Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 842/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 3. tl.   Reglugerð nr. 245/1963 — 29. gr. 1. mgr. c-liður  

Útistandandi viðskiptaskuldir — Tapaðar útistandandi viðskiptaskuldir — Sönnun — Sönnun fyrir því að útistandandi viðskiptaskuld sé töpuð — Tímaviðmiðun rekstrarútgjalda — Gjaldþrotaskipti — Þrotabú

Kærandi færði til frádráttar tekjum í skattskilum sínum gjaldárið 1989 sem tapaða útistandandi viðskiptaskuld 1.683.605 kr., sbr. 1. ml. 3. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Eigi féllst skattstjóri á færslu þessa með því að kærandi hefði ekki sýnt fram á, að skuldin væri sannanlega töpuð. Af hálfu kæranda er þess krafist fyrir ríkisskattanefnd, að úrskurði skattstjóra verði hnekkt og sú krafa rökstudd með því, að skuldari nefndrar fjárhæðar hefði orðið gjaldþrota aðallega vegna rekstraráfalla, sem hann varð fyrir á rekstrarárinu 1989. Er í kærugögnum gerð nánari grein fyrir því.

Með bréfi, dags. 21. desember 1990, gerir ríkisskattstjóri svofellda kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

Af hálfu kæranda þykir eigi hafa verið sýnt fram á, að honum sé heimilt að færa nefnda fjárhæð til frádráttar tekjum á árinu 1988, áður en skattur er á þær lagður vegna gjaldársins 1989. Með þessari athugasemd er úrskurður skattstjóra staðfestur.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja