Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 833/1991
Gjaldár 1989
Lög nr. 75/1981 — 11. gr. — 13. gr. — 31. gr. 7. tl. — 95. gr. 2. mgr. — 100. gr. 5. mgr. — 106. gr. 1. mgr.
Síðbúin framtalsskil — Áætlun — Áætlun skattstofna — Skattframtal í stað áætlunar — Álag — Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Vítaleysisástæður — Söluhagnaður — Lausafé — Söluhagnaður lausafjár — Söluhagnaður fyrnanlegs lausafjár — Söluhagnaður, frestun skattlagningar — Frestun skattlagningar söluhagnaðar — Frestun skattlagningar söluhagnaðar af fyrnanlegu lausafé — Söluhagnaður, ákvörðun frestunarfjárhæðar m.t.t. jöfnunar yfirfæranlegra rekstrartapa — Rekstrartap — Yfirfæranlegt rekstrartap — Rekstrartap, yfirfæranlegt — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Lögmætisreglan
Málavextir eru þeir, að kærendur töldu ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1989 og sættu því áætlun skattstjóra á skattstofnum við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1989. Skattstjóri bætti 25% álagi við hina áætluðu stofna samkvæmt heimildarákvæðum 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
Í framhaldi af kæru til skattstjóra, dags. 28. ágúst 1989, sendi umboðsmaður kærenda skattframtal þeirra árið 1989 til skattstjóra með bréfi, dags. 26. október 1989, og fór fram á, að framtalið yrði lagt til grundvallar álagningu án álags vegna síðbúinna skila.
Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 19. febrúar 1990, og féllst á að leggja framtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1989 að viðbættu 25% álagi á skattstofna vegna síðbúinna framtalsskila, sbr. heimildarákvæði 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981. Þá færði skattstjóri hreinar tekjur af rekstri sólbaðsstofu 242.724 kr. í reit 62 í tekjuframtali kæranda, A, enda væri ekki um yfirfæranlegt tap frá fyrra ári að ræða, sbr. úrskurð skattstjóra, dags. 13. mars 1989.
Af hálfu umboðsmanns kærenda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 8. mars 1990. Þess er krafist, að álag það, sem skattstjóri bætti við skattstofna vegna síðbúinna framtalsskila, verði niður fellt. Umboðsmaðurinn kveður kærendur hafa skilað gögnum í febrúar 1989 og verði þeim ekki kennt um síðbúin skil framtals heldur hafi annir hans valdið þeim. Þá fer umboðsmaðurinn fram á, að skattlagningu söluhagnaðar X 911.836 kr. verði frestað í samræmi við ákvæði 2. mgr. 13. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, en söluhagnaður þessi var tekjufærður á rekstrarreikningi X.
Með bréfi, dags. 8. mars 1991, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:
„Hvað varðar fyrri lið kærunnar er fallist á kröfu kæranda hvað varðar skattlagningu á söluhagnað með vísan til 1. mgr. 13. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt.
Hvað varðar síðari lið kærunnar skiluðu kærendur skattframtali 1988 þann 7. júlí 1988 og skattframtali 1989 var skilað 26. október 1989.
Með hliðsjón af framtalsskilum fyrri ára eins og þau eru rakin hér að framan svo og fyrirliggjandi skýringum verður að telja að kærendur hafi ekki fært að því rök að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að framtali 1989 væri skilað á réttum tíma. Gildir einu þótt fengin hafi verið aðstoð við framtalsgerðina. Er því gerð krafa um staðfestingu á álagsbeitingu skattstjóra.“
Eftir öllum atvikum þykir mega taka kröfu kærenda til greina að því er varðar niðurfellingu álags. Óumdeilt er að eingöngu hafi verið um sölu slíkra eigna að ræða, sem um ræðir í 11. gr. laga nr. 75/1981, og enginn ágreiningur er um fjárhæð söluhagnaðar. Krafa kærenda um frestun allrar söluhagnaðarfjárhæðarinnar stríðir gegn niðurlagsákvæði 1. mgr. 13. gr. nefndra laga. Með vísan til þess ákvæðis verður fjárhæð frestaðs hluta söluhagnaðar 242.724 kr.