert á móti að ætla að öflun upplýsinga um útleigu einstakra íbúða á vegum einkahlutafélags kæranda hafi ekki verið viðurhlutamikil.
Með vísan til framanritaðs þykir ekkert hald í þeim viðbárum kæranda að meðferð málsins hafi verið haldin slíkum annmörkum af hálfu ríkisskattstjóra að leitt geti til ógildis hins kærða úrskurðar. Verður krafa kæranda ekki tekin til greina á þeim forsendum sem hér um ræðir.
Efnislegur ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi hafi haft endurgjaldslaus afnot íbúðarhúsnæðisins að R á árunum 2018, 2019, 2020 og 2021 þannig að ákvarða beri honum skattskyld húsnæðishlunnindi vegna þeirra, sbr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 og skattmatsreglur ríkisskattstjóra sem vísað er til í hinum kærða úrskurði. Af hálfu kæranda er því haldið fram að íbúðin hafi verið í útleigu, bæði til skamms og langs tíma, og að kærandi hafi verið búsettur annars staðar. Ágreiningur málsins hverfist í raun um þetta, en ríkisskattstjóri taldi kæranda hvorki hafa sýnt fram á búsetu annars staðar en að R né að húseignin hefði verið í útleigu á þeim tíma sem málið varðar. Eins og getið er í umsögn ríkisskattstjóra fylgja kæru til yfirskattanefndar ný gögn sem ekki hafa komið fram á fyrri stigum málsins, þ.e. annars vegar yfirlýsing M, dags. 25. apríl 2025, varðandi búsetu kæranda og hins vegar gögn frá erlendum leigumiðlunum um skammtímaútleigu á árunum 2017-2020. Þá hefur kærandi með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 17. júlí 2025, lagt fram frekari gögn um útleigu fasteigna í eigu B ehf., en í bréfinu kemur fram að um sé að ræða yfirlit yfir seldar gistinætur íbúðanna að R og T á umræddum tíma. Er kæran þannig studd upplýsingum og gögnum sem ríkisskattstjóri krafði kæranda um án árangurs við meðferð málsins hjá embættinu og ríkisskattstjóri hefur þannig ekki tekið neina rökstudda afstöðu til. Að framangreindu virtu og eins og málið liggur fyrir yfirskattanefnd þykir rétt, með hliðsjón af þeim lagarökum sem búa að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, að senda ríkisskattstjóra kæruna til meðferðar og uppkvaðningar nýs úrskurðar, sbr. ennfremur sjónarmið í H 1992:1377. Með úrskurði þessum er þá ekki tekin efnisleg afstaða til ágreiningsefnis málsins.
Af hálfu kæranda er gerð krafa um að honum verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998 og 6. gr. laga nr. 69/2021, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins verður að hafna þeirri kröfu kæranda, enda eru lagaskilyrði fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði ekki uppfyllt, sbr. fyrrgreint lagaákvæði.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kærunni ásamt meðfylgjandi gögnum er vísað til ríkisskattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs úrskurðar. Að öðru leyti er kröfum kæranda hafnað.