Úrskurður yfirskattanefndar
- Óvenjuleg skipti í fjármálum
- Söluhagnaður
- Álag
Úrskurður nr. 183/2025
Gjaldár 2021
Lög nr. 90/2003, 18. gr., 57. gr. 1. mgr., 108. gr. 2. mgr.
Kærandi, sem var eigandi alls hlutafjár í Y ehf., seldi félaginu hlutabréf í X ehf. fyrir rúmar 21 milljón króna á árinu 2018. Síðar á sama ári voru hlutabréfin seld ótengdum aðila, Z ehf., fyrir rúmlega 141 milljón króna. Talið var að viðskipti kæranda og Y ehf. hefðu verið verulega frábrugðin því sem almennt gerðist og að ríkisskattstjóra hefði verið heimilt að leiðrétta skattskil kæranda og hækka fjárhæð skattskylds söluhagnaðar til samræmis við mat sitt á eðlilegu gangverði hlutabréfanna í X ehf. á umræddum tíma, en í því sambandi miðaði ríkisskattstjóri við söluverð bréfanna í viðskiptum Y ehf. og Z ehf. á árinu 2018. Var m.a. bent á að engin gögn hefðu komið fram í málinu til stuðnings því að sala kæranda á hlutabréfunum til Y ehf. hefði í raun farið fram í janúar 2018, svo sem kærandi hélt fram, auk þess sem takmörkuð grein hefði verið gerð fyrir rekstrarlegum tilgangi viðskiptanna. Var kröfum kæranda hafnað, þar með talið kröfu um niðurfellingu 25% álags.
Ár 2025, miðvikudaginn 10. desember, er tekið fyrir mál nr. 90/2025; kæra A, dags. 31. mars 2025, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2021. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Gerður Guðmundsdóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Með kæru, dags. 31. mars 2025, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 21. janúar 2025, um endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2021. Kæruefni málsins er sú ákvörðun ríkisskattstjóra, sem hann tók með úrskurðinum, að færa kæranda til skattskyldra tekna í skattframtali hans árið 2021 söluhagnað að fjárhæð 119.471.419 kr. vegna sölu hlutabréfa í X ehf. til eigin einkahlutafélags, Y ehf., á árinu 2020. Voru forsendur ákvörðunar ríkisskattstjóra þær að kærandi hefði selt Y ehf. hlutabréfin á óeðlilega lágu verði og að um væri að ræða óvenjuleg skipti í fjármálum í skilningi 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þá bætti ríkisskattstjóri 25% álagi við þá hækkun skattstofna kæranda gjaldárið 2021 sem leiddi af breytingunni, sbr. heimildarákvæði 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003.
Af hálfu kæranda er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi og að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.
II.
Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 3. september 2024, lagði ríkisskattstjóri fyrir kæranda og Y ehf. að láta í té upplýsingar og gögn varðandi viðskipti með hlutabréf í X ehf. á árinu 2020, þ.e. annars vegar milli kæranda og Y ehf. og hins vegar milli Y ehf. og Z ehf., en viðskiptin vörðuðu sömu hlutabréf. Væri farið fram á skýringar á tildrögum þess að kærandi hefði selt Y ehf. hlutabréf sín í X ehf. á árinu 2020. Hefði salan farið fram af rekstrarlegum ástæðum skyldi gerð grein fyrir þeim sem og mun sem verið hefði á söluverði hlutanna í hendi kæranda annars vegar og Y ehf. hins vegar, svo sem nánar greindi.
Í svarbréfi kæranda, dags. 20. september 2024, kom fram að í janúar 2018 hefðu verið gerðar breytingar á tilgangi Y ehf., þ.e. félagið gert að eignarhaldsfélagi í þeim tilgangi að undirbúa yfirfærslu á hlutum kæranda í X ehf. til Y ehf. Markmið með þeirri tilfærslu hefði verið liður í tilraun til að stækka fyrirtækið, þ.e. X ehf., og auka samkeppnishæfni þess á markaði. Með kaupsamningi 8. janúar 2020 hefði kærandi selt Y ehf. öll hlutabréf sín í X ehf., en söluverð hlutanna hefði numið samtals 21.600.000 kr. Kaupverð hefði verið greitt með óverðtryggðu skuldabréfi til sjö ára með föstum 4% vöxtum. Verðmat hlutanna við söluna hefði byggst á innra virði félagsins, þ.e. bókfærðu eigin fé í árslok 2018 að fjárhæð 21.582.239 kr. samkvæmt síðasta ársreikningi vegna rekstrarársins 2018, enda hefði ekki legið fyrir neitt gangverð hlutanna í viðskiptum. Í ágúst 2020 hefði kærandi fengið símtal frá framkvæmdastjóra Z ehf. og í september sama ár hefðu hafist þreifingar á milli Z ehf. og Y ehf. vegna áhuga fyrrnefnda félagsins á kaupum á öllu hlutafé í X ehf. Kærandi hefði sent Z ehf. ársreikning X ehf. fyrir rekstrarárið 2019 og framkvæmdastjóri Z ehf. framkvæmt verðmat á grundvelli ársreikningsins. Þann 20. október 2020 hefði framkvæmdastjórinn lagt fram tillögu að kaupum á öllu hlutafé X ehf. og þann 18. desember hefðu Z ehf. og Y ehf. undirritað kaupsamning þess efnis. Afhending hins selda og greiðsla kaupverðs hefði farið fram 7. janúar 2021, en kaupverð hlutanna hefði numið 141.071.419 kr.
Um verðlagningu hlutanna í viðskiptunum kom fram að þekkt væri í framkvæmd að miða verðmæti hlutabréfa í óskráðu félagi við bókfært verð eigin fjár, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2003, dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 811/2017 og úrskurði yfirskattanefndar nr. 156/2014 og 26/2005. Væri gert ráð fyrir slíkri verðviðmiðun í lögum nr. 90/2003 og raunar víðar í skattalöggjöf, sbr. t.d. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 14/2004. Við sölu Y ehf. á hlutunum til Z ehf. hefði verðmat verið gert af framkvæmdastjóra Z ehf. og kærandi ekki komið að því á neinn hátt. Hefði verið byggt á EBITDA margfaldara þar sem EBIDTA félagsins hefði verið 17.789.272 kr. samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2019 og miðað við margfeldisstuðulinn 5,25. Endanlegt kaupverð hefði verið hærra en upphaflegt tilboð sem byggt hefði á framangreindu verðmati, enda hefði kaupverðið að hluta verið háð afkomu félagsins á rekstrarárinu 2021. Þá væri ekki ósennilegt að kaupandi hlutanna hefði lagt mat á mögulega samlegð sem hann gæti haft út úr rekstrinum og haft til hliðsjónar við tilboðsgerðina. Ýmis hlutföll í rekstri félaganna hefðu verið ólík, t.d. framlegðarhlutfall. Þá hefði greiðsla samkvæmt kaupsamningnum m.a. verið innt af hendi með hlutum í kaupanda, þ.e. Z ehf. Eðli máls samkvæmt hefði verðmæti þess hluta gagngjaldsins verið háð nokkurri óvissu þar sem um hefði verið að ræða óskráð félag án sérstaks markaðsverðs. Framangreint skýrði þann mismun sem hefði verið á verðlagningu hluta í X ehf., enda væri um tvær mismunandi en viðurkenndar reikningsaðferðir að ræða, framkvæmdar af sitt hvorum aðila, auk þess sem fyrri sala hlutanna hefði byggst á ársreikningi árið 2018 en síðari salan á ársreikningi árið 2019.
Með bréfi, dags. 28. nóvember 2024, boðaði ríkisskattstjóri kæranda endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárið 2021 þar sem fyrirhugað væri að færa kæranda til skattskyldra tekna söluhagnað hlutabréfa að fjárhæð 119.471.419 kr. eða sem næmi mismun söluverðs og matsverðs hlutabréfa í X ehf. sem seld hefðu verið Y ehf. á árinu 2020, sbr. 8. tölul. C-liðar 7. gr. og 1. mgr. 18. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 2. mgr. 57. gr. sömu laga, að viðbættu 25% álagi samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga þessara. Af hálfu kæranda var hinum boðuðu breytingum mótmælt með bréfi, dags. 14. desember 2024. Með úrskurði, dags. 21. janúar 2025, hratt ríkisskattstjóri boðuðum breytingum í framkvæmd og endurákvarðaði opinber gjöld kæranda gjaldárið 2021 til samræmis að viðbættu 25% álagi, sbr. 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, enda þætti ekkert hafa komið fram af hálfu kæranda sem gæfi tilefni til að falla frá fyrirhuguðum breytingum á skattframtali hans árið 2021 eða boðaðri beitingu álags.
III.
Í úrskurði sínum um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gerði ríkisskattstjóri grein fyrir helstu málsástæðum sínum og lagarökum og rakti í því sambandi ákvæði 1. og 2. mgr. 18. gr. og 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003. Kom fram að kærandi hefði gert grein fyrir sölu hlutabréfa í X ehf. að nafnverði 21.600.000 kr. í skattframtali árið 2020 á genginu 43,2 kr. á hlut, en kaupandi bréfanna væri Y ehf. Hlutabréfin hefðu skömmu síðar verið seld Z ehf. með kaupsamningi, dags. 18. desember 2020, og söluverð þeirra numið 141.071.419 kr. Samkvæmt því næmi mismunur söluverðs í viðskiptum kæranda við Y ehf. annars vegar og Y ehf. við Z ehf. hins vegar alls 119.471.419 kr. Við skoðun á framangreindri atburðarás og mismun á verði hlutabréfanna í viðskiptunum hefði vaknað sú spurning hvort sala kæranda á hlutabréfunum í X ehf. til félags í eigu kæranda hefði verið liður í að koma því til leiðar að verulegur hluti söluhagnaðar vegna áframhaldandi sölu hlutabréfanna til ótengds aðila yrði skattlagður hjá félaginu, en ekki hjá kæranda.
Atvikum málsins þætti svipa til atvika í máli því sem lokið hefði með úrskurði yfirskattanefndar nr. 186/2019, sbr. einnig úrskurð nefndarinnar nr. 95/2020. Af hálfu kæranda þættu ekki hafa komið fram fullnægjandi skýringar á rekstrarlegum tilgangi með sölu hlutabréfanna til Y ehf. Ekki væri unnt að átta sig á því með hvaða hætti sala allra hlutabréfa í X ehf. til eignarhaldsfélags í eigu kæranda væri til þess fallin að stuðla að stækkun og auka samkeppnishæfni X ehf. á markaði, enda yrði ekki séð hvernig viðskiptin hefðu getað haft áhrif á undirliggjandi rekstur félagsins. Ekki væri komið fram að viðskiptin hefðu verið þáttur í eðlilegri og venjulegri starfsemi Y ehf. Ekkert benti til þess að rekstrarlegur tilgangur hefði legið að baki viðskiptunum, heldur fremur að skattalegar ástæður lægju að baki ráðstöfunum. Þá væru viðskipti kæranda og Y ehf. ekki studd samtímagögnum, en greitt hefði verið fyrir hlutabréfin með útgáfu skuldabréfs þar sem fyrsti gjalddagi væri ári eftir útgáfu skuldabréfsins eða 8. janúar 2021, en þá hefðu viðskipti Y ehf. og Z ehf. með sömu hlutabréf verið um garð gengin. Í kaupsamningi, dags. 8. janúar 2020, skrifi kærandi undir fyrir hönd kaupanda og seljanda og engum vottum sé fyrir að fara.
Samkvæmt framangreindu þætti tilefni til að líta svo á að hér hefði verið um að ræða viðskipti með sölu hlutabréfanna milli kæranda, félags hans og Z ehf. sem farið hefðu fram samhliða. Því bæri að líta til verðlagningar í síðari viðskiptunum við mat á verðmæti hlutabréfanna í hinum fyrri viðskiptum sem væru milli tengdra aðila. Viðskipti kæranda og Y ehf. þættu því verulega frábrugðin því sem almennt gerðist í viðskiptum, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003, enda virtust hlutabréf kæranda hafa verið færð inn í einkahlutafélag hans á verulegu undirverði, frábrugðnum eðlilegum markaðskjörum. Þætti ekki leika neinn vafi á því að til viðskiptanna hefði ekki komið ef umræddum eignatengslum hefði ekki verið til að dreifa milli kæranda og Y ehf. Yrði ekki annað séð en að verðlagning hlutabréfanna í X ehf. í viðskiptum þessum hefði fyrst og fremst helgast af þeim skattalega ávinningi sem kærandi og félag hans hefði af því að söluhagnaður vegna sölu bréfanna til ótengds aðila kæmi til skattlagningar hjá Y ehf. Væri nærtækast að líta til verðlagningar í viðskiptum með hlutabréfin milli Y ehf. og Z ehf. á árinu 2020 við mat á ætluðu gangvirði bréfanna, enda hefðu þau viðskipti átt sér stað milli ótengdra aðila og að því virtist á sama tíma og viðskipti kæranda og Y ehf. Liti ríkisskattstjóri því svo á að kærandi hefði vanframtalið skattskyldan söluhagnað vegna sölu hlutabréfa í X ehf. um 119.471.419 kr. (141.071.419-21.600.000) í skattframtali árið 2021, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 8. tölul. C-liðar 7. gr. sömu laga, sbr. og heimild 1. mgr. 57. gr. sömu laga til að leiðrétta skattskil til samræmis við mat á eðlilegu gangverði. Þá gætu andmæli kæranda í bréfi, dags. 14. desember 2024, ekki tilefni til að falla frá hinum boðuðu breytingum. Samkvæmt úrskurðinum hækkaði stofn kæranda til fjármagnstekjuskatts gjaldárið 2021 úr 0 kr. í 119.471.419 kr. að viðbættu 25% álagi að fjárhæð 29.867.854 kr.
IV.
Í kafla I hér að framan er greint frá kröfugerð kæranda í kæru til yfirskattanefndar. Í kærunni eru málavextir raktir. Kemur fram að 25. janúar 2018 hafi verið gerðar breytingar á tilgangi Y ehf. þar sem félagið hafi verið gert að eignarhaldsfélagi í þeim tilgangi að undirbúa tilfærslu á hlutum kæranda í X ehf. til Y ehf. Markmiðið með þeirri tilfærslu hafi verið tilraun til að stækka fyrirtækið og auka samkeppnishæfni þess á markaði þar sem ljóst væri að stækkunin væri bundin því að fá inn lánsfé eða utanaðkomandi hlutafé með hlutafjárhækkun. Með kaupsamningi, 8. janúar 2020, hafi kærandi selt allt hlutafé sitt í X ehf. til Y ehf. fyrir 21.600.000 kr. Kaupverðið hafi verið greitt með óverðtryggðu skuldabréfi til sjö ára, með föstum 4% vöxtum, sem gefið hafi verið út samhliða undirritun kaupsamnings. Fyrsti gjalddagi skuldabréfsins hafi verið ári síðar eða 8. janúar 2021. Skuldabréfið sé vottað af tveimur vitundarvottum. Verðmat hlutanna við söluna hafi byggst á innra virði félagsins, þ.e. bókfærðu eigin fé í árslok 2018, samtals 21.582.239 kr., samkvæmt síðasta endurskoðaða ársreikningi vegna rekstrarársins 2018, enda hafi þá ekki legið fyrir neitt gangverð hlutanna í viðskiptum.
Samningaviðræður við framkvæmdastjóra Z ehf. hafi síðan hafist í september 2020. Framkvæmdastjórinn hafi framkvæmt verðmat á X ehf. á grundvelli ársreiknings félagsins fyrir árið 2019 og lagt fram tillögu að kaupverði á öllu hlutafé í X ehf. þann 20. október 2020. Þann 18. desember 2020 hafi Z ehf. og Y ehf. undirritað kaupsamning þess efnis, en afhending hins selda og greiðsla kaupverðs farið fram þann 7. janúar 2021. Kaupverð hlutanna hafi numið alls 141.071.419 kr., en hluti kaupverðsins verið greiddur með afhendingu á hlutum í Z ehf. að verðmæti 60.000.000 kr. Auk þess hafi hluti kaupverðs verið háður framgangi á árinu 2021. Markmið viðskiptanna hafi verið að sameina X ehf. og F ehf. sem gengið hafi eftir á árinu 2021, en í kjölfar þess hafi X ehf. verið skráð úr fyrirtækjaskrá. Á árinu 2020 hafi verðmæti hlutanna í X ehf. verið á fleygiferð til hækkunar. Aukning á hagnaði milli áranna 2019 og 2020 sé um 167% þar sem hagnaður ársins 2019 hafi verið 13.655.504 kr. samanborið við 34.219.062 kr. hagnað á árinu 2020. Þá hafi áætlanir fyrir árið 2021 gert ráð fyrir töluverðri aukningu hagnaðar. Við gerð kaupsamnings milli Z ehf. og Y ehf. hafi þessar tölur legið fyrir sem ætla megi að skýri hækkun á söluverði hlutanna í X ehf. Mótmælt sé því sjónarmiði ríkisskattstjóra að samningur kæranda og Y ehf. hafi verið gerður samhliða kaupsamningi Y ehf. og Z ehf. Verðmat hlutanna í X ehf. hafi í viðskiptum kæranda og Y ehf. byggt á innra virði félagsins, þ.e. bókfærðu eigin fé í árslok 2018. Byggi verðmatið því á 9. gr. laga nr. 90/2003, sbr. og dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 811/2017 og úrskurð yfirskattanefndar nr. 156/2014. Af þessum dómi og úrskurði leiði að rétt sé að miða söluverð hlutabréfa við reiknað innra virði þeirra samkvæmt fyrirliggjandi ársreikningi síðastliðins rekstrarárs þegar þekktu gangverði hlutabréfa sé ekki fyrir að fara. Í tilviki kæranda liggi ekki fyrir þekkt gangverð og hafi því verið rétt að miða við reiknað innra virði.
Ríkisskattstjóri vísi til tveggja úrskurða yfirskattanefndar nr. 186/2019 og 95/2020 til stuðnings því að telja um samhliða viðskipti að ræða. Í fyrrnefnda úrskurðinum hafi þó verið með öllu óljóst hvenær sala á hlutum hefði raunverulega farið fram. Málsatvik og forsendur séu með allt öðrum hætti en í tilviki kæranda. Í úrskurði yfirskattanefndar nr. 95/2020 hafi hlutabréf verið seld tengdum aðila á nafnverði og degi síðar verið seld þriðja aðila fyrir fimmtíufalt hærra verð. Gegni því sama máli með þann úrskurð og hinn fyrri. Í máli kæranda hafi sömu hlutir verið seldir tæpu ári síðar til þriðja aðila samkvæmt verðmati sem kaupandi hafi unnið auk þess sem verulegar og jákvæðar breytingar hafi orðið í rekstri félagsins í millitíðinni. Ekki sé áskilið í lögum að kaupsamningar sem þessir séu undirritaðir í viðurvist votta, enda ríki formfrelsi um löggerninga og skuldbindingargildi þeirra almennt ekki háð því að samningar séu vottaðir. Þá sé því mótmælt að eingöngu skattalegar ástæður hafi legið að baki viðskiptunum, en um rekstrarlegan tilgang sölunnar sé vísað til bréfs kæranda, dags. 20. september 2024. Umrædd viðskipti séu innan ramma laga, enda hafi þau byggst á lögmæltum aðferðum við verðmat félaga á grundvelli síðasta endurskoðaða ársreiknings félagsins. Þá sé ekkert óeðlilegt við að kærandi hafi ákveðið að halda utan um hlutabréfaeign sína í X ehf. í gegnum einkahlutafélag, enda tíðkist slíkt jafnan hér á landi. Það sé grundvallarskilyrði í málum sem þessum að skattayfirvöld heimfæri háttsemi aðila undir skilyrði 57. gr. laga nr. 90/2003 og að skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt, enda sé um mjög íþyngjandi aðgerðir að ræða. Sönnunarbyrðin hvíli á ríkisskattstjóra, en ekki hafi verið sýnt fram á að skilyrði 57. gr. séu uppfyllt, enda sé söluverð hlutabréfanna sem um ræðir ekki verulega frábrugðið því sem almennt gerist í slíkum viðskiptum. Þegar horft sé til stöðu í byrjun árs 2020 þá hafi söluverð hluta kæranda til Y ehf. verið eðlilegt í alla staði. Viðskiptin hafi verið í samræmi við viðskiptakjör sem eðlileg þyki á frjálsum markaði. Engin rök standi til þess að miða gangverð hluta í viðskiptum, sem áttu sér stað í byrjun janúar 2020, við viðskipti sem samið hafi verið um í lok desember sama ár þegar allt aðrar og breyttar forsendur hafi legið til grundvallar viðskiptum. Um ár hafi liðið á milli viðskipta sem um ræðir og skýr samtímagögn liggi fyrir því til stuðnings, sbr. annars vegar kaupsamningur, dags. 8. janúar 2020, og hins vegar kaupsamningur, dags. 18. desember sama ár. Þá sé dagsetning skuldabréfsins, sem gefið var út samhliða fyrri kaupsamningnum, staðfest af tveimur vitundarvottum.
Viðurkenndar lögskýringaraðferðir í skattaréttinum horfi til þess að ekki sé lagður rýmri skilningur í inntak ákvæða laga nr. 90/2003 en leiði af skýru orðalagi laga. Almennt sé litið svo á að skattalög og önnur lög sem leggja greiðsluskyldu á borgarana beri að skýra þröngt, en sú meginregla eigi sér beina stoð í ákvæðum stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, einkum 40. og 77. gr. hennar. Vernd eignaréttar leiði til sömu niðurstöðu og setji því þar að auki takmörk hversu langt Alþingi getur teygt skattlagningarheimild sína. Þetta leiði til þess að 57. gr. laga nr. 90/2003 beri að skilja svo að lagagreinin taki einungis til viðskipta sem séu verulega frábrugðin því sem almennt gerist í slíkum viðskiptum. Ljóst sé að söluverð hluta í X ehf. í viðskiptum kæranda og Y ehf. þann 8. janúar 2020 hafi byggt á innra virði félagsins, sem heimilt sé þegar gangvirði sé ekki til að dreifa í viðskiptum milli aðila. Geti viðskipti kæranda því ekki fallið undir ákvæði 57. gr. laga nr. 90/2003 þar sem viðskiptin geti ekki talist verulega frábrugðin því sem almennt gerist í slíkum viðskiptum. Loks sé vísað til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en rökstuðningur og niðurstaða ríkisskattstjóra í málinu sé ekki til marks um mikla virðingu fyrir meðalhófi. Hafi meðalhófsregla þannig verið virt að vettugi við úrlausn málsins, sbr. sjónarmið í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 6335/2011. Teljist það alvarlegur ágalli á stjórnvaldsákvörðun sem þessari og eigi að leiða til ógildingar úrskurðarins, auk þess sem slíkt hljóti að hafa áhrif á túlkun laga sem hér um ræðir.
Í niðurlagi kærunnar er álagsbeitingu ríkisskattstjóra sérstaklega mótmælt og þess krafist að 25% álag verði fellt niður, sbr. 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003.
V.
Með bréfi, dags. 16. maí 2025, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og gert þá kröfu að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Í umsögninni er tekið fram að kærandi hafi með kæru sinni ekki fært fram nein samtímagögn sem sýni fram á að hin umþrættu viðskipti um sölu hluta kæranda í X ehf. til félags í hans eigu, Y ehf., hafi raunverulega átt sér stað 8. janúar 2020. Þá sé vísað til þess að aukin arðsemi X ehf. á árinu 2020 skýri mismun á kaup- og söluverði hlutanna á árinu 2020. Sú staðhæfing hafi ekki komið fram við meðferð málsins hjá ríkisskattstjóra, en ekki hafi verið sýnt fram á þetta. Engin starfsemi hafi verið í Y ehf. frá stofnun félagsins og til ársins 2020. Félagið hafi aldrei haft með höndum rekstur sem falist hafi í kaupum og sölu hlutabréfa eða átt eignir til að fjármagna slíka starfsemi, en eina eign félagsins séu eignfærðar kröfur 211.620 kr. í lok árs 2019. Þyki því ljóst að kaup félagsins á hlut í X ehf. af kæranda á árinu 2020 hafi hvorki verið liður í reglulegri starfsemi Y ehf. né hafi félagið haft fjárhagslega burði til að kaupa bréfin nema með lánveitingu að öllu leyti, eins og raunin hafi orðið. Framkomnar skýringar kæranda á rekstrarlegum tilgangi með sölu hlutabréfanna þyki ekki sýna fram á að um eðlileg og venjuleg viðskipti hafi verið að ræða og lið í reglubundinni starfsemi Y ehf.
Ekki verði fallist á það með kæranda að ríkisskattstjóri hafi brotið gegn meginreglu stjórnsýsluréttar um meðalhóf. Kæranda hafi við upphaf máls verið send fyrirspurn, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, og að loknu heildstæðu mati á málsgögnum og svörum frá kæranda hafi honum verið send tilkynning um fyrirhugaða endurákvörðun opinberra gjalda þar sem fram hafi komið ítarlegur rökstuðningur fyrir breytingum og kæranda veittur 16 daga frestur til að koma á framfæri athugasemdum af því tilefni. Af hálfu kæranda hafi andmæli komið fram þann 14. desember 2024, en um afstöðu Skattsins til þeirra andmæla sé fjallað í hinum kærða úrskurði. Verði ekki séð hvar meðalhófsregla stjórnsýsluréttar hafi verið virt að vettugi. Varðandi álagsbeitingu þyki kærandi ekki hafa fært rök fyrir því að falla ætti frá beitingu álags, sbr. úrskurðaframkvæmd varðandi álagsbeitingu samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, sbr. t.d. úrskurð yfirskattanefndar nr. 199/2019.
VI.
Með bréfi, dags. 12. júní 2025, hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum í tilefni af umsögn ríkisskattstjóra og ítrekað fyrri rök og sjónarmið. Er m.a. áréttað að fyrir liggi samtímagögn um hin umdeildu viðskipti kæranda og Y ehf. hinn 8. janúar 2020, þ.e. undirritaður kaupsamningur og skuldabréf sem sé vottað af tveimur vitundarvottum. Standist því enga skoðun að samtímagögn hafi ekki verið lögð fram um viðskiptin og virðist aðeins um að ræða huglægt mat ríkisskattstjóra. Sú skylda hvíli á ríkisskattstjóra að sjá til þess að mál séu nægilega upplýst, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki hafi verið sýnt fram á að viðskiptin hafi eingöngu verið í skattalegum tilgangi. Þegar viðskiptin áttu sér stað hafi ekkert legið fyrir um að hlutirnir yrðu seldir Z ehf. ári seinna. Þá falli viðskiptin undir reglubundna starfsemi Y ehf. þar sem tilgangi félagsins hafi verið breytt með tilliti til kaupa, sölu og reksturs fasteigna ásamt almennum fjárfestingum.
VII.
Ágreiningur í máli þessu varðar þá ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt úrskurði um endurákvörðun, dags. 21. janúar 2025, að hækka tilfærðan söluhagnað vegna sölu hlutabréfa í X ehf. í skattframtali kæranda árið 2021 um 119.471.419 kr., sbr. 8. tölul. C-liðar 7. gr. og 1. mgr. 18. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Byggði ríkisskattstjóri á því að kærandi hefði selt eigin einkahlutafélagi, Y ehf., hlutabréfin á árinu 2020 á verulegu undirverði þannig að ákvæði um óvenjuleg skipti í fjármálum í 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003 tæki til viðskiptanna, enda hefði söluverð hlutabréfanna 21.600.000 kr. ekki verið í samræmi við markaðsverð þeirra á sama tíma. Í því sambandi vísaði ríkisskattstjóri til þess að Y ehf. hefði selt ótengdum aðila, þ.e. Z ehf., hlutabréfin síðar á sama ári fyrir umtalsvert hærri fjárhæð eða 141.071.419 kr., en sú sala hefði byggst á kaupsamningi, dags. 18. desember 2020. Leit ríkisskattstjóri svo á að við mat á eðlilegu gangverði hlutabréfa í X ehf. bæri að miða við söluverð í viðskiptum Y ehf. við Z ehf. og ákvarðaði skattskyldan söluhagnað hlutabréfanna í skattframtali kæranda til samræmis, enda hefðu þau viðskipti verið á milli ótengdra aðila. Við þá hækkun skattstofna kæranda gjaldárið 2021, þ.e. stofns til fjármagnstekjuskatts, sem af breytingu þessari leiddi, bætti ríkisskattstjóri 25% álagi samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003.
Í 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003 kemur fram að ef skattaðilar semja um skipti sín í fjármálum á hátt sem er verulega frábrugðinn því sem almennt gerist í slíkum viðskiptum skulu verðmæti sem án slíkra samninga hefðu runnið til annars skattaðilans en gera það ekki vegna samningsins, teljast honum til tekna, sbr. samhljóða ákvæði í 1. mgr. 58. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þá var samhljóða ákvæði í í 3. mgr. 18. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt. Það ákvæði var upphaflega lögtekið með 15. gr. laga nr. 30/1971, um breyting á lögum nr. 90/1965, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Í athugasemdum með 15. gr. frumvarps, sem varð að lögum nr. 30/1971, er að finna nokkrar skýringar á þessu nýmæli. Eins og m.a. kemur fram í athugasemdunum er bersýnilegt að kjarni ákvæðisins eru samningar milli einstaklinga eða félaga sem tengdir eru sifjaréttarlega eða fjárhagslega, sem gerðir eru í sniðgönguskyni. Á ákvæðið hefur reynt í úrskurða- og dómaframkvæmd, þar á meðal í nokkrum dómum Hæstaréttar Íslands.
Af hálfu kæranda er komið fram að hann hafi í ársbyrjun 2018 ákveðið að breyta skráðum tilgangi eigin einkahlutafélags, Y ehf., í því skyni að undirbúa yfirfærslu á hlutafjáreign sinni í X ehf. til Y ehf. Sú yfirfærsla hefði verið liður í tilraun til að stækka X ehf. og auka samkeppnishæfni félagsins á markaði. Hlutabréf kæranda í X ehf. að nafnverði 500.000 kr. hafi síðan verið seld Y ehf. með kaupsamningi, dags. 8. janúar 2020, á genginu 43,2 eða fyrir 21.600.000 kr. Verð bréfanna í viðskiptunum hafi byggst á innra virði félagsins, þ.e. bókfærðu verði eigin fjár þess í lok ársins 2018, enda hafi engar upplýsingar legið fyrir um gangverð hlutanna í viðskiptum. Í ágúst 2020 hafi framkvæmdastjóri Z ehf. haft samband við kæranda og falast eftir kaupum hlutafjárins í X ehf. Eftir frekari samningaviðræður hafi síðan verið gerður kaupsamningur milli Y ehf. og Z ehf. þann 18. desember 2020 þar sem kaupverð hlutanna hafi verið ákveðið 141.071.419 kr., sbr. kaupsamning, dags. þann dag. Eins og fram komi í kaupsamningnum hafi hluti kaupverðs þó verið háður framgangi rekstrar á árinu 2021. Markmið þessara viðskipta hafi verið að sameina X ehf. og F hf. sem hafi gengið eftir á árinu 2021, en X ehf. hafi í kjölfar samrunans verið afskráð í fyrirtækjaskrá. Í kærunni kemur fram að verðmæti hlutabréfa í X ehf. hafi verið á fleygiferð til hækkunar á árinu 2020, enda hafi hagnaður félagsins milli áranna 2019 og 2020 aukist um 167% og reiknað með enn frekari aukningu á árinu 2021.
Ríkisskattstjóri byggði á því að þau viðskipti kæranda og Y ehf., sem í málinu greinir, féllu undir ákvæði 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003 með því að Y ehf. hefði greitt mun lægra verð fyrir hlut kæranda í X ehf. en eðlilegt hefði verið. Taldi ríkisskattstjóri að svo hefði ekki samist nema vegna eignatengsla kæranda og Y ehf. og að tilgangur með hinni afbrigðilegu verðlagningu hlutabréfanna hefði verið sá skattalegi ávinningur sem fælist í því að söluhagnaður kæmi til skattlagningar hjá Y ehf. frekar en hjá kæranda sjálfum. Ekki er um það að ræða að ríkisskattstjóri hafi alfarið litið framhjá viðskiptunum í skattalegu tilliti, heldur lagði ríkisskattstjóri mat á hver væru eðlileg kjör í viðskiptunum og leiðrétti skattskil kæranda árið 2021 til samræmis við það, þ.e. hækkaði söluverð hlutabréfanna sem nam mismun á tilfærðu söluverði, sem ríkisskattstjóri mat afbrigðilega lágt, og ætluðu gangverði hlutabréfanna á þeim tíma þegar salan fór fram. Taldi ríkisskattstjóri að sala hlutabréfanna til Y ehf. hefði í raun farið fram samhliða sölu hlutabréfanna frá Y ehf. til Z ehf. og leit svo á að verð hlutabréfanna í þeim viðskiptum væri eðlilegt gangverð, enda hefði það verið ákvarðað í viðskiptum milli ótengdra aðila. Telja verður að í 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003 felist heimild til slíkrar skattalegrar leiðréttingar á afbrigðilegum samningskjörum þegar um er að ræða viðskipti milli aðila, sem tengdir eru sifjaréttarlega eða fjárhagslega, enda verða ákvæði málsgreinarinnar ekki túlkuð með öðrum hætti en að þau taki til skipta skattaðila í fjármálum í víðtækum skilningi, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 3. september 2002 í máli nr. 316/2002 (H 2002:2631) og úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá 25. febrúar 1998. Hefur og verið byggt á slíkum skilningi í úrskurðaframkvæmd, sbr. t.d. úrskurð yfirskattanefndar nr. 264/2002.
Kærandi gerði grein fyrir sölu hlutabréfa í X ehf. að nafnverði 500.000 kr. fyrir 21.600.000 kr. í skattframtali sínu árið 2021 og færði til tekna í lið 3.8 í framtalinu söluhagnað að fjárhæð 21.100.000 kr. vegna sölu bréfanna. Í athugasemdadálki í framtalinu var þess getið að söluandvirði hlutabréfanna hefði verið greitt með skuldabréfi til sjö ára. Kaupsamningur vegna viðskiptanna barst ríkisskattstjóra með bréfi kæranda, dags. 20. september 2024. Er samningurinn dagsettur 8. janúar 2020 og undirritaður af kæranda sem bæði kaupanda og seljanda í eigin nafni. Verður að ganga út frá því að sá undirritunarháttur skjalsins sé til kominn vegna mistaka og að kærandi hafi undirritað kaupsamninginn sem kaupandi fyrir hönd Y ehf., enda hefur ekkert annað komið fram. Í samningnum kemur fram að kaupverð hlutabréfanna skuli greitt með skuldabréfi til sjö ára sem bera skuli 4% ársvexti. Bréfinu fylgdi afrit af skuldabréfi, dags. 8. janúar 2020, útgefnu af Y ehf. með hefðbundnum ákvæðum, undirrituðu af kæranda fyrir hönd félagsins og vottuðu af B, eiginkonu kæranda, og C. Í skuldabréfinu er mælt fyrir um endurgreiðslu skuldarinnar með sjö jöfnum afborgunum á tólf mánaða fresti með eindaga fyrst þann 8. janúar 2021 og svo á tólf mánaða fresti. Af hálfu ríkisskattstjóra hefur verið dregið í efa að sala kæranda á hlutabréfunum til Y ehf. hafi í raun átt sér stað þann 8. janúar 2020 eins og dagsetning kaupsamningsins ber með sér. Í því sambandi hefur ríkisskattstjóri einkum vísað til þess að engin greiðsla hafi átt sér stað fyrr en í janúar 2021 þegar viðskipti Y ehf. og Z ehf. með hlutina voru um garð gengin auk þess sem kærandi einn undirriti kaupsamning vegna viðskiptanna.
Vegna athugasemda í kæru varðandi lagagrundvöll málsins og mat á verðmæti hlutabréfa í X ehf. skal tekið fram að í úrskurðaframkvæmd hefur verið talið að mat á raunverulegu verðmæti hlutabréfa megi byggja á skráðu markaðsverði í kauphöll eða á skipulegum verðbréfamarkaði, sbr. nú lög nr. 115/2021, um markaði fyrir fjármálagerninga. Í þeim tilvikum þegar félög eru ekki skráð með þeim hætti sé almennt viðhlítandi að byggja mat á gangverði hlutabréfa í viðskiptum. Er og gert ráð fyrir slíkri verðviðmiðun í 9. gr. laga nr. 90/2003 og raunar víðar í skattalöggjöf, sbr. t.d. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt. Njóti ekki glöggra upplýsinga um gangverð hlutabréfa í viðskiptum hefur síðan verið talið tækt að byggja mat á gangverði á bókfærðu verði eigin fjár viðkomandi félags samkvæmt síðasta endurskoðaða ársreikningi þess, sbr. m.a. lög nr. 3/2006, um ársreikninga. Má um þetta vísa til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 257/2003 og fleiri úrskurða sem m.a. er getið í kæru sem og dóms Hæstaréttar Íslands 6. nóvember 2008 í málinu nr. 54/2008 sem þar er vísað til.
Um aðdraganda að sölu hlutabréfa í X ehf. til Z ehf. í árslok 2020 liggur fyrir að kærandi og D, framkvæmdastjóri Z ehf., áttu í tölvupóstsamskiptum í september 2020 um möguleg kaup félagsins á hlutabréfunum, sbr. m.a. tölvupósta dagana 6. september og 20. október, en í hinum síðarnefnda tölvupósti D til kæranda er stungið upp á söluverðinu 120 milljónum króna. Í kaupsamningi, dags. 18. desember 2020, vegna kaupa Z ehf. á öllu hlutafé í X ehf. kemur fram að kaupverð við afhendingu hins selda hinn 7. janúar 2021 sé greitt með peningum 40.000.000 kr., afhendingu hluta í Z ehf. að verðmæti 60.000.000 kr. og með viðbótargreiðslu þann 7. apríl 2021 sem svari til mismunar á eigin fé X ehf. pr. 31. desember 2020 og fjárhæðinni 45.000.000 kr. að nánar tilgreindum skilyrðum uppfylltum, sbr. lið 2.1.3 í kaupsamningnum. Kemur fram í gögnum málsins að fjárhæð síðastnefndrar greiðslu nam 11.071.419 kr. sem kom til greiðslu 1. apríl 2021, sbr. viðauka vegna uppgjörs, dags. 26. mars 2023. Loks kom fram um greiðslu kaupverðs að inna bæri af hendi greiðslu til kæranda að fjárhæð 30.000.000 kr. í síðasta lagi tólf mánuðum eftir afhendingu hins selda, „enda hafi verkefnum þeim sem lýst er í viðauka I við samninginn og eru á valdi fyrirsvarsmanns seljanda að efna verið lokið“, eins og þar segir. Samkvæmt viðauka I við kaupsamninginn lutu þau verkefni að samþættingu starfsemi X ehf. og F ehf. sem kærandi myndi annast auk annarra skilgreindra verkefna og er vísað til þess að kærandi hafi gert skuldbindandi og óuppsegjanlegan 30 mánaða ráðningarsamning við F ehf. vegna þeirra verkefna.
Óumdeilt er í málinu að stjórnunar- og eignatengsl eru á milli kæranda og Y ehf. með því að kærandi var á þeim tíma er málið varðar eigandi alls hlutafjár í félaginu og fyrirsvarsmaður þess. Eins og fram er komið dró ríkisskattstjóri í efa að sala kæranda á hlut sínum í X ehf. til Y ehf. hefði í raun farið fram í janúar 2020, enda væri engum samtímagögnum til að dreifa um það ef undan væri skilinn kaupsamningur, dags. 8. janúar 2020, þar sem kærandi hefði setið beggja vegna borðs. Tók ríkisskattstjóri fram að fyrirliggjandi skuldabréf, dags. sama dag, sem vottað væri af eiginkonu kæranda og C, þætti ekki fá breytt þessu. Taka verður undir með ríkisskattstjóra að engin önnur gögn hafa komið fram í málinu til stuðnings því að salan hafi í raun farið fram í janúar 2020. Þannig liggur fyrir að engar greiðslur fóru fram vegna viðskiptanna þar sem kaupverð hlutabréfanna var greitt með afhendingu skuldabréfs til sjö ára með fyrsta gjalddaga einu ári síðar. Tilhögun viðskiptanna var að þessu leyti ekki í samræmi við það sem ætla verður að tíðkist í viðskiptum af þessu tagi milli ótengdra aðila. Af hálfu kæranda hefur takmörkuð grein verið gerð fyrir rekstrarlegum tilgangi viðskiptanna þrátt fyrir tilefni samkvæmt vefengingu ríkisskattstjóra, en embættið taldi ekki hafa verið sýnt fram á að viðskiptin hefðu verið eðlilegur og venjulegur þáttur í starfsemi Y ehf. á greindum tíma. Er og óumdeilt í málinu að Y ehf. hafði ekki haft neinn rekstur með höndum og verður ekki séð að félagið hafi haft neina burði til að fjármagna kaupin nema með lántöku eða öflun fjár með öðrum hætti, en fram er komið af hálfu ríkisskattstjóra að eina eign Y ehf. í árslok 2019 voru kröfur að eftirstöðvum 211.620 kr. Í ljósi þessa þykja þær skýringar kæranda á tilgangi viðskiptanna, að þau hafi tengst áformum um að efla samkeppnishæfni X ehf. á markaði, ekki sannfærandi, enda er vandséð hvernig tilfærsla á hlutabréfaeign kæranda í X ehf. til hartnær eignalauss einkahlutafélags í eigu kæranda sjálfs hafi verið til þess fallin. Þar sem ríkisskattstjóri vefengdi á rökstuddan hátt upplýsingar kæranda um tímasetningu viðskipta hans og Y ehf. verður að telja að það hafi staðið upp á kæranda að færa fram nánari upplýsingar og gögn því til stuðnings sem hann heldur fram í þessum efnum. Eins og málið liggur fyrir, m.a. í ljósi þess hvernig skýringum kæranda er farið, gefa gögn málsins ekki tilefni til annarrar ályktunar en að umrædd ráðstöfun hlutabréfaeignar kæranda í X ehf. til eigin einkahlutafélags hafi verið liður í undirbúningi að sölu hlutafjárins til ótengds þriðja aðila.
Eins og rakið hefur verið var umtalsverður munur á söluverði hlutabréfanna í X ehf. í viðskiptum kæranda og Y ehf. annars vegar og í viðskiptum Y ehf. og Z ehf. hins vegar eða rúmlega sexfaldur munur. Af hálfu kæranda hafa þær skýringar einkum verið gefnar á þessum mun að verðmæti hluta í X ehf. hafi verið á mikilli siglingu til hækkunar á árinu 2020 vegna […]. Engin ástæða er til að draga þetta í efa. Á hinn bóginn verður ekki framhjá því litið sem fyrr segir að kærandi þykir ekki hafa sýnt fram á að hin umdeildu viðskipti hans við eigið einkahlutafélag hafi í raun farið fram í janúar 2020, eins og kærandi byggir á, en fram kemur í gögnum málsins að kæranda var kunnugt um áhuga Z ehf. á kaupum hlutanna í X ehf. þegar í ágústmánuði sama ár. Með vísan til þess sem hér að framan greinir og að virtum gögnum málsins að öðru leyti verður að taka undir með ríkisskattstjóra að umrædd viðskipti kæranda og Y ehf. hafi verið verulega frábrugðin því sem almennt gerist í viðskiptum, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003, og er engin ástæða til að ætla að til þeirra hefði komið milli óskyldra aðila. Verður ekki annað séð en að ákvörðun söluverðs hlutabréfanna í viðskiptunum með þeim hætti sem um ræðir hafi fyrst og fremst helgast af skattalegum hagsmunum kæranda. Ríkisskattstjóra var því heimilt að leiðrétta skattskil kæranda og hækka fjárhæð söluhagnaðar vegna sölu hlutabréfanna til samræmis við mat sitt á eðlilegu gangverði (markaðsverðmæti) þeirra á umræddum tíma. Ríkisskattstjóri lagði verð hlutabréfanna í viðskiptum með þau hinn 18. desember 2020 til grundvallar mati sínu á gangverði þeirra. Eins og málið liggur fyrir, m.a. í ljósi þess hvernig skýringum kæranda er farið, verður ekki talið að neitt hafi staðið í vegi fyrir því að ríkisskattstjóri byggði á söluverði hlutabréfanna í greindum viðskiptum. Þykja ekki efni til annars en að leggja mat ríkisskattstjóra til grundvallar.
Í kæru til yfirskattanefndar er krafist niðurfellingar 25% álags sem ríkisskattstjóri bætti við hækkun skattstofna kæranda gjaldárið 2021, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt ákvæðinu má ríkisskattstjóri, séu annmarkar á framtali, sbr. 96. gr., eða einstakir liðir ranglega fram taldir, bæta 25% álagi við áætlaða eða vantalda skattstofna. Bæti skattaðili úr annmörkum eða leiðrétti einstaka liði á framtali áður en álagning fer fram, má ríkisskattstjóri þó ekki beita hærra álagi en 15%. Í 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 er mælt fyrir um skyldu til niðurfellingar álags við þar greindar aðstæður, m.a. ef skattaðila verður ekki kennt um annmarka á framtali.
Að teknu tilliti til fyrrgreindrar niðurstöðu málsins varðandi viðskipti kæranda og Y ehf. á árinu 2020 þykja ekki efni til að falla frá beitingu álags, enda þykir hvorki hafa verið sýnt fram á af hálfu kæranda að atvikum sé svo farið að 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 eigi við þannig að fella beri álagið niður né að tilefni sé til að falla frá álagsbeitingu að öðru leyti. Er kröfu um niðurfellingu álags því hafnað.
Af hálfu kæranda er gerð krafa um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum. Samkvæmt úrslitum málsins þykja ekki vera lagaskilyrði til að úrskurða kæranda málskostnað. Kröfu þess efnis er því hafnað.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.
