Úrskurður yfirskattanefndar
- Vaxtabætur
- Lán milli tengdra aðila
Úrskurður nr. 679/1997
Gjaldár 1995
Lög nr. 75/1981, 6. gr., 69. gr. C-liður, 82. gr. 1. mgr. Lög nr. 68/1984, 38. gr. 2. mgr., 39. gr.
Ófjárráða sonur kæranda fékk greiddar slysabætur frá tryggingafélagi á árinu 1994. Kærandi kvaðst hafa fengið hluta fjárins að láni vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Taldi hún bera að færa skuldina meðal slíkra lána í skattframtali sínu árið 1995 og sömu fjárhæð til eignar á skattframtalinu sem eign barns, en tilgreiningar með þessum hætti höfðu þýðingu við ákvörðun vaxtabóta kæranda. Skattstjóri hafnaði því að um skuldasamband gæti verið að ræða í þessu tilviki. Yfirskattanefnd tók fram að samkvæmt lögræðislögum var unnt að lána fé sonar kæranda, enda væri lagaskilyrðum fyrir slíkum lánveitingum fullnægt. Nefndin synjaði hins vegar kröfu kæranda m.a. af þeirri ástæðu að hin umþrætta lántaka var ekki talin hafa farið fram á árinu 1994.
I.
Málavextir eru þeir að í athugasemdadálki á skattframtali kæranda árið 1995 var að finna svohljóðandi upplýsingar: „Fengin eingreiðsla frá C hf. vegna slyss sem sonur framteljanda, B, varð fyrir þann 24.8.1990 kr. 985.252,-. Framteljandi tekur að láni hjá B kr. 850.000,- sem tryggt er með þinglýstri yfirlýsingu í X-götu". Í skattframtalinu var umrædd fjárhæð hvorki talin til eignar né skuldar og engar upplýsingar voru þar um eignir barna. Við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1995 voru kæranda ákvörðuð gjöld samkvæmt innsendu framtali að gerðri breytingu sem ekki er ágreiningur um.
Með kæru til skattstjóra, dags. 17. ágúst 1995, óskaði umboðsmaður kæranda breytinga á skattframtali kæranda árið 1995. Skuld samkvæmt framangreindri athugasemd hefði ekki verið færð á bakhlið framtalsins, hvorki í kafla 10.6 né með eignum barna í kafla 10.2. Fór umboðsmaðurinn fram á að fjárhæðin yrði færð í nefnda kafla framtalsins og ákvörðun vaxtabóta til kæranda endurskoðuð í framhaldi af því. Kærunni fylgdi ljósrit af skjali, dags. 26. febrúar 1995, sem bar yfirskriftina „Yfirlýsing og tryggingarbréf ". Texti skjalsins er svohljóðandi:
„Ég undirrituð, A, viðurkenni að hafa fengið að láni kr. 850.000, – áttahundruð og fimmtíuþúsund krónur – hjá syni mínum, B, sama stað, af tjónabótum sem hann hefur fengið greiddar frá C h.f. sbr. uppgjör dags. 16.03.1994.
Fjármuni þessa lofa ég að varðveita verðtryggða, en án vaxta, þar til B verður fjárráða eða þar til hann eftir það gerir kröfu til fjárins. Til frekari tryggingar skal við það miðað að verðmæti þessara fjármuna verði aldrei minna en 8,18% af heildarsöluverðmæti húseignarinnar að X-götu samkv. mati tveggja viðurkenndra fasteignasala. Þær breytingar og endurbætur sem gerðar kunna að verða á framangreindri húseign skulu einnig standa sem trygging fyrir fjármunum þessum og skal skuldareigandi öðlast hlutdeild í þeim í sama hlutfalli og hér að framan greinir.
Til tryggingar yfirlýsingu þessari skal þinglýsa henni með 5. veðrétti í húseigninni að X-götu. Heimilt skal þó að á undan þessari kvöð megi hvíla allt að kr. 6,000,000,- – sex milljónum króna–."
Kærunni fylgdi og ljósrit af bréfi C hf., dags. 16. mars 1994, til D, hrl., vegna loka- og fullnaðaruppgjörs vegna fyrrgreinds slyss. Umboðsmaður kæranda tók fram í kærunni að dregist hefði að þinglýsa fyrrgreindu skjali og eitthvert álitamál væri hvort því fengist þinglýst óbreyttu. Engu að síður yrði gengið frá tryggingu fyrrgreindra viðskipta mæðginanna með þeim hætti sem tryggingabréfið stæði til.
Skattstjóri hafnaði kröfum kæranda með kæruúrskurði, dags. 3. október 1995. Í forsendum skattstjóra segir svo:
„Af hálfu skattstjóra er talið að lán þetta verði ekki talið inneign barns eða skuld móður við barn sitt þar sem um er að ræða barn innan 16 ára aldurs sem ekki er skattlagt sérstaklega. Fremur verði litið svo á að um sé að ræða framlag barnsins til íbúðarkaupa móðurinnar og sé því hluti af framtöldu fasteignamatsverði hjá henni. Þessa skoðun styður ákvæði í umræddri yfirlýsingu og tryggingabréfi þar sem segir að til tryggingar skuli við það miðað að verðmæti þessara fjármuna verði aldrei minna en 8,8% (sic) af heildarsöluverði húseignarinnar að X-götu samkv. mati tveggja viðurkenndra fasteignasala.
Með tilliti til þess að hluti barnsins í fasteigninni að X-götu sé þegar talinn fram í fasteignamatsverði hennar í reitum 05 og 07 á skattframtali er talið að rétt hafi verið staðið að framtalsgerð og því ekki forsendur fyrir því að fallast á kröfur kæranda."
Umboðsmaður kæranda hefur með kæru, dags. 25. október 1995, skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar. Samkvæmt munnlegu samkomulagi milli foreldra barnsins, en þau séu skilin, sé gert ráð fyrir að móðirin ein geti ekki talist umráðmaður fjármuna þeirra sem barnið hafi fengið í tjónabætur. Samkomulag sé um að hún fái þá að láni en tryggja verði eignarhald barnsins og að það fái fjárhæðina til ráðstöfunar þegar það hafi aldur til. Líta verði svo á að hér sé um að ræða inneign barns hjá móður og skuld móður við barn. Er þess krafist að skuldir í reit 45 á framtali kæranda verði hækkaðar um 850.000 kr. og sú fjárhæð komi sem inneign í reit 02 á framtalinu. Einnig er gerð krafa um að vaxtabætur verði ákvarðaðar að nýju.
Með bréfi, dags. 24. nóvember 1995, hefur ríkisskattstjóri krafist þess fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
II.
Svo sem fram hefur komið fékk sonur kæranda, B, sem fæddur er … 1987, greiddar slysabætur frá C hf. á árinu 1994. Kærandi kveðst hafa fengið 850.000 kr. af fé þessu að láni vaxtalaust en verðtryggt og að lántaka þessi hafi verið vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Því beri að færa skuldina meðal slíkra lána í reit 45 í skattframtali árið 1995. Jafnframt beri að færa fjárhæðina til eignar í kafla 10.2 í skattframtalinu sem eign barns. Fram kemur að tilgreiningar með þessum hætti hafa þýðingu við ákvörðun vaxtabóta kæranda samkvæmt ákvæðum C-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Sonur kæranda var innan 16 ára aldurs á tekjuárinu 1994 og var því ekki sjálfstæður skattaðili, sbr. 6. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Samkvæmt 1. mgr. 82. gr. nefndra laga teljast eignir barns, sem er innan 16 ára aldurs á tekjuárinu, sbr. 6. gr., með eignum foreldra eða hjá þeim manni sem nýtur barnabóta vegna barnsins.
Skattstjóri virðist hafa byggt niðurstöðu sína um höfnun þess að um skuldasamband geti verið að ræða í þessu tilviki annars vegar á því að lánveitandi sé barn innan 16 ára aldurs, er ekki sé að lögum skattlagt sérstaklega, og hins vegar á því að frekast verði að virða ráðstöfun fjárins sem framlag barnsins til íbúðarkaupa móður.
Vegna forsendna skattstjóra þykir rétt að benda á að samkvæmt lögræðislögum nr. 68/1984, sbr. nú lögræðislög nr. 71/1997, er meðferð á fjármunum ófjárráða manna settar margvíslegar takmarkanir og þarf samþykki yfirlögráðanda til tilgreindra ráðstafana. Hins vegar er ekki loku fyrir það skotið að fé ófjárráða manna verði lánað, en ströng skilyrði eru sett fyrir slíkum ráðstöfunum, sbr. 2. mgr. 38. gr. og 39. gr. lögræðislaga nr. 68/1984 og nú 72. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Samkvæmt þessu liggur fyrir að samkvæmt lögum var unnt að lána fé sonar kæranda, enda væri lagaskilyrðum fyrir slíkum lánveitingum fullnægt.
Kærandi krefst þess að umrætt lán verði fært henni til skuldar í skattframtali árið 1995, þ.e. miðað við 31. desember 1994. Samkvæmt gögnum málsins var bótagreiðsla sú sem í málinu greinir innt af hendi hinn 16. mars 1994. Það skjal, sem kærandi hefur lagt fram og vísar til um hina ætluðu lántöku er hins vegar dagsett 26. febrúar 1995. Ekki hefur komið fram af hálfu kæranda hvorki í kæru til skattstjóra né yfirskattanefndar hvenær umrædd lántaka fór fram, en ætla verður, nema annað liggi fyrir, að lántakan hafi farið fram þegar gengið var frá fyrrgreindu skjali. Þegar litið er til þessa og þess sem ráðið verður af gögnum málsins um fjárráðstafanir kæranda á árinu 1994 vegna íbúðaviðskipta verður að draga þá ályktun, þrátt fyrir tilgreiningu kæranda um lántöku í athugasemdadálki skattframtals árið 1995, að lántakan hafi ekki farið fram á því ári. Að þessu virtu og með tilliti til þess að fram hefur komið af hálfu kæranda að óvíst sé hvort umrætt skjal fáist þinglýst óbreytt, sbr. kæru til skattstjóra, dags. 17. ágúst 1995, sem ekki hefur verið frekar skýrt eða stutt gögnum, verður ekki talinn grundvöllur fyrir hinum umkröfðu færslum í skattframtali árið 1995. Þegar af þessari ástæðu verður að hafna kröfu kæranda.