Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 891/1991
Gjaldár 1989
Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 1. tl. — 52. gr. 4. tl. — 73. gr. — 95. gr. 2. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 2. ml. Lög nr. 19/1989 — 1. gr. Auglýsing ríkisskattstjóra nr. 6/1989, dags. 23. febrúar 1989, birt í 28. tbl. Lögbirtingablaðs 1989, útg. 8. mars 1989.
Síðbúin framtalsskil — Áætlun — Áætlun skattstofna — Áætlun tekjuviðbótar — Tekjuviðbót áætluð — Áætlun eignaviðbótar — Eignaviðbót áætluð — Skattframtal í stað áætlunar — Skattframtal tekið sem kæra — Eignarleiga — Kaupleiga — Fjármögnunarleiga — Eignarleigugreiðslur — Fjármögnunarleiga, tilhögun skattskila — Rekstrarkostnaður — Bifreið — Fólksbifreið — Eignarleigugreiðslur, gjaldfærslutakmörkun vegna fólksbifreiða — Eignfærsla — Skattskyld eign — Eign, skattskyld — Eignarréttur — Frávísun — Vanreifun — Frávísun vegna vanreifunar — Framtalsháttur
I.
Málavextir eru þeir, að af hálfu kæranda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1989. Við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1989 sætti kærandi því áætlun skattstjóra á skattstofnum.
Skattframtal kæranda árið 1989 hafði borist skattstjóra hinn 29. júní 1989 og í kæru, dags. 29. ágúst 1989, krafðist umboðsmaður kæranda þess, að hið innsenda skattframtal yrði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda í stað áætlunar. Þá var þess farið á leit, að álagi vegna síðbúinna framtalsskila yrði ekki beitt.
Með bréfi, dags. 14. nóvember 1989, krafði skattstjóri kæranda um greinargerð fyrir greiðslum til X hf. á árunum 1987 og 1988 vegna fjármögnunarleigu, sbr. 4. tl. 52. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Gerð skyldi grein fyrir því, hvernig þessar greiðslur væru færðar í bókhaldinu. Ekki yrði annað séð en bifreið væri færð sem keypt bifreið og síðan færð skuld við X hf. sem langtímaskuld en samkvæmt samningi um fjármögnunarleigu væri um hvorugt að ræða. Í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 5. desember 1989, kom fram, að umrædd bifreið hefði verið eignfærð hjá kæranda og á móti færð heildarskuldbinding kæranda samkvæmt samningi um fjármögnunarleigu. Afborganir væru færðar til lækkunar á skuldinni. Mismunur á stofnverði bifreiðarinnar og heildarskuldarinnar væri eignfærður sem fyrirframgreiddir vextir og þeir gjaldfærðir á afborgunartíma samningsins. Í þessu tilfelli sem fleirum væri um að ræða kaup með eignarréttarfyrirvara. Væri þessi háttur á hafður til þess að tryggja á sem bestan hátt hag lánveitanda. Að samningstíma loknum flyttist eignarrétturinn til kaupanda gegn greiðslu sem væri í mesta lagi örfá prósent af upphaflegu kaupverði. Ekki ætti að skipta máli um eignfærslu á bifreiðinni, hvort kaupandi tæki bankalán til 5 ára og greiddi fyrir bifreiðina þannig eða semdi við X hf. um að fjármagna kaupin með þeim hætti, sem samningurinn greindi.
Hinn 9. febrúar 1990 tók skattstjóri kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði. Segir svo í úrskurði þessum:
„Skattframtal kæranda þykir mega leggja til grundvallar nýrri álagningu opinberra gjalda 1989, með þeirri breytingu, að áætlaðar viðbótartekjur kr. 1.000.000 og viðbótareign sama fjárhæð vegna ófullnægjandi upplýsinga um bókfærslu fjármögnunarleigu. Þér virðist ekki gera greinarmun á fjármögnunarleigusamningi og kaupleigusamningi. Lýsing sú er kemur fram í bréfi umboðsmanns yðar 05.12. 1989 á við um kaupleigusamninga, en í því tilviki sem hér um ræðir er um fjármögnunarleigusamning að ræða. Í slíku tilviki öðlast leigutaki aldrei kauprétt á hinum leigða hlut, heldur ber að skila honum í lok leigutíma, en á þó rétt á framlengingu samnings gegn lækkaðri leigu. Í yðar tilviki er grunnleiga eftir framlengingu kr. 11.094 í stað kr. 37.824 á upphaflegum leigutíma.
Tap til næsta árs verður kr. 8.166.835.“
II.
Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 9. mars 1990. Í bréfi, dags. 9. apríl 1990, gerði umboðsmaðurinn grein fyrir kröfum sínum og rökstuðningi og er þess krafist, að þær viðbótartekjur og sú viðbótareign, sem skattstjóri gerði kæranda, verði niður fellt. Umboðsmaðurinn vísar til þess, að fram hafi komið af hans hálfu hvernig færslum í bókhaldi vegna umrædds fjármögnunarleigusamnings hafi verið háttað. Síðan segir svo í bréfi umboðsmannsins:
„Skattstjóri tekur fram í bréfi sínu að þar sem um fjármögnunarleigusamning sé að ræða þá öðlist leigutaki aldrei eignarrétt á hinu leigða, aðeins rétt á framlengingu samnings gegn lækkaðri leigu. Ekki er mér ljóst hvort hér er um rökstuðning við úrskurðinn að ræða eða skattstjóri er að upplýsa umbjóðanda minn um eðli fjármögnunarleigusamninga. Hvort heldur sem er þá er þessi fullyrðing skattstjóra röng. Við gerð fjármögnunarleigusamninga er yfirleitt gert sérstakt samkomulag um að leigutaki hafi kost á að kaupa leigumuninn gegn greiðslu sem er 3% af framreiknuðu grunnverði samningsins. Slíkt samkomulag var gert í því tilfelli sem hér um ræðir og er meginforsenda fyrir eignfærslu bifreiðarinnar. Meðfylgjandi er ljósrit af bréfi sem X hf. sendir viðskiptavinum sínum við lok fjármögnuleigusamninga. Bréfið skýrir sig sjálft.“
III.
Með bréfi, dags. 18. desember 1990, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:
„Af þeim gögnum sem fyrir liggja í máli þessu verður eigi annað ráðið en að um fjármögnunarleigusamning sé að ræða og hefur umboðsmaður kæranda ekki með neinum hætti sýnt fram á annað. Er kæranda samkvæmt því eigi heimil eignfærsla umræddrar bifreiðar sem og fyrning hennar, heldur gilda ákvæði 4. tl. 52. gr. laga nr. 75/1981 um greiðslur hans vegna fjármögnunarleigunnar. Og þar sem ekki hefur verið upplýst af kæranda hálfu hverju greiðslur þessar nemi, er þess krafist að látið verði við mat skattstjóra sitja í þessu efni.“
IV.
Í málinu liggur fyrir ljósrit af samningi um fjármögnunarleigu milli X hf. og kæranda í máli þessu vegna umræddrar bifreiðar, dags. 14. febrúar 1987. Samkvæmt samningnum er lágmarkssamningstími 16. janúar 1987 til 15. febrúar 1992 og mánaðarleg grunnleigugreiðsla ákveðin 37.824 kr. Þá er framlengingarákvæði eftir lok lágmarksleigutímans og grunnleigugreiðsla 11.094 kr. mánaðarlega vegna framlengingartímabils. Með vísan til ákvæða samnings þessa, sbr. og 1. gr. laga nr. 19/1989, um eignarleigustarfsemi, þar sem samningstegund og samningsaðstaða í slíkum samningi, sem hér um ræðir, er skilgreind, þykja skattskil kæranda að því er mál þetta varðar ekki fá staðist. Af hálfu kæranda hefur og ekki verið gerð grein fyrir gjaldfærslu greiðslna vegna umrædds samnings og ekki leidd fram fjárhæð í samræmi við ákvæði 4. tl. 52. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, sbr. og auglýsingu ríkisskattstjóra nr. 6/1989, dags. 23. febrúar 1989. Að svo vöxnu er kærunni vísað frá, enda þykir ekki sérstakt tilefni til þess að hagga við áætlunum skattstjóra.