Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 933/1991
Gjaldár 1989
Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 1. tl. — 95. gr. 1. mgr. 3. ml. — 96. gr. 1. og 3. mgr.
Rekstrarkostnaður — Slysatrygging — Slysatryggingariðgjald — Slysatrygging atvinnurekandans sjálfs — Kostnaður vegna atvinnurekandans sjálfs — Persónulegur kostnaður — Fæðiskostnaður — Kaffikostnaður — Fæði atvinnurekandans sjálfs — Vátryggingakostnaður — Tryggingasjóður rafvirkja — Greiðsla í Tryggingasjóð rafvirkja — Orlofssjóður — Orlofssjóðsgreiðsla — Eigin atvinnurekstur — Frádráttarheimild — Breytingarheimild skattstjóra — Fyrirspurnarskylda skattstjóra — Andmælareglan — Rannsóknarregla — Rafverktakastarfsemi — Iðnaður — Löggilt iðngrein
I.
Kæruefni máls þessa er niðurfelling þriggja gjaldaliða á rekstrarreikningi kæranda fyrir árið 1988 vegna rafverktakastarfsemi svo sem hér segir:
1. Iðgjald af slysatryggingu. Gjaldfært iðgjald 41.579 kr. af eigin slysatryggingu kæranda felldi skattstjóri niður á þeim forsendum, að ekki væri um að ræða gjöld til öflunar tekna í atvinnurekstri samkvæmt 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Af hálfu kæranda er þess krafist, að umræddur gjaldaliður verði leyfður til frádráttar á rekstrarreikningi og getur hann þess, að umrædd trygging hafi eingöngu verið tekin vegna rafverktakastarfanna, sbr. kæru til ríkisskattanefndar, dags. 2. maí 1990.
2. Greiðsla í orlofs- og tryggingasjóð. Kærandi gjaldfærði á rekstrarreikningi greiðslu 25.155 kr. í orlofs- og tryggingasjóð. Skattstjóri felldi þennan gjaldalið niður með öllu sem ófrádráttarbæran samkvæmt 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 2. maí 1990, krefst kærandi þess, að gjaldaliður þessi verði tekinn til greina. Hann gerir svofellda grein fyrir greiðslu í tryggingasjóð: „Greiðsla í tryggingasjóð rafvirkja er þannig til komin að rafvirkjar taka sameiginlega tryggingu gagnvart Rafveitunni, sem er í þá átt að tryggt er fyrir því ef viðkomandi rafvirki veldur skaða eða hann getur ekki lokið verkum. Þessi trygging er forsenda starfsleyfis á svæðinu.“
3. Kaffikostnaður. Skattstjóri felldi niður gjaldfærðan kaffikostnað 8.321 kr. á rekstrarreikningi kæranda, enda félli kostnaður þessi ekki undir 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Kærandi krefst þess, að gjaldaliður þessi verði tekinn til greina og getur þess að kostnaðurinn sé vegna hans sjálfs vegna starfa fjarri heimili og undirverktaka.
II.
Með bréfi, dags. 21. desember 1990, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
III.
Um 1. tl. Fallist er á kröfu kæranda varðandi þennan lið kærunnar.
Um 2. tl. Fjárhæð sú, sem skattstjóri felldi niður, virðist annars vegar hafa verið greiðsla í orlofssjóð vegna kæranda sjálfs og hins vegar greiðsla í tryggingasjóð rafvirkja. Sundurliðun liggur ekki fyrir en kærandi hefur gert grein fyrir því hvers eðlis greiðslan sé. Skattstjóri felldi gjaldalið þennan niður í heild sinni og fór eftir 3. ml. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981 við framkvæmd þeirrar breytingar. Eins og málum var háttað hefði réttara verið að fara með breytingar á liðum þessum eftir 1. og 3. mgr. 96. gr. sömu laga og krefja kæranda skýringa, þar á meðal sundurliðunar, áður en breytt var. Þar sem þessa var ekki gætt af hendi skattstjóra er breytingu hans hnekkt varðandi þennan kærulið.
Um 3. tl. Kærandi þykir ekki hafa sýnt fram á, að umræddur gjaldaliður sé frádráttarbær samkvæmt 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981. Er kröfu hans synjað varðandi þetta kæruefni.