Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 896/1991
Gjaldár 1988 og 1989
Lög nr. 32/1978 — 97. gr. 4. og 7. mgr. — 106. gr. — 107. gr. Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 8. tl. — 96. gr. 1. og 4. mgr.
Hlutafélag — Hlutabréf — Hlutafé — Lögaðili — Arður — Arður af hlutabréfum — Arðsfrádráttur — Arðsfrádráttur hlutafélags vegna greidds eða úthlutaðs arðs — Arðsúthlutun — Endurmatsreikningur — Endurmatsreikningur, ráðstöfun — Eigið fé — Eigið fé, frjálst — Frjálst eigið fé — Frjálst eigið fé verðbætt — Eigið fé, bundið — Bundið eigið fé — Arðsúthlutun, skilyrði hennar samkvæmt hlutafélagalögum — Eigið fé, óráðstafað — Óráðstafað eigið fé — Endurákvörðun — Endurákvörðun skattstjóra — Endurákvörðunarheimild skattstjóra — Lögskýring
Málavextir eru þeir, að hinn 19. júní 1990 reit skattstjóri kæranda bréf, þar sem hann boðaði endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárin 1988 og 1989 vegna niðurfellingar rekstrartapa frá fyrri árum og gjaldfærslu arðs. Sagði svo í bréfi þessu:
„Á framtölum 1986 – 1989 hafið þér gjaldfært greiddan arð. Á þessum árum var yður hins vegar ekki heimilt að greiða arð þar sem óráðstafað eigið fé var neikvætt. Þér sýnduð að vísu jákvæða stöðu þess í ársreikningum, en sú staða var fengin með endurmati óráðstafaðs eigin fjár. Slíkt endurmat var hins vegar bannað í hlutafélagalögum þar til 1. mars 1990 að gildi tók lagabreyting sem heimilar það. Eftir atvikum þykir ekki rétt að breyta gjöldum 1986 og 1987, en á framtölum 1988 og 1989 er fyrirhugað að fella niður rekstrartöp frá fyrri árum og gjaldfærðan arð. Tekjuskattsstofn 1988 verður þá kr. 1.972.014, en tekjuskattsstofn 1989 verður kr. 6.777.125. Bent er á, að þér gætuð hugsanlega lækkað þessa stofna með færslu aukaafskrifta.“
Í svarbréfi kæranda, dags. 27. ágúst 1990, kom fram, að hlutafélagið hefði greitt arð mörg undanfarin ár. Samkvæmt 8. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981 væri heimilt að draga frá tekjum lögaðila fjárhæð þá, er hlutafélög greiddu eða úthlutuðu í arð þó að hámarki 10% af nafnverði hlutafjár. Óumdeilt væri, að greiðsla arðsins hefði átt sér stað og því teldi hann, að umrædd frádráttarskilyrði 31. gr. væru uppfyllt. Hugleiðingar skattstjóra um, hvort heimilt væri að endurmeta óráðstafað eigið fé væru í eðli sínu málinu óskylt. Á aðalfundi félagsins hefði verið ákveðið að úthluta umræddum arði. Engar líkur væru taldar á því, að hluthöfum yrði gert að endurgreiða þennan arð með hliðsjón af ákvæðum laga um hlutafélög.
Með bréfi, dags. 23. nóvember 1990, tilkynnti skattstjóri kæranda um framkvæmd hinna boðuðu breytinga og endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda gjaldárin 1988 og 1989 í því sambandi. Vísaði skattstjóri til þess, að samkvæmt 4. mgr. 97. gr. laga nr. 32/1978, um hlutafélög, væri óheimilt að nýta endurmatsreikning til arðgreiðslu. Ljóst væri, að kærandi hefði á undanförnum árum greitt arð af endurmatsreikningi með því að millifæra fyrst milli endurmatsreiknings og óráðstafaðs eigin fjár. Arðgreiðslur hefðu því verið óheimilar og því ekki unnt að taka tillit til þeirra við ákvörðun skattstofna.
Af hálfu kæranda voru breytingar skattstjóra kærðar í kæru, dags. 12. desember 1990. Sagði svo í kærunni:
„Í úrskurði yðar bendið þér á að samkvæmt lögum nr. 32/1978 sé óheimilt að nýta endurmatsreikning til arðgreiðslu en það sé óbeint gert með endurmati óráðstafaðs eigin fjár. Við höfum bent á að úthlutun fór fram og því frádráttarbær samkvæmt lögum 75/1981. Hins vegar er ljóst að við gerð laga 32/1978 voru engar verðleiðréttingar í lögum um tekju- og eignarskatt en þau koma fyrst með lögum 40/1978. Það má því segja að talsverður hluti laga 32/1978 yrði úreldur um leið, þar sem reikningsskil fyrirtækja breyttust til samræmis við skattalögin og síðar samkvæmt fráviksaðferð til að auka gæði reikningsskilanna. Meðal dæma um þetta er t.d. reiknaðar tekjur og gjöld vegna áhrifa verðlagsbreytinga og endurmat hagnaðar og eða taps fyrri ára. Þar sem ekki er gert ráð fyrir að endurmatsreikningi sé ráðstafað móti tekjufærslu vegna reiknaðra áhrifa verðlagsbreytinga í lögum 40/1978 má e.t.v. segja að verðbreytingarfærslu hefði ekki átt að færa á endurmatsreikning. Þannig má telja til fleiri atriði sem breyst hafa í takt við breytta tíma og góða reikningsskilavenju. Þessi atriði breyta hins vegar engu um meðferð skattlagningar þar sem fara á með hlutina eins og fram kemur í lögum 75/1981.“
Með kæruúrskurði, dags. 16. janúar 1991, synjaði skattstjóri kröfum kæranda með skírskotun til þess, að ákvæði laga nr. 32/1978, um hlutafélög, væru ótvíræð hvað varðar heimild til arðgreiðslu, sbr. 4. mgr. 97. gr., 106. gr. og 107. gr. laganna. Ekki væri unnt að fallast á það, að ólögmætar greiðslur til hluthafa sköpuðu frádráttarheimild sem arðgreiðslur.
Kæruúrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 4. febrúar 1991. Þess er krafist, að breytingar skattstjóra verði felldar niður með vísan til rökstuðnings í bréfum til hans, dags. 27. ágúst 1990, og 12. desember 1990.
Með bréfi, dags. 7. júní 1991, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið, sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.
Með skírskotun til ótvíræðs ákvæðis 7. mgr. 97. gr. laga nr. 32/1978, um hlutafélög, sbr. 40. gr. laga nr. 69/1989, um breyting á þeim lögum, þykir bera að taka kröfu kæranda til greina.