Úrskurður yfirskattanefndar

  • Almannaheillaskrá
  • Félagasamtök

Úrskurður nr. 189/2025

Lög nr. 90/2003, 4. gr. 4. tölul. og 9. tölul. (brl. nr. 32/2021, 1. gr., sbr. brl. nr. 133/2021, 1. gr.)  

Ríkisskattstjóri synjaði kæranda, sem var félagasamtök, um skráningu í almannaheillaskrá á þeim forsendum að félagslög kæranda bæru ekki með sér með nægilega skýrum hætti að félaginu væri mörkuð ákveðin starfsemi sem telja mætti til almannaheilla. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að tilgangur kæranda væri bæði trúarlegur og menningarlegur og starfsemi samtakanna innan vébanda aðildarfélaga þess af þeim toga sem greindi í 1. gr. æskulýðslaga nr. 70/2007, þ.e. að efla börn og ungmenni til þátttöku í skipulagðri æskulýðsstarfsemi. Að því virtu, skýringum kæranda og ákvæðum félagslaganna í heild sinni var ekki talið að ákvæði þeirra væru Þrándur í götu fyrir skráningu kæranda. Hinni kærðu synjun ríkisskattstjóra var því hnekkt.

Ár 2025, miðvikudaginn 10. desember, er tekið fyrir mál nr. 143/2025; kæra A, dags. 28. ágúst 2025, vegna skráningar í almannaheillaskrá. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Gerður Guðmundsdóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Kæruefnið í máli þessu er sú ákvörðun ríkisskattstjóra frá 30. maí 2025 að hafna skráningu kæranda í almannaheillaskrá, sbr. ákvæði 9. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með áorðnum breytingum. Kærandi er félagasamtök sem starfa samkvæmt lögum, dags. 13. febrúar 2025, sem eru meðal gagna málsins. Ákvörðun ríkisskattstjóra var byggð á því að ekki yrði talið að félagslög kæranda bæru það með sér með nægilega skýrum hætti að félaginu væri mörkuð ákveðin starfsemi sem fella mætti undir að teljast starfsemi til almannaheilla samkvæmt b- og g-lið 2. mgr. 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, sbr. einnig 16. og 17. gr. reglugerðar nr. 1300/2021, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Til þess væru markmið félagsins samkvæmt 5. gr. félagslaganna, þ.e. að sameina kristna stúdenta og skólanemendur til þess að styrkja og glæða trúarlíf þeirra og að vinna aðra fyrir Jesúm Krist, of almenn og víðtæk. Það væri ein af forsendum þess að félag gæti fengið skráningu á almannaheillaskrá að fyrir lægi til hvaða málefna, sem féllu undir 2. mgr. 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, styrkjum væri ætlað að renna og sömuleiðis á hverju úthlutun styrkja byggði. Eins og starfsemi kæranda væri lýst í lögum félagsins væri um mjög víðtæka lýsingu að ræða og yrði ekki af henni ráðið hver væri í raun starfsemi félagsins eða að hvaða málum eða markmiðum starfsemin raunverulega beindist að. Yrði því að telja að lög félagsins væru of óljós og víðtæk að þessu leyti sem og hvernig félagið hygðist ná markmiðum sínum.

Í kæru til yfirskattanefndar er rakið að starfsemi skráðra trú- og lífsskoðunarfélaga geti verið skráð í almannaheillaskrá, sbr. g-lið 2. mgr. 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003. Þá sé grundvöllur starfsemi kæranda hinn hlutlægi hjálpræðisgrunnur sem lagður sé af Jesú Kristi með friðþægingu hans fyrir syndir vorar og upprisu hans oss til réttlætingar samkvæmt hinni heilögu ritningu og játningarritum evangelísks-lútherskrar kirkju. Grundvöllur kæranda sé því hinn sami og þjóðkirkjunnar. Markmið trúfélaga séu í eðli sínu víðtæk og miði að því að sameina trúað fólk, styrkja trúarlíf þeirra með fjölbreyttum hætti og fjölga í þeirra hópi. Markmið kæranda séu að mati félagsins skýr um að öll starfsemi félagsins lúti að trúarlegu starfi og þótt markmiðin séu víðtæk innan þess trúarlega ramma eigi það ekki að standa í vegi fyrir skráningu kæranda í almannaheillaskrá frekar en í tilviki annarra trúfélaga. Starf kæranda hafi nánast eingöngu verið fjármagnað með styrkjum úr sjóðum þjóðkirkjunnar, prófastsdæma hennar og frjálsum framlögum einstaklinga. Auk þessa hafi félagið fengið styrki úr Æskulýðssjóðnum í gegnum tíðina vegna afmarkaðra verkefna, sbr. ákvæði 1. gr. æskulýðslaga nr. 70/2007. Aðildarfélög kæranda séu kristileg skólasamtök og stúdentafélag og séu lög þeirra félaga meðfylgjandi kærunni. Í lögunum sé starfsemi félaganna rakin, þ.e. æskulýðsstarf á trúarlegum grundvelli. Í niðurlagi kæru er tekið fram að verði umsókn kæranda hafnað sé þörf á skýrari leiðbeiningum um það hversu sértæk félagslög kæranda þurfi að vera, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ekki síst með tilliti til þess að starfsemi félagsins geti bæði fallið undir b-lið og g-lið 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2003.

II.

Með bréfi, dags. 23. september 2025, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í máli þessu þar sem fram kemur að það sé álit ríkisskattstjóra að hin kærða ákvörðun embættisins skuli vera staðfest með vísan til forsendna hennar, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á niðurstöðu ákvörðunar ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 24. september 2025, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefin kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

III.

Ákvæði um skráningu lögaðila í svonefnda almannaheillaskrá voru tekin upp í lög nr. 90/2003, um tekjuskatt, með I. kafla laga nr. 32/2021, um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (skattalegir hvatar fyrir lögaðila sem starfa til almannaheilla). Öðluðust ákvæði þessi gildi 1. nóvember 2021, sbr. 12. gr. laga nr. 32/2021. Samkvæmt 9. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, eins og ákvæðið hljóðar eftir breytingar með 1. gr. laga nr. 32/2021 og 1. gr. laga nr. 133/2021, eru þeir lögaðilar sem um ræðir í 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 5. tölul. 4. gr. sömu laga, sem hafa með höndum starfsemi sem fellur undir a-g-lið 2. mgr. 4. tölul. og eru skráðir í sérstaka almannaheillaskrá hjá Skattinum undanþegnir tekjuskatti. Er tekið fram að ákvæði II.–VI. og VIII. kafla laga nr. 110/2021, um félög til almannaheilla, gildi um lögaðila eftir því sem við á vegna skráningar og hæfis lögaðila í almannaheillaskrá Skattsins. Þá er það skilyrði fyrir skráningu og endurskráningu lögaðila í almannaheillaskrá að staðin hafi verið skil á skattframtali og ársreikningi til ríkisskattstjóra eftir því sem við á og að ekki sé um að ræða vanskil eða áætlanir skatta, skattsekta, gjalda og skýrsluskila, sbr. 3. málsl. 9. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 1. gr. laga nr. 133/2021.

Samkvæmt framansögðu er skilyrði fyrir skráningu lögaðila í almannaheillaskrá að aðili eigi undir ákvæði 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, þ.e. verji hagnaði sínum einungis til almannaheilla og hafi það að einasta markmiði samkvæmt samþykktum sínum. Í 2. mgr. 4. tölul. greinarinnar er skilgreint nánar hvaða starfsemi telst til almannaheilla, sbr. a-g-lið málsgreinarinnar þar sem m.a. er tiltekin æskulýðs- og menningarmálastarfsemi, sbr. b-lið, og starfsemi þjóðkirkjunnar, þjóðkirkjusafnaða og annarra skráðra trú- og lífsskoðunar-félaga, sbr. g-lið. Svipað ákvæði var að finna í eldri lögum, sbr. 2. málsl. A-liðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt. Það ákvæði tók þó samkvæmt orðan sinni einungis til hlutafélaga og annarra félaga með takmarkaðri ábyrgð félagsaðila. Núgildandi ákvæði, sem upphaflega var lögtekið með 4. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 7/1980, um breyting á þeim lögum, tekur hins vegar til allra þeirra lögaðila sem tilgreindir eru í 2. gr. laganna, uppfylli þeir þau skilyrði sem sett eru í 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003. Skilyrði skattfrelsis samkvæmt ákvæðinu er m.a. að lögaðili hafi það að einasta markmiði samkvæmt samþykktum sínum að verja hagnaði til almannaheilla. Af dóma- og úrskurðaframkvæmd verður glögglega ráðið að það sé raunverulegt markmið með starfsemi lögaðila sem ræður úrslitum í þessum efnum þannig að liggi fyrir, að tilgangur með starfsemi sé í raun annar en skráður er í samþykktum, getur slík aðstaða girt fyrir skattfrelsi, sbr. til nokkurrar hliðsjónar H 1995:435.

Í 1. gr. félagslaga fyrir kæranda, sem bárust ríkisskattstjóra 12. mars 2025, kemur fram að hreyfingin heiti A og samanstandi af félögum kristinna nemenda og stúdenta. Í 4. gr. segir að kærandi og aðildarfélög hans byggi á hinum hlutlæga („objektiva“) hjálpræðisgrunni sem lagður er af Jesú Kristi með friðþægingu hans fyrir syndir vorar og upprisu hans oss til réttlætingar, samkvæmt heilagri ritningu og játningarritum evangelísk-lútherskrar kirkju. Samkvæmt 5. gr. er markmið hreyfingarinnar a) að sameina kristna stúdenta og skólanemendur til þess að styrkja og glæða trúarlíf þeirra og b) að vinna aðra fyrir Jesúm Krist. Í IV. og V. kafla félagslaganna eru ákvæði um stjórn kæranda, skipan og hlutverk, og ársþing hreyfingarinnar. Um aðildarfélög kæranda kemur fram í VI. kafla, sbr. 13. gr., að þau séu tvö, þ.e. kristileg skólasamtök og stúdentafélag. Aðildarfélögin ásamt stjórn kæranda beri sameiginlega ábyrgð á fjárhag hreyfingarinnar og skuli taka eðlilegan þátt í fjáröflun hennar. Þá er í sömu grein kveðið á um ráðstöfun eigna kæranda og/eða aðildarfélaganna við niðurlagningu eða slit og er m.a. mælt fyrir um að komi til slita á bæði aðildarfélögum og kæranda skuli eignir fara til þjóðkirkjunnar til tímabundinnar varðveislu, en afhendast síðar félagi með hliðstæðan tilgang.

Í kæru til yfirskattanefndar kemur fram að starfsemi kæranda sé trúarleg og teljist til skipulagðs æskulýðsstarfs í skilningi 1. gr. æskulýðslaga nr. 70/2007. Starfsemin fari fram á vegum aðildarfélaga kæranda með vikulegum félagsfundum á laugardagskvöldum í húsnæði KFUM og KFUK á Íslandi með tónlistarflutningi, skemmtiatriðum og trúarlegri fræðslu, svo sem nánar greinir. Stjórn kæranda sé félagsmönnum og stjórn aðildarfélaganna innan handar til leiðsagnar og aðstoðar við val á ábyrgðarmönnum yfir tvítugu til að vera til staðar á félagsfundum.

Samkvæmt framansögðu er tilgangur kæranda bæði trúarlegur og menningarlegur og starfsemi samtakanna innan vébanda aðildarfélaganna af þeim toga sem greinir í 1. gr. laga nr. 70/2007, þ.e. að efla börn og ungmenni til þátttöku í skipulagðri æskulýðsstarfsemi. Er m.a. komið fram af hálfu kæranda að félagasamtökin hafi hlotið styrki úr Æskulýðssjóði vegna sérstakra verkefna, sbr. III. kafla laga þessara. Verður ekki annað séð en að trúarlegur þáttur starfsins standi í nánum tengslum við starfsemi kirkjufélaga og -safnaða, sbr. lög nr. 108/1999, um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög. Að þessu virtu, skýringum kæranda og ákvæðum félagslaganna í heild sinni verður ekki fallist á með ríkisskattstjóra að ákvæði þeirra séu Þrándur í götu fyrir skráningu kæranda í almannaheillaskrá. Er hinni kærðu synjun ríkisskattstjóra því hnekkt. Af þeirri niðurstöðu leiðir að senda verður ríkisskattstjóra kæruna til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hinni kærðu ákvörðun ríkisskattstjóra er hnekkt og kæran send ríkisskattstjóra til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja