Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 926/1991
Gjaldár 1990
Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 2. tl. — 28. gr. 2. tl. Lög nr. 28/1991 — II. kafli — 22. gr.
Skattskyldar tekjur — Skattfrjálsar tekjur — Skaðabætur — Miskabætur — Miski — Fjártjón — Skattfrelsi — Eignaauki — Skattfrjáls eignaauki — Eignaauki, skattfrjáls — Skattskyldur eignaauki — Eignaauki, skattskyldur — Atvinnumissir — Stöðumissir — Bætur vegna atvinnumissis — Bætur vegna stöðumissis — Jafnréttismál — Réttarsátt — Skaðabótaskylda — Greiðsla ex equo et bono — Sönnun — Lögskýring
I.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru málavextir þeir, að kærandi taldi fram til skatts í framtalsfresti fyrir álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1990. Í athugasemdadálki skattframtals síns gat kærandi þess, að hún hefði fengið „Skaðabætur samkvæmt dómsátt í jafnréttismáli 450.000 kr.“. Eigi færði hún fjárhæð þessa í tekjuhlið framtalsins. Með bréfi, dags. 20. júlí 1990, tilkynnti skattstjóri kæranda, að hann hefði gert þá leiðréttingu á framtalinu að færa fjárhæðina til skattskyldra tekna, sbr. 2. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, enda nyti hún ekki undanþágu 28. gr. sömu laga frá skattskyldu. Þannig breytt lagði skattstjóri framtalið til grundvallar álagningu gjalda á kæranda. Umboðsmaður kæranda kærði álagninguna til skattstjóra með kæru, dags. 15. ágúst 1990. Krafðist hann þess, að álagning gjalda á nefndar bætur yrði felld niður. Gerði hann svofellda grein fyrir þeirri kröfu:
„Málavextir eru þeir, að umbj. m. starfaði sem settur sparisjóðsstjóri hjá Sparisjóði X 1988 eftir fráfall fyrrverandi sparisjóðsstjóra og hafði áður starfað sem skrifstofustjóri hjá sama og staðgengill sparisjóðsstjóra.
Þrátt fyrir langa starfsreynslu umbj. m. ákvað sparisjóðurinn að ganga fram hjá umbj. m. og ráða nýjan sparisjóðsstjóra og hafna þar með umbj. m. Umbj. m. sagði upp störfum og höfðaði mál á hendur sparisjóðnum í samráði við Jafnréttisráð Íslands, þar sem krafist var skaðabóta og miskabóta. Í stuttu máli varð niðurstaða dómsmáls þessa svokölluð dómsátt, þar sem sparisjóður X lofaði að greiða umbj. m. kr. 450.000,- í bætur.
Umbj. m. telur bætur þessar ekki tekjuskattsskyldar, sbr. 2. tl. stafliðs A 7. gr. l. nr. 75/1981. Bætur þessar eru í eðli sínu miskabætur en þær eru undanskyldar skattlagningu, sbr. sömu heimild. Bætur þessar eru fyrst og fremst bætur vegna röskunar á stöðu og högum umbj. m., fremur en skaðabætur sem miðaðar eru við einhver áþreifanleg gildi. Bæturnar hafa ekki tilvísun til eins eða neins eins og miskabætur eru yfirleitt ákveðnar. Skaðabætur eru hins vegar fjárhæð sem reiknuð er út sem raunverulegt tjón miðað við ákveðnar forsendur.“
Með kærunni fylgdi afrit af sátt, sem aðilar að dómsmálinu gerðu á bæjarþingi Y þann 24. nóvember 1989.
Með úrskurði, dags. 18. desember 1990, féllst skattstjóri ekki á ofangreinda kröfu kæranda. Voru forsendur hans þær, að samkvæmt efnisinnihaldi dómsáttarinnar yrði ekki fallist á það með kæranda, að með henni hafi kæranda „verið ákveðnar skaðabætur eða miskabætur í lagalegum skilningi. Skipti í því sambandi máli, að í formála sáttarinnar væri tekið fram, að hún sé í engu tilliti byggð á lagasjónarmiðum og með henni hefði stjórn sparisjóðsins ekki viðurkennt skaðabótaskyldu. Þá væri tekið fram að fjárhæðin hefði verið ákveðin með nokkurri hliðsjón af sanngirni og starfsferli kæranda og uppsagnarfresti í starfi.“ Vék skattstjóri að því, að svo virtist sem fjárhæðin hefði fyrst og fremst verið „greidd sem uppsagnarlaun og e.t.v. að einhverju marki sem launauppbót við starfslok“.
II.
Umboðsmaður kæranda hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 17. janúar 1991. Ítrekar hann þá kröfu, sem höfð var uppi á skattstjórastigi, með sama rökstuðningi og það áréttað, að fyrst og fremst hefði verið um miskabætur að ræða vegna röskunar á stöðu og högum. Bent er á, að umrædd sátt hafi verið samin af viðkomandi dómurum. „Undirrituðum lögmanni er kunnugt um það, að dómararnir hugsuðu sáttina sem miskabætur, eins og umbjóðandi minn hefur alltaf haldið fram. Vegna þessa ágreinings hefur undirritaður tekið til þess óvenjulega ráðs að rita dómendum bréf og biðja þá um að upplýsa umbjóðanda minn og ríkisskattanefnd formlega um það hvernig sátt þessi var hugsuð.“
Með bréfi, dags. 9. apríl 1991, hefur umboðsmaður kæranda lagt fram í málinu svohljóðandi túlkun dómaranna á sáttinni, sem birt er í bréfi þeirra, dags. 5. mars 1991:
„Í umræddri sátt segir m.a.: „Sáttin er í engu tilliti byggð á lagasjónarmiðum, en er til þess að binda farsælan endi á málaferlin.“ Þá segir síðar í sáttinni. „Fjárhæðin er ákveðin með nokkurri hliðsjón af sanngirni, starfsferli A hjá Sparisjóði X og uppsagnarfresti í starfi.“
Við ákvörðun fjárhæðarinnar, sem Sparisjóðurinn greiddi A samkvæmt sáttinni, voru ekki hafðar í huga bætur fyrir tjón, sem hún kynni að hafa orðið fyrir, heldur voru bæturnar metnar eftir sanngirni, sbr. ofangreindar tilvitnanir í sáttina. Því má segja, að þrátt fyrir að sáttin væri í engu tilliti byggð á lagasjónarmiðum, þá líkist bætur þær, er A fékk, miskabótum.“
Loks gerir umboðsmaður kæranda svofellda athugasemd við þá forsendu skattstjóra í úrskurðinum, að sáttin „hafi verið uppsagnarlaun og að einhverju marki launauppbót. Þessi niðurstaða skattstjóra er alfarið röng. Umbjóðandi minn fékk greidd uppsagnarlaun skv. kjarasamningi á sínum tíma þegar hún hætti hjá Sparisjóði X, að hluta til án vinnuskyldu. Alls ekki er hér um að ræða launauppbót. Niðurstaðan er mjög einfaldlega sú, að umbjóðandi minn varð fyrir áfalli og mikilli röskun á stöðu sinni þegar gengið var fram hjá henni við ráðningu í stöðu sparisjóðsstjóra Sparisjóðs X og í staðinn ráðinn maður sem aldrei hafði komið nálægt bankastörfum. Umbjóðandi minn treysti sér ekki eftir höfnun þessa að vinna lengur hjá Sparisjóðnum, eftir það sem á undan hafði gengið og hætti störfum. Sambærilega vinnu og laun fékk hún ekki og reyndar fékk hún aðeins hálfsdags vinnu. Út á allt þetta gekk sáttin, þ.e. miskabætur að fjárhæð kr. 450.000.“
III.
Með bréfi, dags. 7. júní 1991, gerir ríkisskattstjóri svofellda kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:
„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans enda verður ekki séð að um miskabætur sé að ræða, sbr. orðalag 4. tl. dómsáttarinnar þar sem fram kemur að Sparisjóður X „viðurkennir ekki skaðabótaskyldu“. Í 3. tl. umræddrar dómsáttar kemur fram með hvaða hætti fjárhæðin er ákveðin „...með nokkurri hliðsjón af sanngirni, starfsferli A hjá Sparisjóðnum og uppsagnarfresti í starfi.“
Yfirlýsing dómenda, dags. 5. mars 1991, um að umræddar bætur „líkist“ miskabótum þykir ekki fá breytt þeirri túlkun að um sé að ræða skattskyldar tekjur skv. 2. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981. 28. gr. fyrrgreindra laga fjallar um undanþágur á því hvað teljist til tekna. Slíkar undanþágur frá meginreglum skattalaga ber að túlka þröngt og hefði þurft að koma skýrt fram í umræddri sátt hvers eðlis bæturnar hafa verið og hvernig þær voru ákvarðaðar.“
IV.
Kærandi þykir eigi hafa sýnt fram á, að umrædd greiðsla sé undanþegin skattskyldu að öllu eða einhverju leyti. Er því kröfu kæranda synjað.