Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 880/1991
Gjaldár 1988
Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl. — 96. gr. 1. og 4. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 4. ml. Lög nr. 92/1987 — Ákvæði til bráðabirgða I
Íbúðarhúsnæði — Íbúðarlán — Vaxtagjöld — Vaxtafrádráttur — Vaxtaafsláttur — Íbúðarhúsnæði, öflun — Öflun íbúðarhúsnæðis — Eigin notkun — Eigin notkun íbúðarhúsnæðis — Íbúðarhúsnæði, eigin notkun — Notkun húsnæðis — Lögheimili — Vaxtagjöld til ákvörðunar vaxtaafsláttar — Áætlun — Áætlun vaxtagjalda — Vaxtagjöld, skipting á íbúðir — Rannsóknarregla — Málsmeðferð áfátt
I.
Málavextir eru þeir, að kærendur færðu 292.207 kr. sem vaxtagjöld til frádráttar í reit 87 í skattframtali sínu árið 1988. Var byggt á þessari fjárhæð við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988 og kærendum ákvarðaður vaxtaafsláttur í samræmi við það. Með bréfi, dags. 21. nóvember 1988, tilkynnti skattstjóri kærendum, að hann hygðist færa vaxtagjöld 247.101 kr. af láni frá sparisjóði [---] úr reit 87 í reit 88, enda væri aðeins heimilt að færa vexti af lánum vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota til frádráttar tekjum. Ljóst væri, að kærendur nýttu ekki bæði íbúð að A, og B, til eigin nota. Í svarbréfi umboðsmanns kærenda, dags. 1. desember 1988, var staðhæft, að kærendur notuðu íbúðirnar jöfnum höndum til eigin nota. Með bréfi, dags. 20. desember 1988, boðaði skattstjóri kærendum fyrrnefnda breytingu og niðurfellingu vaxtaafsláttar. Því var mótmælt af hálfu umboðsmanns kærenda í bréfi, dags. 1. febrúar 1989. Var gerð grein fyrir högum kærenda, búskaparlokum að D, og sölu jarðarinnar að undanskildu gömlu íbúðarhúsi þar, er kærendur notuðu sem sumarbústað. Kærendur hefðu skráð lögheimili að D þrátt fyrir fasta búsetu að B, en tilfærð vaxtagjöld til frádráttar væru að mestu vegna kaupa á þeirri íbúð. Þá ættu kærendur litla íbúð að A, er þau hefðu til eigin nota m.a. vegna ferða þangað til lækninga.
II.
Með bréfi, dags. 3. mars 1989, tilkynnti skattstjóri kærendum, að vaxtagjöld öll í reit 87 í framtali 1988 292.207 kr. hefðu verið flutt í reit 88 og vaxtaafsláttur felldur niður. Forsendur voru þær, að vextir vegna íbúðarkaupa að B, væru ekki frádráttarbærir í skilningi 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, enda hefðu kærendur átt tvær íbúðir fyrir við kaupin á íbúð þessari. Í kæru umboðsmanns kærenda, dags. 29. mars 1989, var breytingu skattstjóra mótmælt og þess krafist, að íbúðirnar að A og B yrðu taldar til eigin nota í skilningi nefnds lagaákvæðis og vaxtagjöld viðurkennd sem frádráttarbær í samræmi við það. Með kærunni lét umboðsmaðurinn fylgja vottorð oddvita Y-hrepps, dags. 30. mars 1989, um ástand og notkun íbúðarhúss kærenda að D. Kom fram, að húsið hefði aðeins verið notað á sumrin og væri ekki íbúðarhæft á vetrin. Með kæruúrskurði, dags. 16. mars 1990, hafnaði skattstjóri því sjónarmiði kærenda að báðar íbúðirnar, þ.e. að A og B, væru til eigin nota. Þá sagði svo:
„Fallist er á að sú þeirra sem eigendur búa í sé til eigin nota. Ekki liggur fyrir skipting vaxta á hverja íbúð og verða því kr. 120.000.- af vöxtunum heimilaðar til útreiknings vaxtaafsláttar.“
III.
Af hálfu umboðsmanns kærenda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 10. apríl 1990, og þess krafist, að vaxtagjöld 247.101 kr. vegna íbúðar að B, og 45.106 kr. vegna íbúðar að A, alls 292.207 kr. komi til útreiknings vaxtaafsláttar. Er vísað til þess, að túlkun skattstjóra styðjist ekki við lög. Jafnframt er til viðmiðunar vísað til ákvæða 16. gr. laga nr. 75/1981 um stærðarmörk og að íbúðir kærenda séu innan þeirra marka.
IV.
Með bréfi, dags. 5. desember 1990, hefur ríkisskattstjóri krafist þess í málinu, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
V.
Skattstjóri boðaði kærendum niðurfellingu vaxtagjalda að fjárhæð 247.101 kr., sbr. bréf hans, dags. 21. nóvember 1988 og 20. desember 1988, en óvefengt er, að þau vaxtagjöld séu vegna kaupa á B. Hins vegar felldi skattstjóri niður með öllu tilfærð vaxtagjöld 292.207 kr. með endurákvörðun sinni hinn 3. mars 1989. Í hinum kærða úrskurði, dags. 16. mars 1990, áætlaði skattstjóri kærendum hinsvegar 120.000 kr. sem vaxtagjöld til ákvörðunar vaxtaafsláttar á þeim forsendum, að kærendur ættu rétt til slíks vegna þeirrar íbúðar, sem þau búi í. Ekki kemur fram af hálfu skattstjóra, hvora íbúðina hann taldi vera til eigin nota og ekki krafði hann kærendur um skiptingu vaxtagjalda á íbúðirnar tvær, sem þó hefði verið tilefni til miðað við forsendur hans. Fram hefur komið við meðferð málsins hver sú skipting er. Eins og málsmeðferð skattstjóra hefur verið háttað þykir verða að ómerkja hina kærðu breytingu hans á vaxtagjöldum til frádráttar. Af þeim sökum er krafa kærenda tekin til greina.