Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 882/1991
Gjaldár 1989
Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. — 30. gr. 1. mgr. A-liður 1. tl. — 91. gr. 1. mgr. — 116. gr. Auglýsing um skattmat ríkisskattstjóra tekjuárið 1988, liður 3.1.0.
Skattskyldar tekjur — Ökutækjastyrkur — Ökutækjakostnaður — Ökutækjaskýrsla — Greinargerð vinnuveitanda um ökutækjastyrk — Frádráttarheimild — Sönnun — Akstur í eigin þágu — Akstur milli heimilis og vinnustaðar — Akstursvegalengdir — Akstur milli heimilis og vinnustaðar, starfsfélagar skiptast á — Matsreglur ríkisskattstjóra — Skattmat ríkisskattstjóra — Fylgigögn skattframtals
I.
Málavextir eru þeir, að í reit 22 í skattframtali sínu árið 1989 færði kærandi sér til tekna ökutækjastyrk 309.727 kr. frá vinnuveitanda sínum, X. Til frádráttar í reit 32 í framtalinu sem kostnað á móti ökutækjastyrknum færði kærandi 242.040 kr. Skattframtalinu fylgdi greinargerð kæranda um ökutækjastyrk og ökutækjarekstur á árinu 1988 (RSK 3.04). Var heildarakstur þar talinn 30.881 km og þar af akstur í þágu vinnuveitanda 19.921 km. Í þessari kílómetratölu var 70% af akstri milli heimilis og vinnustaðar eða 9.240 km, en sá akstur var af kæranda hálfu talinn alls 13.200 km. Annar akstur í eigin þágu var talinn 7.000 km. Kærandi gat þess í athugasemdum, að með tilliti til hinnar miklu vegalengdar að vinnustað og þar eð engar almenningssamgöngur væru í boði skipti hann akstri milli heimilis og vinnustaðar með þessum hætti.
Með bréfi, dags. 18. maí 1989, krafði skattstjóri kæranda um ítarlega greinargerð um akstur í þágu vinnuveitanda, þar á meðal um helstu aksturstilefni, tíðni akstursferða og vegalengdir á akstursleiðum. Gera skyldi grein fyrir skiptingu aksturs milli vinnuveitanda og í eigin þágu og óskað var skýringa á tilfærðum aksturskílómetrum milli heimilis og vinnustaðar, er þættu óeðlilega fáir, og farið fram á útreikning á þeim þætti akstursins. Þá skyldi gerð grein fyrir því, hvernig ökutækjastyrkur væri ákvarðaður og hvað hann tæki mið af mörgum kílómetrum að frátöldum akstri milli heimilis og vinnustaðar. Af hálfu kæranda var bréfi þessu svarað með bréfi, dags. 27. maí 1989, og fylgdi því staðfesting framkvæmdastjóra verkfræðideildar X, dags. 2. febrúar 1989. Kærandi gerði grein fyrir umspurðum atriðum bæði akstri í starfinu sjálfu og tilfærðum akstri milli heimilis og vinnustaðar. Varðandi síðarnefnda atriðið kom fram, að sá akstur var reiknaður fyrir 120 daga, enda skiptust kærandi og vinnufélagi hans á um akstur milli ferða. Jafnframt notuðu tveir sömu bifreiðina á vinnustað og væri sá akstur kæranda 10.872 km. Við bættist 70% af 13.200 km akstri kæranda milli heimilis og vinnustaðar eða 9.240 km. Væri akstur í þágu vinnuveitanda því alls 20.112 km (19.921 km á framtali). Með bréfi, dags. 26. júlí 1989, tilkynnti skattstjóri kæranda, að áætluð væri lækkun frádráttar vegna kostnaðar í reit 32 á móti ökutækjastyrk. Væri frádrátturinn lækkaður um 155.000 kr. Byggði skattstjóri á því, að ekki lægju fyrir upplýsingar um hvað aksturssamningur tæki mið af mörgum kílómetrum.
II.
Af hálfu kæranda var þessari lækkun mótmælt í kæru, dags. 28. ágúst 1989, og fylgdi henni aksturssamningur milli kæranda og X. Í samningnum var tekið fram að um mánaðarlegan ökutækjastyrk 21.421 kr. væri að ræða. Taldi kærandi þessa fjárhæð jafngilda 17.000 km akstri á ári samkvæmt sérstöku kílómetragjaldi ríkisins. Krafðist kærandi þess, að frádráttur í reit 32 yrði látinn standa óhaggaður með skírskotun til skýringa sinna. Með kæruúrskurði, dags. 26. mars 1990, synjaði skattstjóri kröfu kæranda. Taldi skattstjóri, að túlka yrði aksturssamninginn svo, að hluti af honum væri greiðsla vegna aksturs til og frá vinnustað. Allur kostnaður vegna aksturs til og frá vinnustað teldist til einkaútgjalda samkvæmt reglum ríkisskattstjóra og því ekki frádráttarbær. Þegar regla þessi væri höfð í huga og hliðsjón höfð af heildarakstri bifreiðarinnar (30.881 km) væri ljóst, að sá frádráttur, sem kærandi hefði þegar fengið 87.040 kr., væri ríflegri en efni stæðu til.
III.
Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 21. apríl 1990. Kærandi mótmælir þeirri reglu ríkisskattstjóra, að allur akstur milli heimilis og vinnustaðar skuli talinn í einkaþágu burtséð frá aðstæðum. Rökstyður kærandi þetta nánar. Þá telur kærandi úrskurð skattstjóra órökstuddan svo sem hann reifar nánar. Kærandi skírskotar til framlagðra gagna og skýringa sinna og krefst þess, að frádráttur á móti ökutækjastyrk verði látinn óhreyfður standa eins og hann var tilgreindur í framtali.
IV.
Með bréfi, dags. 8. janúar 1991, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, sbr. úrskurð ríkisskattanefndar nr. 795/1990, enda hafi kærandi ekki mótmælt því, að um akstur til og frá vinnu sé að ræða.
V.
Skv. 1. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, má draga frá tekjum útgjöld að hámarki móttekinni fjárhæð ökutækjastyrkja vegna slíks kostnaðar, sem hér um ræðir, og eru í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra. Af hálfu kæranda hefur verið gerð fullnægjandi grein fyrir hinum umdeilda frádráttarlið og hefur hann lagt fram tilskilin gögn. Skv. matsreglum ríkisskattstjóra telst allur akstur milli heimilis og vinnustaðar í eigin þágu. Verður því að synja kröfu kæranda að því er þann þátt varðar. Hins vegar þykja ekki efni til annars en byggja fjárhæð frádráttar á kílómetrafjölda þeim sem kærandi hefur gert grein fyrir að stafi af akstri í starfi sínu. Þykir þá rétt að miða við 10.872 km, sbr. bréf kæranda, dags. 27. maí 1989, til skattstjóra. Verður fjárhæð frádráttar skv. þessu 132.095 kr.