Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 881/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 1. tl.  

Rekstrarkostnaður — Slysatrygging — Slysatryggingariðgjald — Slysatrygging atvinnurekandans sjálfs — Kostnaður vegna atvinnurekandans sjálfs — Persónulegur kostnaður — Frádráttarheimild — Eigin atvinnurekstur — Löggilt iðngrein — Iðnaður — Múraraiðn

Málavextir eru þeir, að kærandi, sem stundar sjálfstæða atvinnu sem múrarameistari í félagi við annan, lét fylgja skattframtali sínu árið 1989 sameiginlegan ársreikning vegna þessarar starfsemi árið 1988. Meðal gjaldaliða voru slysatryggingar 50.076 kr.

Með bréfi, dags. 27. júlí 1989, tilkynnti skattstjóri kæranda, að gjaldfærð slysatrygging hefði verið felld niður og hreinar tekjur af atvinnurekstri að hlut kæranda (helmingshlut) hækkaðar af þeim sökum eða um 25.038 kr. Skattstjóri tók fram, að slysatrygging atvinnurekandans sjálfs teldist ekki gjöld til öflunar tekna í atvinnurekstri, sbr. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Af hálfu umboðsmanns kæranda var þessari breytingu skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 29. ágúst 1989, og þess krafist, að umræddur gjaldaliður yrði látinn óhreyfður standa, enda væri um frádráttarbæran rekstrarkostnað að ræða samkvæmt 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981. Væri umrædd slysatrygging til þess fallin að tryggja ákveðnar tekjur yrði viðkomandi fyrir slysi, er hugsanlega skerti atvinnurekstrartekjur hans. Ætti kærandi ekki kost á annarri leið til að tryggja afkomu sína en umrædd slysatrygging veitti honum. Með kæruúrskurði, dags. 2. apríl 1990, synjaði skattstjóri kröfu kæranda, enda væri ekki um rekstrarkostnað að ræða í skilningi 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Tók skattstjóri m.a. fram, að hin umdeildu slysatryggingariðgjöld væru alfarið vegna kæranda sjálfs. Iðgjaldsgreiðslan hefði ekki áhrif á, hvort eða hvaða tekjur kæmu inn í rekstri kæranda og hún væri ekki innt af hendi í þeim tilgangi heldur væri tilgangurinn að tryggja rekstraraðila persónulegar tekjur yrði hann fyrir slysi.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 17. apríl 1990, og er þess krafist, að hinn umdeildi gjaldaliður verði tekinn til greina. Er bent á, að kærandi starfi við iðngrein, þar sem slys séu tíð og seinkun á afhendingu verks vegna slyss gætu skapað bótaskyldu. Útgjöld til þess að takmarka tjón vegna starfseminnar hljóti að teljast rekstrarkostnaður samkvæmt 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Trygging á þeim þáttum, sem öll framleiðsla byggist á, vinnuafli, vélum og fasteignum, sé gerð með það fyrir augum að takmarka tjón, er stafi af því, að einhver framleiðsluþáttanna verði óvirkur. Vægi þáttanna sé mismunandi eftir tegund starfsemi og umfangi. Hjá kæranda sé eigið vinnuafl mikilvægasti framleiðsluþátturinn.

Með bréfi, dags. 8. janúar 1991, hefur ríkisskattstjóri krafist þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Fallist er á kröfu kæranda í máli þessu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja