Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 921/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. — 30. gr. 1. mgr. A-liður 1. tl. — 91. gr. 1. mgr. — 116. gr.   Auglýsing um skattmat ríkisskattstjóra tekjuárið 1988, liður 3.1.0.  

Skattskyldar tekjur — Ökutækjastyrkur — Ökutækjakostnaður — Ökutækjaskýrsla — Akstur í eigin þágu — Akstur milli heimilis og vinnustaðar — Aksturssamningur — Akstursvegalengdir — Ökutækjakostnaður, hámark pr. ekinn km — Sérstakt gjald vegna aksturs í þágu vinnuveitanda — Ökutækjakostnaður, sérstakt gjald — Ökutækjakostnaður, raunkostnaður — Fylgigögn skattframtals — Skattmat ríkisskattstjóra — Matsreglur ríkisskattstjóra — Skattframtal, ófullnægjandi — Framtalsháttur — Rökstuðningur — Rökstuðningur kæru — Rökstuðningi kæru áfátt — Frávísun — Vanreifun — Frávísun vegna vanreifunar

I.

Málavextir eru þeir, að kærandi, sem starfar hjá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli, fékk á árinu 1988 greiddan ökutækjastyrk frá vinnuveitanda sínum 309.727 kr., sem hann tekjufærði í reit 22 í skattframtali sínu árið 1989. Til frádráttar í reit 32 sem kostnað á móti ökutækjastyrknum færði kærandi 274.282 kr. Framtalinu fylgdu tvær greinargerðir um ökutækjastyrk og ökutækjarekstur á árinu 1988 (RSK 3.04). Annars vegar var um að ræða greinargerð vegna reksturs bifreiðarinnar A 1. janúar – 12. mars 1988 og hins vegar greinargerð vegna reksturs bifreiðarinnar B 12. mars – 31. desember 1988. Samtals nam heildarakstur bifreiðanna 34.080 km. Akstur í þágu vinnuveitanda var talinn alls 23.993 km í greinargerðum þessum. Í þeim kílómetrafjölda var meðtalið 70% af akstri milli heimilis og vinnustaðar, en sá akstur nam alls samkvæmt greinargerðunum 10.000 km. Tilgreindur annar akstur í eigin þágu nam alls 7.080 km. Í athugasemdadálki greinargerða kæranda kom fram, að hann teldi sanngjarnt að reikna 30% af akstri milli heimilis og vinnustaðar í eigin þágu, þar sem það samsvaraði þeim akstri, er hann myndi aka, ynni hann í Reykjavík. Kærandi færði þannig 70% aksturs milli heimilis og vinnustaðar með akstri í þágu vinnuveitanda og reiknaði kostnað vegna þess aksturs með kostnaði vegna 17.000 km aksturs í þágu vinnuveitanda. Þá kom fram í greinargerðum kæranda, að kostnaður pr. ekinn km var lægri en hámarksfjárhæð samkvæmt matsreglum ríkisskattstjóra. Allt að einu bætti kærandi við raunverulegan kostnað pr. ekinn km fjárhæð „sérstaks gjalds“ 2,57 kr. pr. km. Eftir kílómetrafjölda aksturs í þágu vinnuveitanda þannig fundnum og kostnaðarfjárhæð pr. ekinn km svo ákvarðaðri reiknaði kærandi fjárhæð frádráttar í reit 32, er nam alls 274.282 kr. samkvæmt þessum útreikningsaðferðum.

II.

Með bréfi, dags. 17. maí 1989, krafði skattstjóri kæranda um upplýsingar og skýringar varðandi umræddan ökutækjastyrk. Gera skyldi grein fyrir akstri í þágu vinnuveitanda, þar á meðal aksturstilefnum, tíðni ferða og vegalengdum á helstu akstursleiðum. Ennfremur skyldi gera skilmerkilega grein fyrir skiptingu aksturs milli vinnuveitanda og í eigin þágu. Þá skyldi upplýst, hvernig ökutækjastyrkur hefði verið ákvarðaður og hvað hann tæki mið af mörgum kílómetrum, þegar frá væri talinn akstur milli heimilis og vinnustaðar. Útreikningur á kílómetrum í akstur milli heimilis og vinnustaðar skyldi gerður, með því að allur slíkur akstur teldist vera í eigin þágu.

Í svarbréfi, dags. 29. maí 1989, gerði kærandi grein fyrir hinum umspurðu atriðum. Sagði svo í bréfi þessu:

„1. a) Akstur í þágu vinnuveitanda.

Að meðaltali fer ég 3 ferðir á dag; 2 stuttar um 7 km hvor og eina lengri um 20 km eða samtals 34 km. Vinnudagar á árinu eru um 230, háð því hve margir laugardagar eru unnir. Þetta eru 230 x 34 = 7820 km. Auk þess eru farnar árlega um 14 ferðir til Grindavíkur um 46 km og 6 ferðir til Hvalfjarðar um 260 km, sem eru 2240 km. Samtals eru þetta 2240 + 7820 = 10060 km á ári beint í þágu vinnuveitanda.

1. b) Skipting aksturs milli vinnuveitanda og í eigin þágu.

Eins og kemur fram á ökutækjaskýrslu er akstur beint í eigin þágu 7000 km. Auk þess er akstur milli vinnustaðar og heimilis 17480 km. Eins og kemur fram á ökutækjaskýrslu þykir sanngjarnt að áætla 30% af þeirri vegalengd í eigin þágu eða 5244 km með tilvísun í grein 1.2.2 í skattmati ríkisskattstjóra vegna bifreiðahlunninda.

2. Ökutækjastyrkurinn er ákvarðaður samkvæmt samningi milli vinnuveitanda og hvers einstaklings eins og kveðið er á um í kjarasamningi. Um frekari upplýsingar vísa ég til Varnarliðsins, sem er vinnuveitandi minn.

3. Útreikningur á akstri milli heimilis og vinnustaðar.

Milli heimilis míns og vinnustaðar eru um 38 km. Þetta þýðir um 38 x 2 x 230 = 17480 km á ári.

Ef lagðar eru saman vegalengdirnar, kemur eftirfarandi: 10060 km beint í þágu vinnuveitanda + 7000 km lágmark beint í eigin þágu + 17480 km í milliferðir = 34540 km. Uppgefinn heildarakstur er 34080 km. Mismuninn má t.d. skýra með örfáum veikindadögum, ofætluðum akstri beint í eigin þágu o.s.frv.“

Með bréfi, dags. 26. júlí 1989, tilkynnti skattstjóri kæranda, að frádráttur í reit 32 í skattframtali hans hefði verið lækkaður í 87.249 kr. þar sem allur akstur milli heimilis og vinnustaðar teldist vera í eigin þágu. Miðað væri við, að ekið hefði verið 50 daga á A og 180 daga á B. Í málsgögnum kemur og fram, að skattstjóri miðaði fjárhæð pr. ekinn km við raunverulegan kostnað, þ.e. án viðbótar „sérstaks gjalds“ sem kærandi hafði tilfært.

Af hálfu kæranda var breytingu skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 29. ágúst 1989, og krafðist hann þess, að hinn umdeildi frádráttarliður yrði byggður á ökutækjaskýrslum.

Með kæruúrskurði, dags. 26. mars 1990, synjaði skattstjóri kröfu kæranda á svofelldum forsendum: „Samkvæmt verklagsreglum ríkisskattstjóra telst allur kostnaður við akstur úr og í vinnu til einkaútgjalda og frádráttur hans því óheimill. Af því leiðir að akstur kæranda sem svarar til leiðar hans milli heimilis og vinnustaðar alla þá daga sem vinnuskyldu er sinnt á Keflavíkurflugvelli telst til einkaútgjalda.“

III.

Með kæru, dags. 25. apríl 1990, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Mótmælir kærandi þeirri ákvörðun skattstjóra, að telja allan kostnað við akstur til og frá vinnu til einkaútgjalda og fer fram á sanngjarna skiptingu milli aksturs í eigin þágu og í þágu vinnuveitanda.

Rökstuðningur kæranda fyrir kæruatriðum er svohljóðandi:

„1. Engin efnisleg breyting hefur orðið á lögunum nr. 75 frá 1981, hvað varðar undanþágu tekjuliða frá skatti, (30. gr. A 1.).

2. Matsreglur ríkisskattstjóra hafa breyst, en ósamræmi er milli þess, hvort launþegi leggur fram eigin bíl til afnota í þágu vinnuveitanda eða vinnuveitandi leggur fram bílinn. Í auglýsingu frá ríkisskattstjóra í Morgunblaðinu 26. jan. 1990 segir: „Launamanni, sem hefur takmörkuð not af bifreið launagreiðanda, skal meta til hlunninda 14 kr. per ekinn km. Þetta á þó ekki við um akstur milli heimilis og vinnustaðar, ef slíkur akstur er honum ekki til hagsbóta“.

3. Undirritaður telur sanngjarnt að skipta akstri milli heimilis og vinnustaðar þannig: Í eigin þágu 30%, en í þágu vinnuveitanda 70%. Í Reykjavík er einna lengst til vinnu innan sama bæjarfélags en oftast ekki meira en 10 – 12 km. Milli heimilis míns og vinnustaðar eru 38 km.

4. Undirritaður telur, að mönnum sé mismunað í núgildandi matsreglum ríkisskattstjóra eftir búsetu, en það er brot á lögum um jafnrétti, þ.e.a.s. brot á stjórnarskránni og alþjóðasamþykktum um mannréttindi, sem Íslendingar eru aðilar að.“

IV.

Með bréfi, dags. 22. janúar 1991, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“

V.

Samkvæmt greinargerðum kæranda um ökutækjastyrk og ökutækjarekstur á árinu 1988 (RSK 3.04), er fylgdu skattframtali hans árið 1989, var tilgreindur akstur í þágu vinnuveitanda án hlutdeildar í akstri milli heimilis og vinnustaðar 16.993 km alls. Gat kærandi þess í athugasemdadálkum, að þessi þáttur akstursins væri 17.000 km. Akstur til og frá vinnu var tilgreindur alls 10.000 km samkvæmt skýrslum kæranda og annar akstur í eigin þágu 7.080 km. Heildarakstur samkvæmt akstursskiptingartölum kæranda nam 34.073 km en 34.080 samkvæmt heildartölum. Í svarbréfi kæranda til skattstjóra, dags. 28. maí 1989, upplýsir kærandi hins vegar, að akstur beint í þágu vinnuveitanda hafi verið 10.060 km og akstur milli heimilis og vinnustaðar 17.480 km. Þá kemur fram í bréfi þessu, að annar akstur í eigin þágu hafi verið 7.000 km en ekki 7.080 km eins og tilgreint var í ökutækjaskýrslum. Samkvæmt þessu telur kærandi þá heildarakstur 34.540 km. Miðað við upplýsingar kæranda í bréfi þessu verður ekki annað séð en hann hafi verulega oftalið akstur í þágu vinnuveitanda í greinargerðum sínum um ökutækjastyrk og ökutækjarekstur burtséð frá tilfærðum hluta aksturs til og frá vinnu, sem kærandi taldi með í þessum akstursþætti og er höfuðágreiningsefnið í máli þessu. Þá færði kærandi kostnað vegna aksturs í þágu vinnuveitanda, tilgreindum með þessum hætti, við raunverði pr. ekinn kílómetra að viðbættu svonefndu „sérstöku gjaldi“, sem var með öllu heimildarlaust. Þessir framtalshættir kæranda leiddu til þess að fjárhæð frádráttar í reit 32 í skattframtali hans árið 1989 var stórlega offærð. Að þessu virtu sem hér hefur verið rakið og málavöxtum að öðru leyti svo og með vísan til þess, að samkvæmt matsreglum ríkisskattstjóra telst allur akstur milli heimilis og vinnustaðar í einkaþágu, þykja engin efni til þess að hagga við þeirri fjárhæð, sem skattstjóri ákvað kæranda til frádráttar í reit 32. Rétt þykir að vísa kæru þessari frá ríkisskattanefnd.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja