Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 784/1991
Gjaldár 1989
Lög nr. 75/1981 — 2. gr. 1. mgr. 5. tl. — 7. gr. C-liður 3. tl. — 53. gr. 1. mgr. — 79. gr. — 80. gr. — 84. gr. — 91. gr. — 95. gr. 2. mgr. — 100. gr. 1. og 5. mgr.
Dánarbú — Lögaðili — Sjálfstæður skattaðili — Sjálfstæð skattskylda — Sjálfstæð skattskylda dánarbús — Skattskylda — Skattskylda dánarbús — Lok skattskyldu — Lok skattskyldu dánarbús — Búskipti — Erfðafjárskýrsla — Skiptaráðandi — Skiptagerð — Skiptalok — Erfðafjárskattur — Kærufrestur — Kæra, komudagur — Komudagur kæru — Póstlagningardagur — Póstlagningardagur kæru — Kæra, póstlagningardagur — Eignarskattur — Eignarskattsstofn — Tímaviðmiðun eignarskattsstofns — Eignarskattsstofn, tímaviðmiðun — Framtalsskylda — Áætlun — Áætlun skattstofna — Innstæða á bankareikningi — Verðbreytingarfærsla — Gjaldfærsla vegna verðbreytingar — Kröfugerð ríkisskattstjóra
I.
Málavextir eru þeir, að við frumálagningu opinberra gjalda gjaldársins 1989 áætlaði skattstjóri dánarbúinu skattstofna, að meðtöldu 25% álagi, til eignarskatts 2.500.000 kr. og tekjuskatts 250.000 kr. og lagði á samkvæmt því. Með kæru, dags. 21. ágúst 1989, var álagningin kærð og þess krafist, að hún yrði felld niður. Voru lögð fram með kæru ljósrit af einkaskiptagerð og erfðafjárskýrslu, dags. 29. desember 1988, og samþykktum af skiptaráðanda þann 24. janúar 1989. Samkvæmt framlögðum gögnum var leyfi skiptaráðanda til einkaskipta dags. 28. ágúst 1987 og samanstóðu eignir af bankainnstæðu og innbúi, sem skipt var á milli barna arfleifanda. Með kæruúrskurði, dags. 18. desember 1989, synjaði skattstjóri kæru á þeim forsendum, að dánarbúinu hefði ekki verið skipt fyrr en 24. janúar 1989, sbr. erfðafjárskýrslu, og skattframtal 1989 hefði ekki borist skattstjóra.
II.
Með ódagsettri kæru móttekinni 18. janúar 1990 hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar. Er kæran svohljóðandi:
„Með því að skattstjóri hefur ekki orðið við því að fella niður opinber gjöld ofangreinds dánarbús vegna ársins 1989 verð ég f.h. dánarbúsins að kæra til Ríkisskattanefndar úrskurð hér um.
Dánarbúi A var skipt einkaskiptum í desember 1988 eins og fram kemur í meðfylgjandi gögnum og er því ekki til staðar sem skattaðili 1989. Ekki eru því rök til að fella á dánarbúið gjöld vegna ársins 1989. Í annan stað er tekjuskattsstofn myndaður af vaxtatekjum á kaskóreikningi nr. ---- í Verslunarbanka Íslands hf. Þar sem dánarbúið var algjörlega skuldlaust og svaraði engum vaxtagjöldum geta tekjur þessar ekki myndað tekjuskattsstofn“
III.
Með bréfi, dags. 6. desember 1990, hefur ríkisskattstjóri f.h. gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd þar sem hún er of seint fram komin, en lögmæltur 30 daga kærufrestur skv. 1. mgr. 100 gr. laga nr. 75/1981 rann út þann 17. janúar 1990. Kærubréf kæranda barst ríkisskattanefnd hinsvegar ekki fyrr en 18. janúar 1990. Kærandi þykir ekki hafa sýnt fram á að honum hafi eigi verið unnt að kæra innan þess frests.
Telji ríkisskattanefnd hinsvegar að taka beri kæruna til efnislegrar meðferðar þrátt fyrir ofangreindan formgalla er þess krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“
IV.
Kæra til ríkisskattanefndar var póstlögð í bréfi, sem er póststimplað 18. janúar 1990. Ekki liggur fyrir, hvenær bréfið var afhent á póststöð til sendingar með pósti, en rétt þykir að miða komudag kærunnar við þá afhendingu. Þar eð afhendingardagurinn liggur þannig ekki fyrir þykir rétt að miða við það, að hann hafi verið 17. janúar 1990. Samkvæmt því hefur kæran borist ríkisskattanefnd fyrir lok kærufrests. Er því frávísunarkröfu ríkisskattstjóra hrundið.
Í málinu þykir eiga að leggja til grundvallar, að búskipti hafi í raun verið til lykta leidd á skiptafundi 29. desember 1988, þar sem gengið var frá einkaskiptagerð og erfðafjárskýrslu, enda þótt greiðsla erfðafjárskatts ætti sér stað eftir áramótin. Samkvæmt því ber að miða lok skattskyldu dánarbúsins við þá dagsetningu. Að þessu virtu er krafa kæranda að hluta tekin til greina og eignarskattsstofn felldur niður með vísan til ákvæða 79. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, en hins vegar er kröfu um niðurfellingu tekjuskatts hafnað, þar sem ekki hefur verið talið fram fyrir dánarbúið gjaldárið 1989 vegna tekjuársins 1988 og gerð grein fyrir vaxtatekjum af tilgreindum bankareikningi, en um skattskyldu þess fer eftir ákvæðum 5. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þó þykir eftir atvikum og að virtum ákvæðum 1. mgr. 53. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, um verðbreytingarfærslu mega lækka teknaáætlun skattstjóra úr 250.000 kr. í 150.000 kr.