Úrskurður yfirskattanefndar
- Álag vegna staðgreiðsluskila
Úrskurður nr. 175/2025
Staðgreiðsla 2024
Lög nr. 45/1987, 28. gr. 6. mgr.
Krafa kæranda, sem var einkahlutafélag, um niðurfellingu álags vegna staðgreiðsluskila var tekin til greina með úrskurði yfirskattanefndar, en sú vangreiðsla staðgreiðslu vegna mars 2024 sem málið laut að var til komin vegna mistaka sem urðu við leiðréttingu kæranda á fyrri staðgreiðsluskilum félagsins í mars 2025. Var tekið fram í úrskurði yfirskattanefndar að greiðsla skattsins í öndverðu hefði farið fram fyrir eindaga greiðslutímabilsins.
Ár 2025, fimmtudaginn 6. nóvember, er tekið fyrir mál nr. 128/2025; kæra A ehf., mótt. 6. ágúst 2025, vegna ákvörðunar staðgreiðslu opinberra gjalda árið 2024. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Gerður Guðmundsdóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Með bréfi, dags. 3. júní 2025, sem ríkisskattstjóri hefur framsent yfirskattanefnd sem kæru til nefndarinnar með tölvupósti 6. ágúst 2025, hefur kærandi mótmælt ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt úrskurði, dags. 26. maí 2025, að hafna beiðni kæranda um niðurfellingu álags, sbr. 1. og 2. tölul. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, vegna síðbúinna skila á staðgreiðslu opinberra gjalda. Í úrskurðinum var vísað til þeirra skýringa kæranda að mistök hefðu orðið við leiðréttingu á skilagrein vegna staðgreiðslu og félagið því fengið endurgreidda staðgreiðslu vegna marsmánaðar 2024 þann 7. apríl 2024. Félagið hefði endurgreitt samdægurs en eftir stæði álag. Ríkisskattstjóri vísaði til 1. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987 og 6. mgr. sömu lagagreinar og kvaðst telja að í tilviki kæranda hefðu ekki verið færðar fram gildar afsökunarástæður fyrir niðurfellingu álags, sbr. síðastnefnt ákvæði, enda yrði ekki séð að illgerlegt eða ómögulegt hefði verið að sjá svo um að tilskilin greiðsla yrði innt af hendi innan tilskilinna tímamarka.
Af hálfu kæranda er þess krafist að álag verði fellt niður. Í kærunni er rakið að af einhverjum ástæðum hafi kærandi greitt fjársýsluskatt á árinu 2024 sem félaginu hafi ekki borið að gera. Fyrirsvarsmaður kæranda hafi ætlað að leiðrétta þetta í mars 2025 með gerð nýrrar skýrslu, en vegna mistaka hafi fyrirsvarsmaðurinn eytt eldri skýrslu fyrir mars 2024 án þess að hafa staðfest nýja og leiðrétta skýrslu fyrir þann mánuð. Af þessum sökum hafi kærandi fengið endurgreidda staðgreiðslu að fjárhæð 63.622 kr. sem félagið hafi endurgreitt samdægurs með gerð nýrrar skýrslu. Leiðréttingin í mars 2025 hafi verið gerð í samræmi við leiðbeiningar frá starfsmanni Skattsins, þ.e. að eyða eldri skýrslu og útbúa nýja. Til þess sé að líta að skýrslu fyrir marsmánuð 2024 hafi verið skilað á réttum tíma og að kærandi hafi endurgreitt staðgreiðsluna samstundis og mistökin hafi komið í ljós. Sé því farið fram á niðurfellingu álags að fjárhæð 5.460 kr. og að fjárhæð 692 kr., enda skuli rétt vera rétt þótt fjárhæðir séu lágar.
II.
Með bréfi, dags. 5. september 2025, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæru kæranda. Í umsögninni kemur fram að upphafleg staðgreiðsluskil kæranda vegna mars 2024 hafi farið fram 10. apríl sama ár. Kærandi hafi breytt staðgreiðsluskilum sínum fyrir umrætt greiðslutímabil, fyrst til lækkunar þann 3. apríl 2025 og því næst til hækkunar þann 7. sama mánaðar. Greiðsla vegna hækkunarinnar hafi verið innt af hendi 7. apríl 2025. Gjalddagi staðgreiðslu vegna mars 2024 hafi verið 1. apríl 2024 og hafi ákvörðun dráttarvaxta vegna vanskila staðgreiðslu því tekið til þess tíma sem leið frá gjalddaganum 1. apríl 2024 til greiðsludags 7. apríl 2025. Það sé álit ríkisskattstjóra að hinn kærði úrskurður skuli verða staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.
Af hálfu kæranda var haft samband við skrifstofu yfirskattanefndar 8. september 2025 og tekið fram að kröfur félagsins væru ítrekaðar.
III.
Í máli þessu er ágreiningur um beitingu álags á vangreidda staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. skilaskyldu kæranda samkvæmt ákvæðum 20. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Um er að ræða vangreidda staðgreiðslu vegna mars 2024 og var gjalddagi skattsins 1. apríl 2024 og eindagi 14 dögum síðar eða 15. apríl 2024, sbr. 3. mgr. 20. gr. laga nr. 45/1987. Óumdeilt er í málinu að greiðsla skattsins fór fram 10. apríl 2024 eða fyrir eindaga umrædds greiðslutímabils. Hið umdeilda álag er hins vegar til komið vegna leiðréttingar kæranda á staðgreiðsluskilagrein félagsins vegna marsmánaðar 2024 sem gerð var með rafrænum hætti í mars 2025, eins og lýst er í kæru, en af gögnum málsins verður ráðið að slíkar leiðréttingar launagreiðenda á innsendum skilagreinum vegna fyrri greiðslutímabila geti átt sér stað í samræmi við reglur ríkisskattstjóra um rafræn skýrslu- og greiðsluskil vegna staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. mgr. 20. gr. laga nr. 45/1987. Munu þau mistök hafa átt sér stað við leiðréttinguna að eftir bakfærslu eldri skilagreinar kæranda í kerfinu láðist að standa skil á leiðréttri skilagrein vegna mars 2024. Af þessum sökum kom til endurgreiðslu á staðgreiðslu vegna tímabilsins til kæranda þann 7. apríl 2025 sem var endurgreidd samdægurs ásamt því að kærandi stóð skil á leiðréttri skilagrein sama dag. Var kæranda þá gert að greiða álag samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987 vegna síðbúinnar greiðslu. Ríkisskattstjóri synjaði kröfu kæranda um niðurfellingu álags með úrskurði, dags. 26. maí 2025, þar sem embættið taldi kæranda ekki hafa fært fram gildar ástæður fyrir niðurfellingu álags, sbr. 6. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987. Af hálfu kæranda er þess krafist að álag verði fellt niður.
Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, skal launagreiðandi ótilkvaddur greiða mánaðarlega það fé sem hann hefur haldið eftir eða bar að halda eftir á greiðslutímabilum næstliðins mánaðar samkvæmt ákvæðum 15.-17. gr. laganna. Í 3. mgr. 20. gr. laga nr. 45/1987 er mælt svo fyrir að gjalddagi greiðslu samkvæmt 1. mgr. greinarinnar sé 1. hvers mánaðar og eindagi 14 dögum síðar. Þá er boðið að launagreiðandi skuli sæta álagi samkvæmt 28. gr. laganna hafi hann eigi greitt á eindaga. Í 28. gr. laga nr. 45/1987 er fjallað um álag á vanskilafé í staðgreiðslu og beitingu þess. Í 1. mgr. greinarinnar er tekið fram að séu greiðslur launagreiðanda samkvæmt 20. gr. ekki inntar af hendi á tilskildum tíma skuli hann sæta álagi til viðbótar upphæð skilafjárins, eða til viðbótar því skilafé sem honum bar að standa skil á. Sama gildi ef skilagrein hefur ekki verið skilað eða henni verið ábótavant og greiðsluskyld fjárhæð því verið áætluð, sbr. 21. gr., nema launagreiðandi hafi greitt fyrir eindaga upphæð er svarar til áætlunar. Samkvæmt 6. mgr. 28. gr. laganna má fella niður álag samkvæmt 2. mgr. ef launagreiðandi færir gildar ástæður sér til afsökunar og metur ríkisskattstjóri það í hverju einstöku tilviki hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi.
Ljóst er að sú vangreiðsla staðgreiðslu kæranda vegna mars 2024 sem málið varðar er til komin vegna mistaka sem urðu við leiðréttingu kæranda á fyrri staðgreiðsluskilum félagsins í mars 2025, svo sem hér að framan greinir. Fór greiðsla skattsins í öndverðu fram fyrir eindaga umrædds greiðslutímabils, eins og áður segir. Þá fór endurgreiðsla fram án tafar um leið og fyrirsvarsmanni félagsins urðu mistökin ljós. Að þessu athuguðu og að virtum fram komnum skýringum kæranda að öðru leyti þykir mega fallast á kröfu félagsins um niðurfellingu álags, sbr. 6. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987. Ríkisskattstjóri annast um gjaldabreytingar sem leiða af þeirri niðurstöðu, sbr. ákvæði 18. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 8. gr. laga nr. 123/2014, um breyting á þeim lögum, og 1. gr. reglugerðar nr. 1146/2014, um gjaldabreytingar á grundvelli laga nr. 30/1992.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Krafa kæranda í máli þessu er tekin til greina.
