Úrskurður yfirskattanefndar
- Erfðafjárskattur
- Skattstofn vegna fasteignar
Úrskurður nr. 187/2025
Lög nr. 14/2004, 4. gr. 3. mgr. b-liður. Lög nr. 37/1993, 7. gr.
Talið var leiða af skýlausum ákvæðum laga um erfðafjárskatt að ákvarða bæri skattstofn vegna fasteignar, sem dánarbú K seldi í september 2024, miðað við skráð fasteignamatsverð á dánardegi K, enda hafði ekki verið óskað eftir mati á verðmæti fasteignarinnar samkvæmt lögum um skipti á dánarbúum.
Ár 2025, miðvikudaginn 10. desember, er tekið fyrir mál nr. 113/2025; kæra A, B og C, dags. 27. maí 2025, vegna ákvörðunar erfðafjárskatts. Í málinu úrskurða Þórarinn Egill Þórarinsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Með kæru, dags. 27. maí 2025, hafa kærendur skotið til yfirskattanefndar ágreiningi um ákvörðun erfðafjárskatts kærenda vegna arfs úr dánarbúi K, sem lést … 2024, sbr. erfðafjárskýrslu, dags. 18. desember 2024. Er þess krafist í kærunni að við ákvörðun á verðmæti fasteignarinnar að M verði miðað við leiðrétt fasteignamat frá HMS frá nóvember 2024, 61.250.000 kr., en ekki gildandi fasteignamat á dánardegi arfleifanda, 75.600.000 kr., og að skattstofn erfðafjárskatts kærenda verði lækkaður til samræmis. Þá er gerð krafa um að kærendum verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.
Í kærunni er vísað til þess að kærendur hafi fengið verðmat löggilts fasteignasala á verðmæti M í maí 2024. Hafi fasteignasalinn metið raunhæft söluverð 61-62 milljónir króna. Með kaupsamningi, undirrituðum í september 2024, hafi fasteignin verið seld fyrir 60 milljónir króna. Í nóvember 2024 hafi verið lögð fram beiðni til HMS um endurmat á fasteignamati eignarinnar. Vegna slæms ástands eignarinnar hafi HMS samþykkt að gefa út nýtt og lægra fasteignamat í nóvember 2024. Hafi hið nýja fasteignamat verið 61.250.000 kr. Kærendur hafi skilað sýslumanni erfðafjárskýrslu en með bréfi, dags. 24. febrúar 2025, hafi sýslumaður gert athugasemd við tilfærslu fasteignamats M með 61.250.000 kr. í stað 75.600.000 kr. Hafi sýslumaður ekki talið skilyrði til þess að miða við breytt fasteignamat við álagningu erfðafjárskatts og vísað í því sambandi til b-liðar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, enda hafi kærendur ekki áður aflað matsgerðar samkvæmt 17.-23. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl. Hafi það verið mat sýslumanns að við álagningu á erfðafjárskatti skyldi miðað við fasteignamat á dánardegi arfleifanda og hafi sýslumaður vísað því til stuðnings til úrskurða yfirskattanefndar nr. 86/2017 og 125/2024. Sýslumaður hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en kærendum hafi ekki verið leiðbeint um að unnt væri að óska eftir mati á verðmæti fasteigna, sbr. b-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 14/2004. Hafi kærendur verið í góðri trú um að verðmat frá virtum löggiltum fasteignasala væri gott og gilt. Þá liggi fyrir leiðrétt fasteignamat 2024, 61.250.000 kr., sem segi til um hvert fasteignamat eignarinnar hafi verið 1. janúar 2024. Geti rétt fasteignamat því ekki hafa verið 75.600.000 kr.
II.
Með bréfi, dags. 11. júlí 2025, hefur sýslumaður lagt fram umsögn í málinu. Í bréfinu eru málavextir raktir. Þar kemur fram að dánarbú K hafi selt fasteignina að M í september 2024 á 60.000.000 kr. Fasteignin hafi verið seld tengdum aðilum, þ.e. barnabarni arfleifanda og maka hans. Sýslumaður hafi gert athugasemdir við framlagða erfðafjárskýrslu með bréfi, dags. 24. febrúar 2025, og bent á að samkvæmt b-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 14/2004, skyldu fasteignir taldar fram á fasteignamatsverði í erfðafjárskýrslu eins og það sé skráð hjá HMS á dánardegi arfleifanda, nema erfingjar hafi áður aflað matsgerðar samkvæmt 17.-23. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl., fyrir milligöngu sýslumanns. Í erfðafjárskýrslu, dags. 18. desember 2024, hafi fasteignamat eignarinnar verið tilgreint 61.250.000 kr. Kærendur hafi óskað eftir endurmati fasteignamatsins og hafi það verið ákvarðað 61.250.000 kr. í nóvember 2024. Væri það mat sýslumanns að ekki væri skilyrði til þess að miða álagningu erfðafjárskatts við hið breytta fasteignamat en erfingjar hefðu ekki hlutast til um að fá mat samkvæmt 17.-23. gr. laga nr. 20/1991, svo sem kveðið væri á um í b-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 14/2004. Við álagningu erfðafjárskatts skyldi miða við skráð fasteignamat á dánardegi arfleifanda á árinu 2024, sbr. úrskurði yfirskattanefndar nr. 86/2017 og 125/2024. Þá gilti fasteignamat þangað til því væri hrundið með nýju mati samkvæmt 4. mgr. 31. gr. laga nr. 6/2001. Endurmat fasteignamats gildi frá þeim degi sem það sé birt og ekki með afturvirkum hætti. Sé því ekki lagaskilyrði til þess að leggja annað viðmið til grundvallar álagningu erfðafjárskatts en það fasteignamat sem hafi verið í gildi á dánardegi arfleifanda eða 75.600.000 kr. Þá sé því alfarið hafnað að sýslumaður hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni gagnvart erfingjunum samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laganna gildi þau ekki um skipti á dánarbúum. Þrátt fyrir það veiti embættið leiðbeiningar til erfingja þegar eftir því sé leitað og að fyrra bragði telji embættið tilefni til þess. Þá megi nálgast ýmsar upplýsingar á heimasíðu sýslumanna m.a. um einkaskipti á dánarbúum, verðmat á eignum og útfyllingu á erfðafjárskýrslu Embættið hafi ekki haft upplýsingar um að hugsanlegt markaðsverðmæti fasteignarinnar væri lægra en fasteignamat fyrr en embættið hefði verið upplýst símleiðis um að eignin hefði verið seld. Þá hafi kærendur hvorki upplýst embættið um verðmat fasteignasala né lagt slíkt mat fram. Í símtali við umboðsmann kærenda í tengslum við skil á erfðafjárskýrslu hafi embættið upplýst umboðsmanninn um að erfingjum væri heimilt að óska eftir mati samkvæmt 17.-23. gr. laga nr. 20/1991 ef ekki væri búið að ráðstafa eigninni úr dánarbúinu, sbr. 2. málsl. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 14/2004. Hafi umboðsmaðurinn verið ósáttur og talið embættið ekki fara rétt með málið. Þrátt fyrir leiðbeiningar frá sýslumanni um að erfingjar gætu lagt fram formlega beiðni um mat og fengið þá formlega afstöðu embættisins, hafi slík beiðni ekki verið lögð fram.
Með bréfi, dags. 10. september 2025, hafa kærendur komið á framfæri athugasemdum í tilefni af umsögn sýslumanns. Í bréfinu eru gerðar athugasemdir við samskipti við fulltrúa sýslumanns, einkum vegna tiltekinna ummæla í umsögn sýslumanns. Að öðru leyti eru kröfur kærenda ítrekaðar og vísað til framkominna gagna.
III.
Kæra í máli þessu varðar ákvörðun erfðafjárskatts samkvæmt lögum nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, vegna arfs úr dánarbúi K, sem lést … 2024, sbr. erfðafjárskýrslu, dags. 18. desember 2024. Lýtur ágreiningur málsins að ákvörðun skattstofns erfðafjárskatts vegna fasteignar við M en fasteignamat eignarinnar á dánardegi K var 75.600.000 kr. Dánarbú K heitins seldi eignina með kaupsamningi í september 2024 fyrir 60.000.000 kr. eftir að fasteignasali hafði metið raunvirði eignarinnar 61 - 62 milljónir króna. Þá var fasteignamat eignarinnar 2024 endurmetið af HMS í nóvember 2024 að beiðni kærenda og það lækkað í 61.250.000 kr. Er krafa kærenda sú að skattstofn vegna fasteignarinnar verði miðaður við nýtt leiðrétt fasteignamat hennar 61.250.000 kr. í stað fasteignamatsverðs eignarinnar á dánardegi arfleifanda 75.600.000 kr., sem sýslumaður taldi að leggja bæri til grundvallar. Er fundið að því í kærunni að sýslumaður hafi ekki vakið athygli kærenda á þeim möguleika að óska eftir mati samkvæmt lögum nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum, á verðmæti fasteignarinnar.
Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, er skattstofn erfðafjárskatts heildarverðmæti allra fjárhagslegra verðmæta og eigna sem liggja fyrir við andlát arfleifanda að frádregnum skuldum og kostnaði samkvæmt 5. gr. laganna. Með heildarverðmæti samkvæmt 1. mgr. er átt við almennt markaðsverðmæti viðkomandi eigna, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Kemur fram í þeirri málsgrein að þetta gildi um öll verðmæti sem metin verði til fjár, svo sem nánar er tilgreint. Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 14/2004 er að finna sérreglur um skattstofn vegna tiltekinna eigna og tekur b-liður málsgreinarinnar til fasteigna. Samkvæmt 1. mgr. b-liðar 3. mgr. 4. gr. laganna skulu fasteignir taldar á fasteignamatsverði eins og það er skráð hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun á dánardegi arfleifanda. Segir í 2. mgr. b-liðar 3. mgr. 4. gr. laganna að sé almennt markaðsverðmæti fasteignar talið lægra en fasteignamatsverð eignarinnar sé erfingjum heimilt að óska eftir mati samkvæmt 17.-23. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl. Sé þá heimilt að leggja erfðafjárskatt á matsverð þannig fengið, enda fylgi matsgjörð, ekki eldri en fjögurra vikna gömul, erfðafjárskýrslu. Að öðru leyti gildi ákvæði II. kafla laga nr. 20/1991 um mat samkvæmt þessum staflið.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl., er erfingja heimilt meðan skiptum hefur ekki verið lokið og dánarbúið hefur ekki verið tekið til opinberra skipta að krefjast að þær eignir þess, sem hefur ekki þegar verið ráðstafað við skiptin, verði að einhverju leyti eða öllu skrásettar og eftir atvikum metnar til peningaverðs. Með sama hætti getur erfingi krafist þess að skuldbindingar dánarbúsins verði metnar til peningaverðs. Skal kröfu um þessar aðgerðir beint skriflega til þess sýslumanns sem skiptin eiga undir. Í 17.-23. gr. laga nr. 20/1991 eru frekari ákvæði um slíkt mat á eignum og skuldum dánarbús og framkvæmd þess. Kemur m.a. fram í 2. mgr. 18. gr. laganna að sé slíks mats krafist skuli sá sýslumaður, sem í hlut á, tilnefna matsmann áður en lengra sé haldið, sbr. frekari ákvæði um hæfi matsmanns og skyldur í 2. og 3. mgr. greinarinnar. Fyrir liggur að af hálfu kærenda var ekki óskað eftir mati á verðmæti fasteignarinnar að M samkvæmt fyrrnefndum ákvæðum laga nr. 20/1991 heldur var eignin seld í september 2024 á 60.000.000 kr. að fengnu mati löggilts fasteignasala.
Samkvæmt framansögðu eru lög nr. 14/2004 skýr og ótvíræð um að ákvarða beri skattstofn erfðafjárskatts vegna fasteigna miðað við fasteignamatsverð eins og það er skráð hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun á dánardegi arfleifanda. Í málinu liggur fyrir að fasteignamatsverð fasteignarinnar að M hafi verið 75.600.000 kr. við andlát arfleifanda og hafa kærendur ekki sýnt fram á að markaðsverðmæti fasteignarinnar hafi verið lægra á þeim tíma með framlagningu matsgjörðar, sbr. 2. mgr. b-liðar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 14/2004. Skal tekið fram að mati löggilts fasteignasala, sem kærendur hafa vísað til, verður ekki jafnað til mats samkvæmt 17.-23. gr. laga nr. 20/1991. Þá getur söluverð fasteignarinnar ekki komið í stað fortakslausrar viðmiðunar við fasteignamatsverð samkvæmt ákvæði b-liðar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 14/2004. Að framangreindu virtu verður að hafna kröfu kærenda í máli þessu.
Vegna athugasemda kærenda um að sýslumaður hafi ekki gætt að leiðbeiningaskyldu sinni við meðferð málsins, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, skal tekið fram að þegar erfðafjárskýrsla barst sýslumanni í desember 2024 hafði eigninni þegar verið ráðstafað og varð slíku mati því ekki við komið, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 20/1991. Verður ekki ráðið af gögnum málsins að sýslumanni hafi gefist sérstakt tilefni til þess á fyrri stigum málsins að leiðbeina kærendum um heimild til þess að óska eftir slíku mati.
Af hálfu kærenda er gerð krafa um að þeim verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum. Samkvæmt úrslitum málsins eru ekki lagaskilyrði til að úrskurða kærendum málskostnað til greiðslu úr ríkissjóði. Kröfu þess efnis er því hafnað.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfum kærenda í máli þessu er hafnað.
