Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 814/1991
Gjaldár 1989
Lög nr. 75/1981 — 19. gr. — 23. gr. 1. mgr. — 24. gr. 1. mgr. — 32. gr. — 34. gr.
Fyrnanleg eign — Fyrning — Fyrning, almenn — Almenn fyrning — Lausafé — Fyrnanlegt lausafé — Ófyrnanlegt lausafé — Bifreið — Leigubifreið — Einkabifreið — Lok fyrningar — Fyrningartími — Fyrningarverð — Eftirstöðvar fyrningarverðs — Gjaldfærsla eftirstöðva fyrningarverðs — Gjaldfærsla mismunar söluverðs og eftirstöðva fyrningarverðs — Sölutap — Tap af sölu fyrnanlegrar eignar — Tap á sölu eigna utan atvinnurekstrar — Söluverð — Heildarandvirði — Makaskipti — Makaskiptasamningur — Makaskipti, ákvörðun verðs — Frádráttarheimild
Kærandi stundar leiguakstur á fólksbifreið. Á árinu 1988 seldi hann leigubifreið sína, Toyota Cressida, árgerð 1985, en bókfært verð hennar eftir endurmat nam 891.612 kr. Sem greiðslu á söluverði hennar tók kærandi skuldabréf að nafnvirði 300.000 kr. og jeppabifreið af gerðinni Isuzu Trooper, árgerð 1982, sem var metin til verðs í viðskiptunum á 500.000 kr. Þá bifreið seldi hann sama ár fyrir 388.960 kr. Tap vegna sölu leigubifreiðarinnar reiknaðist þannig vera alls 202.652 kr., þ.e. 91.612 kr. + 110.040 kr. Þá fjárhæð færði kærandi til frádráttar í rekstrarreikningi sínum fyrir árið 1988. Eigi féllst skattstjóri á, að tap vegna sölu á jeppabifreiðinni, 110.040 kr., væri frádráttarbært frá tekjum skv. 23. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem sú bifreið teldist ekki hafa verið atvinnurekstrartæki kæranda. Fyrir ríkisskattanefnd er þess krafist að þessari ákvörðun skattstjóra verði hnekkt.
Með bréfi, dags. 22. nóvember 1990, krefst ríkisskattstjóri þess fyrir hönd gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Söluverð leigubifreiðar kæranda var ákvarðað í nefndum makaskiptasamningi, sbr. 24. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og liggur þar með fyrir heildarandvirði hennar, sbr. 19. gr. sömu laga. Verður það lagt til grundvallar við ákvörðun fjárhæðar taps af sölu leigubifreiðarinnar. Með þessum athugasemdum er úrskurður skattstjóra staðfestur.