Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 923/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. — 30. gr. 1. mgr. A-liður 1. tl. — 116. gr.   Auglýsing um skattmat ríkisskattstjóra tekjuárið 1988, liður 3.1.0.  

Skattskyldar tekjur — Ökutækjastyrkur — Ökutækjakostnaður — Ökutækjaskýrsla — Akstur í eigin þágu — Akstur milli heimilis og vinnustaðar — Rútupeningar — Flutningspeningar — Launatekjur — Aksturssamningur — Kílómetragjald — Akstursvegalengdir — Matsreglur ríkisskattstjóra — Skattmat ríkisskattstjóra

I.

Málavextir eru þeir, að í reit 22 í skattframtali sínu árið 1989 færði kærandi 216.408 kr. sem ökutækjastyrk frá vinnuveitanda sínum, Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli. Sömu fjárhæð færði kærandi til frádráttar sem kostnað á móti ökutækjastyrknum í reit 32 í framtalinu. Samkvæmt skýrslu kæranda um ökutækjastyrk og ökutækjarekstur (RSK 3.04), er fylgdi skattframtali hans árið 1989 nam heildarakstur 30.000 km. Þar af færði kærandi 23.000 km sem akstur í þágu vinnuveitanda og 7.000 km sem annan akstur í eigin þágu en akstur til og frá vinnu, en enginn slíkur akstur var sérstaklega tilgreindur. Kostnaður vegna fyrrgreinds aksturs í þágu vinnuveitanda nam 227.240 kr.

II.

Með bréfi, dags. 17. maí 1989, krafði skattstjóri kæranda um upplýsingar og skýringar varðandi umræddan ökutækjastyrk. Gera skyldi grein fyrir akstri í þágu vinnuveitanda, þar á meðal aksturstilefnum, tíðni ferða og vegalengdum á helstu akstursleiðum. Ennfremur skyldi gera skilmerkilega grein fyrir skiptingu aksturs milli vinnuveitanda og í eigin þágu. Þá skyldi upplýst, hvernig ökutækjastyrkur hefði verið ákvarðaður og hvað hann tæki mið af mörgum kílómetrum, þegar frá væri talinn akstur milli heimilis og vinnustaðar. Útreikningur á kílómetrum í akstur milli heimilis og vinnustaðar skyldi gerður með því að allur slíkur akstur teldist vera í eigin þágu. Jafnframt tók skattstjóri fram, að rútupeningar ættu að færast með launum í kafla 7.1 í skattframtali en ekki með ökutækjastyrk í kafla 7.2, sbr. leiðbeiningar ríkisskattstjóra um útfyllingu skattframtals.

Í svarbréfi kæranda, dags. 28. maí 1989, kom fram, að ökutækjastyrkur væri greiddur vegna afnota vinnuveitanda af einkabifreið hans. Kvaðst kærandi sjá um viðhald á fjarskiptabúnaði og öðrum rafeindabúnaði Varnarliðsins, en búnaður þessi væri víðs vegar innan vallarsvæðis og utan. Ekki væri færð akstursbók, þar sem fram kæmu aksturserindi og vegalengdir. Vísaði kærandi til og lagði fram samning sinn við Varnarliðið, dags. 25. mars 1984, er varðaði notkun einkabifreiðar kæranda í þágu starfsins, sem og varðaði akstur til og frá vinnu. Samkvæmt samningnum væri ákvörðun ökutækjastyrks tvíþætt. Annars vegar miðað við meðaltalskeyrslu í þágu Varnarliðsins í samræmi við akstursgjald í aksturssamningum ríkisins. Tæki slík greiðsla mið af 8.065 km á ári þegar frá væri talinn akstur milli heimilis og vinnustaðar. Hins vegar væri greitt flutningsálag samkvæmt mætingu og viðmiðun þess væri gjaldskrá Sérleyfisbifreiða Keflavíkur. Hélt kærandi því fram, að samkvæmt samningnum fengi hann hluta ökutækjastyrks greiddan sem flutningsálag, og væri sú greiðsla því réttilega talin fram sem ökutækjastyrkur. Í þessu sambandi benti kærandi á, að áætlanir sérleyfisbifreiða stönguðust á við ríkjandi vinnutímafyrirkomulag hjá Varnarliðinu. Þá gat kærandi þess, að samtals hefðu verið eknir 30.000 km. Akstur í eigin þágu hefði verið áætlaður 7.000 km, þ.e. lágmarksviðmiðun ríkisskattstjóra. Kvaðst kærandi hafa mætt til vinnu 167 daga á árinu 1988. Vegalengd milli heimilis og vinnustaðar væri 45 km og akstur samtals til og frá vinnu því 15.030 km. Hélt kærandi því fram að þennan akstur bæri að telja í þágu vinnuveitanda eins og atvikum væri háttað. Með bréfi, dags. 26. júlí 1989, tilkynnti skattstjóri kæranda, að rútupeningar 50.900 kr. hefðu verið fluttir í reit 21 og fjárhæð ökutækjastyrks lækkuð að sama skapi í 165.508 kr. Þá hefði frádráttur í reit 32 verið lækkaður í 78.744 kr. með því að allur akstur milli heimilis og vinnustaðar teldist vera í eigin þágu.

III.

Af hálfu kæranda var breytingu skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 27. ágúst 1989, og færði hann fram sömu röksemdir og skýringar, er fram komu í svarbréfi hans, dags. 28. maí 1989.

Með kæruúrskurði, dags. 26. mars 1990, synjaði skattstjóri kröfu kæranda. Segir svo í úrskurði skattstjóra:

„Í bréfi kæranda dags. 28. maí sl. kemur fram að hann mætir til vinnu 167 daga á árinu 1988 og vegalengd milli heimilis og vinnustaðar sé um 45 km. Í öðru bréfi dags. 30. maí sl. segist kærandi mæta til vinnu 157 daga á sama ári. Samkvæmt verklagsreglum ríkisskattstjóra telst allur kostnaður við akstur í og úr vinnu til einkaútgjalda og frádráttur hans því óheimill. Af því leiðir að akstur kæranda sem svarar til leiðar hans milli heimilis og vinnustaðar alla þá daga sem vinnuskyldu er sinnt á Keflavíkurflugvelli telst til einkaútgjalda miðað við vegalengd milli heimilis og vinnustaðar er akstur til og frá vinnu 15.030 km. Akstur í þágu launagreiðanda er þar af leiðandi 7.970 km er gerir 78.744 kr. í kostnað á móti ökutækjastyrk.“

IV.

Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 24. apríl 1990. Ítrekar kærandi þær kröfur, er hann gerði við meðferð málsins á skattstjórastigi, og vísar til áður framkominna röksemda.

V.

Með bréfi, dags. 8. janúar 1991, hefur ríkisskattstjóri krafist þess í málinu, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

VI.

Úrskurð skattstjóra þykir bera að staðfesta með vísan til forsendna hans bæði að því er varðar meðferð rútupeninga og fjárhæð frádráttar í reit 32, enda telst allur akstur til og frá vinnu vera í eigin þágu samkvæmt matsreglum ríkisskattstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja