Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 828/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 73/1980 — 34. gr. 1. mgr. — 38. gr. 1. mgr. a-liður  

Aðstöðugjald — Aðstöðugjaldsskylda — Lögheimili — Lögheimilissveitarfélag — Aðstöðugjaldsskylda utan lögheimilissveitarfélags eða þess sveitarfélags þar sem aðili hefur aðalatvinnurekstur sinn — HRD 1978:293 — Dómur — Andmælareglan — Málsmeðferð áfátt — Starfsstöð

Kærð er endurákvörðun skattstjóra á aðstöðugjaldi kæranda gjaldárin 1987 og 1988. Var sú ákvörðun á því byggð, að kærandi hefði haft með höndum vegalagningu í X-, Y- og Z-hreppi og væri hann aðstöðugjaldsskyldur í þeim hreppum vegna þeirrar starfsemi þar skv. 38. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga. Af hálfu kæranda hefur þessari ákvörðun skattstjóra verið mótmælt og þess krafist að henni verði hnekkt. Telur hann, að nefnd lagagrein eigi ekki við um þá starfsemi, er fór fram í nefndum hreppum heldur beri honum að greiða aðstöðugjald vegna hennar til heimilissveitar sinnar, B, sbr. 34. gr. nefndra laga, þar sem atvinnustöð hans er.

Með bréfi, dags. 22. nóvember 1990, krefst ríkisskattstjóri þess, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Eins og mál þetta er vaxið hefði verið rétt, að skattstjóri aflaði sjónarmiða hlutaðeigandi sveitarfélaga. Eigi þykir þó alveg nægt tilefni til þess að ómerkja ákvarðanir skattstjóra af þeim sökum.

Þegar virt er starfsemi sú sem kærandi hafði með höndum í nefndum hreppum verður ekki talið, að hún hafi skapað honum aðstöðugjaldsskyldu þar, sbr. og t.d. dóm Hæstaréttar í dómabindi ár 1978 bls. 293.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja