Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 832/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 1. tl.  

Rekstrarkostnaður — Slysatrygging — Sjúkratrygging — Slysatryggingariðgjald — Sjúkratryggingariðgjald — Fæðiskostnaður — Vinnufatakostnaður — Hlífðarfatakostnaður — Ófrádráttarbær kostnaður — Slysatrygging atvinnurekandans sjálfs — Sjúkratrygging atvinnurekandans sjálfs — Fæði atvinnurekandans sjálfs — Kostnaður vegna atvinnurekandans sjálfs — Persónulegur kostnaður — Frádráttarheimild — Eigin atvinnurekstur — Löggilt iðngrein — Pípulagningar — Iðnaður

Kærandi stundar pípulagnir sem sjálfstætt starf. Við álagningu gjalda 1989 heimilaði skattstjóri ekki til frádráttar tekjum eftirtalda gjaldaliði í rekstrarreikningi kæranda fyrir árið 1988: Fæðiskostnaður starfsmanna 86.598 kr., lífeyrissjóður 25.275 kr., vinnufatnaður 27.776 kr. og aðrar tryggingar starfsmanna en lögboðnar atvinnutryggingar 41.109 kr. Forsendur skattstjóra voru þær að kostnaður þessi væri vegna kæranda sjálfs og því ekki rekstrarkostnaður í skilningi 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Í kæru til skattstjóra var þess krafist, að af nefndum gjaldaliðum yrðu eftirtaldar fjárhæðir viðurkenndar frádráttarbærar: Fæðiskostnaður 28.717 kr. vegna vinnu kæranda úti á landi, slysa- og sjúkratrygging vegna atvinnurekstrar 34.905 kr. og vinnuföt 9.600 kr. Með kæruúrskurði, dags. 22. janúar 1990, féllst skattstjóri ekki á þessa kröfu kæranda. Að því er varðar kostnað vegna vinnufatnaðar og fæðis leit skattstjóri svo á, að um persónulegan kostnað kæranda sjálfs væri að ræða og því ófrádráttarbær samkvæmt framangreindu lagaákvæði. Að því er varðar kostnað vegna slysa- og sjúkratrygginga tók skattstjóri fram, að til þeirra hafi verið stofnað „til að tryggja tekjur kæranda en ekki tekjur atvinnurekstrarins og er því um ófrádráttarbæran persónulegan kostnað að ræða....“

Af hálfu kæranda hefur úrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 21. febrúar 1990. Er þess krafist, að úrskurði skattstjóra verði hnekkt og þar umræddur kostnaður viðurkenndur til frádráttar tekjum og áður álögðum gjöldum breytt til samræmis. Rökstuðningur umboðsmanns kæranda fyrir þeirri kröfu er svohljóðandi:

„1. Slysa- og sjúkratrygging:

Í rökstuðningi skattstjórans í Reykjavík gegn þessum gjaldalið er því haldið fram að til hans sé stofnað til að tryggja tekjur kæranda en ekki tekjur atvinnurekstrarins.

K er pípulagningameistari og starfar einn síns liðs. Tekjur atvinnurekstrarins eru eingöngu hans persónulega útselda vinna, þannig að ekki verður greint á milli tekna atvinnurekstrarins og hans persónulegu tekna.

Af þeim sökum fellur umræddur gjaldaliður undir áður tilvitnuð lög þ.e. 1. tl. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981.

2. Fæðiskostnaður:

Umræddur kostnaðarliður er vegna vinnu K og nær yfir tímabilið apríl til ágúst 1988. Í 7. grein reglugerðar um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu fæst frádráttur vegna slíks kostnaðar er ofan greinir hjá launþegum. K hefði því ekki borið þennan kostnað ynni hann hjá óskyldum aðila.

3. Vinnufatnaður:

Í viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra og skattmat í staðgreiðslu fyrir árið 1988, tl. 1.3 segir „eigi skal reikna launamanni til tekna nauðsynlegan hlífðarfatnað sem launagreiðandi afhendir honum til afnota við störf í þágu launagreiðandans“. Í umræddum kostnaðarlið, vinnufatnaður, færðum til gjalda á rekstrarreikningi hjá K, er um hlífðarfatnað að ræða. K hefði því ekki borið þennan þennan kostnað persónulega ynni hann hjá óskyldum aðila.“

Með bréfi, dags. 22. nóvember 1990, krefst ríkisskattstjóri þess fyrir hönd gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Eftir öllum atvikum þykir mega taka kröfu kæranda til greina að því er varðar gjaldfærð iðgjöld slysa- og sjúkratryggingar. Kærandi þykir hins vegar ekki hafa sýnt fram á, að hinn umdeildi fæðis- og vinnufatakostnaður hans sjálfs sé frádráttarbær rekstrarkostnaður samkvæmt 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981. Er kröfu kæranda því synjað að því er tekur til þessara kæruatriða.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja