Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 849/1991
Gjaldár 1989
Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. — 30. gr. 1. mgr. A-liður 1. tl. — 91. gr. 1. mgr. — 96. gr. 1. og 4. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 4. ml. — 116. gr. Auglýsing um skattmat ríkisskattstjóra tekjuárið 1988, liður 3.1.0.
Skattskyldar tekjur — Ökutækjastyrkur — Ökutækjakostnaður — Ökutækjaskýrsla — Frádráttarheimild — Sönnun — Akstur í eigin þágu — Akstur milli heimilis og vinnustaðar — Greinargerð vinnuveitanda um ökutækjastyrk — Ökutækjaskýrsla, ófullnægjandi — Akstursdagbók — Ökutækjastyrkur, uppgjörsaðferðir til skatts — Skattframtal, vefenging — Akstursvegalengdir — Endurákvörðun — Endurákvörðun skattstjóra — Endurákvörðunarheimild skattstjóra — Rökstuðningur — Rökstuðningur ákvarðana skattstjóra — Rökstuðningi áfátt — Skattmat ríkisskattstjóra — Matsreglur ríkisskattstjóra — Fylgigögn skattframtals
Málavextir eru þeir, að kærendur færðu sér til tekna ökutækjastyrki í reiti 22 í tekjuframtölum sínum, kærandi, A, 140.945 kr. og kærandi, B, 78.411 kr. Til frádráttar sem kostnað á móti styrkjum þessum færði kærandi, A, 128.000 kr. og kærandi, B, 72.208 kr. Skattframtalinu fylgdu greinargerðir um ökutækjastyrk og ökutækjarekstur (RSK 3.04) á árinu 1988. Var hér um sameiginlegar ökutækjaskýrslur kærenda að ræða vegna beggja bifreiða þeirra, er jöfnum höndum voru notaðar vegna atvinnuþarfa þeirra beggja og í einkaþágu.
Í framhaldi af bréfi sínu, dags. 13. október 1989, og að fengnu svarbréfi kærenda, dags. 18. október 1989, þar sem þau gerðu grein fyrir akstri í starfi, boðaði skattstjóri kærendum með bréfi, dags. 25. október 1989, lækkun frádráttar vegna kostnaðar á móti ökutækjastyrkjum. Tók skattstjóri fram, að engin grein hefði verið gerð fyrir akstri kæranda, B, í þágu D utan yfirlýsing um, að greiðslur væru miðaðar við 350 km mánaðarlegan akstur. Akstur þessi væri ósannaður og væri ráðgert að fella niður kostnað á móti ökutækjastyrknum. Greinargerð um akstur fyrir E væri mjög ótraustvekjandi. Miðaðist hún við einn mánuð og vegalengdir ekki í samræmi við eðlilegar akstursleiðir. Þá væri um að ræða akstur milli heimilis og vinnustaðar. Væri ráðgert að samþykkja kostnað miðað við 400 km akstur á mánuði. Í svarbréfi kærenda, dags. 31. október 1989, kom m.a. fram, að í stað akstursbóka og akstursskýrslna hefðu þau valið þá leið að gera grein fyrir kostnaði á móti ökutækjastyrkjum í greinargerðum þar um (RSK 3.04). Með bréfi, dags. 8. desember 1989, tilkynnti skattstjóri kærendum um endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárið 1989 vegna lækkunar frádráttar kostnaðar á móti ökutækjastyrknum. Skattstjóri felldi niður frádrátt kostnaðar á móti ökutækjastyrk hjá kæranda, B, vegna aksturs í þágu D, enda væri þessi kostnaður ósannaður. Við þetta lækkaði frádrátturinn úr 72.208 kr. í 8.966 kr. Frádráttur vegna aksturs í þágu F hf. stóð óhaggaður samkvæmt þessu. Þá lækkaði skattstjóri frádrátt kæranda, A, úr 128.000 kr. í 73.152 kr. er svaraði til kostnaðar vegna 400 km mánaðarlegs aksturs í þágu E. Fetti skattstjóri fingur út í akstursvegalengdir á yfirliti kæranda vegna aksturs í janúar 1988 og taldi hann kæranda ekki miða við stystu og hagkvæmustu leiðir svo sem skattstjórinn rakti staðfræðilega. Endurákvörðun skattstjóra var mótmælt af kærenda hálfu með kæru, dags. 2. janúar 1990, og þess krafist, að frádráttarfjárhæðum í reitum 32 yrði ekki breytt. Með kæruúrskurði, dags. 8. febrúar 1990, synjaði skattstjóri kröfu kærenda.
Af hálfu kærenda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 28. febrúar 1990, og þess krafist aðallega, að frádráttur kostnaðar á móti ökutækjastyrk standi óbreyttur en til vara er þess krafist, að fjöldi viðmiðaðra kílómetra lækki um 1/12 eða sem svarar til eins mánaðar vegna sumarleyfa.
Með bréfi, dags. 31. janúar 1991, hefur ríkisskattstjóri krafist þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið, er gefi tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.
Skattframtali kærenda fylgdu sameiginlegar greinargerðir um ökutækjastyrki og ökutækjarekstur á árinu 1988, en kærendur hafa hvort um sig notað þær tvær bifreiðar, sem eru í eigu þeirra jöfnum höndum til aksturs í þágu launagreiðenda sinna. Þannig úr garði gerðar veittu ökutækjaskýrslurnar ekki nauðsynlegar upplýsingar um akstur kærenda hvors um sig. Úr þessu hefur ekki verið bætt, en nokkrar upplýsingar um ætlaða ekna kílómetra í þágu vinnuveitenda hafa komið fram við rekstur málsins. Með vísan til þeirra upplýsinga og gagna málsins að öðru leyti þykir mega taka kröfur kærenda til greina, enda þykja breytingar skattstjóra ekki að öllu leyti nægum rökum studdar.