Úrskurður yfirskattanefndar

  • Óvenjuleg skipti í fjármálum
  • Rekstrarkostnaður

Úrskurður nr. 149/2025

Gjaldár 2019-2022

Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 1. tölul., 11. gr. 2. mgr., 30. gr. 1. tölul. 1. mgr., 57. gr. 2. mgr.   Lög nr. 113/1990, 14. gr.  

Ríkisskattstjóri lækkaði tilfært rekstrartap í skattskilum kæranda, sem var einkahlutafélag, og var sú breyting afleiðing þeirrar ákvörðunar ríkisskattstjóra að færa K, stjórnarmanni og hluthafa félagsins, til skattskyldra tekna 6.600.000 kr. í skattframtali árið 2019 vegna kaupa K á bifreið af kæranda á meintu undirverði á árinu 2018. Af þessum sökum felldi ríkisskattstjóri niður tilfært sölutap vegna viðskiptanna í skattskilum kæranda og færði til tekna söluhagnað. Með úrskurði yfirskattanefndar var krafa kæranda um hækkun gjaldfærðra launa um sömu fjárhæð í skattskilum félagsins árið 2019 tekin til greina.

Ár 2025, miðvikudaginn 1. október, er tekið fyrir mál nr. 64/2025; kæra A ehf., dags. 10. mars 2025, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárin 2019, 2020, 2021 og 2022. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Gerður Guðmundsdóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 10. mars 2025, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 20. desember 2024, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2019, 2020, 2021 og 2022. Með úrskurði þessum, sem kveðinn var upp í kjölfar bréfaskipta sem ítarlega eru rakin í úrskurðinum, lækkaði ríkisskattstjóri tilfært rekstrartap í skattframtali kæranda árið 2019 um 6.600.000 kr. og yfirfæranleg rekstrartöp í skattskilum félagsins gjaldárin 2020, 2021 og 2022 um sömu fjárhæð sem leiddi til þess að kæranda ákvarðaðist tekjuskattsstofn að fjárhæð 6.600.000 kr. gjaldárið 2022. Breytingar þessar voru afleiðing þeirrar ákvörðunar ríkisskattstjóra að færa stjórnarmanni og hluthafa kæranda, K, til skattskyldra tekna 6.600.000 kr. í skattframtali hennar árið 2019 vegna kaupa hennar á bifreið af gerðinni Land Rover Range Rover af kæranda á meintu undirverði á árinu 2018. Taldi ríkisskattstjóri að atvikum væri svo farið að 2. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, ætti við þannig að mismun kaupverðs bifreiðarinnar, sem nam 10.800.000 kr., og matsverðs sem ríkisskattstjóri ákvarðaði 17.400.000 kr., bæri að telja til skattskyldra tekna K og virða sem óheimila úthlutun fjármuna úr kæranda sem skattleggja bæri sem launatekjur K samkvæmt sbr. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. sömu laga. Af þessum sökum felldi ríkisskattstjóri niður tilfært sölutap bifreiðarinnar 3.200.000 kr. í skattskilum kæranda árið 2019 og færði til tekna söluhagnað af viðskiptunum að fjárhæð 3.400.000 kr. með vísan til ákvæðis B-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003.

Í kæru til yfirskattanefndar er þess aðallega krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur niður en til vara að gjaldfærð laun verði hækkuð um 6.600.000 kr. gjaldárið 2019 og afleiddar breytingar gjaldárin 2020, 2021 og 2022 „verði þar með afturkallaðar“, eins og segir í kærunni. Þá er gerð krafa um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með síðari breytingum. Í kærunni kemur fram að hinn kærði úrskurður ríkisskattstjóra sé efnislega rangur, byggi á ólögmætum og ómálefnalegum sjónarmiðum og uppfylli ekki lagakröfur um rökstuðning og meðalhóf. Er greint frá málavöxtum og tekið fram að þrátt fyrir breytingar ríkisskattstjóra á tilfærðu sölutapi vegna sölu bifreiðar hafi engar breytingar verið gerðar á launum. Kærandi eigi að njóta þeirra réttinda við skattlagningu að álagning sé rétt og lögum samkvæmt og að gætt sé meðalhófs, sbr. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. K hafi verið launamaður hjá kæranda á árinu 2018 og þar sem breytingar ríkisskattstjóra hafi byggst á 1. og 2. mgr. 11. gr. og 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 hafi embættinu borið að hækka frádrátt kæranda vegna launakostnaðar um sömu fjárhæð. Það sjónarmið ríkisskattstjóra í þessu sambandi, að tekin verði afstaða til kröfu um frádrátt að liðnum kærufresti til yfirskattanefndar, sé óskiljanleg, sbr. t.d. úrskurð yfirskattanefndar nr. 154/2024 þar sem megi finna hliðstæðu um afleiddar breytingar. Hafi því ekki verið gætt meðalhófs í tilviki kæranda. Til stuðnings málskostnaðarkröfu sé vísað til þess að umboðsmaður kæranda hafi eytt fjórum klukkustundum í málið á tímagjaldinu 36.000 kr. auk virðisaukaskatts. Kostnaður kæranda af rekstri málsins sé því 144.000 kr. að teknu tilliti til þess að félagið sé virðisaukaskattsskyldur aðili.

II.

Með bréfi, dags. 5. maí 2025, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna. Í umsögninni kemur fram að þar sem aðalkrafa kæranda um ógildingu hins kærða úrskurðar sé ekki studd neinum gögnum eða sjónarmiðum sé þess krafist að kröfunni verði vísað frá yfirskattanefnd en til vara hafnað. Að því er varakröfu kæranda snertir fallist ríkisskattstjóri á hana, verði aðalkröfu kæranda vísað frá eða hafnað, þar sem hluthafi félagsins, K, hafi ekki kært úrskurð ríkisskattstjóra, dags. 20. desember 2024. Gjaldfærð laun félagsins myndu þá hækka um 6.600.000 kr. og tryggingagjaldsstofn um sömu fjárhæð gjaldárið 2019.

III.

Með bréfi, dags. 27. maí 2025, hefur kærandi gert grein fyrir athugasemdum sínum í tilefni af umsögn ríkisskattstjóra. Í bréfinu kemur fram að til stuðnings aðalkröfu kæranda sé vísað til þess að úrskurður ríkisskattstjóra sé efnislega rangur auk þess sem úrskurðurinn byggi á ólögmætum og ómálefnalegum sjónarmiðum. Ríkisskattstjóri fallist á varakröfu, en hvorki í kærunni né í hinum kærða úrskurði sé deilt um tryggingagjaldsstofn. Krafa um hækkun þess stofns sé því nýmæli í umsögn ríkisskattstjóra. Líklegt sé að embættið hafi þar í huga ákvæði laga nr. 113/1990, um tryggingagjald. Þar sem úrskurður ríkisskattstjóra lúti að rekstrarárinu 2018 verði ekki séð að lagastoð sé fyrir kröfu ríkisskattstjóra um hækkun tryggingagjalds, sbr. 14. gr. laga nr. 113/1990 og 1. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003. Bréfinu fylgja gögn til stuðnings málskostnaðarkröfu, þ.e. afrit af reikningi að fjárhæð 252.000 kr. án virðisaukaskatts vegna sjö klukkustunda vinnu umboðsmanns kæranda við málið.

IV.

Mál þetta varðar endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2019, 2020, 2021 og 2022 samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 20. desember 2024, að undangengnu boðunarbréfi, dags. 8. nóvember sama ár, og frekari bréfaskiptum sem reifuð eru í úrskurði ríkisskattstjóra. Hér að framan, sbr. kafla I, er gerð grein fyrir breytingum á skattskilum kæranda sem úrskurðurinn fól í sér. Eins og þar kemur fram lutu þær að niðurfellingu á tilfærðu sölutapi að fjárhæð 3.200.000 kr. í skattskilum kæranda gjaldárið 2019 vegna sölu bifreiðar til hluthafa og stjórnarmanns kæranda, K, á árinu 2018 og ákvörðun söluhagnaðar að fjárhæð 3.400.000 kr. vegna viðskiptanna. Leit ríkisskattstjóri svo á að kærandi hefði selt K bifreiðina við of lágu verði þannig að viðskiptin féllu undir 2. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og að færa bæri mismun söluverðs og matsverðs bifreiðarinnar til tekna hjá K á grundvelli þess ákvæðis og virða sem óheimila úthlutun verðmæta úr kæranda samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003. Greind breyting ríkisskattstjóra á skattframtali kæranda árið 2019 vegna bifreiðaviðskiptanna leiddi jafnframt til breytinga á yfirfæranlegu rekstrartapi í skattskilum félagsins árin 2020, 2021 og 2022, svo sem fram er komið. Fyrir liggur í málinu að með úrskurði um endurákvörðun, dags. 20. desember 2024, færði ríkisskattstjóri K til skattskyldra tekna í skattframtali hennar árið 2019 á þessum grundvelli greindan mismun 6.600.000 kr. og miðaði við að skattleggja bæri tekjurnar sem launatekjur hennar samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 2. mgr. 11. gr. sömu laga. Þessi úrskurður ríkisskattstjóra í máli K hefur ekki verið kærður til yfirskattanefndar.

Samkvæmt kæru til yfirskattanefndar er þess aðallega krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur niður, en til vara að gjaldfærð laun í skattskilum kæranda árið 2019 hækki um 6.600.000 kr. til samræmis við skattlagningu launatekna að sömu fjárhæð í skattframtali K umrætt ár. Af kærunni og bréfi umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 27. maí 2025, verður frekast ráðið að aðalkrafan sé byggð á því einu að úrskurður ríkisskattstjóra sé efnislega rangur með því að þeirri kröfu kæranda, sem fram kom í andmælabréfi til ríkisskattstjóra, dags. 22. nóvember 2024, að frádráttur launakostnaðar í skattskilum félagsins árið 2019 yrði hækkaður um 6.600.000 kr., hafi verið hafnað á grundvelli ólögmætra og ómálefnalegra sjónarmiða. Af því tilefni skal tekið fram að jafnvel þótt tekið yrði undir þessi rök kæranda gæti það trauðla leitt til niðurfellingar á úrskurði ríkisskattstjóra í heild sinni, enda verður að líta svo á að ekki sé efnislegur ágreiningur um breytingu embættisins á tilfærðu sölutapi vegna sölu bifreiðar til K á árinu 2018 sem ekkert er vikið að í kærunni. Þegar af þessari ástæðu verður að hafna aðalkröfu kæranda.

Varakrafa kæranda lýtur sem fyrr segir að hækkun gjaldfærðra launa um 6.600.000 kr. í skattskilum félagsins árið 2019. Er sú krafa tekin til greina, sbr. umsögn ríkisskattstjóra í málinu. Vegna athugasemdar í umsögninni um hækkun tryggingagjaldsstofns kæranda um sömu fjárhæð gjaldárið 2019 skal tekið fram að hinn kærði úrskurður ríkisskattstjóra tekur ekki að neinu leyti til tryggingagjalds og fól ekki í sér endurákvörðun þess gjalds, sbr. 14. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, með áorðnum breytingum. Getur því ekki komið til neinna breytinga á tryggingagjaldi kæranda með úrskurði þessum.

Af hálfu kæranda er gerð krafa um að félaginu verði úrskurðaður málskostnaður úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998 og 6. gr. laga nr. 69/2021, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins þykir bera að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis. Í bréfi kæranda til yfirskattanefndar, dags. 27. maí 2025, kemur fram að kostnaður kæranda af rekstri málsins fyrir yfirskattanefnd nemi 312.480 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti vegna sjö klukkustunda vinnu umboðsmanns kæranda við málið. Með hliðsjón af þeim upplýsingum og framlögðum gögnum kæranda og með vísan til lagaskilyrða fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði og starfsreglna yfirskattanefndar frá 21. nóvember 2014 um ákvörðun málskostnaðar þykir málskostnaður hæfilega ákveðinn 250.000 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Varakrafa kæranda um gjaldfærslu launa 6.600.000 kr. í skattframtali árið 2019 er tekin til greina. Málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði ákveðst 250.000 kr. Að öðru leyti er kröfum kæranda hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja