Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 922/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 100/1988 — 3. gr.  

Sérstakur eignarskattur — Sérstakur skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði — Verslunarhúsnæði — Fasteign — Fasteignamatsverð — Notkun húsnæðis — Stofn til sérstaks skatts á verslunar- og skrifstofuhúsnæði — Bílapallur — Bílageymsluhús — Verslun

Málavextir eru þeir, að skattstjóri reit kæranda bréf, dags. 26. júlí 1989, þar sem tilkynnt var hækkun á stofni til sérstaks skatts á verslunar- og skrifstofuhúsnæði um 1.206.000 kr. sem var fasteignamat bílapalls, sbr. 3. gr. laga nr. 100/1988.

Í kæru til skattstjóra, dags. 25. ágúst 1989, var breytingu skattstjóra mótmælt, og segir þar m.a.:

„Umræddur bílapallur er sérhannað mannvirki og nýtist ekki við skrifstofu- eða verslunarrekstur fremur en aðrar sérhannaðar bifreiðageymslubyggingar, enda er fasteignin ekki notuð til annars en að geyma bifreiðar. Í bréfi skattstjóra er vísað í 3. gr. laga nr. 100/1988, en þar segir að stofn til sérstaks eignarskatts skuli vera fasteignamatsverð í árslok 1988 á fasteign, sem nýtt er við verslunarrekstur, eða til skrifstofuhalds, ásamt lóð. Í 4. gr. sömu laga segir að við ákvörðun á því hvaða eignir myndi stofn til sérstaks eignarskatts skuli miða við raunverulega notkun fasteignanna í árslok 1988. Samkvæmt þessu er ljóst að umrædd fasteign fellur ekki undir þær skilgreiningar sem gerðar eru í lögum nr. 100/1988 um skattskyldar eignir.

Eins og kunnugt er eru sérstök bílageymsluhús algeng í stórborgum erlendis og eru þau að rísa hér á landi einnig. Slík hús eru yfirleitt rekin með sérstakri gjaldtöku, eins og til dæmis Kolaportið í Reykjavík, og hefur verið hugað að því í [X]. Engum hefur dottið í hug að telja þessi mannvirki skrifstofu- eða verslunarhús.

Því er þess hér með krafist að umrætt mannvirki verði ekki talið sem skrifstofu- og verslunarhúsnæði og álagður sérstakur skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði lækkaður samsvarandi.“

Með úrskurði, uppkveðnum 23. apríl 1990, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda, þar sem litið væri svo á, að bílapallur sá, sem málið snerist um, væri vegna verslunarreksturs kæranda og fasteignamat hans ætti því að mynda stofn til hins kærða skatts.

Umboðsmaður kæranda skaut máli þessu til ríkisskattanefndar með bréfi, dags. 21. maí 1990. Eru þar ítrekuð fyrri mótmæli og rökstuðningur og einnig vísað til rökstuðnings í áðurnefndu bréfi frá 25. ágúst 1989.

Af hálfu ríkisskattstjóra er með bréfi, dags. 31. janúar 1991, gerð sú krafa, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið, sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.

Úrskurð skattstjóra þykir bera að staðfesta með vísan til forsendna hans.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja