Úrskurður yfirskattanefndar

  • Tækifærisgjöf
  • Málsmeðferð áfátt

Úrskurður nr. 38/1997

Gjaldár 1994

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 4. tölul., 99. gr. 1. mgr.  

Kærandi tilgreindi á skattframtali sínu að hann og eiginkona hans hefðu fengið að gjöf landspildu í tilefni af fertugsafmæli þeirra. Skattstjóri tilkynnti kæranda að hann hygðist færa honum matsverð landspildunnar til tekna. Kærandi mótmælti og gaf skýringar m.a. á tilefni og verðmæti gjafarinnar. Taldi kærandi að um tækifærisgjöf væri að ræða sem ekki bæri að skattleggja. Skattstjóri hratt boðaðri breytingu í framkvæmd án þess að upplýsa um forsendur hennar eða taka afstöðu til framkominna skýringa. Skattstjóri staðfesti síðan ákvörðun sína í kæruúrskurði, en féllst á lækkun tekjufærslunnar. Yfirskattanefnd féllst á kröfur kæranda með vísan til annmarka á málsmeðferð skattstjóra, þar sem hann hefði ekki rökstutt ákvörðun sína, skýringa kæranda og jákvæðrar kröfugerðar ríkisskattstjóra.

I.

Málavextir eru þeir að á skattframtali kæranda árið 1994 var færð til eignar í reit 10.1 á framtalinu lóð úr landi X í Y-hreppi. Lóðamat var talið 278.500 kr. en í athugasemdum á forsíðu framtalsins kom fram að kærandi og eiginkona hans hefðu fengið ½ hektara úr landi X að gjöf í tilefni af fertugsafmælum þeirra.

Með bréfi, dags. 20. september 1994, tilkynnti skattstjóri kæranda að fyrirhugað væri að færa honum andvirði framangreindrar lóðar til tekna eða 278.500 kr. samkvæmt eignfærslu á skattframtali kæranda.

Kærandi mótmælti tekjufærslunni með bréfi, dags. 16. október 1994. Fram kom í bréfi kæranda að haustið 1992 hefðu tengdaforeldrar hans og mágur gefið kæranda og svila hans eins hektara spildu úr landi jarðarinnar X í tilefni af merkisafmælum í fjölskyldunni. Afsal hefði hins vegar ekki verið gefið út fyrr en haustið 1993. Kærandi kvað spilduna vera óræktað mýrlendi sem staðsett væri í miðju landi jarðarinnar án nokkurra hlunninda og væri hafin bygging sumarbústaðar á spildunni. Ekki væri um skipulagða sumarhúsabyggð að ræða og væri því ekki hægt að meta spilduna til sama verðs og jafnstórar spildur á skipulögðu svæði eins og Fasteignamat ríkisins hefði gert. Kærandi kvaðst hafa fært spilduna til eignar samkvæmt fasteignamati en óskað hefði verið eftir endurskoðun á því mati. Taldi kærandi ljóst að í fyrsta lagi væri fasteignamat spildunnar of hátt metið og í öðru lagi að gjöf þessi myndaði ekki stofn til útreiknings tekjuskatts þar sem hún félli undir undanþáguákvæði í 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981.

Skattstjóri tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 28. september 1995, að opinber gjöld hans gjaldárið 1994 hefðu verið endurákvörðuð. Hefði honum verið færð til tekna gjöf í formi landspildu úr landi X. Miðað hefði verið við fasteignamat spildunnar, eða 278.500 kr., þar sem ekki hefðu borist nein gögn um breytt fasteignamat.

Kærandi kærði endurákvörðunina með kæru til skattstjóra, dags. 26. október 1995, og gerði þá kröfu aðallega að endurákvörðunin yrði felld úr gildi en til vara að tekjufærslan yrði miðuð við nýtt fasteignamat spildunnar. Áréttaði kærandi að tilefni gjafarinnar hefði verið merkisafmæli í fjölskyldu afsalsgjafa. Svili hans hefði átt fjörutíu og fimm ára afmæli en sjálfur hefði hann, eiginkona hans og mágkona öll átt fertugsafmæli um það leyti sem gjöfin var gefin. Fasteignamat spildunnar væri samkvæmt nýju mati 314.000 kr. Þar sem gjafþegar væru fjórir væri hlutur hvers um sig 78.500 kr. en þar sem gefendur hefðu verið þrír hefði verðmæti gjafarinnar einungis numið 26.166 kr. hjá hverjum gjafþega. Með kærunni fylgdi ljósrit af gjafaafsali, dags. 31. mars 1993, þar sem fram kemur að þrír eigendur X afsali úr eignarlandi sínu einum hektara úr óskiptri lóð jarðanna X I og X II í Y-hreppi. Samkvæmt afsalinu eru afsalshafar A og B og C og D.

Með kæruúrskurði, dags. 11. desember 1995, féllst skattstjóri á að leggja nýtt fasteignamat spildunnar til grundvallar skattlagningu. Skattstjóri féllst ekki á að um hefði verið að ræða tækifærisgjöf sem undanþegin væri skattskyldu. Ekki yrði annað séð en að afhending lands, sem metið væri á 157.000 kr. samkvæmt fasteignamati, væri umfram þau verðmæti sem almennt tíðkaðist um slíkar gjafir.

II.

Með kæru, dags. 6. janúar 1996, skaut kærandi kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar. Gerir kærandi þá aðalkröfu að úrskurður skattstjóra verði felldur úr gildi, en til vara krefst hann þess að tekjuskattur verði ákvarðaður hjá hverjum hinna fjögurra gjafþega fyrir sig. Í kærunni áréttar kærandi þær málsástæður og rök sem fram hafa komið af hans hálfu í málinu. Bendir hann á að kæruúrskurður skattstjóra standist ekki ákvæði 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, um rökstuðning kæruúrskurða. Kærandi byggir kröfu sína um undanþágu skattskyldu gjafarinnar á niðurlagsákvæði 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981. Þá vísar hann til fyrirmæla 5. gr. um að hjón skuli vera sjálfstæðir skattaðilar og 1. tölul. 1. mgr. 63. gr. sömu laga um sérsköttun þeirra tekna hjóna sem um ræðir í A-lið 7. gr. laganna.

Með bréfi, dags. 26. apríl 1996, hefur ríkisskattstjóri lagt fram fyrir hönd gjaldkrefjenda svofellda kröfugerð í málinu:

„Ágreiningsefni þessa máls er það hvort afhending 1 hektara lands til fjögurra einstaklinga teljist vera tækifærisgjöf í skilningi 4. töluliðar A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981. Við heildstætt mat á því hvort slík eignaafhending teljist vera tækifærisgjöf eða ekki er í mörg horn að líta. Í fyrsta lagi er rétt að kanna raunverulegt verðmæti gjafarinnar. Í þessu tilfelli er um 1 hektara landspildu að verðmæti kr. 314.000 að ræða. Gjafþegar eru fjórir talsins og fær því hver ¼ hektara að verðmæti kr. 78.500. Þá er einnig á það að líta að gjöfin er frá þremur aðilum eða um það bil kr. 26.167 frá hverjum. Ennfremur verður að hafa tengsl gefenda og gjafþega í huga, en í þessu tilfelli er um náin skyldmenni að ræða. Hvað tilefni varðar þá má vissulega fallast á að ákveðnum tímamótum var náð hjá gjafþegunum og því alls ekki óeðlilegt að þau fengju gjafir. Með tilliti til þessara atriða fellst ríkisskattstjóri á það með kæranda að verðmæti þessara tækifærisgjafa sé ekki meira en almennt gerist um slíkar gjafir og því sé ekki um skattskyldar tekjur að ræða hjá viðtakanda, sbr. 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981.

Þá vill ríkisskattstjóri gera athugasemd við það hvernig skattalega var staðið að tekjufærslu gjafarinnar. En ljóst er að skv. 1. tölul. 1. mgr. 63. gr., sbr. 5. gr. laga nr. 75/1981 þá bar skattstjóra að telja fram tekjur hjá hverjum einstaklingi fyrir sig en ekki hjá því hjóna sem hærri hefur tekjur."

III.

Tildrög þessa máls voru þau að skattstjóri tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 20. september 1994, að fyrirhugað væri að endurákvarða opinber gjöld kæranda gjaldárið 1994 og færa honum til tekna andvirði gjafar þeirrar sem um er fjallað í máli þessu. Kærandi andmælti fyrirhuguðum breytingum og lét skattstjóra í té skýringar m.a. á tilefni og verðmæti gjafarinnar. Skattstjóri hratt breytingu sinni í framkvæmd með tilkynningu, dags. 28. september 1995. Ekki kom fram í tilkynningu skattstjóra á hvaða forsendum breytingin væri gerð og tók skattstjóri enga afstöðu til þeirra skýringa sem fram höfðu komið af hálfu kæranda. Með kæru til skattstjóra ítrekaði kærandi málsástæður sínar og lagarök. Skattstjóri staðfesti ákvörðun sína með kæruúrskurði, dags. 11. desember 1995, en féllst þó á að leggja til grundvallar ákvörðun sinni nýtt mat á andvirði gjafarinnar. Það var fyrst í kæruúrskurði sem skattstjóri færir fram nokkur rök fyrir framangreindum breytingum, en tók þó ekki til rökstuddrar úrlausnar þau sjónarmið og þær kröfur sem kærandi hafði fært fram í málinu. Að virtum þeim ágöllum sem voru á málsmeðferð skattstjóra í máli þessu og með vísan til skýringa kæranda og kröfugerðar ríkisskattstjóra þykir bera að taka aðalkröfu kæranda til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja