Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 874/1991

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 4. tl. — 96. gr. 1. og 3. mgr.  

Skattskyldar tekjur — Gjöf — Skattskyld gjöf — Gjöf, skattskyld — Afhending verðmæta til nákominna ættingja — Framfærslueyrir — Framfærslufé — Skattframtal, tortryggilegt — Skattframtal, vefenging — Rannsóknarregla — Málsmeðferð áfátt — Rökstuðningur — Rökstuðningur ákvarðana skattstjóra — Rökstuðningi áfátt

Máli þessu hefur verið skotið til ríkisskattanefndar vegna þeirrar ákvörðunar skattstjóra að færa kæranda til skattskyldra tekna sem gjöf 400.000 kr., er móðir kæranda tjáist hafa látið honum í té sem fjárhagslegan stuðning. Eigi gat kærandi um fjárhæð þessa í skattframtali sínu árið 1990, en lét skattstjóra í té þessar upplýsingar, er hann vefengdi framtal kæranda vegna afbrigðilega lágs lífeyris, sem það sýndi. Kærandi krefst þess, að fjárhæðin verði felld úr tekjuhlið framtalsins.

Með bréfi, dags. 25. mars 1991, gerir ríkisskattstjóri svofellda kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

Skattstjóri féllst á að leggja skattframtalið til grundvallar álagningu kæranda gjaldárið 1990 að fenginni skýringu hans á ætluðum afbrigðilega lágum framfærslueyri, en kærandi upplýsti m.a. um fjárframlög frá móður sinni 400.000 kr. Taldi skattstjóri bera að færa kæranda fjárhæð þessa til tekna sem skattskylda gjöf jafnframt því, að skattstjóri féllst á framtalið. Ekki verður talið, að þessi þáttur málsins hafi legið svo fyrir skattstjóra, að ótvírætt gæti leitt til þeirrar skattlagningar með þeim hætti, er skattstjóri ákvað. Að svo vöxnu er hin umdeilda tekjufærsla niður felld.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja