Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 861/1991

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981 — 2. gr. 1. mgr. 5. tl. — 7. gr. A-liður 1. tl. 1. mgr. — 73. gr. — 79. gr. — 80. gr. — 84. gr. — 91. gr. — 95. gr. 2. mgr.   Lög nr. 83/1989 — 3. gr. b-liður  

Dánarbú — Lögaðili — Sjálfstæður skattaðili — Sjálfstæð skattskylda — Sjálfstæð skattskylda dánarbús — Skattskylda — Skattskylda dánarbús — Lok skattskyldu — Lok skattskyldu dánarbús — Búskipti — Erfðafjárskýrsla — Skiptaráðandi — Skiptalok — Erfðafjárskattur — Innstæða á bankareikningi — Útistandandi skuldir — Skattskyld eign — Eign, skattskyld — Eignfærsla — Vantalin eign — Eign, vantalin — Eignarskattur — Sérstakur eignarskattur (Þjóðarbókhlöðuskattur) — Eignarskattsauki — Eignarskattsstofn — Tímaviðmiðun eignarskattsstofns — Eignarskattsstofn, tímaviðmiðun — Eignarskattsskylda — Framtalsskylda — Síðbúin framtalsskil — Áætlun skattstofna — Skattframtal í stað áætlunar — Dánarár — Skattskylda einstaklings — Skattskylda einstaklings á dánarári — Lok skattskyldu einstaklings — Skattskyldar tekjur — Ellilífeyrir — Lífeyrir — Lífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins — Lífeyrisgreiðslur

Málavextir eru þeir, að A andaðist í september 1989. Ekki barst framtal í framtalsfresti árið 1990 og byggðist álagning gjaldárið 1990 á áætlun þó þannig, að byggt var á tekju- og útsvarsstofni 233.001 kr. er voru ellilífeyristekjur í lifanda lífi. Útsvar á tekjur þessar 15.611 kr. greiddist með ónotuðum persónuafslætti. Þá nam álagður eignarskattur 42.000 kr. og sérstakur eignarskattur 8.750 kr. vegna eignarskattsstofns 3.500.000 kr. Í þeim efnum byggði skattstjóri á því, að bú hinnar látnu hefði staðið óskipt í árslok 1989.

Hinn 27. ágúst 1990 barst skattstjóra skattframtal árið 1990. Var umræddra tekna getið en engra eigna. Ljósrit erfðafjárskýrslu fylgdi, dags. 26. febrúar 1990. Með kæruúrskurði, dags. 15. október 1990, féllst skattstjóri á að leggja framtalið til grundvallar álagningu með þeirri breytingu, að hann færði til eignar eftirstöðvar söluverðs íbúðar hinnar látnu 3.000.000 kr. og áætlaða sparisjóðsinnstæðu 600.000 kr., sbr. framtalið sparifé á framtali árið 1989.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 15. nóvember 1990. Þess er krafist, að eignarskattar verði felldir niður á þeirri forsendu, að skipti hafi farið fram á árinu 1989. Á skattframtali erfingjans, B, hafi verið greint frá arfinum og ráðstöfun hans og því séu sömu eignir tvískattlagðar.

Með bréfi, dags. 25. mars 1991, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda kemur fram í gögnum málsins að skipti á dánarbúinu hafi ekki farið fram fyrr en 26. febrúar 1990 en ekki á árinu 1989 eins og umboðsmaður kæranda heldur fram í kæru til ríkisskattanefndar.“

Þau gögn ein, sem liggja fyrir í máli þessu til marks um skiptalok, eru ljósrit erfðafjárskýrslu dags. 26. febrúar 1990, er staðfest var af skiptaráðandanum í Reykjavík þann dag og ljósrit kvittunar fyrir greiðslu erfðafjárskatts þennan sama dag. Að svo vöxnu verður ekki talið, að sýnt hafi verið fram á, að skiptum hafi verið lokið fyrir árslok 1989. Verður því að synja kröfu kæranda, en skattstofnar hafa út af fyrir sig ekki sætt andmælum.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja