Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 830/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 1. tl. — 95. gr. 2. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 2. ml. — 106. gr. 1. mgr.  

Síðbúin framtalsskil — Áætlun — Áætlun skattstofna — Skattframtal í stað áætlunar — Skattframtal tekið sem kæra — Álag — Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Vítaleysisástæður — Rekstrarkostnaður — Kaffikostnaður — Risna — Risnukostnaður — Slysatrygging — Slysatryggingariðgjald — Slysatrygging atvinnurekandans sjálfs — Kostnaður vegna atvinnurekandans sjálfs — Persónulegur kostnaður — Rafeindavirkjun — Löggilt iðngrein — Iðnaður — Eigin atvinnurekstur — Frádráttarheimild — Lagaheimild — Ófrádráttarbær kostnaður — Starfsmenntunarsjóðsgjald — Starfsmenntun — Námskeið — Námskeiðskostnaður — Frávísun — Vanreifun — Frávísun vegna vanreifunar

Kærðar eru eftirgreindar breytingar skattstjóra, sbr. kæruúrskurð hans, dags. 29. janúar 1990:

1. Slysatryggingariðgjald. Kærandi, er rekur radíó – og sjónvarpsverkstæði gjaldfærði eigið slysatryggingariðgjald 26.793 kr. Gjaldalið þennan felldi skattstjóri niður á þeim grundvelli að ekki væri um frádráttarbæran rekstrarkostnað að ræða skv. 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981. Umboðsmaður kæranda er gagnstæðrar skoðunar og krefst þess, að gjaldaliður þessi verði tekinn til greina.

2. Matar og kaffikostnaður. Á nefndum rekstrarreikningi gjaldfærði kærandi, matar- og kaffikostnað 20.660 kr. Skattstjóri felldi gjaldalið þennan niður á sömu forsendum og greinir í 1. tl. Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 27. febrúar 1990, krefst umboðsmaður kæranda þess, að fallist verði á þennan lið. Getur hann þess, að kostnaður þessi sé eingöngu tilkominn vegna viðskiptavina, þar sem þeim sé boðið upp á kaffiveitingar, meðan þeir bíði.

3. Greiðsla í eftirmenntunarsjóð. Kærandi, gjaldfærði greiðslu 10.920 kr. í eftirmenntunarsjóð. Felldi skattstjóri gjaldalið þennan niður, enda teldist ekki vera um frádráttarbæran rekstrarkostnað að ræða samkvæmt 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981. Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 27. febrúar 1990, gefur umboðsmaður kæranda þá skýringu, að um sé að ræða árlegt gjald í sjóð, er síðan kosti og haldi fagnámskeið fyrir félagsmenn. Sé því um einskonar fyrirframgreiðslu á námskeiðum að ræða og tvímælalaust frádráttarbær kostnaður, því að nauðsynlegt sé það rafeindavirkjum að fylgjast vel með í sérgrein sinni.

4. Álag vegna síðbúinna framtalsskila. Skattframtal kærenda árið 1989 barst skattstjóra hinn 13. júní 1989 eða að framtalsfresti liðnum en áður en álagningu var lokið. Í hinum kærða úrskurði, dags. 29. janúar 1990, lagði skattstjóri hið innsenda framtal til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1989 m.a. með fyrrgreindum breytingum og að viðbættu 15% álagi á skattstofna samkvæmt framtalinu vegna síðbúinna framtalsskila, sbr. heimildarákvæði 2. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 27. febrúar 1990, krefst umboðsmaður kærenda þess, að álag þetta verði fellt niður, þar sem veikindi hans sjálfs hafi orðið þess valdandi, að framtalsskilin drógust, svo sem nánar er lýst.

Með bréfi, dags. 19. desember 1990, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans. Að því er hið kærða álag varðar er þess krafist að það standi óhaggað þar sem kærendur geta ekki öðlast rýmri rétt til undanþágu frá beitingu álags þó þeir fái aðstoð við framtalsgerðina og eigi hefur verið sýnt fram á að 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 eigi við.“

Um 1. tl. Krafa kæranda er tekin til greina varðandi þennan kærulið.

Um 2. tl. Kærandi þykir ekki hafa sýnt fram á, að umræddur kostnaður sé frádráttarbær skv. 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981. Þessu kæruatriði er vísað frá vegna vanreifunar.

Um 3. tl. Eigi þykir lagaheimild vera fyrir hendi til þess frádráttar, sem hér um ræðir. Er kröfu kærenda því synjað varðandi þetta kæruatriði.

Um 4. tl. Fallist er á kröfu kærenda um niðurfellingu álags.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja